Sumarþing - þjóðstjórn

Nú eru liðnar 3 vikur af sumarþingi. Aukaþingi sem haldið er eftir kosningar til að koma málum nýrrar ríkisstjórnar í gang - en ekki síst tilkomið vegna hins gífurlega vanda sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem sá sem hér ritar situr þing.

Margt hefur komið á óvart - þó svo að í gegnum árin hafi myndast nokkur mynd af störfum Alþingis. Form og hefðir - þingsköp - setja eðlilega mikinn svip á starfsumhverfið í þingsal. Það er bæði nauðsynlegt og eðlilegt að slíkar reglur gildi um störf og samstarf þingmanna en ekki síður um hvernig tekist er á um málefni. Sá hluti lærist smátt og smátt- ávörp og umræðureglur. Það hefur ekki komið á óvart. Það hefur heldur ekki komið á óvart að tekist er á í þingsal með beinskeyttum hætti en með allt öðrum hætti í nefndum. Í nefndum er líka oft unnið saman út yfir flokka, - meirihluta og minnihluta. Það er ekkert nýtt fyrir þá sem hafa starfað í pólitík þó á öðrum vettvangi sé.

Nei - það sem hefur komið á óvart er stjórnskipulagið. Ofurvald framkvæmdavalds yfir þinginu. Í raun starfar þetta þing ekkert með öðrum hætti en önnur þing. Í raun er ekkert tekið tillit til þeirrar staðreyndar að verkefnið ætti/er efnahagsmál, peningastefna, einsog Ice-save, einsog ríkisfjármál.

Í stað þess að allir þingmenn og stjórnkerfi landsins einhendi sér í að kryfja og finna lausnir á þeim málum, svo lækka mætti vexti, styrkja mætti gengi, leiðrétta stöðu heimilanna og fyrirtækjanna osfr.. Já- í stað þess er allt eins og áður - þingmönnum er skipað í 12 fastanefndir - og nefndirnar taka fyrir mál eftir mál frá stjórnsýslunni (ráðuneytum-ráðherrum) eða einstökum þingmönnum um allt milli himins og jarðar. . . .  eins og ekkert hafi í skorist.  Aðallega eru þetta ESB-tilskipanir sem eru fallnar á tíma og að sögn framkvæmdavaldsins MJÖG mikilvægt að koma þeim í gegn í einum grænum. Auðvitað er síðan eitt og eitt gælu verkefni ríkisstjórnarflokkanna keyrt áfram . .  hraðar enn það þolir - hraðar en góð stjórnsýsla myndi kalla á.

Í sveitarfélögum eða stórum fyrirtækjum vinna menn ekki svona. Þegar stóráföll ganga yfir leggjast allir á eitt að kryfja og leysa málið - sameiginlega. Í sveitarfélögunum leggja menn til hliðar önnur verk (annað en daglegan rekstur) bæði starfsmenn og kjörnir fulltrúar. Setjast í vinnuhópa og vinna sameiginlega að úrlausn mála. Sama á við um stórfyrirtæki.

'Eg hefði haldið að sumarþingið hefði átt að vera þannig skipulagt. Efnahagsmálahópur, peningamálahópur, Icesavehópur, atvinnumálahópur, staða heimilannahópur. Öll ráðuneyti og allir þingmenn hefðu í 4-6 vikur átt að vinna sameiginlega að þessum verkefnum. Kryfja til mergjar og koma með lausnir - sameiginlega. Niðurstaðan gæti orðið samstaða um hvaða leiðir eru færar til að komast út úr kreppunni. Samstaða um að koma heimilunum til bjargar. Samstaða um að koma atvinnulífinu í gang. Samstaða sem eftir væri tekið erlendis - hjá Bretum, Hollendingum , öðrum ESB ríkjum, hjá AGS og kröfuhöfum gömlu bankanna. Kannski er ég að tala um þjóðstjórn. En kannski er það akkúrat það sem við þurfum á að halda.

Þess í stað horfum við á ósamstæða ríkistjórn í hverju málinu eftir öðru. ESB-aðildarviðræður, Icesave, sjávarútvegsmálum/fyrningarleiðin. Ósamstöðu innan þings þar sem hvergi glittir í samráð, gegnsæi, samvinnu eða samstarfsvilja þegar á hólminn er komið. Yfirþyrmandi framkvæmdavald sem hunsar samráð, gegnsæi og samvinnu.

Afleiðingin er ómarkviss vinnubrögð, sundurleitar hjarðar, á hlaupum milli funda, takandi misgáfulegar ákvarðanir. Ákvarðanir sem varða land og þjóð miklu - jafnvel sjálfstæðið sjálft. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll frændi!
   Þetta er aðsetrið í dalasælunni. Kíktu á þetta og sparaðu sporin ; )

http://www.mbl.is/mm/fasteignir/fasteign/index.html?eign=347021

Addý (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 19:21

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Mæltu manna heilastur

Gestur Guðjónsson, 9.6.2009 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband