Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þingvellir

Í fyrirspurn minni á Alþingi, í kjölfar brunans, til forsætisráðherra um framtíðaruppbyggingaráform fengust fá svör. Staðreyndin er sú að aðeins í stuttri forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar var leitað til heimamanna, fagaðila ferðaþjónustunnar og annarra hagsmunaaðila um hugmyndir að uppbyggingu. Í annan tíma virðast forsætisráðherrar og Þingvallanefndir hvers tíma lítinn áhuga hafa haft á samstarfi við þessa aðila.
Þingvallanefnd og stjórnsýslan
Ég hef lengi haft þá skoðun að það þurfi að breyta stjórnsýslu þjóðgarðsins. Það væri miklu eðlilegra að Þingvallanefnd væri skipuð í bland heimafólki, sveitarstjórn svæðisins, hagsmunaaðilum ásamt fulltrúum frá Alþingi. Í heimsókn sem við oddvitar og sveitarstjórar uppsveita Árnessýslu fórum til Skotlands fyrir nokkrum árum heimsóttum við þjóðgarð Skota, Loch Lomond and the Trossachs National Park, einmitt í þeim tilgangi að kynnast stjórnsýslu þjóðgarðsins og því hvernig er að hafa þjóðgarð innanborðs í sveitarfélagi eða sveitarfélögum. Starfsemi og stjórnskipan þar var verulega frábrugðin þeirri sem við þekkjum frá Þingvöllum. Og gætum við lært þar margt af Skotum.
Í starfi mínu sem oddviti samráðsvettvangs sveitarstjórna uppsveita á Suðurlandi og einnig sem formaður skipulags- og byggingarnefndar sama svæðis, og þar með Þingvalla, hef ég kynnst náið hvernig stjórnsýslan og uppbyggingin hefur verið um langt skeið. Við þá kynningu hefur mér orðið ljóst að Þingvellir eigi að vera opnari íslenskum almenningi án þess að skerða þurfi kröfur um náttúru- eða menningarverðmætavernd. Einnig megi önnur starfsemi í og í kringum þjóðgarðinn vera meiri án þess að sess Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO sé ógnað.

Uppbygging samkvæmt vilja þjóðarinnar

Það væri áhugavert að fá fram vilja þjóðarinnar um hvaða uppbyggingu menn vilja sjá. Til þess þarf opinbera umræðu. Sú skoðun er algeng að þar sem við séum svo illa stödd fjárhagslega um þessar mundir þýði ekkert að huga að enduruppbyggingu. Að mínu viti ættum við einmitt nú að hugsa fram í tímann. Það er akkúrat núna sem við sem þjóð eigum að horfa fram á við. Hvað er meira viðeigandi en hefja hugann upp yfir núverandi efnahagsmótlæti, kúganir stórþjóða, Icesave-samninga og ESB-aðildarumsóknir. Eru ekki Þingvellir staðurinn til að sameina hugi þjóðarinnar? ,,Tengdu oss að einu verki" eins og stórskáldið Einar Ben. orti í kvæði sínu, Til fánans. Við þurfum á því að halda að vera bjartsýn á framtíð þjóðarinnar, þrátt fyrir allt. Við þurfum á ný, á að halda eldmóði gömlu aldamótakynslóðarinnar til að blása baráttuvilja og þrótti í brjóst okkar.

Setjum nú hugmyndasmíðina af stað. Hefjum orðræðu, því orð eru til alls fyrst. Það kostar ekkert.


Styrking krónunar og Icesave

Allt frá myndun minnihlutastjórnar VG og Samfylkingar hefur því verið haldið fram að á næstunni sé tímabil styrkingar krónunnar.

Fyrst var talið nauðsynlegt að skipta um seðlabankastjóra og yfir stjórn peningastefnu bankans. Mikið gekk á en MARKMIÐIÐ var göfugt að koma á styrkingarferli krónunnar. Allt gekk eftir nema þetta með styrkinguna - (krónan hefur reyndar fallið um 20% síðan skipt var um yfirstjórn!!)-

Næst var okkur talið trú um að nauðsynlegt væri að sækja um aðild að ESB og ekki einasta að sækja um heldur yrði að gera það strax. Senda hin mikilvægu skilaboð út í heim svo að krónan styrktist. Mikið gekk á, þingmenn VG voru sumir múlbundnir aðrir þvingaðir til að leggja þessu mikilvæga máli Samfylkingarinnar lið. Valtað var yfir önnur sjónarmið - gjá var búin til milli þeirra sem vildu fara í aðildarviðræður og hinna sem vildu fara sér hægar og óttast að aðildarviðræður leiði til aðildar með þeim hörmulegu afleiðingum sem ganga munu yfir einstakar atvinnugreinar að þeirra mati. Trúnaðarbrestur varð í ríkisstjórninni. En það átti að vera í lagi þar sem MARKMIÐIÐ er göfugt þ.e. að styrkja krónuna. Nú er liðin mánuður frá samþykkt aðildarviðræðna á Alþingi. Hvað gerðist með krónuna? Hún hefur veikst áfram??!!

Nú er okkur talið trú um, af Samfylkingunni og einstaka þingmanni VG með fjármálaráðherra í broddi fylkingar, að nauðsynlegt sé að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave samninginn. Versta samning sem alþjóðlegir sérfræðingar í samningagerð milli þjóða hafa séð. Samningurinn er þess eðlis að þjóðin getur ekki staðið undir skuldbindingum hans. Samningurinn er nauðungasamningur þar sem Bretland og Holland (ESB - lönd) hafa þvingað fram með stuðningi annarra ESB- landa (og Noregs).  Við skulum kyssa á vönd kvalara okkar( Hvað sagði utanríkisráðherra Össur fyrr í vetur?!) Allt vegna þess að MARKMIÐIÐ er göfugt - að styrkja krónuna.

Hver trúir því að gengi krónunnar styrkist við að taka á sig skuldbindingar sem við getum ekki staðið við. Hver trúir því að lánshæfismat landsins hækki við að taka lán á lán ofan og bæta síðan við ríkisábyrgð með opnum tékka. Hver er trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar í að styrkja krónuna þegar fortíðin er rifjuð upp?

Því fyrr sem við erum tilbúin að horfast í augu við raunveruleikann, því betra. Við megum ekki né getum samþykkt ríkisábyrgð á Icesave samninginn óbreyttan. ESB - umsókn mun ekki færa okkur neinar töfralausnir. Evran er ekki á leið til landsins (og mundum við vilja hana með núverandi gengi?) Við þurfum nýja peningastefnu. Við þurfum framtíðarsýn og leiðsögn sem byggist á því sem við eigum. Mannauð og auðlindir til lands og sjávar. Við vinnum okkur út úr vandanum og þá mun krónan styrkjast.

 


mbl.is Gengi krónunnar skýrir vaxtaákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave

Icesave-samningurinn  verður alltaf verri og verri því meir sem upplýsist. Það virðist líka vera ríkisstjórninni fyrirmunað að leggja öll spilin á borðið. 

Við vitum að staðan er óréttlát. Við vitum að það er ágreiningur um hvort við eigum að borga og að sá ágreiningur hefur ekki verið upplýstur/viðurkenndur að fullu. Það gerir málið ekki sanngjarnara eða réttlátara. Við vitum hinsvegar ekki hve mikið við þurfum að greiða. Né heldur hvort við getum greitt. Það er ekki til mat á greiðsluþoli né greiðslugetu. Það gerir málið ekki betra. Einstaka greinar samningsins eru þess eðlis að það virðist vera sem við afsölum okkur öllum rétti til varnar en veðsetjum allar eignir. Á meðan ekki liggur fyrir túlkun samningsaðila okkar þ.e. Breta og Hollendinga á þessum ákvæðum er erfitt - nei útilokað að samþykkja samning þennan.

Birti hér fyrir neðan ræðu mína við 1. umræðu um Icesave og ríkisábyrgð.

Virðulegi forseti

 

Við stöndum hér frammi fyrir einu því stærsta og alvarlegasta máli sem við sem þjóð höfum staðið frammi fyrir á öðru tímabili íslenskt lýðveldis. – á fyrsta tímabili hins íslenska lýðveldis- á þjóðveldistímanum - stóðu menn oft frammi fyrir stórum málum jafnvel stærri og leystu þau.

-Engu að síður töpuðum við sjálfstæði okkar um margar aldir. Það getur auðvitað gerst aftur.

 

Þrátt fyrir alla pólitík, ágreining um undirbúning, aðdraganda og upphaf máls – snýst Icesave kannski fyrst og fremst um tvennt.  Annarsvegar réttlæti og hinsvegar greiðslubyrði og gjaldþol íslensku þjóðarinnar.

 

Frú forseti – réttlætiskrafan snýr annarsvegar að þeim sem sannanlega áttu mestan þátt í að koma okkur sem þjóð svona illa. Þar má ekkert undanskilja- það verður að rannsaka alla þætti bæði aðkomu stjórnvalda og eftirlitsaðila en ekki síst að rannsaka gerðir þeirra sem ákvarðanirnar tóku. Ef þar kemur eitthvað misjafnt fram  verður að vísa öllum slíkum málum til sérstaks saksóknara  og enda mál fyrir dómstólum ( í því sambandi vil ég fagna því frumvarpi sem hæstvirtur dómsmálaráðherra lagði fram hér fyrr í dag) – Það verður ekki friður í hjörtum okkar íslendinga fyrr en að réttlætið hefur gengið fram í þessum málum.

 

Hin réttlætiskrafan snýr að lögmæti þess hvort að við eigum að greiða þessa skuld óreiðumanna. Það er óásættanlegt að aldrei hafi verið á það reynt með raunverulegum hætti hvort lagalega leiðin , dómstóla leiðin hafi verið fær. Evrópsk tilskipun er gölluð. Það veit franski seðlabankinn og er þess vegna með ákvæði þess efnis að við bankahrun gildi ekki þessa tiltekna tilskipun. Íslenskir sem erlendir lagasérfræðingar hafa lýst því sama yfir. - Í huga mínum er því augljóst að það er ekki réttlæti að við rúmlega 300 þús. manna þjóð eigum ein að standa undir þeim evrópska galla.

 

Varðandi greiðslubyrði og gjaldþol þjóðarinnar hefur sífellt sígið á ógæfuhliðina.  Í haust og vetur áætlaði AGS að skuldir þjóðarbúsins væru allt að 160 % af landsframleiðslu og mættu ekki aukast. Á fundi í gær sem við framsóknarmenn áttum við AGS-sjóðinn kom fram að skuldirnar væri miklu meiri en þó eitthvað lægri en 250-300% svo notuð séu orð landstjóra AGS á Íslandi.

Við það bætist - að á engum tíma hvort sem við samningsgerðina eða í undirbúningi þess var ríkistjórnin búin að leggja fram greiðsluáætlun um getu þjóðarbúsins næstu 15 árin. Við vitum sem sagt ekki enn hvert greiðsluþolið er. Um þetta hefur margt verið sagt hér í umræðunni frú forseti og litlu við að bæta.

 

Niðurstaðan og sannleikurinn er sá að óvissan er of mikil, réttlætiskennd okkar er misboðið. Við sem eigum hér að taka ákvörðun um hvort við eigum að skuldbinda þjóðina í nútíð og verulega langri framtíð verðum að hafa betri framtíðarsýn. Samningurinn er ekki aðgengilegur eins og hann lítur út nú.  Erfiðleikar þjóðarinnar eru miklir. Erfiðleikar eru hinsvegar til að sigrast á þeim . það verðum við að gera saman - öll þjóðin. Þessi samningur er ekki studdur af þjóðinni vegna þess að hann er óréttlátur og óvissan um greiðsluþol og greiðslugetu er of mikil.

 

Því skora ég á þingheim allan að setjast yfirmálið að nýju- sameiginlega og skoða hvernig við komumst út   úr þessum vanda. Það getur vel verið að réttast sé –eins og gert hefur verið áður að viðurkenna pólitíska ábyrgð samhliða því að halda til haga lagalegum rétti okkar. – Og semja að nýju vegna þess forsendubrest sem kominn er fram. Þannig náum við vopnum okkar að nýju  þannig náum við allri þjóðinni með  - í réttlátari og sanngjarnari vegferð –út úr Icesave klúðrinu.

 


Stund milli stríða

Það er góð hvíld frá fundasetu Alþingis að fara út í góða veðrið og vinna þakklátt verk, bæði fyrir menn og málleysingja.

Hef þó frekar verið í vinnuslopp en jakkafötum. Hins vegar gefst stundum ekki tími til að skipta um föt - sérstaklega í neyð...

Enn Blesi braggaðist og hélt ferðalagi sínu áfram um sunnlenskar grundir á góðviðrisdegi.


Vandræðagangur

Fyrir nokkrum mánuðum sagði fjármálaráðherra Steingrímur Joð. fjálglega frá því að að samningamaður hans í Icesave deilunni Svavar Gestsson væri að ná glæsilegum árangri í viðræðunum. Smátt og smátt hefur hann og forsætisráðherra þurft að éta ofan í sig hverja yfirlýsinguna á fætur annarri um samninginn. Sennilega er sannleikurinn sá að þetta er versti og afdrifaríkasti samningur sem íslensk þjóð hefur þurft að standa frammi fyrir. Ég trúi ekki enn að þingmenn VG ætli að staðfesta hann á þinginu. Samfylkingarþingmönnum er hinsvegar trúandi fyrir flestu svo fremi að stefna þeirra um að Ísland komist í fyrirheitna sambandið - ESB gangi upp.

Nú er rætt um stöðugleika sáttmála. Samning sem er bæði nauðsynlegur og góður til að byggja hér upp samstöðu og sóknarfæri fyrir þjóðarbúið. Ríkistjórnin hefur látið líta svo út lengi, að hún sé alltaf alveg við það að ná öllum saman, ná niðurstöðu. Sennilegur sannleikur er það hinsvegar að þarna sitja allir jafn ósáttir. Þvingaðir inn af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og verkefnið er að láta íslenska þjóð finna fyrir niðurskurði, skattahækkunum. Þannig að út á við í alþjóðasamfélagið líti út fyrir að þjóðin finni til. (sem hún sannanlega gerir). Og inná við sé upplifunin að allir séu í sama bát.

Þetta er þekkt sálfræðiaðferð AGS en hefur ekkert með framtakssemi ríkisstjórnarinnar að gera. Enda er sami vandræðagangurinn á þessi máli sem öðrum. Verkefnið er erfitt eins og ríkisstjórnin þrástagast á - svo erfitt og vandasamt að ríkistjórnarflokkarnir ráða ekki við það einir. Hér þarf þjóðstjórn og samstöðu allra um að fara skynsamlegar leiðir fyrir fólkið í landinu. Fyrir Ísland.


mbl.is Undirritað ef sátt næst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi eykst - neysla dregst saman

Ríkistjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er nú búin að vera við völd nærri fimm mánuði. Í minnihlutastjórninni fram að kosningum lofuðu flokkarnir ýmsu m.a. að vinna áfram eftir kosningar að nauðsynlegum breytingum í landinu. Í einfeldni minni hélt ég að flokkarnir hefðu hafið undirbúning að mörgum þeirra nauðsynjamála, strax í febrúar eða mars. Svo var allaveganna látið í veðri vaka. Í aðdraganda kosninganna hélt ég að þeir vildu ekki láta sjá á spilin. Því þar væri ekki allt eins og best yrði á kosið. Raunin var önnur, engin eða lítil vinna var hafin. Hún hófst eftir að flokkarnir tóku sér tvær vikur í stjórnarmyndun!! 

Augljóst var öllum, allan tímann, að verkefnið er erfitt. Ríkistjórnin þrástagast á því en sannar með ákvarðanafælni, verkkvíða að engin vinna við endurreisn efnahagsmála hafi verið hafin. Allt dregst á langinn. Bankarnir og aðrar fjármálastofnanir eru enn í þeirri stöðu að sagt er að það verði í þar næstu viku eða eftir mánuð sem eitthvað gerist. Raunverulegar tillögur sem gagnast skuldugum heimilum hafa enn ekki birst. Stjórnvöld segjast fylgjast náið með og grípi inní ef þau telja að það þurfi. Það hafa þau sagt lengi en ekkert bólar á aðgerðum. Kannski finnst þeim ekkert að?

Ekkert bólar á markvissri atvinnuuppbyggingu sem geti bæði fækkað atvinnulausum og það sem ekki er síður mikilvægt komið einhverri neyslu í gang. Frasinn, koma hjólum atvinnulífsins í gang er eitt það mikilvægasta sem ríkisstjórn í kreppu tæki sér fyrir hendur. Það virðist því miður að ekkert sé fjær ríkisstjórn Samfylkingar og VG. Hugmyndir þeirra um viðbrögð við ástandinu eru að því virðist -að hækka skatta og með þeim hætti draga enn meir úr nauðsynlegri neyslu.

Framsóknarmenn lögðu strax í febrúar fram raunhæfar tillögur í 18 liðum sem höfðu það meginstef að endurreisa banka, koma skuldum almenningi og fyrirtækjum til aðstoðar og koma þannig neyslunni í gang. Í stað þess að snarhækka skatta á fyrirtæki og almenning lögðum við til að auka umsvif, breikka skattstofna og auka þannig tekjurnar. Sumar tillögur Framsóknar eru nú fyrst til skoðunar eins og til að mynda aðkoma lífeyrissjóða að endurreisn. Frá því í október sl. hefur ekkert verið talað við forsvarsmenn þeirra um slíka aðkomu - fyrr en nú - í júní!!

Niðurstaðan af seinaganginum eru að enn er ekkert bankakerfi, enn eru stýrivextir í svimandi hæðum (þó þeir hafi lækkað) okurvextir sem engin lögleg starfsemi getur þrifist í. Enn eru gengishöft (og verða lengi enn) með tvöfalda krónu sem sígur flesta daga. Auðvitað mun atvinnu leysi vaxa við þessar aðstæður.

Ég hef sagt það áður að vandi þjóðarinnar sé slíkur að við höfum ekki efni á að gera tilraun hvort vinstri stjórn Samfylkingar og VG muni ráða bót á honum. Aðgerðaleysi þeirra og máttleysi frammi fyrir tröllvöxnum vanda. Samstöðuleysi flokkanna og rof flestra kosningaloforða (sérstaklega VG) gera það að verkum að þjóðin er ekki tilbúin til að fara þessa vegferð. Við þurfum þjóðstjórn allra flokka sem og sérfræðinga. Við þurfum samstöðu um að taka Icesave málið upp að nýju. Við þurfum samstöðu um með hvað hætti við nálgumst ESB. Við þurfum samstöðu um með hvaða hætti við högum okkar gjaldmiðli (krónu til skemmri tíma, evru, dollar eða eitthvað annað til lengri tíma). Við þurfum samstöðu um niðurskurð/skattahækkanir og atvinnuuppbyggingu. Þannig náum við árangri - saman. Þannig vinnum við bug á atvinnuleysinu.


mbl.is Spá 9,9% atvinnuleysi næsta ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarþing - þjóðstjórn

Nú eru liðnar 3 vikur af sumarþingi. Aukaþingi sem haldið er eftir kosningar til að koma málum nýrrar ríkisstjórnar í gang - en ekki síst tilkomið vegna hins gífurlega vanda sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem sá sem hér ritar situr þing.

Margt hefur komið á óvart - þó svo að í gegnum árin hafi myndast nokkur mynd af störfum Alþingis. Form og hefðir - þingsköp - setja eðlilega mikinn svip á starfsumhverfið í þingsal. Það er bæði nauðsynlegt og eðlilegt að slíkar reglur gildi um störf og samstarf þingmanna en ekki síður um hvernig tekist er á um málefni. Sá hluti lærist smátt og smátt- ávörp og umræðureglur. Það hefur ekki komið á óvart. Það hefur heldur ekki komið á óvart að tekist er á í þingsal með beinskeyttum hætti en með allt öðrum hætti í nefndum. Í nefndum er líka oft unnið saman út yfir flokka, - meirihluta og minnihluta. Það er ekkert nýtt fyrir þá sem hafa starfað í pólitík þó á öðrum vettvangi sé.

Nei - það sem hefur komið á óvart er stjórnskipulagið. Ofurvald framkvæmdavalds yfir þinginu. Í raun starfar þetta þing ekkert með öðrum hætti en önnur þing. Í raun er ekkert tekið tillit til þeirrar staðreyndar að verkefnið ætti/er efnahagsmál, peningastefna, einsog Ice-save, einsog ríkisfjármál.

Í stað þess að allir þingmenn og stjórnkerfi landsins einhendi sér í að kryfja og finna lausnir á þeim málum, svo lækka mætti vexti, styrkja mætti gengi, leiðrétta stöðu heimilanna og fyrirtækjanna osfr.. Já- í stað þess er allt eins og áður - þingmönnum er skipað í 12 fastanefndir - og nefndirnar taka fyrir mál eftir mál frá stjórnsýslunni (ráðuneytum-ráðherrum) eða einstökum þingmönnum um allt milli himins og jarðar. . . .  eins og ekkert hafi í skorist.  Aðallega eru þetta ESB-tilskipanir sem eru fallnar á tíma og að sögn framkvæmdavaldsins MJÖG mikilvægt að koma þeim í gegn í einum grænum. Auðvitað er síðan eitt og eitt gælu verkefni ríkisstjórnarflokkanna keyrt áfram . .  hraðar enn það þolir - hraðar en góð stjórnsýsla myndi kalla á.

Í sveitarfélögum eða stórum fyrirtækjum vinna menn ekki svona. Þegar stóráföll ganga yfir leggjast allir á eitt að kryfja og leysa málið - sameiginlega. Í sveitarfélögunum leggja menn til hliðar önnur verk (annað en daglegan rekstur) bæði starfsmenn og kjörnir fulltrúar. Setjast í vinnuhópa og vinna sameiginlega að úrlausn mála. Sama á við um stórfyrirtæki.

'Eg hefði haldið að sumarþingið hefði átt að vera þannig skipulagt. Efnahagsmálahópur, peningamálahópur, Icesavehópur, atvinnumálahópur, staða heimilannahópur. Öll ráðuneyti og allir þingmenn hefðu í 4-6 vikur átt að vinna sameiginlega að þessum verkefnum. Kryfja til mergjar og koma með lausnir - sameiginlega. Niðurstaðan gæti orðið samstaða um hvaða leiðir eru færar til að komast út úr kreppunni. Samstaða um að koma heimilunum til bjargar. Samstaða um að koma atvinnulífinu í gang. Samstaða sem eftir væri tekið erlendis - hjá Bretum, Hollendingum , öðrum ESB ríkjum, hjá AGS og kröfuhöfum gömlu bankanna. Kannski er ég að tala um þjóðstjórn. En kannski er það akkúrat það sem við þurfum á að halda.

Þess í stað horfum við á ósamstæða ríkistjórn í hverju málinu eftir öðru. ESB-aðildarviðræður, Icesave, sjávarútvegsmálum/fyrningarleiðin. Ósamstöðu innan þings þar sem hvergi glittir í samráð, gegnsæi, samvinnu eða samstarfsvilja þegar á hólminn er komið. Yfirþyrmandi framkvæmdavald sem hunsar samráð, gegnsæi og samvinnu.

Afleiðingin er ómarkviss vinnubrögð, sundurleitar hjarðar, á hlaupum milli funda, takandi misgáfulegar ákvarðanir. Ákvarðanir sem varða land og þjóð miklu - jafnvel sjálfstæðið sjálft. 


Hvað er málið?

Í skýrslu forsætisráðherra um efnahagsmál kom fátt nýtt fram. Það er hinsvegar alltaf fróðlegt að skoða stöðuna á hverjum tíma og sérstaklega sjónarhól yfirvalda. Hvað ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-Grænna telja að sé að og hvað ekki.

Það sem kom fram fyrir utan áætlaðan fund um stöðugleikasáttmála sbr. fréttina,  er að áfram skuli fylgst grannt með ýmsum hópum (eins og heimilum) og brugðist við með viðeigandi aðgerðum!!! Hinsvegar kom fram margoft hjá forsætisráðherra að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-Grænna séu búin að grípa til margvíslegra aðgerða sem komi atvinnulausum til góða!! sem og skuldsettum fyrirtækjum og heimilum!!. Jafnframt margítrekaði forsætisráðherra að íslensk stjórnvöld og Seðlabanki Íslands ráði ferðinni í peningastefnunni og þar með vaxtastefnunni  en ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn!

Í raun þýðir þetta á mannamáli að staðan sem þjóðin sér,  okur-stýrivextirnir og aðgerðaleysið gagnvart skuldugum heimilum og fyrirtækjum eru á ábyrgð og í boði ríkisstjórnarinnar.

Þrátt fyrir að Samfylking og Vinstri-Grænir séu meistarar áætlana um margvíslegar stefnur og fyrirætlanir eru litlar sem engar áætlanir um efnahagsmál og/eða peningastefnu. Það er málið.  

Tveggja tíma umræða á Alþingi skilaði því þó.  En það er lítil hjálp í því fyrir heimilin og fyrirtækin. Því miður.

Stjórnarandstaðan bauð fram aðstoð sína á ýmsan hátt. Við Framsóknarmenn ásamt Borgarahreyfingunni bentum á nauðsyn þess að fara í lækkun höfuðstóls lána.

Í ræðu Birkis Jóns varaformanns kom fram að allt að 28.500 heimili verði komin í þrot í árslok ef ríkisstjórnin heldur áfram á sömu braut. Það snertir um 100 þúsund manns miðað við vísitölufjölskylduna. Það gengur auðvitað ekki. Hversu lengi þurfum við að bíða eftir að ríkistjórn Samfylkingar og Vinstri-Grænna opni augun fyrir vanda fólksins í landinu. 

Vandamálið er þekkt. það þarf ekki að fylgjast með því vaxa. Það þarf að leysa vanda-málið.


mbl.is Fundað um stöðugleikasáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er vandinn. Hvar er klemman?

Bæði vandinn og klemman virðast augljóslega vera hjá ríkisstjórninni. Vandinn er fólginn í því að það eru engar efnahagsráðstafanir á döfinni. Engin peningamálastefna. Einungis misvísandi stefna um aðildarviðræður að ESB. Og þar er klemman.

Samfylking og VG gátu ekki komið sér saman um ríkisstjórnarsáttmála. Samstarfsyfirlýsing heitir plaggið. - Það getur hljómað lýðræðislega að leita til Alþingis með mál - vera sammála um að vera ósammála.  Ef það á að vera lýðræðislegt á þá ekki að leita með öll mál til þingsins?

Við Framsóknarmenn erum meir en tilbúin til slíkra lýðræðislegra vinnubragða. Við vildum gjarnan sjá að efnahagstillögur okkar í 18 liðum sem voru lagðar fyrir síðasta þing fengu lýðræðislega eðlilega umfjöllun í þinginu.  Það eru þó mál sem brenna á þjóðinni núna,  gætu leyst vanda og klemmu ríkistjórnar og seðlabanka.

- Við erum meir en tilbúin til að þingið verði umræðugrundvöllur og löggjafi en framkvæmdavaldið framkvæmi ákvarðanir Alþingis eftir þinglega meðferð mála. En það verður þá að gilda um öll mál. Ekki bara einhver sérvalin mál sem Samfylking og VG eru með í klemmu. Ráða ekki við að leysa vandann. Lýðræði er ekki bara uppá punt. 


mbl.is Seðlabankinn í klemmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðarstjórn??

Um leið og sjálfsagt er að óska tilvonandi nýrri stjórn velfarnaðar,  fer um mann ónotahrollur yfir skilningsleysi, aðgerðarleysi og máttleysi ríkisstjórnarinnar síðustu vikur og mánuði. Það boðar ekki gott í framhaldinu. Það er ekki traustvekjandi að þurfa taka rúmlega þrjár vikur í að mynda stjórn. Stjórn tveggja flokka sem höfðu starfað saman í 3 mánuði. Flokkar sem gengu nánast bundnir til kosninga.

Það virðist að annað hvort sé svona langt á milli flokkanna í mörgum málum eða hitt að verklagið sé hægagangur. Yfirlýsingar um að ekkert liggi á og að ráðherrar taki sér frí um helgar benda annað hvort til skilningsleysis á vanda þjóðarinnar eða máttleysi Samfylkingar og Vinstri Grænna þegar þeir standa andspænis verkefninu. Niðurstaðan er sú sama - aðgerðarleysi.

Fréttaflutningur síðustu daga ætti að hafa hvatt flokkanna til dáða. Vaxandi atvinnuleysi, gjaldþrot fyrirtækja, alvarlegar fréttir af vaxandi fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda ættu að sýna að þolinmæði þjóðarinnar er brostin. Nú þarf að bretta upp ermar og hefja raunverulegar aðgerðir-strax.

Ekki þýðir að velta vandanum yfir á aðra. Lenging lána, frysting afborgana eru góðra gjalda verðar en hafa þann vanda í för með sér að heildargreiðslan vex. Efnahagskerfið stöðvast. Ekki þýðir að seinka endalaust raunverulegum aðgerðum.

Velferðarvakt ríkistjórnarinnar hefur áhyggjur af að skerða eigi þjónustu er snúa að börnum hjá ríki og ekki síst sveitarfélögunum. Undir þær áhyggjur má taka. En hvar á að fá peninga ef efnahagslífið stöðvast. Hvar eiga sveitarfélögin að fá stuðning til að standa undir grunnþjónustunni ef sífellt færri borga útsvar. Ekki þýðir að velta vandanum yfir á aðra.

Staðreyndin er sú að allir verða að taka sameiginlega á vanda þjóðarinnar. Ekki gengur að hafa einungis varið þá sem áttu peninga á innlánsreikningum bankanna eða peningamarkaðssjóðum. Ekki gengur að við, þjóðin,  höfum greitt milli 700-900 milljarða til fjármagnseigenda. Það þarf einnig að koma til sanngjarnar lausnar á vanda skuldara. Þjóðarinnar sem er við það að missa þakið yfir hús fjölskyldunnar.

Það er velferðarstjórn sem lætur alla þegna þessa lands sitja við sama borð hvort sem þeir ákváðu að setja sparifé sitt í banka eða í heimili fyrir fjölskylduna. Nú mun reyna á hvort slík stjórn sé í burðarliðnum.    

 


mbl.is Ríkisstjórn í burðarliðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband