Ólöglegt verðsamráð eða lögboðið hlutverk BÍ?

Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 19. mars 

Þann 6. mars sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Bændasamtök Íslands hefðu brotið gegn samkeppnislögum ,,með aðgerðum sem miðuðu að því að hækka verð á búvörum." Búvörurnar sem um ræðir eru möo. kjúklingakjöt, egg, grænmeti og svínakjöt - vörur sem ekki eru undir búvörusamningum og því á frjálsum markaði.  

Í niðurstöðu Samkeppnisstofnunar kemur fram að upphaf rannsóknarinnar hafi verið frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Sátt um hækkanir nauðsyn". Síðan fjallar fréttin um Búnaðarþing 2008 og ályktun þess er varðar nauðsyn þess að hækka búvöruverð.

Hver má segja hvað?

Nú er samkeppni af hinu góða og hlutverk Samkeppniseftirlitsins mikilvægt til þess að hér megi ríkja eðlileg og sanngjörn samkeppni á öllum sviðum. Það er hins vegar mjög óeðlilegt að yfirskrift í fréttablaði verði ein og sér kveikjan að rannsókn en enn alvarlegra er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins í þessu sambandi. Bændasamtök Íslands eru og verða hagsmunasamtök bænda. Slíkum hagsmunasamtökum er ætlað að standa vörð um félagsmenn sína. Eftir úrskurð Samkeppniseftirlitsins er óljóst hvernig BÍ á að vera kleift að uppfylla þær skyldur sínar. Í mínum huga er fyrirsögnin ,,Sátt um hækkanir nauðsyn", í sama anda og formaður ASÍ segi að nauðsynlegt sé að sátt náist um að hækka laun. Ekki hefði nokkrum manni dottið í hug að slík ummæli væru ólögleg. Í niðurstöðu Samkeppnisstofnunar eru ummæli formanns BÍ notuð sem rök. Í Fréttablaðinu 2. mars 2008 var haft eftir honum að nauðsynlegt væri að hækka verð. Sama dag var samþykkt ályktun um nauðsyn þess að afurðaverð til bænda verði að hækka í samræmi við aukin tilkostnað. Samkeppnisstofnun kemst að þeirri niðurstöðu að sú ályktun feli í sér beinar yfirlýsingar og tilmæli um verðhækkun.

Reginmunur á skyldu og lögbroti

Bændasamtök Íslands eru, og verða málsvari bænda og það er eðlilegt að slík samtök fjalli um kjaramál félagsmanna sína.  Á sama hátt setur ASÍ fram ályktanir um hækkun launa og Samtök atvinnulífsins álykta um nauðsyn þess að sátt náist um að hækka ekki laun. Ummæli forsvarsmanna slíkra samtaka og ályktanir eru til þess fallnar að verja hagsmuni félagsmanna sinna á sama hátt og BÍ ber að verja hagsmuni bænda. Það er skylda en ekki ólögleg aðgerð.

Ítarlegur úrskurður Samkeppnisstofnunar er um margt fróðlegur. Í honum koma fram ýmis rök, með eða á móti, meintu samkeppnisbroti BÍ. Eftir lestur hans sannfærðist ég hins vegar um að BÍ hafi uppfyllt skyldur sínar í garð félagsmanna og sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Fyrir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu verða að vera til öflug samtök sem bera hag þess fyrir brjósti. Það er nauðsynlegt að Bændasamtök Íslands geti nú sem hingað til, sinnt hlutverki sínu og fengið til þess sama svigrúm og önnur hagsmunasamtök.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband