Erlend fjárfesting og auðlindir

Umræða um fjárfestingar ekki síst erlenda fjárfestingu hefur verið alveg "GaGa" síðustu misserin. Þar spilar vitneskja okkar um loftbólufjárfestingar innlendra "auðmanna" fyrir hrun stóran sess - en einnig tortryggni í garðs hvers og eins sem virðist eiga peninga eftir hrun.

Ríkisstjórnin og stefna hennar eiga líka stóran hlut í hversu vitleysisleg umræðan er - öfgafyllt og upphrópanagjörn. Svo talar hver ráðherrann eftir öðrum út og suður, norður og niður - engin samstaða, engin sameiginleg framtíðarsýn.

Hver skilur t.a.m, í orðum forsætisráðherra sem núna segir að við eigum að fagna erlendri fjárfestingu varðandi kaup kínverska auðmannsins á landi - varanleg kaup á auðlind um "alla eilífð". Sami forsætisráðherra sagði þegar kanadískur auðmaður keypti tímabundinn afnot  af orkuauðlind ( að vísu 65 ár en tímabundin afnot samt) að skoða þyrfti þjóðnýtingu og eignaupptöku til að koma í veg fyrir kaup Kanadamannsins á nýtingarrétti.

Umræðan um HS-orku var auðvitað enn sérkennilegri vegna þess að það virtist skipta máli hvort kaupandinn væri af EES svæðinu eður ei. Sbr. sænska skúffu fyrirtækið. - Hefði ekki verið skynsamlegra hjá okkur að setja í lög og reglur að fyrirtækið yrði að vera íslenskt þ.e.a.s. hinn erlendi aðili yrði þá að stofna fyrirtæki á Íslandi - og regluverkið þannig úr garði gert að hægt væri að skattleggja auðlindarentuna hérlendis.

Eins ætti að gilda um allar aðrar auðlindir - hvort sem það væri vatn, orka, land eða hver önnur auðlind. Við eigum að fagna fjárfestingum -ekki síst erlendum fjárfestingum - en vera búinn að tryggja áður að auðlindarentan haldist í landinu.

Tökum sem dæmi um kaup á jörðum. Er það í lagi að fjársterkir aðilar kaupi land - girði af og setji upp skilti - Einkaland-óviðkomandi bannaður aðgangur - þetta hefur því miður verið lenska alltof margra innlendra aðila sem eignast hafa jarðarskika á liðnum áratugum. Og þannig lokað hefðbundnum reiðleiðum svo dæmi sé tekið. Svissneskur auðmaður kaupir víðfeðma jörð og svo aðra við hliðina og lokar aðgengi að veiði, göngu- og reiðleiðum.

Víða um land er þetta aðalvandinn - að sá sem kaupir er ekki skikkaður til að hafa búsetu (eigin eða ráðsmann). Hann er ekki skikkaður til að viðhalda landbúnaðarlandi, eða hafa einhverja starfsemi -  í besta falli logar eitt útiljós á vetrum. Með þessum hætti tryggjum við ekki búsetu, né eflum landsbyggðina. Víða í nágrannalöndum okkar (Noregi, Danmörku og víðar) eru reglur sem reyna að tryggja/skylda búsetu þar sem það á við. Einnig eru reglur um að ekki megi taka gott landbúnaðarland úr landbúnaðarnýtingu/matvælaframleiðslu. Við höfum engar slíkar reglur né matskerfi hvar slíkar reglur eigi við og hvar ekki. Það vantar í skipulags- og jarðalög.

Ég fagna erlendri fjárfestingu - erlend fjárfesting er líklegust í auðlindum okkar - þó ýmislegt fleira hljóti að vera fýsilegir fjárfestingakostir eins og þjónusta við ferðamenn, framleiðsla ýmiskonar matvæla/iðnaðar osfr osfr - en kannski allt ein eða önnur birtingamynd auðlindanýtingar.

Við eigum ekki að hræðast slíkt og má þá einu gilda hvort um sé að ræða ESB aðila t.d Dani eða Þjóðverja, EES aðila eins og Norðmenn eða Svisslendinga - eða jafnvel Kanadamenn eða Kínverja. Aðalatriðið er að við séum búin að setja okkur reglur um auðlindarentu og hvernig hún haldist í íslenska hagkerfinu. Áætlanir um hvað við teljum vera skynsamlegt og jákvætt fyrir samfélagið og gegnsætt framkvæmdaplan hvernig við ætlum að fylgja því eftir.

Ef land í eigu erlendra aðila er innan við 1% af heildar landstærð Íslands- er það þá í lagi? hvað með 10% eða 25%. Eða nýtingarréttur í orku, vatni, fiskveiðum. Hversu langur á hann að vera 10-20-30ár eða lengri í einstaka tilfellum. Mín skoðun er að það verði að vera mismunandi eftir því um hvernig auðlind sé að ræða og hver fjárfestingin/fjárbindingin er. Einnig verðum við að flokka land eftir landgæðum og hvernig sé - fyrirfram- best að nýta það.

Tökum nú málefnalega umræðu - en forðumst öfgar og upphrópanir - þannig er líklegra að við komumst að skynsamlegri niðurstöðu.


mbl.is Á að selja Grímsstaði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband