Betra seint en aldrei
1.12.2010 | 14:19
Vaxtastigið í landinu er að nálgast það sem það hefði þurft að vera fyrir allaveganna 18 mánuðum. Sá doði sem ríkir í samfélaginu er að stórum hluta að kenna rangri vaxtapólitíkur Seðlabankans. - Þó ekki ætli ég að gera lítið úr öðrum þáttum eins og skuldsetningu fyrirtækja og heimila og - vangetu fjármálakerfisins og stjórnvalda að leysa úr þeim vanda.
Við höfum beðið lengi efir að vaxtastigið verði eðlilegt - það er á réttri leið.
Við höfum líka beðið lengi eftir aðgerðum ríkisstjórnar í skuldaleiðréttingum - kannski gerist eitthvað.
Allaveganna má segja - að betra er seint en aldrei.
Spá 0,75 prósentustiga vaxtalækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Jákvæð frétt - arðsöm samgöngubót
30.11.2010 | 07:48
Gríðarlega mikilvæg og arðsöm samgöngubót sem lengi hefur verið beðið eftir. Allt frá miðjum síðasta áratug síðustu aldar hafa uppsveitamenn beðið morgundagsins - þolinmóðir. Þessi nýja brú mun koma til með að hafa meiri áhrif á atvinnulíf, menningarlíf og samfélagið allt heldur en menn hafa almennt gert ráð fyrir í spám sínum. Möguleikar á allskyns samstarfi sveitarfélaga, atvinnufyrirtækja og félagasamtaka taka stökkbreytingu fram á við. En ekki síst verður breytingin mikil fyrr ferðaþjónustuna og ferðamenn almennt.
Til hamingju landsmenn allir með þennan áfanga á samgöngubótum.
Leiðin styttist um 26 km | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar?
26.11.2010 | 09:06
Leitað hefur verið lengi að atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Hún er nú fundin - þar fer forsætisráðherra Samfylkingar fremst en ráðherrar VG skammt að baki.
"Eitthvað annað" stefnan er þá - opinberar nefndir!! Hagvöxtur - aukin framleiðni landsins - það bíður seinni tíma - og annarrar ríkisstjórnar. Það er ekki á verkefna-samstarfsskrá ríkisstjórnar VG og Samfylkingar.
Það er verulegt áhyggju efni að hagvaxtarspáin hefur lækkað um 35% frá í vor - eða úr 3.2% niður í 2%.
´Sérkennilegast er þó að spáin byggist aðallega á aukinni einkaneyslu. Það er lántökum heimila og aukinni neyslu þeirra . . . . . vorum við ekki búin að prófa það . . . . . það gekk ekki.
Valkosturinn sem ríkisstjórnin vill ekki en ýmsir hafa bent á (Framsóknarmenn, Lilja Mósesdóttir ofl) er að leiðrétta skuldir heimila, minni niðurskurð m.a. á heilbrigðisstofnunum - og síðan síðast en alls ekki síst að gera allt til að koma atvinnulífinu í gang með arðbærum verkefnum sem skila raunverulegum auknum tekjum til þjóðarbúsins bæði sem útflutningstekjum og sköttum.
Hafa skipað 150 nefndir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Atvinnuleysi hærra en tölur sýna
17.11.2010 | 10:24
Á það hefur verið bent að nú hafi þó nokkur hópur dottið út af skrá vegna langtímaatvinnuleysis ( meir en 3 ár). Jafnframt að milli 6000-7000 þúsund manns hafi flutt erlendis. Þá er ótalin sá hópur sem vinnur erlendis í skorpum en býr hér enn.
Bendi einnig á grein sem birtist í MBL . í gær um hættuna tengda langtímaatvinnuleysi og skorti á raunverulegum úrræðum fyrir skuldsett heimili. - greinin fer hér á eftir -
Að læra af reynslu annarraÁ fyrstu mánuðum 2009 voru skrifaðar margar lærðar greinar og haldnar ráðstefnur um afleiðingar hrunsins á ýmsa þætti samfélagsins. Þar kom m.a. fram að við gætum lært af Finnum hvernig þeir tóku á bankahruninu hjá sér í upphafi 10. áratugs síðustu aldar. Einnig var fjallað um reynslu Færeyinga af þeirra kreppu á miðjum tíunda áratugnum.
En hvernig hefur okkur gengið nú 24 mánuðum eftir bankahrunið. Lærðum við af reynslu nágranna okkar og vina?
Reynsla FinnaBent hefur verið á að Finnar tóku seint á afleiðingum hrunsins. Harður niðurskurður m.a. á heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu fyrstu árin varð til þess að stór hópur ungs fólks datt út úr skólakerfinu, varð atvinnulaus og lenti á glapstigum. Velferðarkerfið laskaðist, atvinnuleysi jókst sífellt og niðurskurðar þörfin varð æ meiri sem sagt vítahringur. Þegar Finnar uppgötvuðu að leiðin út úr kreppunni væri fjárfesting í atvinnulífinu m.a. í þekkingariðnaði til að auka hagvöxt og stækka hagkerfið höfðu þeir tapað dýrmætum tíma sem hafði þau áhrif að stór hluti heillar kynslóðar datt út úr menntakerfinu og varð langtíma atvinnulaus með tilheyrandi félagslegum vandamálum.
Höfum við lært að reynslu Finna? Því miður verður svarið nei. Nú tveimur árum eftir hrun erum við í mesta niðurskurði á velferðarkerfinu samkvæmt efnahagsáætlun áætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrirsjóðsins. Atvinnu uppbyggingin bíður vegna stefnuleysis ríkisstjórnar og hagvextinum seinkar. Með öðrum orðum sami vítahringurinn og Finnar lentu í.
Reynsla FæreyingaAlvarlegasta afleiðingin af bankakreppunni í Færeyjum var stórfelldur fólksflótti ungs fólks. Talið var að um einn þriðji kynslóðarinnar 25-40 ára hafi flutt úr landi og lítill hluti þeirra hefur snúið aftur nú fimmtán árum eftir hrun. Þó tókst Færeyingum ótrúlega vel að snúa mjög djúpri kreppu við á undraskjótum tíma m.a með stóraukinni nýtingu sjávarauðlindarinnar. Hér á landi hefur komið í ljós að kynslóðin 25-40 ára er sú skuldsettasta og á í mestum erfiðleikum með að ná endum saman. Jafnframt er þetta sú kynslóð sem hefur mesta möguleika á að starfa erlendis m.a. vegna góðrar menntunar. Nauðsynleg skuldaleiðrétting á lánunum þeirra er hundsuð af ríkisvaldinu, bönkum og lífeyrissjóðum. Talið er að milli sex og sjö þúsund manns séu flutt úr landi en þar fyrir utan er þó nokkur hópur sem sækir vinnu erlendis en býr hér enn. Þó nokkrir úr þessum hópi hafa tjáð sig að undanförnu um að þeir sjái ekki hvernig þeir eigi að klífa skuldavegginn og eru að gefast upp á Íslandi. Spurningin er því hrópandi, erum við á sömu leið og Færeyingar?
TilraunaglasiðÁ það hefur verið bent m.a í bíómynd sem sýnd hefur verið vestanhafs að undanförnu að Ísland sé eins og tilraunastofa í hagfræði vegna smæðar sinnar. Jafnframt að okkar bankahrun sé örmynd af því Bandaríska og því áhugavert fyrir þá hvernig okkur gangi í endurreisninni. Obama stjórnin dældi fjármagni út í samfélagið á síðasta ári - u.m.þ. 3% af landsframleiðslu margir hagfræðingar hrósuðu framkvæmdinni en töldu ekki nógu langt gengið, meira þyrfti til að koma atvinnulífinu og neyslunni í gang. Nokkrir mikilsvirtir hagfræðingar eins og J. Stieglitz og N. Rubini hafa haldið því fram að afskrifa þyrfti skuldir heimila og ganga rösklegar til verks. Ellegar væri hætta á að vítahringur samdráttar minni neyslu meira atvinnuleysis myndi dýpka.
Hvað er til ráðaVið þurfum að snúa spíralnum við - leysa upp vítahringinn. Í stað þess að stefna á samdrátt, niðurskurð og skattahækkanir- eins og ríkisstjórn VG og Samfylkingar stefnir á - ættum við að gera allt sem við getum til að auka atvinnu og þar með neysluna. Við eigum að nýta auðlindir okkar jafnt orku, lands- og sjávargæði en ekki síst mannauðinn, þekkinguna. Við eigum að stefna á að á Íslandi sé fjölbreytt atvinnulíf sem byggi á sérstöðu landsins, menningu og krafti fólksins. Verkefni ríkisvaldsins er að skapa aðstæður til að örva atvinnulífið, efla nýsköpun og stuðla að erlendri fjárfestingu.
Við eigum að hafa kjark til að fara erfiðar en réttlátar og skynsamar leiðir í skuldaleiðréttingu. Þar getur vilji bankamanna ekki ráðið stefnunni.
Við höfum enn tíma en hann fer minnkandi . Tökum af skarið nú þegar og sýnum að við getum lært af reynslu annara. Tækifærin eru til staðar.
Sigurður Ingi Jóhannsson
alþingismaður Framsóknarflokks
Þúsund manns hafa misst réttindi til bóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hverju svara ráðherrarnir?
16.11.2010 | 23:10
Hverju svara ráðherrarnir?
Niðurskurðarhugmyndir ríkisstjórnar VG og Samfylkingar á sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hafa magnað upp mikla reiði íbúa á landsbyggðinni. Þrátt fyrir að þensla síðasta áratugar hafi farið meira og minna framhjá flestum svæðum landsins (kannski sem betur fer) þá sitja allir landsmenn uppi með kreppuna og afleiðingar hennar.
Íbúar landsbyggðarinnar eru eins og aðrir tilbúnir til að bera sameiginlegar byrðar af samdrætti, skattahækkunum, launaskerðingum og niðurskurði í opinberum rekstri. En íbúar landsbyggðar sætta sig ekki við að fórnað sé grunnþjónustu við íbúa á heilbrigðissviði. Þar er höggvið of nærri öryggi fjölskyldunnar, barna og aldraðra. Það gilda heldur ekki jafnræðissjónarmið í niðurskurðartillögum fjármála- og heilbrigðisráðherra. Misrétti þegnanna blasir við hvort sem talað er um fjarlægðir, samgöngur eða kostnað.
Gríðarleg mótmæli
Um allt land hefur fólk mótmælt. Haldnir hafa verið afar velsóttir íbúafundir, undirskriftalistar hafa gengið manna á milli í einstökum héruðum sem margir hafa skrifað undir til að mótmæla aðförinni að heilbrigðisstofnun heimahéraðs. Á Suðurlandi skrifuðu þannig allt að tíu þúsund manns af 19 þúsund kosningabærra manna á svæðinu og mótmæltu þannig fyrirhuguðum niðurskurði. Á fimmtudaginn komu hundruð manna frá Suðurlandi og víðar af landinu saman á Austurvelli til svokallaðrar meðmælastöðu til að sýna hug sinn í verki. Annars vegar til að fylgja eftir afhendingu undirskriftalista tugþúsunda íbúa af öllu landinu og hinsvegar til að sýna samstöðu með því frábæra heilbrigðiskerfi sem við eigum og viljum eiga áfram. Skilaboðin eru skýr íbúar landsbyggðarinnar vilja að allir landsmenn njóti grunn-heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða búsetu. Undir þetta hafa langflestir þingmenn tekið. Þingmenn úr öllum flokkum og jafnvel ráðherrar.
Ákall íbúa aflýsið hættuástandi
Viðbrögð fjármálaráðherra og að hluta til heilbrigðisráðherra hafa hinsvegar valdið vonbrigðum. Þeir hafa hingað til komið sér hjá því að svara ákalli íbúa landsbyggðar. Svör þeirra eru óskýr, í besta falli verið loðmulla um að málin verði skoðuð að nýju en óvissu íbúa og starfsfólks hefur ekki verið eytt.
Krafan er einföld, lýsið því yfir að stefnan um að leggja af sjúkrahús landsbyggðar hafi verið röng og frá henni hafi verið fallið. Í kjölfarið er sjálfsagt að setja á fót samráðshóp til að fara yfir með hvaða hætti við náum enn betri árangri í heilbrigðisþjónustunni á sem hagkvæmastan hátt. Að því borði þarf að kalla fagfólk heilbrigðisþjónustunnar hvarvetna af landinu sem og fulltrúa íbúa. Grunnþarfir íbúa á hverju svæði þarf að skilgreina og kostnað þjónustunnar á hverjum stað áður en til sértæks niðurskurðar kemur.
Hvernig er þetta hægt
Til að skapa fjárhagslegt svigrúm fyrir þessari skynsömu leið í stað leiðar ríkisstjórnar VG og Samfylkingar þarf að gera þrennt. Í fyrsta lagi virðist þurfa (þar sem AGS ræður för ríkisstjórnar) að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um vægari niðurskurð við endurskoðun efnahagsáætlunarinnar. Í öðru lagi ættum við að skattleggja strax séreignasparnaðinn og nota hluta hans til að fara skynsamlegri leið í niðurskurði útgjalda til heilbrigðismála. Í þriðja lagi þurfum við að spýta vel í lófana í atvinnumálum. Þar eru næg tækifæri sem munu á undraskjótum tíma auka hagvöxt og skila þannig fleiri krónum í ríkiskassann.
Það er leið skynseminnar án öfga vinstri eða hægri.
Skýr svör
11.11.2010 | 17:39
Gríðarleg mótmælaalda um allt land. Undirskriftarlistar allt að helmingur kjósenda á suðurlandi skrifa undir mótmæli gegn niðurskurðarstefnu ríkisstjórnar VG og Samfylkingar.
Nú vantar skýr svör frá heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra um að horfið verði frá þessari fjandsamlegu stefnu í garð landsbyggðar og skynsamari leið valin. Það dugir ekki að segja að málin verði skoðuð eða sett í nefnd.
Fyrsta skref er að lýsa yfir að niðurskurðarstefnan hafi verið röng.Næsta að hafa raunverulegt samráð við fagaðila og heimafólk um land allt. Greina grunn þarfir heilbrigðisþjónustu hvers svæðis að teknu tilliti til veðurfars og samgangna.Síðan að finna út raunverulegan kostnað per einingu í kerfinu og þá sést hvar er hagkvæmast að vinna verkin.
Að öllu þessu athuguðu er hægt að taka skynsamlegar ákvarðanir um hvar hvað verkefni skuli unnin á hagkvæmastan hátt að teknu fullu tilliti til öryggis íbúa og jafnræðis.
Við viljum að allir íbúar landsins hafi jafnan aðgang að grunn heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu - eða eru einhverjir sem vilja ójöfnuð?
Meðmæli með heilbrigðisþjónustu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Niðurskurður heilbrigðisstofnanna og samgöngur
3.11.2010 | 10:20
Steingrímsfjarðarheiði lokuð, Holtavarðarheiði lokuð, Víkurskarð lokað, ýmsir aðrir fjallvegir lítt færir eða hægfærir vegna hálku og snjóa. Hvorki hægt að sigla til Landeyjahafnar né fljúga til Eyja.
Í dag er 3. nóvember á einu albesta veðurári í langan tíma. Það eiga eftir að koma meiri veður - fleiri lokanir - í vetur.
Skildi ríkisstjórn VG og Samfylkingar enn hafa á stefnuskrá sinni að leggja niður heilbrigðisstofnanir á Landsbyggðinni?
Beðið með mokstur á Steingrímsfjarðarheiði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjárlagafrumvarp VG og Samfylkingar- Vill enginn kannast við stefnuna?
2.11.2010 | 10:46
Í grein sem ég skrifaði í Fréttablaðið og birtist um helgina fjallaði ég um aðför ríkisstjórnar VG og Samfylkingar að landsbyggðinni. Tók þar dæmi um Heilbrigðisstofnun Suðurlands en greinin á við um allar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.
Hér er slóðin á greinina;
http://visir.is/raunhaefur-nidurskurdur--eda-storfelldir-folksflutningar/article/2010192438457
og hér á eftir fer greinin óstytt;
Raunhæfur niðurskurður eða stórfelldir fólksflutningarÞær hugmyndir sem fram koma í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna sem kenna sig við vinstri velferð mælast vægast sagt illa fyrir. Fjölmörg mótmæli um land allt eru skýr skilaboð um að fólki sé misboðið það óréttlæti sem fram kemur í frumvarpinu. Allir mótmæla og senda frá sér ályktanir. Sveitarstjórnir, starfsmenn heilbrigðisstofnana, ljósmæður, læknaráð, sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar og síðast en ekki síst fólkið sem býr á landsbyggðinni. Meira að segja eru þingmenn stjórnarflokkanna á hröðu handahlaupi frá tillögum eigin ríkisstjórnar.
Það sem fram kemur í öllum ályktunum er gagnrýni á samráðleysi, þekkingarleysi á aðstæðum á hverjum stað, ótti við alvarlegar samfélagslegar breytingar og óskýr markmið um raunverulegan sparnað. Jafnframt fullyrða flestir að margar aðgerðir sem boðaðar eru muni leiða til lakari heilbrigðisþjónustu og enn ójafnari aðgangs landsmanna að sjúkrahús - og sérfræðiþjónustu.
Í heilbrigðisþjónustunni þarf að skera niður um 4,7 milljarða kr.Heilbrigðisráðuneytið forgangsraðar niðurskurðinum þannig, að hlífa skuli heilsugæslu og stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og Akureyri, ásamt Akranesi en þessi hluti heilbrigðiskerfisins tekur til sín rúmlega 90% af fjármagni til heilbrigðismála niðurskurður 1,7 milljarðar. Hinsvegar er áætlað samkvæmt frumvarpinu að skera allharkalega niður sjúkrasvið annarra heilbrigðisstofnana víðst vegar um landið eða um 3 milljarða króna. Þær stofnanir eru með innan við 10 % af heildarfjárveitingu til sjúkrahús- og sérfræðiþjónustu. Maður spyr sig hvar er jafnræðið um að allir njóti grunnþjónustu óháð efnahag og búsetu?
Hvaða þjónustu á að skera niður um 3 milljarða - eða 31-75% af starfsemi einstakra sjúkrasviða litlu sjúkrahúsana á landsbyggðinni
Tillögur heilbrigðisráðuneytis um samdrátt á sjúkrasviðum eru byggðar á því, að í hverju heilbrigðisumdæmi verði mætt þörf fyrir legurými á lyflækningadeildum. Stefna ráðuneytisins er að í hverju umdæmi verði almenn sjúkrahúsþjónusta með almennum lyflækningum og grunnheilbrigðisþjónustu, eins og lög um heilbrigðisþjónustu kveða á um. Í þeim þ.e. lögum nr. 40 frá 27.mars 2007 og reglugerð um heilbrigðisumdæmi, sem sett var í kjölfarið, er talið upp hvar á landinu skulu vera heilbrigðisstofnanir og hvaða þjónustu þær eiga að veita. Í reglugerðinni stendur að þær veiti almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu. Með almennri heilbrigðisþjónustu er átt við heilsugæslu, þjónustu og hjúkrun á hjúkrunarheimilum og hjúkrunarrýmum stofnana og almenna sjúkrahúsþjónustu.
Almenn sjúkrahúsþjónusta á litlu sjúkrahúsunum er fyrst og fremst almennar lyflækningar og hjúkrun við ýmsum bráðum sjúkdómum og nauðsynlegustu rannsóknir í því sambandi. Umönnun og endurhæfing sjúklinga eftir aðgerðir á sérhæfðu sjúkrahúsunum, hjúkrun og þjónusta við langlegu sjúklinga. Það mætti kalla þessi sjúkrahús nærþjónustu/grunnþjónustu - eða fyrsta stigs sjúkrahús (primery care hospitals- eins og Gísli G Auðunsson læknir kýs að nefna þau í mjög góðri grein sem birtist á dögunum)
Niðurskurðar hugmyndir ráðuneytisins ganga út á að lækka greiðslur fyrir legudaga. Ekki er hægt að segja að það sé gegnsætt eða að sérstakt jafnræði ríki milli heilbrigðisstofnana. Þannig er áætlaður mismunur á rúm per dag frá 38 þús til 68 þús á landsbyggð en á sérhæfðari sjúkrahúsum er kostnaðurinn ca. 150 þús. á rúm per dag á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi (LSH) t.d. eða ca.þrisvar sinnum hærri. Hvernig ná á fram sparnaði með því að flytja þessa lögboðnu grunnþjónustu til Reykjavíkur eða Akureyrar þar sem eru sérhæfð sjúkrahús (secondary care hospitals) og jafnvel háskólasjúkrahús (tertiary care hospitals) er mér hulin ráðgáta. Líklegri niðurstaða er að hún verði margfalt dýrari á hátæknisjúkrahúsunum en á litlu grunnþjónustu sjúkrahúsunum.
Glórulaus niðurskurður.Ef við tökum dæmi um hvernig niðurskurðurinn bitnar á einstaka svæðum má nefna Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu). Þar á að skera niður sjúkrasviðið um 56.5%. Afleiðingin verður i stórum dráttum sú, að mati framkvæmdastjóra HSu, að núverandi þjónusta sjúkrahússins sem almenns sjúkrahúss leggst af. LSH verður því umdæmissjúkrahús Sunnlendinga og tekur við eftirgreindri almennri sjúkrahúsþjónustu: - öllum deyjandi sjúklingum, - krabbameinssjúklingum, - öllum almennum lyflæknissjúklingum, - öllum einstaklingum sem eru vistunarmetnir og geta ekki verið heima lengur, - bæklunarsjúklingar frá LSH verða alla leguna á LSH, - öllum sjúklingum með sýkingar sem þurfa innlögn, - öllum fæðingum, -öllum heimsóknum í aðdraganda fæðingar.
Annað sem gerist er að göngu- og dagdeildarþjónusta sérfræðilækna flyst á læknastofur á höfuðborgarsvæðinu. Þjónusta sjúkrahússins sem bakhjarl fyrir heimahjúkrun og slysa- og bráðaþjónustu hverfur.
Þessi lýsing gæti átt við um hvaða heilbrigðisstofnun sem er á landsbyggðinni.
Spyrja má hvernig hyggst ráðuneytið uppfylla lög um grunnþjónustu í heimabyggð og eigin stefnu um almennar lyflækningar og grunnheilbrigðisþjónustu.
Augljóst er að sparnaður verður enginn en mikill aukakostnaður og óþægindi leggst á sjúklinga og aðstandendur þeirra. Um er að ræða stórkostlega tilfærslu á verkefnum, fólki jafnt sjúklingum og aðstandendum þeirra sem og starfsfólki í heilbrigðisgeiranum frá landsbyggð og til Reykjavíkur og evt. Akureyrar.
Samfélagslegur sparnaður enginn stóraukin útgjöld.
Ein afleiðingin verður að stórhækka þarf fjárveitingar til LSH og Sjúkratrygginga Íslands til að geta staðið undir aukinni þjónustu í Reykjavík. Þessir aðilar fá nú um 85 % af fjárveitingum til sjúkrahús- og sérfræðiþjónustu. Enn verður því aukið á misréttið milli landshluta! Hvar er jafnræði þegnanna um aðgang að grunnþjónustu óháð efnahag og búsetu? Engin sparnaðarrök mæla með því að flytja umrædda nærþjónustu til höfuðborgarsvæðisins -nú þegar hefur verið sýnt fram á, að þessir þættir eru hagkvæmar reknir af grunnþjónustu sjúkrahúsunum en LSH. Íbúar svæðanna munu þurfa að ferðast um langan veg með tilheyrandi kostnaði. Tillögurnar eru atlaga að búsetuskilyrðum landsbyggðarfólks. Ekki síst munu aðgerðirnar koma niður á langveikum, öldruðum, öryrkjum og fötluðum. Ljóst er, að ekki verður hætt að veita skjólstæðingum þessa þjónustu, hún mun einfaldlega flytjast annað og íbúar í dreifbýli þurfa að sækja þjónustu annað en í heimahérað. Raunveruleika firringin er svo mikil að ekkert tillit virðist vera tekið til vegalengda, vetrar-veðra og færðar.
Samfélagsleg áhrif.Sjúkrahúsin eru með stærstu vinnustöðum í viðkomandi byggðarlögum. Við blasir að segja þurfi 60 70 starfsmönnum á HSU með tilheyrandi kostnaði ríkisins vegna biðlauna og atvinnuleysisbóta í kjölfarið. Á öllu landinu erum við að tala um hundruði starfa oft störf fagfólks sem erfitt er að fá út á land. Í þessari aðför ríkisstjórnar VG og Samfylkingar að grunnþjónustu íbúa landsbyggðar á að færa störf til höfuðborgarsvæðisins í ríkara mæli en nokkurn tíma hefur sést fyrr. Stórfelldir fólksflutningar sem gætu endað með að við misstum ungt menntað fólk erlendis í stórum stíl. Fyrir utan óþægindi og kostnaðarauka íbúanna mun aðförin einnig hafa þau áhrif að fólki finnst það óöruggara í sinni heimabyggð.
Stefnumótun er þörf.Gömul stefna um að færa allt til Reykjavíkur er ekki boðleg sem forsenda á krepputíma. Ekki hefur verið sýnt fram á hagræðinguna en hinsvegar er ljóst að legudagar eru bæði færri per sjúkling og mun ódýrari á landsbyggðinni. Hvernig hægt er að færa þúsundir legudaga, hundruði sjúklinga til Reykjavíkur þar sem þjónustan er mun dýrari án þess að fjölga fólki og byggja upp þar er mér hulin ráðgáta.
Í veðri hefur verið látið vaka að unnið sé samkvæmt langtíma stefnumótun stefnumótun um verulegar breytingar á heilbrigðisþjónustu við landsmenn. Stefnu um að á landinu verði tvö sjúkrahús í Reykjavík og á Akureyri. Þessi umræða hefur hvorki verið við fagfólk á landsbyggðinni né heimaaðila. Ekki hefur verið sýnt fram á heildarsparnað eða hagræðingu hvað þá að verið sé að bæta þjónustuna. Lágmark er að slík stefnumótun hefjist á að greina lágmarks grunn þarfir íbúa á hverju svæði. Slík vinna getur aldrei haft upphaf og endi á skrifborði í Reykjavík.
Ef af verður mun mikil fjárfesting í húsnæði, tækjabúnaði og þjálfun fagfólks glatast. Ekki er ljóst hvort til stendur að byggja upp þessa þjónustu aftur þegar betur árar en eðlilegt væri að hluti af svo stórfelldum niðurskurði væri að hyggja að framtíðarskipulagningu heilbrigðiskerfisins.
Á niðurskurðar og krepputímum er eðlilegt að grunnstoðir og lágmarksþarfir samfélagsins séu settar í forgang, svo sem réttur fólks til heilbrigðisþjónustu sem næst búsetu. Á krepputímum verður að forgangsraða þannig að þessar grunnstoðir séu varðar og frekar dregið úr fjármagni til ýmissa sérverkefna þar sem þau eru ekki lífsnauðsynleg fyrir þegna landsins.
Samstaða í stað sundrungarRíkisstjórnin verður að átta sig á því að leiðin að kerfisbreytingum er samráð við fagfólk og heimaaðila. Fyrir þarf að liggja raunverulegt mat á ólíkum leiðum, þær kostnaðargreindar sem og önnur áhrif á samfélag á hverjum stað.
Ef við setjumst öll yfir verkefnið og vinnum saman að lausn þess náum við árangri. Leið ríkisstjórnarinnar er ekki fær. Niðurskurður er óhjákvæmilegur en forsenda niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu er að verja grunnþjónustuna - nærþjónustuna. Lágmarksþjónusta fyrir alla óháð efnahag og búsetu. Ríkisstjórnin er ekki á þeirri leið.
Við getum aukið tekjurnar ekki með því að hækka skatta heldur koma atvinnulífinu í gang. Til dæmis mætti auka tekjur þjóðarbúsins með því að auka þorskkvóta en líka með því að hefja framkvæmdir strax við orkukrefjandi iðnað og virkjanir. Þar hefur ríkisstjórnin þvælst fyrir og seinkað framkvæmdum. Einnig ættum við að horfa til þess að skattleggja strax séreignasparnaðinn.
Minni skynsamari niðurskurður meiri tekjur það er leið sátta og samstöðu. Ef ríkisstjórnin treystir sér ekki í verkefnið á hún að fara frá og við taki einskonar þjóðstjórn sem kæmi sér saman um þau grundvallarverkefni sem bíða úrlausnar. Annað má bíða.
Sigurður Ingi Jóhannsson
alþingismaður
VG mótmælir niðurskurði ríkisstjórnarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Boðið stendur enn
5.10.2010 | 11:51
Í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra lauk ég máli mínu á þessari setningu;
- Framsóknarflokkurinn er til - ég spyr eru þingmenn annarra flokka til?
Boðið stendur enn. Spurningin er hvað Jóhanna meinti?
-birti ræðuna hér á eftir -lengri útgáfuna þ.e. uppkast óstytt.
Ræða mín frá í gærkveldi.
Ágætu landsmenn
Það er freistandi að koma hér í kvöld og gagnrýna harðlega ríkisstjórn, bankanna, framkvæmdavald löggjafarvald og dómsvald. Staðreyndin er sú að það er mjög auðvelt - næg eru tækifærin. Við höfum þraukað í gegnum - ár biðstöðunnar í lausnum á skuldamálum heimila og fyrirtækja,
- ár biðstöðunnar hvað varðar ákvarðanir um atvinnuuppbyggingu.
Það væri freistandi að benda á að við Framsóknarmenn bentum á lausnir þá þegar í feb. 2009 -fyrir 20 mánuðum um almennar leiðréttingar lána leið sem ríkisstjórnin hefur þverskallast við að hlusta á eða skoða gaumgæfilega. En sífellt fleiri sjá að var hið eina rétta og er enn.
Það væri freistandi að tala um hægagang og vandræðagang ráðherra og ríkistjórnar í atvinnumálum, Gagnaver, heilsutengdþjónusta,fyrningarhugmyndir í sjávarútvegi svo eitthvað sé nefnt. Lögbrot ráðherra - sjávarútvegsmála vegna úthafsrækju, -umhverfismála vegna skipulagsmála tengda orkunýtingu.
Allt þetta væri hefðbundin umræðuhefð hér í þingsal. Staðreyndin er sú að þetta allt getum við sett aftur fyrir okkur nú í dag. Horfum nú fram á við í ræðu hæstvirts forsætisráðherra kom fram að ríkisstjórnin telur að ýmislegt hafi verið gert og ekki ætla ég að gera lítið úr því sem gert hefur verið. . . . . en það er augljóst að ríkisstjórnin heyrir ekki þó hún segist hlusta . . . staðreyndin sem við heyrum þarna úti . er . of lítið of seint!
Því segi ég- ýtum pólitískum ágreiningi til hliðar ýtum því til hliðar hver á hvaða hugmynd ýtum til hliðar pirringnum yfir að hafa ekki nýtt tækifærin á síðustu mánuðum misserum.
Sameinumst um þær lausnir sem allir sjá að þarf að fara í
1. Í fyrsta lagi -Setjumst nú yfir með hvaða hætti við getum komið almennum aðgerðum fram í skuldamálum heimila og fyrirtækja. Til að vinna tíma þarf að stöðva strax uppboð á heimilum landsmanna. Lausnin verður að vera sáttaleið milli ólíkra hópa skuldara og milli skuldara og fjármagneigenda. Við höfum hámark 30 daga í þetta verkefni.
2. Í öðru lagi - Segjum atvinnuleysinu stríð á hendur. Við líðum ekki langtímaatvinnuleysi eða landflótta vegna atvinnuleysis. Við verðum að taka höndum saman og setja kraft í atvinnulífið. Þar verða til ný störf þar verður til hagvöxtur þar verða til þeir peningar sem ríkiskassinn þarf á að halda. Það verður ekki stoppað í fjárlagagatið með skattahækkunum og stórfelldum niðurskurði á störfum í velferðar og heilbrigðiskerfinu. - T.a.m. er lokun sjúkrahúsa á landsbyggðin aðför að grunnstoðum samfélaganna á hverjum stað. Velferðar- og heilbrigðismál eru líka atvinnumál. Við verðum fyrst og fremst að ýta undir þau fyrirtæki og þá þekkingu sem við höfum í landinu. Lykilorðið er nýting auðlinda - að sjálfsögðu á grundvelli þekkingar og sjálfbærni. Öfgar og pólitískt ofstæki hafa stöðvað marga atvinnu uppbygginguna á síðustu mánuðum. Setjumst nú yfir þau mál strax og leysum þau - við megum engan tíma missa.
3. Í þriðja lagi - Sjáum við það öll að þær hugmyndir sem fram koma í frumvarpi til fjárlaga ganga ekki upp. Forsendurnar eru rangar og tillögurnar eftir því. Við skulum hinsvegar öll viðurkenna að það er þörf á niðurskurði. En ef við sameinumst strax í að blása lífi í atvinnulífið láta þjóðarkökuna vaxa.- m.a. með lækkun stýrivaxta Seðlabanka og á brott með ofurskattastefnuna þá mun niðurskurðarþörfin verða minni. Einnig eigum við að skoða af alvöru aðrar leiðir eins og skattlagningu sérlífeyristekna.
Lykilatriðið í þessari vinnu er að fara leið skynseminnar hvorki öfga vinstri-hagfræði né hægri. Heldur leið skynseminnar um að undirstaða velferðar og skattatekna ríkissjóðs sé atvinna fyrir alla.
Næstu tvo mánuði höfum við þingheimur til að ná samstöðu með samvinnu. Verkefnið er ekki óvinnandi við höfum nýlegt fordæmi úr þingsal um að það er hægt. Sumir myndu kalla þetta Þjóðstjórn mér er sama hvað verklagið verður kallað en verkefnið býður ekki óleyst lengi.
Ef við náum saman um þessi þrjú meginatriði, þ.e. almennar aðgerðir í skuldamálum, raunverulega atvinnu-uppbyggingu og samvinnu/samstöðu um fjármálafrumvarpið munu önnur vandamál leysast auðveldar.
-Benda má á að nýju bankarnir tóku við útlánum með verulegum afskriftum hve miklum hefur enn ekki fengist staðfest en þær afskriftir voru með almennum hætti
ekki var tekið hvert lán einstaklinga/fyrirtækja og metið.
- Því má spyrja hver er sanngirnin í að hver og einn eigi að leita réttar síns af hverju gilda ekki sömu sjónarmið um almenna leiðréttingu. Þá er athyglisvert að sex mánaða uppgjör bankanna þriggja bendir til óeðlilegs mikils hagnaðar eða samtals um 27 milljarða á hálfu ári - upphæð sem heggur nærri hugmyndum sem fjármálaráðherra hæstvirtur ætlar að skera velferðina og grunnþjónustu landsbyggðar niður um.
Ef ríkisstjórnin og þingmeirihluti VG og Samfylkingar treysta sér ekki í þetta þríþætta verkefni verður hún að fara frá. Ári biðstöðunnar er lokið - Hvort sem við tekur þjóðstjórn eða eitthvað annað stjórnarform þá er verkefnið skýrt og afmarkað
atvinna atvinna atvinna
almennar aðgerðir í skuldamálum
samstöðu fjárlög
annað á að bíða.
- Framsóknarflokkurinn er til - ég spyr eru þingmenn annarra flokka til?Ekkert boð komið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hver er stefnan áfram
30.9.2010 | 15:07
í fréttinni kemur fram hve gríðarlega mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að nýta auðlindir okkar. Við verðum að halda áfram að þróa og auka þekkingu okkar á jarðvarmanum. Markmiðið hlýtur að vera að engin hús verði hituð upp af öðru en innlendum orkugjöfum. Af þeim eigum við nóg við þurfum bara að nýta þá. Við þurfum að hafa opinbera stefnu þess efnis ekki bara í orði heldur líka á borði. Stefna núverandi ríkisstjórnar er því miður afar óljós í orði en á borði er hún skýr- stopp stopp stopp!!!
Fyrir utan jarðvarmann og vatnsaflið eru miklir möguleikar í nýtingu metans, endurnýtingar koltvísýrings frá jarðvarmavirkjunum eins og í Svartsengi eða fyrirhuguð framleiðsla á DME á Grundartanga. Einnig í ræktun á repju og framleiðslu á lífdísel og fleira mætti telja. En hver er stefnan.
Stefnan á að vera að nýta innlenda orkugjafa, auðlindir - þróa og auka þekkingu. Það er leiðin framá við.
Jarðhitinn sparaði okkur 67 milljarða í fyrra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlaumfjöllun
3.8.2010 | 11:08
Allir þekkja það þegar eitthvað sem maður þekkir vel kemst í aðalfréttir hversu oft er rangt farið með einstaka staðreyndir - staðarheiti osfr. Þetta veldur því að maður -réttilega - er aðeins á varðbergi gagnvart fréttaflutningi. Skýringin sem maður hefur fengið á þessari ónákvæmni hjá frétta- og blaðamönnum er sú að þeir þurfi að skaffa svo og svo marga dálksentímetra eða mínútur og hafa því ekki tíma til að "dobbelttjékka" staðreyndir.
Eftir að hafa sest á þing kemst maður jafnframt að því að það eru alltaf einhverjir sem eru að búa til fréttir. Það sem er helst í fréttum er eitthvað sem hentar - oftast ráðamönnum (sbr. "stráklingana" hans SJS og Magma) og einhverjir setja af stað oft til að fela/breiða yfir það sem raunverulega er fréttnæmt en er óþægilegt að hafa í umræðunni - smjörklípur .
Nú síðustu daga hefur ein helsta "frétt" RÚV verið 2 mánaða gömul. Þ.e. umfjöllun um eitt af síðustu frumvörpum fyrir þinghlé - frumvarp um sektarákvæði vegna búvörulaga og lagaumhverfi um heimasölu í mjólkurframleiðslu.
Í gær hafði samband við mið ein að fréttakonum RÚV (Anna Kristín Pálsdóttir) og átti við mig ágætt samtal sem skilaði sér í skriflegri frétt á RÚV-netmiðli sem var alveg í samræmi við samtalið. Frétta viðtalið sem birt var í sex-fréttatíma útvarps og sjöfréttum sjónvarps var auðvitað klippt og skorið og sumt mikilvægt skilið eftir - eins og gengur með svo knappt fréttaform. En ég var bara sáttur við fréttakonuna og það sem hún hafði eftir mér.
Það sama er ekki hægt að segja um fréttalesarann og margfaldan reynslubolta í fréttastjórnun Boga Ágústsson. Í svokölluðu "helsti" var rangtúlkun orða minna alger - leikrænir tilburðir lesarans og áherslur með þeim hætti - að maður spyr sig hvar er hlutleysi RÚV? - hvar er óháður fréttaflutningur RÚV? en ekki fréttatilbúningur!!
"Enga samkeppni á búvörumarkaði - eitt stórt bú" var sagt að ég hefði haft fram að færa!!"
Sannleikurinn er að samkeppnislög gilda ekki um búvörulögin. Staðreyndin er að það er opinber verðlagning á mörgum helstu nauðsynjum mjólkurvörum fjölskyldna í landinu. Í máli mínu við fréttamann RÚV kom fram að besta er að hafa blandað hagkerfi þar sem kostir samkeppni fá að njóta sín, en komið í veg fyrir gallana-græðgina sem fylgir óheftri markaðsvæðingu.
Það er í gildi samningur milli kúabænda og ríkisvaldsins um mjólkurframleiðsluna þar sem bæði koma fram réttindi og skyldur. Þau sjónarmið sem fréttalesari RÚV virðist telja rétthærri eru sjónarmið þeirra sem ætla sér réttindi en ætla ekki að standa við neinar skyldur. Sömu sjónarmið hafa nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar haft og þar komið í veg fyrir að frumvarp þetta yrði að lögum á síðastliðnum þremur árum. Síðast þegar ég taldi voru 63 þingmenn á Alþingi - lýðræði er ekki þegar 3-4 þingmenn sinna sérhagsmunum og stöðva almannahagsmuni. - Það er fréttnæmt.
Frumvarpið inniheldur jafnframt ákvæði þar sem heimilað er að vinna og selja 10-15þúsund lítra í heimasölu. - Það er fréttnæmt og nýjung.
Ef vinnslan verður stærri er ekki ósanngjarnt að slík fyrirtæki starfi með sama hætti og önnur í mjólkuriðnaði og noti til þess mjólk innan greiðslumarks. - Annað væri ójafnræði og fréttnæmt.
Hvar á að byggja?
1.7.2010 | 13:07
Á fundi sem haldinn var á Selfossi í gærkveldi að frumkvæði stéttarfélaganna á suðurlandi kom fram eindreginn stuðningur þingmanna kjördæmisins sem og fundarmanna um að uppbygging fangelsa verða áfram á Litla-Hrauni.
Málið hefur verið nógu lengi í nefndum. Árið 2008 var komin niðurstaða þess efnis að hagkvæmast væri að byggja við á Litla-Hrauni. En því miður var ekki farið í framkvæmdir.
Margir eru á biðlista til að afplána m.a fjársektir. Ef ekkert verður að gert munu þær falla niður.
Dómskerfið undirbýr sig undir stórfellda aukningu mála - m.a sakamála vegna hrunsins.
Er ekki rétt að hætta að svæfa málin í nefndum -dusta rykið á áætlunum 2008 og hefja framkvæmdir sem fyrst. Nóg er um vinnufúsar hendur.
Bygging nýs fangelsis boðin út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vandamálið í hnotskurn
16.3.2010 | 11:59
Allir vita að í október 2008 skall yfir þjóðina bankahrun með gríðarlegum afleiðingum. Fleiri og fleiri eru hinsvegar að gera sér ljóst að það sem er að gerast inní bönkunum þessar vikurnar og mánuðina er ekki minna alvarlegt. Það skjól sem ríkisstjórn gefur með afskiptaleysi sínu og afstöðu til almennra leiðréttinga gefur bönkunum tækifæri í nafni bankaleyndar að aðhafast að eigin vild. Í kjölfarið gæti átt sér stað stærsta eignatilfærsla Íslandssögunnar.
Hvaða fyrirtæki lifir og hver eru slegin af - það sama gildir um heimilin. Hver er það sem metur möguleika hvers og eins og að lokum tekur ákvörðun um endurreisn eða gjaldþrot. Hver metur afleiðingar á samkeppnisgrundvelli. Hver getur það - almennt og óháð?
Við Framsóknarmenn lögðum til í febrúar 2009 - almenna flata leiðréttingu lána. Þannig sætu allir við sama borð enda urðu allir fyrir sama forsendubrestinum hvað varðar verðbólgu og gengisfall krónunnar. Því miður var ekki hlustað nægilega vel á þessar tillögur á sínum tíma. Hvorki af stjórnvöldum né af þjóðinni.
Í dag sjá allir, að í stað þess að vera með verklagsreglur hjá hverjum banka fyrir sig - sem síðan ómögulegt er að fylgjast með hvort fylgt sé, væri betra að um afskriftirnar giltu almennar lagareglur þar sem allir sætu við sama borð.
Hluti af verklagsreglum bankanna og tilboðum þeirra (sérstaklega er varða heimilin) hafa tekið mið almennri leiðréttingu. Gallinn við þær lausnir snúa ekki síst af því er við tekur (háir vextir á ísl. lánum) En stóru vandræðin tengjast fyrirtækjunum í landinu. Þar eru upphæðirnar á stundum stjarnfræðilegar og maður hlýtur að spyrja sig hvernig er hægt að afskrifa þær skuldir um 60-90% en aldeilis útilokað (að sögn ríkisstjórnar) að leiðrétta lán heimila og minni fyrirtækja um 20-30%.!!
Hver er mismunurinn? Hver borgar afskriftir stórfyrirtækja og eignarhaldsfélaga? Er ekki sannleikurinn í hnotskurn að við þurfum stífari og skýrari lagaramma - ekki verklagsreglur eingöngu. Og almenna leiðréttingu á lánum þar sem allir sitja við sama borð.
Spyr um leikreglur við niðurfellingu skulda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það er rétt en, það er alltaf eitthvað en . .
9.3.2010 | 15:45
Endurnýjunarþróttur atvinnulífsins er mikill. Ekki síst þeir þættir atvinnulífsins sem byggja á útflutningi vöru og þjónustu. Þar vegur hrun krónunnar mest. Núverandi lágt gengi krónunnar skilar auknum tekjum í þjóðarbúið. Það sama á við um ferðaþjónustuna. Á mörgum undanförnum árum hefur verið byggt upp öflugt samfélag, þekkingar, nýsköpunar og frumkvæðis. Ofstyrking krónunnar gerði þeim öllum erfitt um vik á meðan innflutningsfyrirtæki blómstruðu.
Auðvitað verðum við að finna einhvern milliveg á gengi krónunnar þannig að kaupmáttur almennings dafni en það er afar mikilvægt að útflutnings og framleiðslu fyrirtæki okkar blómstri.
Ef Seðlabankinn og bankarnir í kjölfarið lækkuðu vexti eins og allar forsendur eru fyrir myndi allt atvinnulífið taka við sér með auknum framkvæmdum og þar með fjölgun starfa.
Ég kallaði eftir stefnu stjórnvalda í atvinnumálum við utandagskrárumræðu í þinginu í dag. Gagnrýndi aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og bauð fram stuðning okkar Framsóknarmanna við endurreisn atvinnulífsins.
ræðan kemur hér á eftir;
Staða atvinnumála utandagskrár umræða 9 mars 2010 Málshefjandi er Jón Gunnarsson við Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra.Hver er staða atvinnulífsins þegar nálgast eitt og hálft ár frá hruni. Meira en eitt ár frá því að VG og Samfylking tóku við stjórnartaumum. Hver er staðan? Jú atvinnuleysi er á níunda prósentinu - kannski verið á köflum minna en menn óttuðust -en fer vaxandi frú forseti fer vaxandi.Aðgerðaleysi stjórnvalda og seinagangur í að koma skuldsettum heimilum og fyrirtækjum til raunverulegrar aðstoðar með almennri niðurfærslu veldur því að allt er stopp. Bankarnir nota skjól sem þeir fá frá aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar til að afskrifa skuldir stórfyrirtækja og eignalausra eignarhaldsfélaga en stympast við að fara í raunverulegar almennar og gegnsæjar leiðréttingar á höfuðstól lána.Seðlabankinn hlýðir AGS og í skjóli aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar þverskallast við að lækka vexti. Vexti sem eru að sliga atvinnulífið og heimilin en eru góð búbót fyrir fjármagnseigendur sérstaklega þá sem sitja á krónubréfunum. Margar góðar tillögur hafa komið fram á síðastliðnum 12 mánuðum til að leysa þennan vanda en nei ríkisstjórnin velur aðgerðaleysið.
Ósamkomulag VG og Samfylkingar um stefnu í atvinnumálum veldur m.a. því að umhverfisráðherra kemst upp með að túlka skipulagslög á nýjan hátt með ófyrirséðum afleiðingum og teygja umsagnar fresti út yfir öll velsæmismörk afleiðingin er stöðvun allra framkvæmda sem innhalda virkjanir eða stóriðju.
Stöðugleika sáttmálinn er í uppnámi SA hafa lýst því margsinnis yfir og núna síðast vegna fyrirhugaðra ætlana ríkisstjórnarinnar með stórfelldum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu svokölluðu skötuselsfrumvarpi sem ríkisstjórnin fyrirhugar á næstu dögum að taka fyrir 3.umræði í þinginu.ASI og önnur launþega samtök auglýsa grimmt þessa daganna að þau krefjist að framkvæmdir verði boðnar út hið fyrsta.Niðurstaða þessarar upptalningar af stöðu atvinnulífsins er hvergi tæmandi því miður hér mætti fjalla um samgönguverkefni sem lofað hafi verið að færu í gang aftur og aftur eins og Suðurlandsvegur en ekkert gerist . Það mætti nefna Búðarháls 3% af verkinu fara sennilega e-n tíma á árinu af stað -700 milljónir af ca 20 milljörðum. ofl ofl mætti nefna.Þrátt fyrir góð orð og vonandi raunverulegan vilja gengur ríkisstjórninni afleitlega að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Það gengur ekki lengur nú verða allir að taka saman höndum eins og okkur er að takast í ICESAVE málinu finna samstöðu grundvöllinn og fara að framkvæma. Framsóknarflokkurinn er til.
-Framtíðin er í höndum okkar sjálfra.
Gríðarlegur endurnýjunarþróttur í atvinnulífinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það er ekki von á góðu . . .
5.3.2010 | 10:39
Skrítin var þessi yfirlýsing efnahags- og viðskiptaráðherra - (það hefur reyndar margt sérkennilegt frá honum komið m.a. um skuldug heimili og aðgerðaleysi/afskiptaleysi gagnvart bönkunum)-
Nokkrar staðreyndir; Núverandi samningur sem við erum að fara að kjósa um á morgun er með vaxtakostnað uppá 100 milljónir á dag!!!!. Og sá neikvæði viðskiptareikningur byrjaði að tikka inná 1. janúar 2009!!!. Sem sagt nú þegar 429 dagarX100 milljónir = 42,9 milljarðar!!!
Jón Daníelsson sagði í grein í Mbl ca 20 jan. að miðað við 85-90% endurheimtur úr Landsbankaeignunum og núverandi gengi yrði Icesave skuldin 507 milljarðarþar af 387 vegna vaxtanna eingöngu og 120 til að greiða það sem vantaði uppá höfuðstól. En auðvitað er óvissa um endurheimtur, gengi, hagvöxt osfr.
Ef við með mikilli samstöðu þjóðarinnar í að nýta sér rétt sinn - mætum vel á kjörstað á morgun og segjum nei eru miklar líkur á að núverandi samninganefnd með Lee Buchheit í forsvari nái viðunandi árangri.
Hvað efnahags og viðskiptaráðherra segir þá er það mér hulin ráðgáta eins og svo margt sem frá ríkisstjórninni kemur í þessu máli. Það er ekki nema von að illagangi í endurreisninni ef það telst dýrara að halda uppi afbragðs vörnum fyrir íslenskum hagsmunum, hæfri samninganefnd en að taka á sig ( að ósekju ) rúmmlega 500 milljarða skuld einkabanka - fjárglæframanna!!!
Samningarnir geta reynst dýrari en Icesave-skuldin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nú er mælirinn fullur
10.2.2010 | 12:27
Hvar eru úrlausnir ríkisvaldsins á skuldavanda heimila og fyrirtækja? Hvar er stefnan í atvinnuuppbyggingu og endurreisn? Nú þarf ríkisstjórnin að hætta að tala um hvað gera þurfi og fara að framkvæma.
Atvinnulífið er stopp. Á ársafmæli ríkisstjórnarinnar er ekkert að gerast í atvinnumálum. Engar framkvæmir farnar af stað. Bara talað um að bjóða út örfá verkefni þannig að framkvæmdir geti farið af stað eftir 6-8 mánuði. Talað um áhuga ýmissa en lítið um efndir eða framkvæmdir. Lítið um raunverulegar tillögur, en mikið mas, seinagangur og stefnuleysi.
Umhverfisráðherra fer þar fremst í flokki. Skemmst er að minnast ákvarðanna hennar um SV-línur á Reykjanesi - í haust óvænt synjun eftir margra mánaða seinkun og stopp í ráðuneytinu. Síðan, þremur mánuðum síðar, er ákvörðun Skipulagsstofnunar staðfest. Árangurinn - margra mánaða stopp í framkvæmdum. Óvissa í langan tíma um hvort af framkvæmdum yrði.
Og nú, eftir að hafa haft aðalskipulög Skeiða-og Gnúpverjahrepps og Flóahrepps í annarsvegar 14 mánuði og hinsvegar 11 mánuði, kemur svarið. Og það er nei af því að orðið virkjun kemur við sögu. Séu til þess rök að synja staðfestingunni hefði átt að duga 4-8 vikur til umfjöllunar, en ekki 14 mánuðir!!! Þá hefðu sveitarfélögin getað tekið til óspilltra málanna að vinna nýjar tillögur svo framkvæmdagleði einstaklinga og fyrirtækja séu ekki settar skorður. En nei, enn er ríkisstjórnin uppiskroppa með stefnu, - enn ríkir ákvarðanafælni og stefnuleysi í atvinnumálum.
Á meðan líður atvinnulífið fyrir þetta verkleysi. Atvinnuleysi vex, óvissan um hvenær hjólin margfrægu fari að snúast. Hvenær hefst vinna við Búðarhálsvirkjun? Af hverju er ekki búið fyrir löngu að bjóða út þau samgönguverkefni sem á að fara í á árinu? Hvar er viljinn til verka?
Atvinnulífið og fólkið í landinu getur ekki beðið lengur.
Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 4. febrúar sl.
Stefnuleysi ríkisvalds
3.2.2010 | 12:17
Enn heggur ríkisstjórnin í sama knérum. Enn er stefnuleysi, seinagangur og áhugaleysi á markvissri atvinnuuppbyggingu. Ákvörðun umhverfisráðherra um synjun á staðfestingu aðalskipulaga Flóahrepps og Skeiða-og Gnúpverjahrepps er dæmi um enn ein neikvæð skilaboð til atvinnulífsins um stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. Á meðan fjölgar fólki á atvinnuleysisskrá og sú von um að brátt horfi til betri tíðar minnkar.
Að það taki 14 mánuði fyrir ráðherra að komast að niðurstöðu er a.m.k. óskiljanlegur seinagangur, en í versta falli atlaga að atvinnuuppbyggingu og endurreisn atvinnulífs. Úrskurðurinn er illskiljanlegur, í tilfelli Flóahrepps var búið að greiða úr þeim vandamálum sem töldust tengjast greiðslum Landsvirkjunar samt vísar ráðherrann til þess í úrskurðinum. Engin efnisleg málsmeðferð en dylgjur um að greiðslur Landsvirkjunar hafi haft áhrif á sveitarstjórnarmenn.
Þrátt fyrir að í frumvarpi að nýjum skipulagslögum sé einmitt ákvæði sem geri sveitarfélögum kleyft að innheimta kostnað vegna áforma einkaaðila, landeigenda eða framkvæmdaraðila. Og þannig tryggja í lögum það sem allir hafa séð að er nauðsynlegt þá notar ráðherra skort á skýru lagaákvæði núverandi laga til að synja staðfestingarinnar.
Er það þar með vilji ráðherrans að almenningur af skattfé sínu greiði allan kostnað við skipulagsvinnu vegna hugmynda einkaaðila? Jafnvel af framkvæmdum sem skila engum tekjum í samfélagssjóði. Það væri merkileg yfirlýsing af hálfu ráðherrans. Ráðherrann er með þessum úrskurði sínum að höggva nærri sjálfsákvörðunarvaldi sveitarfélaga í skipulagsmálum.
Eða er það henti stefna ráðherrans að í þessu máli (sem snýst um virkjanir) sé best að hugsa hvorki til framtíðar, atvinnumála né taka tillit til fordæma.
Afleiðingin er að það hægir á endurreisn atvinnulífsins. Gjaldþrotum fyrirtækja mun fjölga. Atvinnuleysi mun vaxa. Mikil er ábyrgð umhverfisráðherra.
Lengi viðgengist að hagsmunaaðilar kosti skipulagsbreytingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.2.2010 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hér liggja okkar hagsmunir
28.12.2009 | 10:58
Síðastliðið sumar átti ég þess kost að heimsækja Grönnedal á Grænlandi vegna þema ráðstefnu Vest-Norræna- Ráðsins. (VNR er samstarf Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga). Henrik Kudsk aðmírál bauð uppá að nota aðstöðuna í Grönnedal og notaði tækifærið til að flytja fyrirlestur um siglingar við Grænland.
Hans meginmál var að opna augu okkar allra fyrir því að siglingaleiðir norðvestan Grænlands og eins um Íshaf -norðaustur siglingaleiðin - væru að opnast. Möguleikarnir væru ótal margir sem liggja í því m.a. að þjónusta þau skip. En ekki síður væru ýmislegar hættur og verkefni sem þyrfti að leysa. Aukin mengunarhætta vegna sjóslysa (t.d. olíuskip), veruleg hætta á miklum mannskaða vegna siglinga stórra skemmtiferðaskipa upp með austur strönd Grænlands í ókönnuðum sjó - eins og fram kemur í frétt Politíken. Slys sem gætu, ef illa færi, verið á skala Titanic-slysins eða stærri.
Í máli aðmírálsins kom fram að helsti samstarfsaðili "Grönlands kommando" eða sjóhers danska hersins í Grænlandi væri íslenska Landhelgisgæslan.
Hér liggja okkar hagsmunir - bæði að auka eftirlit með sjóferðum en einnig að stórauka samstarf við aðra hagsmuna aðila á þessu svæði eins og Grænlendinga og Færeyinga (Dani) og Norðmenn. Við ættum að hafa frumkvæði að stofnun sameiginlegs öryggis- og björgunarliðs sem hefði höfuðstöðvar hér á Íslandi.
Framtíðar hagsmunir þjóðarinnar liggja í að nýta og vernda auðlindir á og við Ísland. Það gerum við best í samstarfi við þjóðir og lönd sem hafa sameiginlega hagsmuni og skilning á slíkum málum. Það eru löndin við Norður- Atlantshaf en ekki löndin í mið- eða suður Evrópu.
Óttast stórslys við Grænland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enn um Icesave - siðferðisleg rök - og gamansögur
10.12.2009 | 16:27
Margt hefur verið sagt og skrifað um Icesave svo það er nú eiginlega í bakkafullan lækinn að bera. Ætla nú samt að nefna tvennt. Þeir sem telja að við eigum að samþykkja þetta óláns frumvarp ríkistjórnarinnar með sínum göllum og hættum hafa margir hverjir (reyndar hafa alltof fáir stjórnarþingmenn reynt að rökstyðja stuðninginn) farið út á þann hála ís að telja það siðferðilega skyldu okkar. Þeir sem reynt hafa rökfræðina hafa nefnt að ríkisstjórnin haustið 2008 hafi samþykkt þetta og þess vegna sé ekki aftur snúið. Eða að saklaust fólk hafi lagt sparifé sitt inná Icesave í góðri trú. Ekki ætla ég að andæva þessu þó svo auðvitað megi benda á að þeir sem elta hæstu vexti séu að taka áhættu. Væntanlega áhættu um að tapa peningum.
Staðreyndin er auðvitað sú, að það er lagalegur vafi hvort um ríkisábyrgð hafi verið að ræða, svo það hlýtur að vera öllum augljóst að þegar um slíkt réttlæti/óréttlæti sé að ræða geti ekki leikið lagalegur vafi á greiðsluskyldu. Varðandi þá siðfræði hvort ríkisstjórn haustið 2008 -við mjög erfiðar aðstæður - geti bundið hendur okkar þingmanna haustið 2009 þegar við erum að meta hvort Ísland verði fyrir gjaldfalli/greiðsluþroti við að samþykkja frumvarp. Þá verð ég að segja að siðferðileg skylda okkar hlýtur alltaf að vera fyrst og fremst við þjóðina og landið. En ekki við að standa við einhver minnisblöð sem fyrrum forráðamenn þjóðarinnar gerðu í ofstopa stormi þar sem hinn kapatalistíski heimur hélt að nú væri komið að Ragnarökum.
Ein rök stuðningsmanna Icesave-samningsins eru þau að sennilega komumst við í gegnum þetta þrátt fyrir að súrt sé að greiða óreiðuskuldir annarra. Upphæðin sé ekki hærri en svo - og þá gefa menn sér eitt og annað um hagstærðir næstu 5-10-20 árin bæði á Íslandi og í Bretlandi, eins og gengi krónunnar, skil á eignum Landsbankans, hagvöxt, gjaldeyrishagnað viðskipta osfr. - Segjum nú svo að allt fari á besta veg, vaxtagreiðslan (100 milljónir á dag í allaveganna 7 ár!!! reyndar bítur í!) verði eins lágir og hægt sé og skilin eins há og hugsast getur þannig að við greiðum bara 200-250 milljarða - og getum þá verið þjóð meðal þjóða í alþjóðasamfélaginu. Eru þetta ekki rök með því að við eigum að greiða?? Nei segi ég, það getur verið að getum staðið slíkt af okkur við allra bestu skilyrði. En jafngildir það því að við eigum að greiða? - engin lagalegur vafi eða annars konar efi. Hvað ef upphæðin hefði upphaflega verið 7000 milljarðar en ekki 700 milljarðar sem Icesave skuldin virtist vera upphaflega.
Þá segja allir nei þá er það augljóst að við getum ekki greitt og eigum ekki. Er ekki rétt að geta snúið rökfræðinni við. Fyrst og fremst þarf að liggja fyrir hvort engin vafi leiki á greiðsluskyldu og síðan hver greiðslan/skuldbindingin er. Þá fyrst getum við þingmenn tekið ákvörðun um hvort þetta hörmulega Icesave klúður/frumvarp eigi að fara í gegnum þingið.
Svo aðeins sé endað á léttum nótum þá var bloggskrifari á frábærum tónleikum í gærkveldi á Selfossi - Hátíð í bæ - . Þar kom meðal annarra fram stórsnillingurinn Egill Ólafsson. Í einni kynningu sinni milli laga sagi hann frá því að 1463 hefði bresk skonnorta ráðist á skip frá Íslandi sem hefði m.a. haft umborð skatttekjur Íslendinga síðastliðin 7 ár og hirt þær. Tillaga meistara Egils var að nú myndum við innheimta þær og jafna á móti Icesave.
Atvinnumál - stöðugleiki - ósamstíg ríkisstjórn
9.10.2009 | 12:34
Skrifari hefur verið heldur latur við að skrifa inná síðuna uppá síðkastið. Erill sumarþingsins hefur án efa haft eitthvað um það að segja. Hvað um það, nú er hugmyndin að hefja aftur skriftir og hvað er betra en að birta ræðu mína við stefnuræðu-umræðu forsætisráðherra síðastliðið mánudagskvöld.
Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar Nú þegar eitt ár er liðið frá hruni bankanna er athyglisvert að skoða árangur okkar í að verjast fallinu. Margt hefur verið vel gert en einnig afar margt misfarist. Áhugavert er jafnframt að skoða hvernig þetta gat gerst og hverjir eru ábyrgir. Smátt og smátt kemst skikk á það ferli með rannsóknanefndum, sérstökum saksóknurum og síðar væntanlega dómstólum. Allt er þetta nauðsynlegt og má hvorki spara atgervi né fjármagn til að tryggja að réttlætið nái fram að ganga. Án réttlætis verður hvorki friður né sátt í íslensku samfélagi. En þrátt fyrir nauðsyn þess að leggja ríka rækt við þessa tvo þætti er þó mikilvægast nú að horfa framá við. Hvernig rísum við úr öskustónni? Hvernig samfélag ætlum við að skapa? Af reynslu annarra þjóða ættum við að hafa lært að forðast langtímaatvinnuleysi og harðan niðurskurð þá lexíu virðist hvorki ríkisstjórnin né Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa lært því miður. Í stað þess að skera niður og miðstýra allri þjónustu frá einum stað ættum við að setja okkur langtímamarkmið. Það markmið að samhliða nauðsynlegum niðurskurði í opinberum rekstri næstu 3-5 ár færum við verkefnin - þjónustuna til fólksins um land allt. Í stað þess að einblína á niðurskurð og samdrátt ættum við að horfa á umbreytingu og tækifæri í að bæta grunnþjónustuna með minni tilkostnaði. Í stað háskattastefnu ríkisstjórnarinnar eigum við að laga skattkerfið að tvennu;- annarsvegar réttlátara samfélagi og hinsvegar samkeppnisfæru samfélagi sem byggir upp atvinnu. Þannig munum við koma neyslunni aftur í gang. Þannig sköpum við störf handa öllum vinnufúsum höndum.. Sú leið er best fallin til að tryggja stöðugleika hjá heimilum og fyrirtækjum og slá þar með raunverulega skjaldborg um það mikilverðasta í samfélaginu - fólkið og heimilin. Við eigum ótal sóknarfæri. Fá lönd í heiminum geyma eins margar öflugar auðlindir og Ísland. Þar er mannauðurinn mikilvægastur. Þekking og frumkvæði eiga að verða okkar aðalsmerki ungrar og velmenntaðrar þjóðar. Samtakamáttur þjóðarinnar er mikill þegar þörf er á. Þjóðin hefur margoft áður sýnt hvers hún er megnug ef samvinna og samstaða næst með henni allri. Þá eru náttúruauðlindir okkar svo fjölbreyttar og öflugar að furðu má sæta að við skulum vera í þeirri stöðu sem raun ber vitni. Nýting lands og sjávar til matvælaframleiðslu bæði til innanlandsneyslu og eins öflugasta matarútflutnings sem þekkist - sparar bæði gjaldeyri og aflar. Það er sérkennileg ríkisstjórn sem með vanhugsuðum hætti og yfirlýsingum um skyndilegar breytingar á starfsumhverfi grundvallaratvinnuveganna vegur að stöðugleika og framþróun í stað þess að styðja við bakið á þeim greinum sem munu verða meginstólpar í endurreisn íslensks efnahagslífs. Við höfum á síðustu árum tekið stórstíg skref í nýtingu orkuauðlindanna. Þar erum við í fararbroddi ríkja í að nýta endurnýjanlega orkugjafa til margvíslegra nota. Við þurfum og munum ná samstöðu þjóðarinnar um þessa mikilvægu atvinnugrein. Öfgar hvort sem er í nýtingu eða vernd eiga ekki við. Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkuauðlinda er m.a. tæki til þess. Orð forseta við þingsetningu og eins orð dr. Pachauris formanns vísindanefndar Sameinuðu Þjóðanna um loftlagsmál styðja það, að orðspor okkar í þessum geira er gott og mun betra en stundum hefur verið sett fram í átakaumræðu innanlands á síðustu árum.Sú atlaga að atvinnugreininni sem ósamstíg ríkisstjórn veldur - þar sem ríkisvaldið bregður sífellt fæti fyrir uppbyggingu í þessum geira er óskiljanleg. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar á að viðhalda háu atvinnuleysisstigi og stefna fólki úti í vonleysi langtímaatvinnuleysis er mikil.. Góðir landsmenn við verðum að nýta auðlindir okkar það má öllum vera augljóst. Sá ágæti maður og einn fremsti hagfræðingur samtímans Jósep Stieglitz benti einmitt á nauðsyn þess í heimsókn sinni hingað til lands á dögunum. - þar erum við framsóknarmenn samstíga fræðimanninum og höfum alltaf talað fyrir margvíslegri nýtingu auðlinda lands og sjávar með sjálfbærni- og verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið að leiðarljósi. En nýting náttúruauðlinda snýst ekki aðeins um álver eins og skilja mætti af orðræðu síðustu ára og átökum. Margvísleg önnur störf vaxa upp úr þekkingariðnaðinum og þjónustu við orku og virkjanageirann.Við þurfum að taka forystu í því sem oft er kallaður græni iðnaðurinn eða græni geirinn. Þar eigum við ótal möguleika og spennandi fyrirtæki sem bíða eftir að fá eðlilega athygli. Ferðaþjónustan sem hefur dafnað og vaxið hratt á síðustu árum nýtir sér einmitt náttúruna sem auðlind á margvíslegan hátt. Fjölbreytt nýting auðlinda hefur á undanförnum árum fært okkur fjölmörg ný störf um land allt og aflað gríðarlegs gjaldeyris. Margar aðrar atvinnugreinar og samfélagsþætti mætti nefna sem verða undirstöður endurreisnarinnar. Aukinn menntun ekki síst starfsmenntun er ein þeirra. Góðir íslendingar með samstöðu og samvinnu náum við langt. Réttlátara og sanngjarnara samfélag hlýtur að vera markmið okkar. Með því að snúa bökum saman gegn ytri ógnunum og samtakamætti í að nýta möguleika okkar til atvinnusköpunar munum við ná settu marki. -Framsóknarflokkurinn er tilbúinn hér eftir sem hingað til að leggja öllum góðum málum lið.Við þurfum að sækja fram með von um bjartara og betra samfélag að leiðarljósi. Hófsemi og skynsemi eiga að verða ein kjörorð hins nýja samfélags okkar. Réttlæti og samstaða önnur. Þá mun okkur vegna vel. Góðar stundir.