Lýðræðisumbætur
9.4.2009 | 22:51
Við Framsóknarmenn höfum barist fyrir umbótum á stjórnarskránni í langan tíma. Að koma ákvæði um þjóðareign á auðlindum, skerpa á aðskilnaði löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Ráherrar gegni ekki þingmennsku og heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu séu auknar, til að nefna nokkra þætti.
En á Alþingi eru alltaf einhverjir sem eru í pólitískum leik og vilja ekki að lýðræðið þýði, að valdið sé fært beint til almennings.
Birti hér á eftir grein sem birtist fyrst í Sunnlenska fréttablaðinu í gær.
Lýðræði - fyrir okkur öll
Í janúar síðastliðnum þegar þjóðfélagið var á suðupunkti hélt Framsóknarflokkurinn sitt flokksþing. Þar var kosin ný forysta. Þar var gert upp við liðna tíma, þar var stefnan sett á nýja tíma með gömlum gildum. Gildum sem gleymdust í Hrunadansi hins svokallaða ,,íslenska efnahagsundurs". Dansi sem reyndist vera lokadans frjálshyggjunnar. Lokadans þess tíma að lokaðir hópar útvaldra færu með allt vald. Bæði í heimi viðskipta og stjórnmála.
Nýir tímar - stjórnlagaþing
Það var í janúar að Framsóknarflokkurinn bauð þjóðinni til nýrra tíma þar sem þjóðin fengi að tala og stjórnmálamenn að hlusta. Það var Framsókn sem lagði til að efnt yrði til stjórnlagaþings þar sem þjóðin kysi beint fulltrúa sína til að semja nýja stjórnarskrá. Nýja lýðræðislega og nútímalega stjórnarskrá sem lögð yrði fyrir dóm þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu.
Vilja ekki missa valdið
Sjálfstæðismenn hafa valið sér þá sérkennilegu stöðu að berjast gegn þjóðinni. Halda uppi málþófi gegn því að þjóðin sjálf fái að velja fulltrúa og kjósa um stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Rök þeirra eru kostnaður! Það er sérkennilegt að heyra þá nefna tölu uppá 2 milljarða (sem er í reynd ca. 250 miljónir ef farin er leið Framsóknar) - sömu mennina sem ekki þurftu langan tíma til umhugsunar eða umræðu í október síðastliðnum þegar ákveðið var af þáverandi ríkisstjórn að setja allt að 25 milljarða í sjóð 9 hjá Glitni og yfir 200 milljarða í peningamarkaðssjóðina! Ef farin verður leið Framsóknarmanna verður kosið samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum til stjórnlagaþingsins. - ein málþófs rökin voru, að sú leið væri ekki nógu góð - fólkið myndi rugla saman kosningum til stjórnlagaþings og sveitarstjórna!
Lýðræði kostar
Við Framsóknarmenn treystum fólkinu í landinu. Lýðræði kostar, samkvæmt áðurnefndri tillögu okkar Framsóknarmanna kostar stjórnlagaþingið u.þ.b. 800 kr. á íbúa eða 250 milljónir. Hvaða íbúi heimsins, sem býr við misrétti, kúgun, ójafnræði væri ekki til að greiða 800 kr.- fyrir lýðræðið.
Það var líka Framsóknarflokkurinn sem leysti stjórnarkreppu hinnar aðgerðalausu ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Framsókn bauðst til að verja hlutleysi, minnihlutastjórn sem ætti að taka á bráðavanda heimila og fyrirtækja. - Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-Grænna sem hefur því miður ekki valdið því hlutverki.
Enn hefur engri skjaldborg verið slegið upp kringum heimilin hvað þá fyrirtækin. Þrátt fyrir mikinn fagurgala talsmanna flokkanna. Enn eykst atvinnuleysið og gjaldþrotum snarfjölgar.
Hugmyndir að lausnum
Það er því þörf á skjótum lausnum. Það er veruleg þörf fyrir Framsókn - fyrir okkur öll.
Framsóknarflokkurinn leysti upp stjórnleysi Sjálfstæðismanna og Samfylkingar. Við komum á stöðugleika í þjóðfélaginu með stuðningi við minnihlutastjórnina sem því miður hefur ekki nýtt tækifærið til að verja heimilin og fyrirtækin. Kosningarnar 25 apríl eru til komnar vegna okkar kröfu. Stjórnlagaþingið þar sem þjóðin fær valdið til að semja nýja stjórnarskrá án afskipta flokksræðisins er í boði Framsóknarmanna - fyrir okkur öll.
Sigurður Ingi Jóhannsson skipar 1. sætið á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.
Smáskammtalækningar
8.4.2009 | 11:39
Hvenær verður tímabært að mati seðlabankastjóra að grípa til raunverulegra aðgerða? Aðgerða sem gera heimilum og fyrirtækjum gagn.
Er verið að vinna í að gefa Lífeyrisjóðum heimild til að eiga gjaldeyrisviðskipti? Er verið að semja við erlenda eigendur krónubréfa-jöklabréfa? Er unnið að því að setja á fót uppboðsmarkað með krónur? Þar gætu Lífeyrissjóðirnir flutt heim fjármuni á hagkvæman hátt. Fjármuni sem nýtast gætu í uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi. - þetta eru nokkrar að efnahagstillögum Framsóknar sem voru kynntar minnihlutaríkistjórn Samfylkingar og Vinstri-Grænna í febrúar!! Nú eru liðnar 6 vikur og enn gerist lítið.
Við þurfum róttækar aðgerðir strax. - sjá nánar www.framsokn.is
Ekki tímabært að draga úr höftum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.4.2009 kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Okurvextir
8.4.2009 | 11:12
Enn eru aðgerðir minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna og Seðlabankastjórans þeirra alltof litlar - koma of seint - gera of lítið gagn.
Stutt raunveruleika saga. - Vinur minn einn sem rekur fyrirtæki með árstíðabundnar tekjur. Tekjur sem að stóru leiti koma inn apríl til september. Nú um stundir þarf hann og fyrirtæki hans á bankafyrirgreiðslu að halda - yfirdrætti - til m.a að borga starfsfólki sínu laun. Bankinn sagði nei - þú getur ekki greitt svona háa vexti af yfirdrættinum. Á afleiðingin að verða sú að fyrirtækið lokar? Atvinnuleysið vaxi? Vandræði allra að greiða af húsum sínum og reka heimilið.
Við þurfum róttækar aðgerðir strax. Almennar aðgerðir sem á jafnræðishátt setja skuldara við hlið fjármagnseigenda hjá ríkisvaldinu. - Sjá www.framsokn.is um efnahagsaðgerðir Framsóknar í 18 liðum og myndband um 20% leiðréttinguna.
Svona háir vextir óþarfir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.4.2009 kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Réttlát lausn
5.4.2009 | 23:11
Eftir að hafa hlustað á þáttinn á Sprengisandi í morgun, þar sem talsmaður Samfylkingar opinberaði vanþekkingu sína á efnahagsástandinu á Íslandi í dag. Og til að bæta gráu ofaná svart var með dylgjur og róg til að fela rökleysi sitt varð ég verulega hugsi yfir þeirri ógn sem því gæti fylgt að núverandi minnihluta ríkisstjórn fái hreinan meirihluta eftir kosningar.
Aðgerðarleysi hinnar ,,vanhæfu ríkisstjórnar" Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks má ekki fylgja eftir með andvararleysi, vanþekkingu og afneitun Samfylkingar og Vinstri-Grænna á stöðu heimila og fyrirtækja.
Greiðsluaðlögun fyrir 100-200 manns á ári er lausn núverandi minnihlutastjórnar. Hvernig á þessi aðgerð að leysa bráðavanda heimila þegar aðeins hjá Íbúðalánasjóði sækja um fjögur hundruð á mánuði (gæti orðið 5000 á árinu) hvað þá þeir sem eru með húsnæðisskuldir sínar hjá bönkunum? Það er öllum að verða ljóst að aðeins með róttækum almennum aðgerðum verður hægt að forðast kerfishrun.
Efnahagstillögur Framsóknar eru leið til réttlátrar lausnar - fyrir okkur öll.
Yfir 1000 hafa sótt um greiðsluaðlögun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Menntun og menning
5.4.2009 | 14:52
Var á föstudaginn á skólanefndarfundi Menntaskólans að Laugarvatni. Þar fórum við í skólanefndinni m.a. yfir skýrslur um sjálfsmat skólans, stefnumótun en einnig var kynning á samanburðar rannsókn um líðan nemenda í framhaldsskólum. Þar kom m.a fram hvað Menntaskólinn að Laugarvatni er sterkur í félagslífi og þar með þroskar félagsfærni nemenda. Mjög stór hluti nemanda skólans tekur virkan þátt í félags- og menningarlífi nemendafélagsins. En einnig var íþróttaiðkun, hreyfing nemanda í viku hverri áberandi meiri en meðaltalsnemenda á landsvísu.
Af skólanefndarfundi var brennt á Flúðir á árshátíð Flúðaskóla, yngsta- og miðstigs, sem að þessu sinni bar yfirskriftina ,,Draugar og forynjur" . Það var bráðskemmtileg hátíð þar sem nemendur fóru á kostum í leik, uppsetningu, tæknimálum og dagskrá allri. Það hefur verið gaman að sjá hve metnaðarfull vinna hefur verið lögð í árshátíð Flúðaskóla síðustu ár. Dagskrá sem nemendur koma að á öllum stigum máls. Stjórnendur skólans, starfsmenn og nemendur eiga mikið hrós skilið fyrir þennan menningarviðburð. Dagskrá sem þessi þroskar nemendur á svo mörgum sviðum og eflir félagsfærni þeirra.
Já það er fleira menntun en að lesa, skrifa og reikna.
Hver er ,,besta" 1. aprílfréttin?
1.4.2009 | 13:33
Síðustu mánuði hafa hrunið yfir okkur fréttir sem eru ósennilegri en nokkrar af helstu aprílgöbbum sem við munum eftir. Og enn halda þær áfram.
Greiðsluaðlögun fyrir 100-200 manns. Fjármunir velferðarvaktar 30 milljónir eru dæmi um lausnir Samfylkingar. Skattahækkanir út úr kreppunni í boði Steingríms og V-G. Tug milljarðalán til helstu eigenda gömlu bankanna og bankaráðsmanna!! Vildarkjör til sumra (Saga Capital -VBS).
Bara að þetta væru allt saman aprílgöbb.
Má ég þá heldur biðja um fréttir af Vanadísinni sigla upp Ölfusá. Og að gabba saklausa borgara til að sjá ísbirni, kaupa ,,gallaða" bíla eða tollað áfengi :-)
Við þurfum að eiga von. Við þurfum að takast á við framtíðina af hugrekki. Við þurfum að sjá til lands. Þá getum við farið að vinna okkur út úr kreppunni. Heildartillögu pakki Framsóknar í efnahagsmálum með 20% leiðréttinguna er ein leið til þess.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Biðraðir á líknardeild gjaldþrota
31.3.2009 | 08:26
Fjöldinn sem þarf greiðsluaðlögun vanmetinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Landsfundarhelgin mikla
30.3.2009 | 12:44
Áhugaverð helgi er að baki. Hjá okkur frambjóðendum Framsóknar fólst hún í undirbúningi fyrir kosningabaráttuna. Við komum saman á afar öflugri og áhugaverðri ráðstefnu á Háskólatorgi HÍ á laugardeginum. Í gær var svo haldið áfram kynningum og fræðslu bæði í Reykjavík en einnig komum við í Suðurkjördæmi saman á Eyrarveginum á Selfossi til samveru, samtala og myndatöku. - Nú er ekkert að vanbúnaði að henda sér út í kosningabaráttuna.
Landsfundir Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks voru líka þessa helgina og fylgdist maður einnig með því. Tvennt stendur uppúr á báðum stöðum.
Hjá Sjálfstæðisflokki var erfitt að sjá hvort þeir sýna raunverulega iðrun, löngun til að gera upp við mistök fortíðar hvort sem er í stefnu eða hjá fólkinu. Eða hvort þeir hylla fortíð sína, stefnu og foringja. Endurreisnarskýrslan er ekki trúverðug eftir ræðu Davíðs og undirtektir landsfundar. Einnig fannst mér sérstakt að fráfarandi formaður sem þjóðin ÖLL hefur beðið eftir að bæðist afsökunar á hruninu bað sjálfstæðismenn afsökunar EKKI þjóðina.
Samfylkingin leggur til að við göngum í ESB og öllum okkar vandræðum er lokið!!! Kannski á sú trú þeirra ekki að vekja eftirtekt en áherslan á inngöngu hvað sem það kostar gerir það áneitanlega. Ekki síst í ljósi þess að hitt atriðið sem vakti athygli mína var að það stóð ekkert um það hvernig Samfylkingin ætlar að slá skjaldborg um heimilin, engar aðgerðir aðrar en greiðsluaðlögun fyrir þá sem komnir eru með húsnæði fjölskyldunnar á líknardeild.
Atvinnuleysi vex enn - yfir 10% - yfir 18 000 manns!!. Fimmtíu prósent heimila og fyrirtækja eru talin vera með neikvætt eigið fé - í þessu vaxtaokri og minnkandi neyslu bíður þeirra ekkert nema gjaldþrot.
Núverandi stjórnarflokkur, Samfylking sem einnig sat í svokallaðri Þingvallastjórn/Baugsstjórn, með Sjálfstæðisflokki, ætlar ekkert að leggja til annað en inngöngu í ESB og greiðsluaðlögun þeirra sem eru við það að gefast upp.
Niðurstaða helgarinnar er augljóslega sú að leiðsögn Framsóknar er nauðsyn. Framsóknarflokkurinn með sínar 18 liða tillögur til lausnar á vanda þjóðarinnar, heimila og fyrirtækja er eina heildarstefnan sem sett hefur verið fram af stjórnmálaflokkunum fyrir þessar kosningar. Lækkum vexti, styrkjum gengið og komum atvinnulífinu í gang á nýjan leik. - Fyrir okkur öll.
Farfuglarnir...
22.3.2009 | 19:37
Enski boltinn og pólitík
21.3.2009 | 20:09
Náði að horfa smá stund á leik minna manna, Arsenal þar sem við unnum sannfærandi sigur á Newcastle. Ég varð feikna ánægður með það. Á mínu heimili kættust sumir mjög mikið yfir tapi ManU þar sem þar eru á ferð Poolarar á meðan ManU liðar heimilisins syrgðu. Það er gott að halda með sínu liði bæði þegar vel gengur og eins og ekki síður þegar liðið klúðrar öllu og etv fellur . Það hefur reyndar Arsenal aldrei gert, eitt liða í ensku efstu :-)
Það er hinsvegar ekki gott að halda með stjórnmálaflokkum eins og fótboltaklúbbum. Það er beinlínis hættulegt lýðræðinu. Þegar flokkar klúðra eiga kjósendur að snúa baki við þeim og þannig láta flokka endurnýja sig - finna aftur sín gömlu og góðu gildi. Endurnýja stefnu sem hæfir hverjum tíma og endurnýja fólk í forystu. Það höfum við framsóknarmenn gert rækilega eftir að almenningur- grasrótin varð ósátt við þáverandi stefnu flokks og forystu.
Ég trúi ekki öðru en fólk sem hefur ,,haldið" með Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu á undanförnum árum hugsi sig nú um. Pólitík er ekki fótboltaleikur.
Eðlilegt í ljósi máls
19.3.2009 | 22:48
Spurning er hvort ummæli forsvarsmanna BÍ hafi verið þess eðlis að ástæða hafi verið að ætla að samtökin hefðu brotið gegn samkeppnislögum?
Það er líka álitamál hvort tíma Samkeppniseftirlitsins er best varið í þetta mál eða hefði verið nærri lagi að skoða betur samkeppni á smávörumarkaði? Var það ekki sama regluverk sem leyfði samruna Hagkaups, Bónus og 10-11?
Bændasamtök Íslands eru, og verða málsvari bænda og það er eðlilegt að slík samtök fjalli um kjaramál félagsmanna sína. Á sama hátt setur ASÍ fram ályktanir um hækkun launa og Samtök atvinnulífsins álykta um nauðsyn þess að sátt náist um að hækka ekki laun. Ummæli forsvarsmanna slíkra samtaka og ályktanir eru til þess fallnar að verja hagsmuni félagsmanna sinna á sama hátt og BÍ ber að verja hagsmuni bænda. Það er skylda en ekki ólögleg aðgerð.
Bændasamtökin áfrýja úrskurði Samkeppniseftirlitsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ólöglegt verðsamráð eða lögboðið hlutverk BÍ?
19.3.2009 | 22:34
Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 19. mars
Þann 6. mars sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Bændasamtök Íslands hefðu brotið gegn samkeppnislögum ,,með aðgerðum sem miðuðu að því að hækka verð á búvörum." Búvörurnar sem um ræðir eru möo. kjúklingakjöt, egg, grænmeti og svínakjöt - vörur sem ekki eru undir búvörusamningum og því á frjálsum markaði.
Í niðurstöðu Samkeppnisstofnunar kemur fram að upphaf rannsóknarinnar hafi verið frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Sátt um hækkanir nauðsyn". Síðan fjallar fréttin um Búnaðarþing 2008 og ályktun þess er varðar nauðsyn þess að hækka búvöruverð.
Hver má segja hvað?
Nú er samkeppni af hinu góða og hlutverk Samkeppniseftirlitsins mikilvægt til þess að hér megi ríkja eðlileg og sanngjörn samkeppni á öllum sviðum. Það er hins vegar mjög óeðlilegt að yfirskrift í fréttablaði verði ein og sér kveikjan að rannsókn en enn alvarlegra er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins í þessu sambandi. Bændasamtök Íslands eru og verða hagsmunasamtök bænda. Slíkum hagsmunasamtökum er ætlað að standa vörð um félagsmenn sína. Eftir úrskurð Samkeppniseftirlitsins er óljóst hvernig BÍ á að vera kleift að uppfylla þær skyldur sínar. Í mínum huga er fyrirsögnin ,,Sátt um hækkanir nauðsyn", í sama anda og formaður ASÍ segi að nauðsynlegt sé að sátt náist um að hækka laun. Ekki hefði nokkrum manni dottið í hug að slík ummæli væru ólögleg. Í niðurstöðu Samkeppnisstofnunar eru ummæli formanns BÍ notuð sem rök. Í Fréttablaðinu 2. mars 2008 var haft eftir honum að nauðsynlegt væri að hækka verð. Sama dag var samþykkt ályktun um nauðsyn þess að afurðaverð til bænda verði að hækka í samræmi við aukin tilkostnað. Samkeppnisstofnun kemst að þeirri niðurstöðu að sú ályktun feli í sér beinar yfirlýsingar og tilmæli um verðhækkun.
Reginmunur á skyldu og lögbroti
Bændasamtök Íslands eru, og verða málsvari bænda og það er eðlilegt að slík samtök fjalli um kjaramál félagsmanna sína. Á sama hátt setur ASÍ fram ályktanir um hækkun launa og Samtök atvinnulífsins álykta um nauðsyn þess að sátt náist um að hækka ekki laun. Ummæli forsvarsmanna slíkra samtaka og ályktanir eru til þess fallnar að verja hagsmuni félagsmanna sinna á sama hátt og BÍ ber að verja hagsmuni bænda. Það er skylda en ekki ólögleg aðgerð.
Ítarlegur úrskurður Samkeppnisstofnunar er um margt fróðlegur. Í honum koma fram ýmis rök, með eða á móti, meintu samkeppnisbroti BÍ. Eftir lestur hans sannfærðist ég hins vegar um að BÍ hafi uppfyllt skyldur sínar í garð félagsmanna og sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Fyrir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu verða að vera til öflug samtök sem bera hag þess fyrir brjósti. Það er nauðsynlegt að Bændasamtök Íslands geti nú sem hingað til, sinnt hlutverki sínu og fengið til þess sama svigrúm og önnur hagsmunasamtök.
Gömul gildi - nýtt fólk
19.3.2009 | 22:32
Grein birt í dagskránni 19. mars
Að baki eru prófkjör flokka, samkeppni frambjóðenda um að fá umboð frá almenningi til að vinna landi og þjóð gagn.
Framundan er stutt og snörp kosningabarátta. Barátta þar sem gömul og góð gildi verða í öndvegi allra flokka og allra frambjóðenda. Í þeirri baráttu verða gildi Framsóknarflokksins í hávegum höfð og meðbyr að berjast fyrir þeim. Gildum þar sem manngildi ofar auðgildi er megin inntakið. Þar sem vinna og hagvöxtur atvinnulífsins, vöxtur fyrirtækja og velferð heimila er undirstaða íslensks samfélags.
Krafa um endurnýjun
Endurnýjun í röðum framsóknarmanna er engin tilviljun. Grasrót flokksins, fólkið í landinu vill sjá afturhvarf til betri gildistíma. Brotthvarf frá græðgisvæðingu og siðleysis síðustu ára. Við viðurkennum að mistök hafi verð gerð. Við erum líka stolt af ýmsu sem flokkurinn hefur unnið að eins og lengingu fæðingarorlofs, jafnréttismálum og við höfum staðið vörð um Íbúðalánasjóð. Nýtt fólk, ný forysta er tilbúin til að vinna fyrir fólkið í landinu og með fólkinu í landinu. Ekki má bíða stundinni lengur með aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs. Vextir verða að lækka, gengið að styrkjast, hjól atvinnulífsins verða að komast í gang á ný. Þannig og aðeins þannig munum við ná að vinna okkur út úr efnahagshruninu.
Við viljum hitta ykkur
Um leið og ég þakka kærlega fyrir stuðning við mig, vil ég jafnframt þakka öllum þeim sem tóku þátt, frambjóðendum, skipuleggjendum og almennum flokksmönnum fyrir að láta póstkosninguna takast jafnvel eins og raun bar vitni. Nýr listi Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi er gott dæmi um þann mikla mannauð sem er tilbúin til að leggja sitt af mörkum fyrir betri framtíð.
Laugardaginn 21. mars kl. 10.30 verður opið hús að Eyrarvegi 15, Selfossi. Þar munum við frambjóðendur Framsóknarflokksins mæta. Vonumst við til að sjá sem flesta, heyra hvað á ykkur brennur og eiga gagnlegar umræður um landsmálin. Með því móti verðum við sterkir framgöngumenn ykkar mála á landsvísu.
Atvinnuleysi eykst enn - lýst eftir aðgerðum
18.3.2009 | 10:07
Minnihluta ríkisstjórnin er enn við sama heygarðshornið. Ræðst á niðurfærslu hugmyndir okkar framsóknarmanna á skuldum heimilanna. Leið sem hagfræðingurinn Tryggvi Þ.Herbertsson sjálfstæðisflokki, hefur líka lagt til en einnig hefur Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og frambjóðandi VG talað á sömu nótum. Ásamt mörgum öðrum ekki síst erlendum þekktum ,,nýhugsandi" hagfræðingum. Fræðimönnum sem gera sér ljóst að við yfirvofandi kerfishruni verður að bregðast við með nýrri, frjórri hugsun og lausnum.
Á meðan minnihluta ríkisstjórnin er að reyna troða óskafrumvörpum (les kosningaáróðri) sínum í gegnum þingið blæðir heimilum og atvinnulífi út. Atvinnuleysi er komið yfir 10.5%, meir en 17 þúsund Íslendingar eru atvinnulausir.
Nú er komið að endalokum þessa pólitíska hráskinnaleiks. Skoða þarf allar leiðir - ekki síst niðurfærsluleið skulda. Lækka þarf vexti strax, koma í gang gengisstyrkjandi aðgerðum. Vernda heimilin og koma hjólum atvinnulífs í gang með raunhæfum aðgerðum sem gera gagn - núna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðgerðir - strax
15.3.2009 | 18:33
Vextir verði lækkaðir í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn - strax. Lífeyrissjóðum verði veitt heimild til að eiga gjaldeyrisviðskipti - strax. Samið verði við erlenda eigendur krónueigna - á næstu tveimur mánuðum. Settur verði á fót uppboðsmarkaður með krónur - eftir tvo mánuði. Lokið verði við stofnun nýju bankanna - fyrir 1. apríl. Kröfuhafar fái hlut í nýju bönkunum - fyrir lok maí. Sameining og endurskipulagning banka og fjármálastofnanna - á næstu 12 mánuðum. Ríkið ábyrgist lán til skamms tíma milli banka - strax. 20% niðurfærsla skulda heimila og fyrirtækja - innan eins mánaðar. Stimpilgjöld afnumin - innan 2 vikna. Stuðningur við rannsókna- og þróunarstarf og aðgerðir til að örva fasteignamarkaðinn - innan 3ja mánaða. Drög að fjárlögum næstu þriggja ára - fyrir lok ágúst.
Þetta er ekki aðgerðalisti tveggja síðustu ríkisstjórna - því miður. Það virðist enginn heildrænn aðgerðalisti til. Þetta er hluti af tillögum sem Framsóknarflokkurinn kynnti í febrúar. Tillögur sem ríkistjórn og Alþingi hefðu átt að taka til alvarlegrar skoðunar, umræðu og afgreiðslu. Það er óskiljanlegt af hverju það hefur ekki verið gert. Þess í stað hafa stjórnarliðar tekið eina tillögu og hamast á henni án þess að koma með nokkuð haldbært í staðinn.
Aðgerðir strax - lækka vexti - styrkja gengi - koma atvinnulífinu í gang. Fólkið og heimilin í landinu krefjast þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þakkir
8.3.2009 | 22:28
Kjörstjórn, stjórn kjördæmissambandsins, stjórnir félaga en ekki síst almennir félagsmenn eiga hrós skilið fyrir að geta framkvæmt póstkosningu, kynningu á frambjóðendum með þessum glæsilega árangri á svona stuttum tíma.
Ég vil líka nota þetta tækifæri til að þakka meðframbjóðendum mínum bæði drengilega og skemmtilega samkeppni. Einnig stuðningsmönnum mínum fyrir traustið, hvatningu og stuðning.
Það er mér heiður að fá að leiða þennan sterka hóp í kosningabaráttu næstu vikna.
Kosningabaráttu sem mun snúast fyrst og fremst um raunverulegar aðgerðir til varnar heimilum í landinu, endurreisn atvinnulífs, endurreisn samfélags jöfnuðar og samvinnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Landbúnaður í frjálsu flæði ESB
5.3.2009 | 21:31
Við, Íslendingar erum heppinn að því leiti að eiga öflugan sjávarútveg og öflugan landbúnað. Matvælaiðnað og framleiðendur með vöru í fyrsta gæðaflokki heilbrigðis og hollustu.
Þessa stöðu verðum við að verja með öllum tiltækum ráðum. Matvælafrumvarp sem hefur legið fyrir Alþingi síðastliðin þing er gallað og ver ekki hagsmuni þjóðarinnar, hagsmuni landbúnaðarins sem skyldi. Í gær rann út frestur til að skila inn athugasemdum við matvælafrumvarpið og veit ég að þær verða töluverðar. Ég tel mjög nauðsynlegt að þingið gefi sér góðan tíma til að fara yfir þessar athugasemdir og taka mið af þeim rökum sem þar eru sett fram og eiga að verja íslenskan landbúnað. Þrýstingur frá aðildarríkjum Evrópusambandsins á ekki að hafa þau áhrif að við köstum til hendinni og samþykkjum frumvarp sem betur má fara með frekari yfirlegu.
Evrópusambandsumræða og hugsanleg aðildarumsókn verður að hafa í öndvegi hagsmuni landbúnaðarins, matvælaframleiðslu og matvælaöryggi í víðari skilningi en við höfum áður hugsað. Þar liggja okkar hagsmunir sem þjóðar. Við megum ekki ógna því öryggi sem felst í að vera sjálfbjarga.
Rekstrarumhverfi bænda er eins og annarra fyrirtækja í landinu ógnað af galinni peningamarkaðsstefnu sem hefur leitt af sér okurvexti og óðaverðbólgu. Það er mikilvægast fyrir bændur eins og önnur fyrirtæki landsins að stuðla með almennum aðgerðum að því að rekstrarumhverfið verði eðlilegt.
Lækkum vexti, styrkjum gengið og komum hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á morgun er síðasti dagur til að póstleggja atkvæði sitt
3.3.2009 | 22:53
Til að lýðræðislegt val verði við röðun okkar framsóknarmanna á listann hér í Suðurkjördæmi er nauðsynlegt að góð þátttaka náist í póstkosningunni. Póstkosning er spennandi leið en jafnframt mjög lýðræðisleg þar sem hver félagsmaður fær atkvæðaseðilinn sendan heim og getur gefið sér tíma og ráðrúm til að kjósa. Sá böggull fylgir þó skammrifi að það þarf að muna eftir að póstleggja atkvæðið.
Á morgun, 4. mars er síðasti dagur til að fara með atkvæðið í póst. Atkvæði verða svo talin á laugardag en úrslit ekki kunngerð fyrr en á kjördæmisþinginu á sunnudaginn 8. mars.
Ég vona að allir sem fengu atkvæði í hendurnar nýti vel kosningarétt sinn og muni eftir að póstleggja atkvæðið - eigi síðar en á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kynningarfundir
1.3.2009 | 12:37
Í undirbúningi póstkosningarinnar fór ég yfirferð um kjördæmið, hitti fólk og kynnti mér staði og aðstæður sem ég þekkti minna en nánasta umhverfi. Suðurkjördæmi er víðáttumikið, frá Reykjanesi austur fyrir Höfn.
Það er gaman að ferðast um landið og hitta nýtt fólk, eignast nýja vini og hlusta á hugmyndir fólks, áhyggjur og framtíðarvonir.
Á sex dögum hef ég farið tvisvar sinnum á Suðurnesin, tvisvar ekið austur um allar sveitir, austur á Höfn og farið til Vestmannaeyja. Auk þess að fara um sveitir og þéttbýlisstaði Árnes- og Rangárvallasýslna.
Á þessum ferðum hef ég hitt fjölda fólks og hlustað á það og kynnt mig.
Það er í senn áhugavert og nauðsynlegt fyrir nýja frambjóðendur að fara um hitta fólk og hlusta.
Skipulagðir framboðsfundir hafa nú þegar farið fram í Reykjanesbæ, Borg í Grímsnesi, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjabæ. Í dag eru fundir í Vík í Mýrdal kl 16.00 og á Hvolsvelli í kvöld kl 20.30. Annað kvöld er svo síðasti fundurinn í Grindavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýir tímar - ný vinnubrögð
26.2.2009 | 17:10
Grein birt í Dagskránni og Eyjafréttum 26. febrúar 2009
Í dag eru Framsóknarmenn að fá með póstinum atkvæðaseðil sinn vegna vals á lista til alþingiskosninga. Sú aðferð að senda hverjum framsóknarmanni atkvæðaseðil er lýðræðislegri en fulltrúaval kjördæmisþinga en um leið aðferð til að halda niðri kostnaði við opin prófkjör. Þessi aðferð er einnig í takt við þá tíma sem við lifum þ.e. aukið lýðræði til fólksins en um leið aðhaldssöm. Með þessu móti geta allir lagt sitt á vogarskálarnar með jöfnum þunga, þ.e. einn maður - eitt atkvæði.
Atvinnumálin, velferðarmálin og stefna Framsóknarflokksins er eitt af því sem gerir mig að framsóknarmanni. Velferð fjölskyldna í landinu byggist á atvinnu. Einungis með atvinnumál á traustum grunni er hægt að halda uppi velferðarkerfi byggt á öflugu menntakerfi og heilbrigðisþjónustu öllum til handa óháð búsetu og efnahag.
Hin gömlu gildi Framsóknarflokksins eiga aldrei betur við en einmitt núna. Manngildi ofar auðgildi er grundvöllur þess að Íslendingar geti horft fram á bjartari tíma. Miðjuflokkur, með rætur í þjóðarsálinni er best til þess fallinn að finna jafnvægið fyrir íslensku þjóðina og þannig leiða hana fram til sóknar.
Ég vil hvetja alla framsóknarmenn til að nota atkvæðið sem þeir fá í hendurnar og þannig taka virkan þátt í þeirri lýðræðisvakningu sem hafin er. Þar hefur einvalalið einstaklinga gefið kost á sér til að fylgja eftir hugsjónum og stefnu Framsóknarflokksins. Ykkar er valið kæru framsóknarmenn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)