Nýir tímar - ný vinnubrögð

Grein birt í Dagskránni og Eyjafréttum 26. febrúar 2009

Í dag eru Framsóknarmenn að fá með póstinum atkvæðaseðil sinn vegna vals á lista til alþingiskosninga. Sú aðferð að senda hverjum framsóknarmanni atkvæðaseðil er lýðræðislegri en fulltrúaval kjördæmisþinga en um leið aðferð til að halda niðri kostnaði við opin prófkjör. Þessi aðferð er einnig í takt við þá tíma sem við lifum þ.e. aukið lýðræði til fólksins en um leið aðhaldssöm. Með þessu móti geta allir lagt sitt á vogarskálarnar með jöfnum þunga, þ.e. einn maður - eitt atkvæði.

Atvinnumálin, velferðarmálin og stefna Framsóknarflokksins er eitt af því sem gerir mig að framsóknarmanni.  Velferð fjölskyldna í landinu byggist á atvinnu. Einungis með atvinnumál á traustum grunni er hægt að halda uppi velferðarkerfi  byggt á öflugu menntakerfi  og heilbrigðisþjónustu öllum til handa óháð búsetu og efnahag.

Hin gömlu gildi Framsóknarflokksins eiga aldrei betur við en einmitt núna. Manngildi ofar auðgildi er grundvöllur þess að Íslendingar geti horft fram á bjartari tíma. Miðjuflokkur, með rætur í þjóðarsálinni er best til þess fallinn að finna jafnvægið fyrir íslensku þjóðina og þannig leiða hana fram til sóknar.

Ég vil hvetja alla framsóknarmenn til að nota atkvæðið sem þeir fá í hendurnar og þannig taka virkan þátt í þeirri lýðræðisvakningu sem hafin er. Þar hefur einvalalið einstaklinga gefið kost á sér til að fylgja eftir hugsjónum og stefnu Framsóknarflokksins. Ykkar er valið kæru framsóknarmenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband