Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Erlend fjárfesting og auðlindir

Umræða um fjárfestingar ekki síst erlenda fjárfestingu hefur verið alveg "GaGa" síðustu misserin. Þar spilar vitneskja okkar um loftbólufjárfestingar innlendra "auðmanna" fyrir hrun stóran sess - en einnig tortryggni í garðs hvers og eins sem virðist eiga peninga eftir hrun.

Ríkisstjórnin og stefna hennar eiga líka stóran hlut í hversu vitleysisleg umræðan er - öfgafyllt og upphrópanagjörn. Svo talar hver ráðherrann eftir öðrum út og suður, norður og niður - engin samstaða, engin sameiginleg framtíðarsýn.

Hver skilur t.a.m, í orðum forsætisráðherra sem núna segir að við eigum að fagna erlendri fjárfestingu varðandi kaup kínverska auðmannsins á landi - varanleg kaup á auðlind um "alla eilífð". Sami forsætisráðherra sagði þegar kanadískur auðmaður keypti tímabundinn afnot  af orkuauðlind ( að vísu 65 ár en tímabundin afnot samt) að skoða þyrfti þjóðnýtingu og eignaupptöku til að koma í veg fyrir kaup Kanadamannsins á nýtingarrétti.

Umræðan um HS-orku var auðvitað enn sérkennilegri vegna þess að það virtist skipta máli hvort kaupandinn væri af EES svæðinu eður ei. Sbr. sænska skúffu fyrirtækið. - Hefði ekki verið skynsamlegra hjá okkur að setja í lög og reglur að fyrirtækið yrði að vera íslenskt þ.e.a.s. hinn erlendi aðili yrði þá að stofna fyrirtæki á Íslandi - og regluverkið þannig úr garði gert að hægt væri að skattleggja auðlindarentuna hérlendis.

Eins ætti að gilda um allar aðrar auðlindir - hvort sem það væri vatn, orka, land eða hver önnur auðlind. Við eigum að fagna fjárfestingum -ekki síst erlendum fjárfestingum - en vera búinn að tryggja áður að auðlindarentan haldist í landinu.

Tökum sem dæmi um kaup á jörðum. Er það í lagi að fjársterkir aðilar kaupi land - girði af og setji upp skilti - Einkaland-óviðkomandi bannaður aðgangur - þetta hefur því miður verið lenska alltof margra innlendra aðila sem eignast hafa jarðarskika á liðnum áratugum. Og þannig lokað hefðbundnum reiðleiðum svo dæmi sé tekið. Svissneskur auðmaður kaupir víðfeðma jörð og svo aðra við hliðina og lokar aðgengi að veiði, göngu- og reiðleiðum.

Víða um land er þetta aðalvandinn - að sá sem kaupir er ekki skikkaður til að hafa búsetu (eigin eða ráðsmann). Hann er ekki skikkaður til að viðhalda landbúnaðarlandi, eða hafa einhverja starfsemi -  í besta falli logar eitt útiljós á vetrum. Með þessum hætti tryggjum við ekki búsetu, né eflum landsbyggðina. Víða í nágrannalöndum okkar (Noregi, Danmörku og víðar) eru reglur sem reyna að tryggja/skylda búsetu þar sem það á við. Einnig eru reglur um að ekki megi taka gott landbúnaðarland úr landbúnaðarnýtingu/matvælaframleiðslu. Við höfum engar slíkar reglur né matskerfi hvar slíkar reglur eigi við og hvar ekki. Það vantar í skipulags- og jarðalög.

Ég fagna erlendri fjárfestingu - erlend fjárfesting er líklegust í auðlindum okkar - þó ýmislegt fleira hljóti að vera fýsilegir fjárfestingakostir eins og þjónusta við ferðamenn, framleiðsla ýmiskonar matvæla/iðnaðar osfr osfr - en kannski allt ein eða önnur birtingamynd auðlindanýtingar.

Við eigum ekki að hræðast slíkt og má þá einu gilda hvort um sé að ræða ESB aðila t.d Dani eða Þjóðverja, EES aðila eins og Norðmenn eða Svisslendinga - eða jafnvel Kanadamenn eða Kínverja. Aðalatriðið er að við séum búin að setja okkur reglur um auðlindarentu og hvernig hún haldist í íslenska hagkerfinu. Áætlanir um hvað við teljum vera skynsamlegt og jákvætt fyrir samfélagið og gegnsætt framkvæmdaplan hvernig við ætlum að fylgja því eftir.

Ef land í eigu erlendra aðila er innan við 1% af heildar landstærð Íslands- er það þá í lagi? hvað með 10% eða 25%. Eða nýtingarréttur í orku, vatni, fiskveiðum. Hversu langur á hann að vera 10-20-30ár eða lengri í einstaka tilfellum. Mín skoðun er að það verði að vera mismunandi eftir því um hvernig auðlind sé að ræða og hver fjárfestingin/fjárbindingin er. Einnig verðum við að flokka land eftir landgæðum og hvernig sé - fyrirfram- best að nýta það.

Tökum nú málefnalega umræðu - en forðumst öfgar og upphrópanir - þannig er líklegra að við komumst að skynsamlegri niðurstöðu.


mbl.is Á að selja Grímsstaði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er frjálslyndastur?

Birti hér grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag um Hákot og frjálslyndi:

Upp á síðkastið hefur mörgum orðið tíðrætt um frjálslyndi – hverjir séu það og hverjir ekki. Ýmsir hafa haldið því fram að þeir séu frjálslyndir en „hinir“, þ.e.a.s. þeir sem ekki aðhyllast sömu skoðun og þeir „frjálslyndu“, séu þar af leiðandi öfgafullir og afturhaldssamir, jafnvel ofstopafullir þjóðernissinnar. Það sérkennilegasta við þessa nýjustu „pissukeppni“ í frjálslyndi er að mælikvarði þeirra sem telja sig hafa einkarétt á frjálslyndinu virðist vera áhugi þeirra á að Ísland gerist aðili að tolla- og viðskiptabandalagi Evrópuþjóða – ESB.

Margt er ólíkt meðal Evrópuþjóða eftir því hvort þær liggja norðan, sunnan eða í eystrihluta álfunnar. Þetta á við um menningu, atvinnu og auðlindir svo nokkrir hlutir séu nefndir. Ísland, eyjan norður í Atlantshafi víðsfjarri landamærum annarra Evrópuþjóða, er enn frábrugðnari mörgum ef ekki flestum þessara ríkja hvað þessa sömu hluti varðar. Við erum t.a.m. ákaflega rík af auðlindum, atvinnuþátttaka önnur og meiri en víðast annarsstaðar og þær atvinnugreinar sem við byggjum afkomu okkar á gjörólíkar ESB-löndum en mun líkari löndum Vestur-Norðurlanda (Færeyjum og Grænlandi auk Íslands) og Noregs.


Frjálslynd umræða um atvinnuvegina?
En hvernig er umræðu um okkar mikilvægu atvinnugreinar háttað? Er umfjöllunin frjálslynd? Áform ríkisstjórnarflokkanna um að bylta sjávarútveginum virðast ýta allri skynsemi og frjálslyndi til hliðar. Eru það ekki öfgar, jafnvel ofstopi, þegar þingmenn og ráðherrar VG og Samfylkingar lýsa því yfir að þrátt fyrir skýrslur hagfræðinga, umsagnir lánastofnana, endurskoðenda, hagsmunaaðila greinarinnar og sveitarfélaga, sem allir gagnrýna harðlega framkomið frumvarp og benda á að verði frumvarpið að lögum stórskaði það efnahagslíf landsins, þrátt fyrir allt þetta ætli ríkisstjórnin að breyta kerfinu með þessum hætti. Rök stjórnarliða eru „okkar“ er valdið, þetta stendur í stjórnarsáttmálanum. Það sé fleira til en hagfræði og ekki verði hlustað á grátkórinn!
Umræða um virkjanir og verndun náttúrunnar hefur á liðnum árum verið með endemum. Full af ofstopa og upphrópunum. Rammaáætlunin um vernd og nýtingu átti að leysa þá umræðu úr fjötrum öfganna. En var það skynsamlegt af iðnaðarráðherra að breyta niðurstöðu faghópa um röðun virkjanakosta án upplýstrar frjálslyndrar umræðu? Umhverfisráðherra hefur verið dæmdur í Hæstarétti fyrir að brjóta landslög til að koma öfgastefnu sinni fram og skýrt afstöðu sína með þeim orðum að „hún sé í pólitík“. Stefna ríkisstjórnar VG og Samfylkingar í orkumálum mun seint teljast frjálslynd.
Í sumar hefur verið hamast á íslenskum landbúnaði og hann sakaður um margt. Meðal annars hafa þeir sem telja sig frjálslynda talið nauðsynlegt að opna öll landamæri og flytja sem mest af matvælum inn til landsins. Í mínum bókum heitir það frjálshyggja að trúa á markaðinn og hann einn eigi að ráða. Ef lægsta heimsmarkaðsverð er lægra en innlend matvælaframleiðsla á samkvæmt frjálshyggjufræðunum að flytja þau inn. En hvað með fæðuöryggi þjóðar, dýravernd, umhverfisvernd, „slow food“ stefnuna? Er það ekki málefnaleg umræða í anda frjálslyndis að taka alla þessa þætti með í dæmið – en ekki bara markaðsvæðingu frjálshyggjunnar? Að ekki sé minnst á hve skynsamlegt það er að efla innlenda matvælaframleiðslu, fjölga störfum og spara gjaldeyri. Staðreyndir tala sínu máli. Innlend matvæli hafa hækkað um 8-35% á meðan innflutt matvæli hafa hækkað um 50-150% á sama tímabili. Við framleiðum innanlands u.þ.b. 50% af þeim matvælum sem við neytum. Öll samanburðarlönd okkar telja að það sé of lítið til að tryggja fæðuöryggi þjóða.
Það virðist bæði skynsamlegt og í anda frjálslyndis að nýta auðlindir til lands og sjávar á hagkvæman og skynsamlegan hátt.
Það er stórt orð Hákot og því skynsamlegast að fara varlega með yfirlýsingar um hver sé frjálslyndastur.

Sjónarspil á þingi - sérkennileg forgangsröðun.

Birti hér grein sem birtist fyrst í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag 12.ág.  - Hún fjallar um hvernig forgangsröðun verkefna er hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum.

Sjónarspil á þingi – sérkennileg forgangsröðun

  

Á fyrsta nefndafundi Alþingis eftir sumarfrí var það val ríkisstjórnarflokkanna að kalla saman þrjár nefndir utanríkismálanefnd, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og umhverfisnefnd. Málefnið var fundur í Alþjóðahvalveiðiráðinu sem haldinn var fyrr í sumar.

Á þeim fundi urðu engar breytingar á stefnu Íslands – embættismenn þjóðarinnar unnu sína vinnu faglega og vel. Stóðu á rétti okkar til veiða og unnu að því að gera vinnu Alþjóðahvalveiðiráðsins marktæka og skynsama.

Þessum vinnubrögðum fannst - formönnum utanríkismálanefndar og umhverfisnefndar – greinilega ekki nægjusamlega vel af verki staðið og töldu forgangsmál að fara yfir málið með þessum þremur nefndum.

 

Nú er það svo að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með málefni hvalveiða. Á þeim ráðherrastóli situr einn þingmaður VG - samflokksmaður formanns utanríkismálanefndar. Þeir mega vera ósammála um þetta eins og annað. Það er einnig þannig að ekkert athugavert er að kalla saman nefndir til að fjalla um mikilvæg mál – og nauðsynlegt að upplýsa þingmenn um stöðuna.

 

Stóra spurningin er þessi; er þetta það mál sem hefur hæstan forgangskvóta hjá formanni utanríkismálanefndar og ríkisstjórn VG og Samfylkingar.

Í því sambandi vil ég minna á beiðni undirritaðs og einnig beiðni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknar frá því fyrr í sumar- að kalla saman utanríkismálanefnd ásamt sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að fjalla um viðræður við ESB.

Ekki síst í ljósi þess ástands sem er á evrunni og fjármálamörkuðum í Evrópu og vestanhafs.

En einnig vegna sérkennilegra yfirlýsinga utanríkisráðherra um að Ísland þurfi engar undanþágur í sjávarútvegsmálum og að utanríkisráðherra einn geti mótað samningsskilyrði Íslands. Jafnframt ástæður þess að samningahópar um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál funda ekki með reglulegum hætti og ástæður þess að utanríkisráðherra hefur ekki haft samráð við hagsmunasamtök, alþingismenn o.fl. eins og kveðið var á um þegar sótt var um aðild. 

Væri ekki mikilvægara að fjalla á opnum fundi um ESB viðræðurnar. Þar eru þó breyttar aðstæður sbr efnahagshrun landa Suður-Evrópu. En einnig vegna þess að þar virðist ráðherra utanríkismála fara frjálslega með samþykktir Alþingis og stefnu.

 

En – nei að mati formanns utanríkismálanefndar og þeirra sem stýra för hjá ríkisstjórn VG og Samfylkingar var það efst í forgangsröð að fjalla um fund sem haldinn var fyrir mánuði um hvalveiðar.

-          Hér liggur eitthvað undir steini! Skyldi það vera fiskur? Eða eitthvað annað – evt ESB?


Ekki meir - ekki meir

 

Í sumar hef ég hitt fjöldann allan af fólki um land allt. Suma kunningja, vini, flokksystkin en líka ókunnugt fólk sem gefur sig á tal við mann. Allir segja sömu sögu. Nú er nóg komið af úrræðaleysi ríkisstjórnar VG og Samfylkingar. Nú er nóg komið af öfgapólitík, óskynsemi og tómlæti gagnvart uppbyggingu atvinnulífs. Ríkisstjórnin hefur fengið tvö ár til að lækka skuldir ríkissjóðs, koma atvinnulífinu í gang og auka hagvöxt. Það hefur mistekist. Nú í upphafi umræðu um fjárlög næsta árs - virðast þau vera úrræðalaus. Hugmyndir þeirra virðast vera aðeins þær að boðið verður upp á meira af því sem ekki hefur virkað hingað til. – Nákvæmlega það sem fólkið í landinu segir við; ekki meir –ekki meir!!

 

Leiðin til uppbyggingar er ekki að skera endalaust niður og hækka skatta á almenning og fyrirtæki. Leiðin er að skapa raunveruleg verðmæti. Styrkja atvinnulífið og stækka kökuna. Þar eru möguleikar okkar miklir. Ég hef margoft bent á tækifæri í matvælaframleiðslu eins og aukið sjávarfang (nokkrir milljarðar) stóraukning í fiskeldi eða að auka það í 50 þús tonn ( allt að 30 milljarðar) aukinn útflutningur á sauðfjárafurðum og mjólkurafurðum ( sauðfjárafurðir skiluðu tæp 3 milljörðum á síðasta ári). Aðrir möguleikar tengdir eru loðdýrarækt (hægt að auka útflutningstekjur um 10-15 milljarða) aukinn korn- og repjurækt sem myndi skila milljarðasparnaði í gjaldeyri.

Þá eru ótalinn fjölmörg tækifæri tengd orkuöflun og orkunýtingu. Þá hefur þekkingariðnaðurinn blómstrað síðustu ár og er nú í stakk búinn að keppa á heimsvísu á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins.

 

Við Framsóknarmenn lögðum fram ítarlegar tillögur í atvinnumálum á vorþingi sem vert væri að taka til gaumgæfulegrar skoðunar og finna leiðir til að hrinda í framkvæmd. Umtalsverðir fjármunir eru til innanlands til að fjármagna mörg þessara verkefna.

Það er rétt að minna á að áður höfum við Framsóknarmenn lagt fram tillögur sem voru hundsaðar af ríkisstjórnarflokkunum (feb 2009) – en eftirá verið viðurkenndar að hafa verið þær einu réttu sbr 20 % leiðin um almenna skuldaleiðréttingu og tillögur í efnahagsmálum sem Seðlabankinn hefur nú 2-2 ½ ári síðar verið að hrinda í framkvæmd.

 

Leiðin fram á við er aukinn atvinna – aukinn hagvöxtur – auknar útflutningstekjur. Með slíkri stefnu mun fólk sjá fram á að komast út úr vítahring - öfgastefnu VG og ESB kratavæðingu Samfylkingar. Fólk þarf von og trú á framtíðina. Tækifærin eru næg á Íslandi. Það þarf hinsvegar stefnubreytingu, vilja og skynsama framtíðarsýn til að nýta þau tækifæri.

 

Því verður ekki trúað að ríkisstjórnin ætli að höggva enn í sama knérunn heimila og hækka virðisaukaskatt á matvæli. Það er einfaldlega vítahringur sem ríkisstjórnin virðist ekki skilja að þegar skattar eru hækkaðir á almenning þá fær fólk færri krónur í ráðstöfunartekjur upp úr launaumslaginu, þá getur það eytt færri krónum í verslunum og þjónustu, sem gerir fyrirtækjum erfiðara fyrir.

 

Hafa menn ekkert lært af hækkun eldsneytisskatta, áfengisgjalda – aukinna álaga sem hafa því einu skilað að það eru minni umsvif m.a í ferðaþjónustunni og starfsemin færist undir borðið. Þar fyrir utan færast hærri neysluskattar inn í verðlag og hækka verðtryggðar skuldir heimilanna, sem aftur leiðir til lægri ráðstöfunartekna o.s.frv. Ríkisstjórnin hefur læst íslenskt efnahagslíf inni í þessum vítahring. Úr þeim vítahring verður að brjótast. Ríkisstjórn VG og Samfylkingar hafa reynt sín meðul – þau ganga ekki - við þurfum plan B.

 

 

 


mbl.is „Engin áform um matarskatt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband