Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Landbúnaður í frjálsu flæði ESB

Í haust þegar bankarnir hrundu, krónan féll og erlendir gjaldmiðlar voru illfáanlegir sannfærðust þeir síðustu um mikilvægi íslensks landbúnaðar. Eitt að því mikilvægasta við sjálfstæði þjóðar er að geta brauðfætt sig.

Við, Íslendingar erum heppinn að því leiti að eiga öflugan sjávarútveg og öflugan landbúnað. Matvælaiðnað og framleiðendur með vöru í fyrsta gæðaflokki heilbrigðis og hollustu.

Þessa stöðu verðum við að verja með öllum tiltækum ráðum. Matvælafrumvarp sem hefur legið fyrir Alþingi síðastliðin þing er gallað og ver ekki hagsmuni þjóðarinnar, hagsmuni landbúnaðarins sem skyldi. Í gær rann út frestur til að skila inn athugasemdum við matvælafrumvarpið og veit ég að þær verða töluverðar. Ég tel mjög nauðsynlegt að þingið gefi sér góðan tíma til að fara yfir þessar athugasemdir og taka mið af þeim rökum sem þar eru sett fram og eiga að verja íslenskan landbúnað. Þrýstingur frá aðildarríkjum Evrópusambandsins á ekki að hafa þau áhrif að við köstum til hendinni og samþykkjum frumvarp sem betur má fara með frekari yfirlegu.

Evrópusambandsumræða og hugsanleg aðildarumsókn verður að hafa í öndvegi hagsmuni landbúnaðarins, matvælaframleiðslu og matvælaöryggi í víðari skilningi en við  höfum áður hugsað. Þar liggja okkar hagsmunir sem þjóðar. Við megum ekki ógna því öryggi sem felst í að vera sjálfbjarga.

Rekstrarumhverfi bænda er eins og annarra fyrirtækja í landinu ógnað af galinni peningamarkaðsstefnu sem hefur leitt af sér okurvexti og óðaverðbólgu. Það er mikilvægast fyrir bændur eins og önnur fyrirtæki landsins að stuðla með almennum aðgerðum að því að rekstrarumhverfið verði eðlilegt.

Lækkum vexti, styrkjum gengið og komum hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik.  


Á morgun er síðasti dagur til að póstleggja atkvæði sitt

Til að lýðræðislegt val verði við röðun okkar framsóknarmanna á listann hér í Suðurkjördæmi er nauðsynlegt að góð þátttaka náist í póstkosningunni. Póstkosning er spennandi leið en jafnframt mjög lýðræðisleg þar sem hver félagsmaður fær atkvæðaseðilinn sendan heim og getur gefið sér tíma og ráðrúm til að kjósa. Sá böggull fylgir þó skammrifi að það þarf að muna eftir að póstleggja atkvæðið.

Á morgun, 4. mars er síðasti dagur til að fara með atkvæðið í póst. Atkvæði verða svo talin á laugardag en úrslit ekki kunngerð fyrr en á kjördæmisþinginu á sunnudaginn 8. mars.

Ég vona að allir sem fengu atkvæði í hendurnar nýti vel kosningarétt sinn og muni eftir að póstleggja atkvæðið - eigi síðar en á morgun. 


Kynningarfundir

 

Í undirbúningi póstkosningarinnar fór ég yfirferð um kjördæmið,  hitti fólk og kynnti mér staði og aðstæður sem ég þekkti minna en nánasta umhverfi. Suðurkjördæmi er víðáttumikið, frá Reykjanesi austur fyrir Höfn.

Það er gaman að ferðast um landið og hitta nýtt fólk, eignast nýja vini og hlusta á hugmyndir fólks, áhyggjur og framtíðarvonir.

Á sex dögum hef ég farið  tvisvar sinnum á Suðurnesin, tvisvar ekið austur um allar sveitir, austur á Höfn og farið til Vestmannaeyja. Auk þess að fara um sveitir og þéttbýlisstaði Árnes- og Rangárvallasýslna.

Á þessum ferðum hef ég hitt fjölda fólks og hlustað á það og kynnt mig.

Það er í senn áhugavert og nauðsynlegt fyrir nýja frambjóðendur að fara um hitta fólk og hlusta.

Skipulagðir framboðsfundir hafa nú þegar farið fram í Reykjanesbæ, Borg í Grímsnesi, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjabæ. Í dag eru fundir í Vík í Mýrdal kl 16.00 og á Hvolsvelli í kvöld kl 20.30. Annað kvöld er svo síðasti fundurinn í Grindavík. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband