Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Biðraðir á líknardeild gjaldþrota

Eins nauðsynleg og greiðsluaðlögun er, mun hún ein og sér ekki ná að snúa óheilla þróuninni við. Til þess þarf almennari aðgerðir þar sem fleiri verða skornir úr snöru ofurvaxta og skulda. Leiðrétting á lánskjörum eða 20% niðurfærsluleiðin mun hjálpa fjöldanum þannig að færri þurfa á greiðsluaðlögun að halda. þá getur verið að forsendur í lögunum standist. Fyrst 20% almenn leiðrétting.
mbl.is Fjöldinn sem þarf greiðsluaðlögun vanmetinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsfundarhelgin mikla

Áhugaverð helgi er að baki. Hjá okkur frambjóðendum Framsóknar fólst hún í undirbúningi fyrir kosningabaráttuna. Við komum saman á afar öflugri og áhugaverðri ráðstefnu á Háskólatorgi HÍ á laugardeginum. Í gær var svo haldið áfram kynningum og fræðslu bæði í Reykjavík en einnig komum við í Suðurkjördæmi saman á Eyrarveginum á Selfossi til samveru, samtala og myndatöku. - Nú er ekkert að vanbúnaði að henda sér út í kosningabaráttuna. 

Landsfundir Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks voru líka þessa helgina og fylgdist maður einnig með því. Tvennt stendur uppúr á báðum stöðum.

Hjá Sjálfstæðisflokki var erfitt að sjá hvort þeir sýna raunverulega iðrun, löngun til að gera upp við mistök fortíðar hvort sem er í stefnu eða hjá fólkinu. Eða hvort þeir hylla fortíð sína, stefnu og foringja. Endurreisnarskýrslan er ekki trúverðug eftir ræðu Davíðs og undirtektir landsfundar. Einnig fannst mér sérstakt að fráfarandi formaður sem þjóðin ÖLL hefur beðið eftir að bæðist afsökunar á hruninu bað sjálfstæðismenn afsökunar EKKI þjóðina.

Samfylkingin leggur til að við göngum í ESB og öllum okkar vandræðum er lokið!!! Kannski á sú trú þeirra ekki að vekja eftirtekt en áherslan á inngöngu hvað sem það kostar gerir það áneitanlega. Ekki síst í ljósi þess að hitt atriðið sem vakti athygli mína var að það stóð ekkert um það hvernig Samfylkingin ætlar að slá skjaldborg um heimilin, engar aðgerðir aðrar en greiðsluaðlögun fyrir þá sem komnir eru með húsnæði fjölskyldunnar á líknardeild.

Atvinnuleysi vex enn - yfir 10% - yfir 18 000 manns!!. Fimmtíu prósent heimila og fyrirtækja eru talin vera með neikvætt eigið fé - í þessu vaxtaokri og minnkandi neyslu bíður þeirra ekkert nema gjaldþrot.

Núverandi stjórnarflokkur, Samfylking sem einnig sat í svokallaðri Þingvallastjórn/Baugsstjórn, með Sjálfstæðisflokki, ætlar ekkert að leggja til annað en inngöngu í ESB og greiðsluaðlögun þeirra sem eru við það að gefast upp.

Niðurstaða helgarinnar er augljóslega sú að leiðsögn Framsóknar er nauðsyn. Framsóknarflokkurinn með sínar 18 liða tillögur til lausnar á vanda þjóðarinnar, heimila og fyrirtækja er eina heildarstefnan sem sett hefur verið fram af stjórnmálaflokkunum fyrir þessar kosningar. Lækkum vexti, styrkjum gengið og komum atvinnulífinu í gang á nýjan leik. -  Fyrir okkur öll.


Farfuglarnir...

álftir 22. mars 2009...eru mættir í Hrunamannahrepp. Tók þessa mynd í dag af álftunum sem vekja mann nú með sínum svanasöng á morgnanna. Heilu breiðurnar af álftum eru nú mættar í kornakrana allt um kring og kippa sér litið upp við þó keyrt sé framhjá þeim í nokkra metra fjarlægð. Frá stofuglugganum virðist sem stórir fjárhópar séu á túnunum. Það verður þó að segja eins er að ekki gleður þessi vorboði alla jafnmikið  - sérstaklega ekki bændur með sínar nýræktir.

Enski boltinn og pólitík

Náði að horfa smá stund á leik minna manna, Arsenal þar sem við unnum sannfærandi sigur á Newcastle. Ég varð feikna ánægður með það. Á mínu heimili kættust sumir mjög mikið yfir tapi ManU þar sem þar eru á ferð Poolarar á meðan ManU liðar heimilisins syrgðu. Það er gott að halda með sínu liði bæði þegar vel gengur og eins og ekki síður þegar liðið klúðrar öllu og etv fellur . Það hefur reyndar Arsenal aldrei gert, eitt liða í ensku efstu :-)

Það er hinsvegar ekki gott að halda með stjórnmálaflokkum eins og fótboltaklúbbum. Það er beinlínis hættulegt lýðræðinu. Þegar flokkar klúðra eiga kjósendur að snúa baki við þeim og þannig láta flokka endurnýja sig - finna aftur sín gömlu og góðu gildi. Endurnýja stefnu sem hæfir hverjum tíma og endurnýja fólk í forystu. Það höfum við framsóknarmenn gert rækilega eftir að almenningur- grasrótin varð ósátt við þáverandi stefnu flokks og forystu.

Ég trúi ekki öðru en fólk sem hefur ,,haldið" með Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu á undanförnum árum hugsi sig nú um. Pólitík er ekki fótboltaleikur.


Eðlilegt í ljósi máls

 

Spurning er hvort ummæli forsvarsmanna BÍ hafi verið þess eðlis að ástæða hafi verið að ætla að samtökin hefðu brotið gegn samkeppnislögum?  

Það er líka álitamál hvort tíma Samkeppniseftirlitsins er best varið í þetta mál eða hefði verið nærri lagi að skoða betur samkeppni á smávörumarkaði? Var það ekki sama regluverk sem leyfði samruna Hagkaups, Bónus og 10-11?

Bændasamtök Íslands eru, og verða málsvari bænda og það er eðlilegt að slík samtök fjalli um kjaramál félagsmanna sína.  Á sama hátt setur ASÍ fram ályktanir um hækkun launa og Samtök atvinnulífsins álykta um nauðsyn þess að sátt náist um að hækka ekki laun. Ummæli forsvarsmanna slíkra samtaka og ályktanir eru til þess fallnar að verja hagsmuni félagsmanna sinna á sama hátt og BÍ ber að verja hagsmuni bænda. Það er skylda en ekki ólögleg aðgerð.


mbl.is Bændasamtökin áfrýja úrskurði Samkeppniseftirlitsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólöglegt verðsamráð eða lögboðið hlutverk BÍ?

Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 19. mars 

Þann 6. mars sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Bændasamtök Íslands hefðu brotið gegn samkeppnislögum ,,með aðgerðum sem miðuðu að því að hækka verð á búvörum." Búvörurnar sem um ræðir eru möo. kjúklingakjöt, egg, grænmeti og svínakjöt - vörur sem ekki eru undir búvörusamningum og því á frjálsum markaði.  

Í niðurstöðu Samkeppnisstofnunar kemur fram að upphaf rannsóknarinnar hafi verið frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Sátt um hækkanir nauðsyn". Síðan fjallar fréttin um Búnaðarþing 2008 og ályktun þess er varðar nauðsyn þess að hækka búvöruverð.

Hver má segja hvað?

Nú er samkeppni af hinu góða og hlutverk Samkeppniseftirlitsins mikilvægt til þess að hér megi ríkja eðlileg og sanngjörn samkeppni á öllum sviðum. Það er hins vegar mjög óeðlilegt að yfirskrift í fréttablaði verði ein og sér kveikjan að rannsókn en enn alvarlegra er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins í þessu sambandi. Bændasamtök Íslands eru og verða hagsmunasamtök bænda. Slíkum hagsmunasamtökum er ætlað að standa vörð um félagsmenn sína. Eftir úrskurð Samkeppniseftirlitsins er óljóst hvernig BÍ á að vera kleift að uppfylla þær skyldur sínar. Í mínum huga er fyrirsögnin ,,Sátt um hækkanir nauðsyn", í sama anda og formaður ASÍ segi að nauðsynlegt sé að sátt náist um að hækka laun. Ekki hefði nokkrum manni dottið í hug að slík ummæli væru ólögleg. Í niðurstöðu Samkeppnisstofnunar eru ummæli formanns BÍ notuð sem rök. Í Fréttablaðinu 2. mars 2008 var haft eftir honum að nauðsynlegt væri að hækka verð. Sama dag var samþykkt ályktun um nauðsyn þess að afurðaverð til bænda verði að hækka í samræmi við aukin tilkostnað. Samkeppnisstofnun kemst að þeirri niðurstöðu að sú ályktun feli í sér beinar yfirlýsingar og tilmæli um verðhækkun.

Reginmunur á skyldu og lögbroti

Bændasamtök Íslands eru, og verða málsvari bænda og það er eðlilegt að slík samtök fjalli um kjaramál félagsmanna sína.  Á sama hátt setur ASÍ fram ályktanir um hækkun launa og Samtök atvinnulífsins álykta um nauðsyn þess að sátt náist um að hækka ekki laun. Ummæli forsvarsmanna slíkra samtaka og ályktanir eru til þess fallnar að verja hagsmuni félagsmanna sinna á sama hátt og BÍ ber að verja hagsmuni bænda. Það er skylda en ekki ólögleg aðgerð.

Ítarlegur úrskurður Samkeppnisstofnunar er um margt fróðlegur. Í honum koma fram ýmis rök, með eða á móti, meintu samkeppnisbroti BÍ. Eftir lestur hans sannfærðist ég hins vegar um að BÍ hafi uppfyllt skyldur sínar í garð félagsmanna og sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Fyrir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu verða að vera til öflug samtök sem bera hag þess fyrir brjósti. Það er nauðsynlegt að Bændasamtök Íslands geti nú sem hingað til, sinnt hlutverki sínu og fengið til þess sama svigrúm og önnur hagsmunasamtök.


Gömul gildi - nýtt fólk

Grein birt í dagskránni 19. mars

Að baki eru prófkjör flokka, samkeppni frambjóðenda um að fá umboð  frá almenningi til að vinna landi og þjóð gagn.

Framundan er stutt og snörp kosningabarátta. Barátta þar sem gömul og góð gildi verða í öndvegi allra flokka og allra frambjóðenda. Í þeirri baráttu verða gildi Framsóknarflokksins í hávegum höfð og meðbyr að berjast fyrir þeim. Gildum þar sem manngildi ofar auðgildi er megin inntakið. Þar sem vinna og hagvöxtur atvinnulífsins, vöxtur fyrirtækja og velferð heimila er undirstaða íslensks samfélags.

Krafa um endurnýjun

Endurnýjun í röðum framsóknarmanna er engin tilviljun. Grasrót flokksins, fólkið í landinu vill sjá afturhvarf til betri gildistíma. Brotthvarf frá græðgisvæðingu og siðleysis síðustu ára. Við viðurkennum að mistök hafi verð gerð. Við erum líka stolt af ýmsu sem flokkurinn hefur unnið að eins og lengingu fæðingarorlofs, jafnréttismálum og við höfum staðið vörð um Íbúðalánasjóð. Nýtt fólk, ný forysta er tilbúin til að vinna fyrir fólkið í landinu og með fólkinu í landinu. Ekki má bíða stundinni lengur með aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs. Vextir verða að lækka, gengið að styrkjast, hjól atvinnulífsins verða að komast í gang á ný. Þannig og aðeins þannig munum við ná að vinna okkur út úr efnahagshruninu.  

Við viljum hitta ykkur

Um leið og ég þakka kærlega fyrir stuðning við mig, vil ég jafnframt þakka öllum þeim sem tóku þátt, frambjóðendum, skipuleggjendum og almennum flokksmönnum fyrir að láta  póstkosninguna takast jafnvel eins og raun bar vitni. Nýr listi Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi er gott dæmi um þann mikla mannauð sem er tilbúin til að leggja sitt af mörkum fyrir betri framtíð.

Laugardaginn 21. mars kl. 10.30 verður opið hús að Eyrarvegi 15, Selfossi. Þar munum við frambjóðendur Framsóknarflokksins mæta. Vonumst við til að sjá sem flesta, heyra hvað á ykkur brennur og eiga gagnlegar umræður um landsmálin. Með því móti verðum við sterkir framgöngumenn ykkar mála á landsvísu.  


Atvinnuleysi eykst enn - lýst eftir aðgerðum

 

Minnihluta ríkisstjórnin er enn við sama heygarðshornið. Ræðst á niðurfærslu hugmyndir okkar framsóknarmanna á skuldum heimilanna. Leið sem hagfræðingurinn Tryggvi Þ.Herbertsson sjálfstæðisflokki, hefur líka lagt til en einnig hefur Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og frambjóðandi VG talað á sömu nótum. Ásamt mörgum öðrum ekki síst erlendum þekktum ,,nýhugsandi" hagfræðingum. Fræðimönnum sem gera sér ljóst að við yfirvofandi kerfishruni verður að bregðast við með nýrri, frjórri hugsun og lausnum.

Á meðan minnihluta ríkisstjórnin er að reyna troða óskafrumvörpum (les kosningaáróðri) sínum í gegnum þingið blæðir heimilum og atvinnulífi út. Atvinnuleysi er komið yfir 10.5%, meir en 17 þúsund Íslendingar eru atvinnulausir.

Nú er komið að endalokum þessa pólitíska hráskinnaleiks. Skoða þarf allar leiðir - ekki síst niðurfærsluleið skulda. Lækka þarf  vexti strax, koma í gang gengisstyrkjandi aðgerðum. Vernda heimilin og koma hjólum atvinnulífs í gang með raunhæfum aðgerðum sem gera gagn - núna.


Aðgerðir - strax

Vextir verði lækkaðir í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn - strax. Lífeyrissjóðum verði veitt heimild til að eiga gjaldeyrisviðskipti - strax. Samið verði við erlenda eigendur krónueigna - á næstu tveimur mánuðum. Settur verði á fót uppboðsmarkaður með krónur - eftir tvo mánuði. Lokið verði við stofnun nýju bankanna - fyrir 1. apríl. Kröfuhafar fái hlut í nýju bönkunum - fyrir lok maí. Sameining og endurskipulagning banka og fjármálastofnanna - á næstu 12 mánuðum. Ríkið ábyrgist lán til skamms tíma milli banka - strax. 20% niðurfærsla skulda heimila og fyrirtækja - innan eins mánaðar.  Stimpilgjöld afnumin - innan 2 vikna. Stuðningur við rannsókna- og þróunarstarf og aðgerðir til að örva fasteignamarkaðinn - innan 3ja mánaða. Drög að fjárlögum næstu þriggja ára - fyrir lok ágúst.

Þetta er ekki aðgerðalisti tveggja síðustu ríkisstjórna - því miður. Það virðist enginn heildrænn aðgerðalisti til. Þetta er hluti af tillögum sem Framsóknarflokkurinn kynnti í febrúar. Tillögur sem ríkistjórn og Alþingi hefðu átt að taka til alvarlegrar skoðunar, umræðu og afgreiðslu. Það er óskiljanlegt af hverju það hefur ekki verið gert. Þess í stað hafa stjórnarliðar tekið eina tillögu og hamast á henni án þess að koma með nokkuð haldbært í staðinn.

Aðgerðir strax - lækka vexti - styrkja gengi - koma atvinnulífinu í gang. Fólkið og heimilin í landinu krefjast þess.   


Þakkir

 Ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu sem gerðu póstkosningu okkar Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi eins glæsilega og raun bar vitni.  Kosningu sem lauk í dag með aukakjördæmisþingi á Selfossi þar sem við Framsóknarmenn lögðum fram og samþykktum öflugan framboðslista.

Kjörstjórn, stjórn kjördæmissambandsins, stjórnir félaga en ekki síst almennir félagsmenn eiga hrós skilið fyrir að geta framkvæmt póstkosningu, kynningu á frambjóðendum með þessum glæsilega árangri á svona stuttum tíma.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að þakka meðframbjóðendum mínum bæði drengilega og skemmtilega samkeppni. Einnig stuðningsmönnum mínum fyrir traustið, hvatningu og stuðning.

Það er mér heiður að fá að leiða þennan sterka hóp í kosningabaráttu næstu vikna.

Kosningabaráttu sem mun snúast fyrst og fremst um raunverulegar aðgerðir til varnar heimilum í landinu, endurreisn atvinnulífs, endurreisn samfélags jöfnuðar og samvinnu.   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband