Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Icesave

Icesave-samningurinn  verður alltaf verri og verri því meir sem upplýsist. Það virðist líka vera ríkisstjórninni fyrirmunað að leggja öll spilin á borðið. 

Við vitum að staðan er óréttlát. Við vitum að það er ágreiningur um hvort við eigum að borga og að sá ágreiningur hefur ekki verið upplýstur/viðurkenndur að fullu. Það gerir málið ekki sanngjarnara eða réttlátara. Við vitum hinsvegar ekki hve mikið við þurfum að greiða. Né heldur hvort við getum greitt. Það er ekki til mat á greiðsluþoli né greiðslugetu. Það gerir málið ekki betra. Einstaka greinar samningsins eru þess eðlis að það virðist vera sem við afsölum okkur öllum rétti til varnar en veðsetjum allar eignir. Á meðan ekki liggur fyrir túlkun samningsaðila okkar þ.e. Breta og Hollendinga á þessum ákvæðum er erfitt - nei útilokað að samþykkja samning þennan.

Birti hér fyrir neðan ræðu mína við 1. umræðu um Icesave og ríkisábyrgð.

Virðulegi forseti

 

Við stöndum hér frammi fyrir einu því stærsta og alvarlegasta máli sem við sem þjóð höfum staðið frammi fyrir á öðru tímabili íslenskt lýðveldis. – á fyrsta tímabili hins íslenska lýðveldis- á þjóðveldistímanum - stóðu menn oft frammi fyrir stórum málum jafnvel stærri og leystu þau.

-Engu að síður töpuðum við sjálfstæði okkar um margar aldir. Það getur auðvitað gerst aftur.

 

Þrátt fyrir alla pólitík, ágreining um undirbúning, aðdraganda og upphaf máls – snýst Icesave kannski fyrst og fremst um tvennt.  Annarsvegar réttlæti og hinsvegar greiðslubyrði og gjaldþol íslensku þjóðarinnar.

 

Frú forseti – réttlætiskrafan snýr annarsvegar að þeim sem sannanlega áttu mestan þátt í að koma okkur sem þjóð svona illa. Þar má ekkert undanskilja- það verður að rannsaka alla þætti bæði aðkomu stjórnvalda og eftirlitsaðila en ekki síst að rannsaka gerðir þeirra sem ákvarðanirnar tóku. Ef þar kemur eitthvað misjafnt fram  verður að vísa öllum slíkum málum til sérstaks saksóknara  og enda mál fyrir dómstólum ( í því sambandi vil ég fagna því frumvarpi sem hæstvirtur dómsmálaráðherra lagði fram hér fyrr í dag) – Það verður ekki friður í hjörtum okkar íslendinga fyrr en að réttlætið hefur gengið fram í þessum málum.

 

Hin réttlætiskrafan snýr að lögmæti þess hvort að við eigum að greiða þessa skuld óreiðumanna. Það er óásættanlegt að aldrei hafi verið á það reynt með raunverulegum hætti hvort lagalega leiðin , dómstóla leiðin hafi verið fær. Evrópsk tilskipun er gölluð. Það veit franski seðlabankinn og er þess vegna með ákvæði þess efnis að við bankahrun gildi ekki þessa tiltekna tilskipun. Íslenskir sem erlendir lagasérfræðingar hafa lýst því sama yfir. - Í huga mínum er því augljóst að það er ekki réttlæti að við rúmlega 300 þús. manna þjóð eigum ein að standa undir þeim evrópska galla.

 

Varðandi greiðslubyrði og gjaldþol þjóðarinnar hefur sífellt sígið á ógæfuhliðina.  Í haust og vetur áætlaði AGS að skuldir þjóðarbúsins væru allt að 160 % af landsframleiðslu og mættu ekki aukast. Á fundi í gær sem við framsóknarmenn áttum við AGS-sjóðinn kom fram að skuldirnar væri miklu meiri en þó eitthvað lægri en 250-300% svo notuð séu orð landstjóra AGS á Íslandi.

Við það bætist - að á engum tíma hvort sem við samningsgerðina eða í undirbúningi þess var ríkistjórnin búin að leggja fram greiðsluáætlun um getu þjóðarbúsins næstu 15 árin. Við vitum sem sagt ekki enn hvert greiðsluþolið er. Um þetta hefur margt verið sagt hér í umræðunni frú forseti og litlu við að bæta.

 

Niðurstaðan og sannleikurinn er sá að óvissan er of mikil, réttlætiskennd okkar er misboðið. Við sem eigum hér að taka ákvörðun um hvort við eigum að skuldbinda þjóðina í nútíð og verulega langri framtíð verðum að hafa betri framtíðarsýn. Samningurinn er ekki aðgengilegur eins og hann lítur út nú.  Erfiðleikar þjóðarinnar eru miklir. Erfiðleikar eru hinsvegar til að sigrast á þeim . það verðum við að gera saman - öll þjóðin. Þessi samningur er ekki studdur af þjóðinni vegna þess að hann er óréttlátur og óvissan um greiðsluþol og greiðslugetu er of mikil.

 

Því skora ég á þingheim allan að setjast yfirmálið að nýju- sameiginlega og skoða hvernig við komumst út   úr þessum vanda. Það getur vel verið að réttast sé –eins og gert hefur verið áður að viðurkenna pólitíska ábyrgð samhliða því að halda til haga lagalegum rétti okkar. – Og semja að nýju vegna þess forsendubrest sem kominn er fram. Þannig náum við vopnum okkar að nýju  þannig náum við allri þjóðinni með  - í réttlátari og sanngjarnari vegferð –út úr Icesave klúðrinu.

 


Stund milli stríða

Það er góð hvíld frá fundasetu Alþingis að fara út í góða veðrið og vinna þakklátt verk, bæði fyrir menn og málleysingja.

Hef þó frekar verið í vinnuslopp en jakkafötum. Hins vegar gefst stundum ekki tími til að skipta um föt - sérstaklega í neyð...

Enn Blesi braggaðist og hélt ferðalagi sínu áfram um sunnlenskar grundir á góðviðrisdegi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband