Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Vandræðagangur

Fyrir nokkrum mánuðum sagði fjármálaráðherra Steingrímur Joð. fjálglega frá því að að samningamaður hans í Icesave deilunni Svavar Gestsson væri að ná glæsilegum árangri í viðræðunum. Smátt og smátt hefur hann og forsætisráðherra þurft að éta ofan í sig hverja yfirlýsinguna á fætur annarri um samninginn. Sennilega er sannleikurinn sá að þetta er versti og afdrifaríkasti samningur sem íslensk þjóð hefur þurft að standa frammi fyrir. Ég trúi ekki enn að þingmenn VG ætli að staðfesta hann á þinginu. Samfylkingarþingmönnum er hinsvegar trúandi fyrir flestu svo fremi að stefna þeirra um að Ísland komist í fyrirheitna sambandið - ESB gangi upp.

Nú er rætt um stöðugleika sáttmála. Samning sem er bæði nauðsynlegur og góður til að byggja hér upp samstöðu og sóknarfæri fyrir þjóðarbúið. Ríkistjórnin hefur látið líta svo út lengi, að hún sé alltaf alveg við það að ná öllum saman, ná niðurstöðu. Sennilegur sannleikur er það hinsvegar að þarna sitja allir jafn ósáttir. Þvingaðir inn af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og verkefnið er að láta íslenska þjóð finna fyrir niðurskurði, skattahækkunum. Þannig að út á við í alþjóðasamfélagið líti út fyrir að þjóðin finni til. (sem hún sannanlega gerir). Og inná við sé upplifunin að allir séu í sama bát.

Þetta er þekkt sálfræðiaðferð AGS en hefur ekkert með framtakssemi ríkisstjórnarinnar að gera. Enda er sami vandræðagangurinn á þessi máli sem öðrum. Verkefnið er erfitt eins og ríkisstjórnin þrástagast á - svo erfitt og vandasamt að ríkistjórnarflokkarnir ráða ekki við það einir. Hér þarf þjóðstjórn og samstöðu allra um að fara skynsamlegar leiðir fyrir fólkið í landinu. Fyrir Ísland.


mbl.is Undirritað ef sátt næst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi eykst - neysla dregst saman

Ríkistjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er nú búin að vera við völd nærri fimm mánuði. Í minnihlutastjórninni fram að kosningum lofuðu flokkarnir ýmsu m.a. að vinna áfram eftir kosningar að nauðsynlegum breytingum í landinu. Í einfeldni minni hélt ég að flokkarnir hefðu hafið undirbúning að mörgum þeirra nauðsynjamála, strax í febrúar eða mars. Svo var allaveganna látið í veðri vaka. Í aðdraganda kosninganna hélt ég að þeir vildu ekki láta sjá á spilin. Því þar væri ekki allt eins og best yrði á kosið. Raunin var önnur, engin eða lítil vinna var hafin. Hún hófst eftir að flokkarnir tóku sér tvær vikur í stjórnarmyndun!! 

Augljóst var öllum, allan tímann, að verkefnið er erfitt. Ríkistjórnin þrástagast á því en sannar með ákvarðanafælni, verkkvíða að engin vinna við endurreisn efnahagsmála hafi verið hafin. Allt dregst á langinn. Bankarnir og aðrar fjármálastofnanir eru enn í þeirri stöðu að sagt er að það verði í þar næstu viku eða eftir mánuð sem eitthvað gerist. Raunverulegar tillögur sem gagnast skuldugum heimilum hafa enn ekki birst. Stjórnvöld segjast fylgjast náið með og grípi inní ef þau telja að það þurfi. Það hafa þau sagt lengi en ekkert bólar á aðgerðum. Kannski finnst þeim ekkert að?

Ekkert bólar á markvissri atvinnuuppbyggingu sem geti bæði fækkað atvinnulausum og það sem ekki er síður mikilvægt komið einhverri neyslu í gang. Frasinn, koma hjólum atvinnulífsins í gang er eitt það mikilvægasta sem ríkisstjórn í kreppu tæki sér fyrir hendur. Það virðist því miður að ekkert sé fjær ríkisstjórn Samfylkingar og VG. Hugmyndir þeirra um viðbrögð við ástandinu eru að því virðist -að hækka skatta og með þeim hætti draga enn meir úr nauðsynlegri neyslu.

Framsóknarmenn lögðu strax í febrúar fram raunhæfar tillögur í 18 liðum sem höfðu það meginstef að endurreisa banka, koma skuldum almenningi og fyrirtækjum til aðstoðar og koma þannig neyslunni í gang. Í stað þess að snarhækka skatta á fyrirtæki og almenning lögðum við til að auka umsvif, breikka skattstofna og auka þannig tekjurnar. Sumar tillögur Framsóknar eru nú fyrst til skoðunar eins og til að mynda aðkoma lífeyrissjóða að endurreisn. Frá því í október sl. hefur ekkert verið talað við forsvarsmenn þeirra um slíka aðkomu - fyrr en nú - í júní!!

Niðurstaðan af seinaganginum eru að enn er ekkert bankakerfi, enn eru stýrivextir í svimandi hæðum (þó þeir hafi lækkað) okurvextir sem engin lögleg starfsemi getur þrifist í. Enn eru gengishöft (og verða lengi enn) með tvöfalda krónu sem sígur flesta daga. Auðvitað mun atvinnu leysi vaxa við þessar aðstæður.

Ég hef sagt það áður að vandi þjóðarinnar sé slíkur að við höfum ekki efni á að gera tilraun hvort vinstri stjórn Samfylkingar og VG muni ráða bót á honum. Aðgerðaleysi þeirra og máttleysi frammi fyrir tröllvöxnum vanda. Samstöðuleysi flokkanna og rof flestra kosningaloforða (sérstaklega VG) gera það að verkum að þjóðin er ekki tilbúin til að fara þessa vegferð. Við þurfum þjóðstjórn allra flokka sem og sérfræðinga. Við þurfum samstöðu um að taka Icesave málið upp að nýju. Við þurfum samstöðu um með hvað hætti við nálgumst ESB. Við þurfum samstöðu um með hvaða hætti við högum okkar gjaldmiðli (krónu til skemmri tíma, evru, dollar eða eitthvað annað til lengri tíma). Við þurfum samstöðu um niðurskurð/skattahækkanir og atvinnuuppbyggingu. Þannig náum við árangri - saman. Þannig vinnum við bug á atvinnuleysinu.


mbl.is Spá 9,9% atvinnuleysi næsta ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarþing - þjóðstjórn

Nú eru liðnar 3 vikur af sumarþingi. Aukaþingi sem haldið er eftir kosningar til að koma málum nýrrar ríkisstjórnar í gang - en ekki síst tilkomið vegna hins gífurlega vanda sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem sá sem hér ritar situr þing.

Margt hefur komið á óvart - þó svo að í gegnum árin hafi myndast nokkur mynd af störfum Alþingis. Form og hefðir - þingsköp - setja eðlilega mikinn svip á starfsumhverfið í þingsal. Það er bæði nauðsynlegt og eðlilegt að slíkar reglur gildi um störf og samstarf þingmanna en ekki síður um hvernig tekist er á um málefni. Sá hluti lærist smátt og smátt- ávörp og umræðureglur. Það hefur ekki komið á óvart. Það hefur heldur ekki komið á óvart að tekist er á í þingsal með beinskeyttum hætti en með allt öðrum hætti í nefndum. Í nefndum er líka oft unnið saman út yfir flokka, - meirihluta og minnihluta. Það er ekkert nýtt fyrir þá sem hafa starfað í pólitík þó á öðrum vettvangi sé.

Nei - það sem hefur komið á óvart er stjórnskipulagið. Ofurvald framkvæmdavalds yfir þinginu. Í raun starfar þetta þing ekkert með öðrum hætti en önnur þing. Í raun er ekkert tekið tillit til þeirrar staðreyndar að verkefnið ætti/er efnahagsmál, peningastefna, einsog Ice-save, einsog ríkisfjármál.

Í stað þess að allir þingmenn og stjórnkerfi landsins einhendi sér í að kryfja og finna lausnir á þeim málum, svo lækka mætti vexti, styrkja mætti gengi, leiðrétta stöðu heimilanna og fyrirtækjanna osfr.. Já- í stað þess er allt eins og áður - þingmönnum er skipað í 12 fastanefndir - og nefndirnar taka fyrir mál eftir mál frá stjórnsýslunni (ráðuneytum-ráðherrum) eða einstökum þingmönnum um allt milli himins og jarðar. . . .  eins og ekkert hafi í skorist.  Aðallega eru þetta ESB-tilskipanir sem eru fallnar á tíma og að sögn framkvæmdavaldsins MJÖG mikilvægt að koma þeim í gegn í einum grænum. Auðvitað er síðan eitt og eitt gælu verkefni ríkisstjórnarflokkanna keyrt áfram . .  hraðar enn það þolir - hraðar en góð stjórnsýsla myndi kalla á.

Í sveitarfélögum eða stórum fyrirtækjum vinna menn ekki svona. Þegar stóráföll ganga yfir leggjast allir á eitt að kryfja og leysa málið - sameiginlega. Í sveitarfélögunum leggja menn til hliðar önnur verk (annað en daglegan rekstur) bæði starfsmenn og kjörnir fulltrúar. Setjast í vinnuhópa og vinna sameiginlega að úrlausn mála. Sama á við um stórfyrirtæki.

'Eg hefði haldið að sumarþingið hefði átt að vera þannig skipulagt. Efnahagsmálahópur, peningamálahópur, Icesavehópur, atvinnumálahópur, staða heimilannahópur. Öll ráðuneyti og allir þingmenn hefðu í 4-6 vikur átt að vinna sameiginlega að þessum verkefnum. Kryfja til mergjar og koma með lausnir - sameiginlega. Niðurstaðan gæti orðið samstaða um hvaða leiðir eru færar til að komast út úr kreppunni. Samstaða um að koma heimilunum til bjargar. Samstaða um að koma atvinnulífinu í gang. Samstaða sem eftir væri tekið erlendis - hjá Bretum, Hollendingum , öðrum ESB ríkjum, hjá AGS og kröfuhöfum gömlu bankanna. Kannski er ég að tala um þjóðstjórn. En kannski er það akkúrat það sem við þurfum á að halda.

Þess í stað horfum við á ósamstæða ríkistjórn í hverju málinu eftir öðru. ESB-aðildarviðræður, Icesave, sjávarútvegsmálum/fyrningarleiðin. Ósamstöðu innan þings þar sem hvergi glittir í samráð, gegnsæi, samvinnu eða samstarfsvilja þegar á hólminn er komið. Yfirþyrmandi framkvæmdavald sem hunsar samráð, gegnsæi og samvinnu.

Afleiðingin er ómarkviss vinnubrögð, sundurleitar hjarðar, á hlaupum milli funda, takandi misgáfulegar ákvarðanir. Ákvarðanir sem varða land og þjóð miklu - jafnvel sjálfstæðið sjálft. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband