Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Nýir tímar - ný vinnubrögð

Grein birt í Dagskránni og Eyjafréttum 26. febrúar 2009

Í dag eru Framsóknarmenn að fá með póstinum atkvæðaseðil sinn vegna vals á lista til alþingiskosninga. Sú aðferð að senda hverjum framsóknarmanni atkvæðaseðil er lýðræðislegri en fulltrúaval kjördæmisþinga en um leið aðferð til að halda niðri kostnaði við opin prófkjör. Þessi aðferð er einnig í takt við þá tíma sem við lifum þ.e. aukið lýðræði til fólksins en um leið aðhaldssöm. Með þessu móti geta allir lagt sitt á vogarskálarnar með jöfnum þunga, þ.e. einn maður - eitt atkvæði.

Atvinnumálin, velferðarmálin og stefna Framsóknarflokksins er eitt af því sem gerir mig að framsóknarmanni.  Velferð fjölskyldna í landinu byggist á atvinnu. Einungis með atvinnumál á traustum grunni er hægt að halda uppi velferðarkerfi  byggt á öflugu menntakerfi  og heilbrigðisþjónustu öllum til handa óháð búsetu og efnahag.

Hin gömlu gildi Framsóknarflokksins eiga aldrei betur við en einmitt núna. Manngildi ofar auðgildi er grundvöllur þess að Íslendingar geti horft fram á bjartari tíma. Miðjuflokkur, með rætur í þjóðarsálinni er best til þess fallinn að finna jafnvægið fyrir íslensku þjóðina og þannig leiða hana fram til sóknar.

Ég vil hvetja alla framsóknarmenn til að nota atkvæðið sem þeir fá í hendurnar og þannig taka virkan þátt í þeirri lýðræðisvakningu sem hafin er. Þar hefur einvalalið einstaklinga gefið kost á sér til að fylgja eftir hugsjónum og stefnu Framsóknarflokksins. Ykkar er valið kæru framsóknarmenn.


Fundir frambjóðenda á næstu dögum

Framsóknarfélögin í Suðurkjördæmi standa fyrir fundum þar sem frambjóðendum á lista til alþingiskosninganna gefst tækifæri á að kynna sig.

Fyrsti fundurinn er í kvöld í Reykjanesbæ, sá síðasti í Grindavík 2. mars næstkomandi.

25. febrúar - Reykjanesbær - Framsóknarhúsið kl. 20.00
26. febrúar - Árnessýsla - Félagsheimilinu Borg, Grímsnesi kl. 20:00
27. febrúar - Höfn, Hornafirði - Nýheimum kl. 20:00
28. febrúar - Vestmannaeyjar - Kaffi Kró kl. 14.00

1. mars - Vík - Ströndin, Víkurskála kl. 16.00
1.mars - Rangárvallasýslur - Hvolnum, Hvolsvelli kl 20.30
2. mars - Grindavík - Framsóknarhúsið kl 20.

Ég vil hvetja alla sem áhuga hafa til að mæta. Með góðri þátttöku ykkar verða fundirnir marvissari og betri, bæði fyrir frambjóðendur og fundargesti.


Helstu málefnin mín

Í störfum mínum á vettvangi sveitarstjórnarmála hefur áherslan orðið á atvinnumál og samgöngumál. Hins vegar hafa sveitarstjórnarmálin gefið mér góða innsýn inn í velferðarmál enda málaflokkar er snerta nærþjónustu við íbúana mjög mikilvægir. Við rekstur jafnt opinberra fyrirtækja sem og eigin rekstur er nauðsynlegt að hafa þekkingu og innsýn í alla þætti í rekstri fyrirtækja. Þar með hefur áhersla á efnahagsmál og fjármál orðið drjúgur hluti af daglegum störfum. En hér ætla ég að nefna helstu málefni mín.
  • Atvinnuleysið, sem óðfluga stefnir í að meira en 16 þúsund landsmenn séu án atvinnu hlýtur að setja atvinnumál í fyrsta sæti málefna. Ég vil leggja mikla áherslu á að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik. Þar eru undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar í öndvegi þ.e. landbúnaður, sjávarútvegur og iðnaður. Við þurfum að nýta náttúruauðlindir okkar til sjávar og sveita, orkuna og ekki síður mannauðinn til að skapa ný störf.
  • Efnahagsmál eru þó þau mál sem eru nú efst á verkefnaskránni. Engin vafi leikur lengur á því að við verðum að endurskoða peningamálastefnu ríkisins. Til framtíðar getum við ekki búið við tveggja stafa stýrivexti eða verðbólgu. Ef það er kostnaðurinn við að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil (krónuna) verðum við til lengri tíma litið að skipta henni út. Engar leiðir þar eru patent skyndilausnir. Alla kosti verður að skoða til hlítar og hafa upplýsta umræðu meðal þjóðarinnar. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils og eða innganga í Evrópusambandið eru engar töfralausnir. Aðildarumsókn með þeim skilyrðum sem Framsóknarflokkurinn setti fram getur verið ein leið til að ná fram stöðugleika í samskiptum við aðrar þjóðir. Í nálægum tíma verðum við hinsvegar að framleiða okkur út úr vandanum. Það er, að nota undirstöðuatvinnuvegina til að framleiða allan þann mat og varning sem við þurfum innanlands og flytja út fisk og iðnaðarvörur eins og ál, til að skapa gjaldeyri og að styrkja krónuna með því að hafa langtíma hagnað á viðskiptum við útlönd. Einnig eigum við að beita mannauðnum, hugvitinu til nýsköpunar á vöru og þjónustu sem skapar útflutningstekjur.
  • Stjórnlagaþing, sem Framsóknarflokkurinn setti á dagskrá á flokksþinginu í janúar og eitt að skilyrðum fyrir að verja ríkisstjórnina falli, er eitt það áhugaverðasta sem komið hefur fram í umræðu um stjórnmál. Það er mjög brýnt til að endurreisa stjórnsýsluna, traust almennings á stjórnmálamönnum og þannig skapa stöðugleika.
  • Menntamál hafa verið mér hugleikin allt frá því að ég kom heim frá námi 27 ára gamall. Í samanburði við önnur svæði hefur kjördæmi okkar verið á eftir í flestum mælingum sem gerðar eru á menntun. Þessu þurfum við að breyta og erum að því víða í kjördæminu með mælanlegum árangri. Að auka menntunarstig svæðisins og metnað fyrir menntun á öllum skólastigum skilar okkur fleiri atvinnutækifærum og meiri velmegun. Á þessum erfiðleikatímum er nauðsynlegt að efla alla þætti menntunarinnar.
  • Í krafti menntunnar minnar og starfa hafa bæði umhverfismál í víðasta skilningi sem og heilbrigðismál verið mér ofarlega í huga. Staðardagskrárvinna (sjálfbær þróun samfélags) var eitt af fyrstu verkefnum mínum sem sveitarstjórnarmaður. Sem sannur framsóknarmaður er það skoðun mín að allir eiga að hafa jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Menntamál tengjast þessu. Með jafnræði til náms verður velferðarkerfi okkar sterkara og styrkir hinar dreifðari byggðir.
  • Í skipulagsmálum hef ég lagt mikla áherslu á að vernda náttúruna og einnig landnýtingu sem stýritæki til að nýta þá auðlind sem best í þágu almennings, sjálfbærni og undirstöðuatvinnuveganna.
  • Samgöngumál hafa verið, og munu verða, eitt af baráttumálum mínum og draga úr umferðarslysum. Margt hefur verið gert (og er unnið að) í kjördæminu á undanförnum árum en margt er einnig ógert. Má þar helst nefna að uppbyggingu Suðurlandsvegar frá Reykjavík að Selfossi má ekki draga að hefja. Reynslan af uppbyggingu Reykjanesbrautar sýnir okkur hve miklum árangri er hægt að ná í fækkun slysa, sérstaklega alvarlegra slysa. Mörg önnur verkefni má nefna í vegamálum, hafnamálum og fjarskiptum sem kalla má nauðsynlegar samgönguæðar.
  • Að lokum má nefna félagsmál og öldrunarmál, en í störfum mínum sem oddviti hef ég komið að uppbyggingu félagsþjónustunnar og undirbúningi að þjónustubyggð fyrir aldraða og einnig baráttu fyrir fjölgun á hjúkrunarheimilisrúmum. Á erfiðleikatímum er mikilvægt að standa vaktina í þessum málum og geta gripið inn í með úrlausnir með skjótum hætti.

     


Sókn á Suðurnesjum

 Neðangreind grein birt í Víkurfréttum 24. feb.

Á erfiðleikatímum stöndum við frammi fyrir vali. Annars vegar að einblína á vandamálin og hins vegar að  leita að nýjum tækifærum til sóknar og nýsköpunar. Auðvitað er nauðsynlegt að greina vandann og skilgreina verkefnin en jafnframt er  mikilvægt að leita nýrra sóknarfæra og horfa keikur fram á við.  

Atvinnuleysi er eitt það versta böl sem getur hent vinnufúsar hendur. Við  Íslendingar verðum að setja okkur það markmið að atvinnuleysi nái aldrei varanlegri fótfestu eins og þekkist t.d í Bretlandi og flestum Evrópulöndum. Það er einfaldlega ekki til í þjóðarsál okkar að líða það. Við erum komin af  fólki sem vann hörðum höndum í ,,gömlu" atvinnuvegunum, landbúnaði og sjávarútvegi. Þeim sömu,  ásamt iðnaðinum sem verða okkur á ný til bjargar.

Hver er ég?

Greinaskrifari er sveitamaður að uppruna, fæddur og uppalinn í uppsveitum Árnessýslu. Sveit, þar sem Flúðir er helsti þéttbýlisstaðurinn. Þar hef ég einnig búið lengst af ævi minnar en bjó í nokkur  ár í Kaupmannahöfn þar sem ég lærði dýralækningar.

Starfsferillinn spannar nú 20 ár þar sem ég hef þjónustað dýr og dýraeigendur á öllu Suðurlandi. Einnig hef ég setið í sveitarstjórn í um 15 ár lengst af sem oddviti eða varaoddviti sveitarstjórnar.

Á þessum vettvangi hef ég öðlast þekkingu og reynslu sem ég býð fram til þjónustu fyrir land og þjóð.  

Undirstaða velferðar - atvinnan

Suðurkjördæmi er víðfeðmt og atvinnuástand misjafnt. Á Suðurnesjum er grafalvarlegt ástand í atvinnumálum. Hvergi er meira atvinnuleysi eða tæplega 15% meðan atvinnuleysið á landinu öllu er um 8.5%. Við þetta ástand má ekki una. Hér verða allir að leggjast á eitt,  leita að tækifærum og örva nýsköpun. Atvinnuleysi er ekki einkamál heldur þjóðfélagslegt mein sem stefnir velferð fjölskyldna í landinu í voða.

Tækifærin eru víða og er háskólinn Keilir gott dæmi. Nýting orkunnar, með Hitaveitu Suðurnesja sem flaggskip er annað. Halda verður ótrautt áfram við uppbyggingu í Helguvík. Ferðaþjónusta með alþjóðaflugvöll, vöruhótel, Bláa Lónið og varnarliðssvæðið með óendanlega möguleika. Ekki má gleyma sjávarútveginum sem verður okkur dýrmætari og mikilvægari en nokkru sinni fyrr við atvinnusköpun og gjaldeyrisöflun.

Tækifærin

Til þess að tækifærin geti orðið að veruleika þurfa góðar hugmyndir að eiga brautargengi. Ein leið af mörgum er gerð vaxtarsamnings við sveitarfélögin á Suðurnesjum. Með slíkum samningi fæst gott verkfæri til nýsköpunar og fleiri atvinnutækifæra. Nú er enn nauðsynlegra en áður að ráðamenn þjóðarinnar tryggi framkvæmd byggðaáætlunar og gefa íbúum og fyrirtækjum kost á að njóta sín þar sem þeir búa. Nú er tíminn til að meta að verðleikum hina raunverulegu verðmætasköpun landsbyggðarinnar umfram hið hrunda útrásarhagkerfi. Með raunverulegum verðmætum, fólkinu sjálfu, er hægt að skapa betra Ísland. Til þess verður að nýta öll tækifæri til að efla atvinnu og þannig velferð íbúanna. 

 


13 gefa kost á sér

1. sæti: Sigurður Ingi Jóhannsson, dýralæknir

Eygló Þóra Harðardóttir, alþingismaður

1. – 2. sæti: Birgir Þórarinsson, sérfr. í alþj.samskiptum

Kristinn Rúnar Hartmannsson, myndlistamaður

1. – 3. sæti: Eysteinn Jónsson, bæjarfulltrúi

2. sæti: Bryndís Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur og form. SUF

3. – 6. sæti: Inga Þyri Kjartansdóttir, verkefnastjóri

4. sæti: Guðni Ragnarsson, bóndi

5. – 6. sæti: Einar Freyr Elínarson, nemi

Ásthildur Ýr Gísladóttir, nemi og vaktstjóri

Bergrún Björnsdóttir, nemi

6. sæti: Hansína Ásta Björgvinsdóttir, kennari

Ingibjörg Júlía Þorbergsdóttir, viðskiptafræðingur

http://framsokn.is/?i=36&expand=13-25-36&b=1,3815,news.html


Fyrirkomulag póstkosningar

Á aukakjördæmisþingi framsóknarmanna í Suðurkjördæmi sem haldið var í 14. febrúar í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli var samþykkt tillaga þess efnis að val í sex efstu sætin á framboðslista framsóknarmanna í kjördæminu vegna kosninga til Alþingis þann 25. apríl nk. skyldi fara fram með póstkostningu allra félagsmanna í kjördæminu.

Frestur til að tilkynna framboð rann út á hádegi í gær. Ennfremur var lokað fyrir nýskráningar í flokkinn  í gær. 

Munu atkvæðaseðlar að öllum líkindum vera sendir út til félagsmanna eftir helgi og verður hægt að póstleggja atkvæði sitt til og með 4. mars næstkomandi. Úrslit verða svo kynnt á kjördæmisþingi sem haldið verður á Selfossi, helgina 7-8. mars.

Framundan er fólkið...

Nú verður ekki aftur snúið. Ég var að skila inn tilkynningu til kjörstjórnar í Suðurkjördæmi um að ég gefi kost á mér í 1. sæti á lista Framsóknarflokksins fyrir komandi Alþingiskosningar. Kjörseðlar verða síðan sendir til félagsmanna eftir helgi. Síðustu forvöð til að póstleggja atkvæði sitt er svo 4. mars næstkomandi.

Einn og óstuddur hefði ég ekki gefið mig í þetta ábyrgðarfulla verkefni. Traust og stuðningur er hverjum nauðsynlegur í slíkt. Fyrir þá hvatningu er ég þakklátur.

Ég ætla því að taka mér frí frá dýralækningum og nota þennan dýrmæta tíma til að kynnast enn fleiri Framsóknarmönnum og efla tengslin.

Á næstu dögum munu vonandi fleiri en doðakýr og veikar skepnur verða varar við mínar verkefnabreytingar. Ég hef engar áhyggjur af skepnunum, veit að þeim verður sinnt af færum kollegum. Mig langar hins vegar til að Framsóknarmenn á Suðurlandi verði vel upplýstir um það val sem þeir standa frammi fyrir og mér takist að sinna þeim sem skyldi.

Til að það takist á sem bestan hátt eru allar ábendingar frá ykkar hálfu vel þegnar. Því vil ég hvetja ykkur til að hafa samband við mig, bæði símleiðis og eins í gegnum netið.

Saman getum við blásið byr í seglin.


Hver er ég?

Ég er 46 ára gamall Árnesingur en foreldar mínir voru Jóhann Pálsson (f. 7.mars 1939, d. 28. nóvember 1987) og Hróðný Sigurðardóttir (f. 17. maí 1942 d. 28. nóvember 1987) bændur í Dalbæ, Hrunamannahreppi. Ég á þrjú systkini, Arnfríður og Páll búa bæði kúabúi með mökum og fjölskyldu, Arnfríður að Dalbæ og Páll í Núpstúni. Margrét, litla systir býr í Reykjavík með manni sínum og barni.

Ég bý að Syðra-Langholti með Elsu Ingjaldsdóttur (f. 9. maí 1966) framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Foreldrar hennar eru Ingjaldur Ásvaldsson (f. 27. ágúst 1940) og Guðbjörg Elíasdóttir (f. 4. október 1946). Samtals eigum við fimm börn, það yngsta 12 ára.

Börn mín og fyrri konu minnar, Önnu Kr. Ásmundsdóttur, eru Nanna Rún (1983), Jóhann Halldór (1990) og Bergþór Ingi (1992). Börn Elsu eru Sölvi Már (1990) og Hildur Guðbjörg (1996). Ég á einnig tengdason, Eyþór Sigurðsson og eitt barnabarn, gullmolann Óskar Inga (2007)

Ég  er dýralæknir að mennt og hef aðallega starfað sem sjálfstætt starfandi dýralæknir á Suðurlandi.

Ég ólst upp í Dalbæ í Hrunamannahreppi þar sem foreldrar mínir voru bændur. Örlögin höguðu því þannig til að þau féllu frá í hörmulegu bílslysi þegar ég átti um eitt ár eftir af námi mínu. Verandi elstur fjögurra systkina tók ég mér námsleyfi og rak búið með fjölskyldunni í tæpt ár og svo aftur í fimm ár að námi loknu.

Í störfum mínum sem dýralæknir á árunum 1992-1994 var ég settur héraðsdýralæknir bæði í Hreppa- og Laugarásumdæmi í afleysingum svo og eitt haust í V-Barðastrandarumdæmi.

Ég var kjörinn í hreppsnefnd Hrunamannahrepps árið 1994 og hef setið  í sveitarstjórn síðan, frá 2002 sem oddviti í hlutastarfi.

Ég hef alla tíð haft brennandi áhuga á þjóðmálum og þekki því vel til stjórnsýslu og stjórnkerfis Íslands,  ekki síst landbúnaðarins og landsbyggðarinnar.

Í tómstundum mínum er það hestamennskan sem tekur mestan tíma. Þar eru bestu samverustundirnar með fjölskyldunni allri. Hestaferðir að sumri til eru fastur liður í tilverunni þar sem fer saman góður félagsskapur manna og hrossa. Í Syðra-Langholti samanstendur bústofninn af þó nokkrum reiðhestum, einum hundi og þremur köttum. Ég hef einnig mjög gaman af söng og hef verið í Karlakór Hreppamanna frá því 1999. Á árum áður stundaði ég fjölmargar íþróttir t.d.  fótbolta, körfubolta, blak, frjálsar og bridge. Bæði sem keppni en líka til heilsubótar. Í dag er ég áhugamaður um allar íþróttir en stunda þær full lítið sjálfur.

Tómstundir mínar hafa síðustu árin samt sem áður  helgast af einlægum áhuga að efla nærsamfélagið og landsbyggðina. Þannig hef ég verið svo heppinn að geta sameinað vinnu og áhugamál.


Nýir tímar Í Framsókn

 

Á sögulegu flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar síðastliðinn var kosin ný forysta, nýr formaður sem hefur á stuttum tíma orðið boðberi nýrrar hugsunar og framgöngu í stjórnmálum. Á flokksþinginu var það andi siðbótar og breytinga sem réð ríkjum en einnig andi samkenndar og samstöðu.

Staðreyndin er nefnilega sú að við stöndum öll saman, Íslendingar frammi fyrir því risavaxna verkefni að endurreisa efnahag lands og þjóðar sem og orðspor okkar.

Heiðarleiki og siðvendni jafnt í viðskiptum sem stjórnmálum virðast hafa hopað fyrir græðgi og flokkspoti á liðnum árum. Árangur þeirrar stefnu er okkur öllum ljós. Traust stjórnmálamanna  er rúið og með því, geta þeirra til að leiða okkur fram úr þrengingunum fram til betri tíma. Tíma þar sem gildismat jöfnuðar, heiðarleika og samvinnu verði hampað á kostnað siðblindu, græðgisvæðingar frjálshyggjunnar, óheiðarleikans og ójöfnuðar.

Traust á ráðamönnum er öllum samfélögum nauðsyn til að skapa stöðugleika sem og mannlífi öllu og ekki síst atvinnulífi  til að vaxa og dafna.

Á þessu glæsilega flokksþingi voru samþykktar ályktanir sem Framsóknarflokkurinn mun hafa að leiðarljósi næstu árin. Ein sú mikilvægasta er um að efnt verði til stjórnlagaþings þar sem stjórnarskrá Íslands og eftir ástæðum viðeigandi lög um stjórnsýslu verði endurskoðuð.

Stjórnlagaþing og róttæk endurnýjun fólks á framboðslistum er forsenda þess að við, almenningur, fáum traust á stjórnmálum og stjórnmálamönnum.

Það er í ljósi þessa, sem sá,  sem þetta ritar hefur ákveðið að bjóða fram krafta sína til að vinna landi og þjóð gagn.

Á undanförnum 15 árum hef ég setið í sveitarstjórn Hrunamannahrepps lengst af sem oddviti eða varaoddviti. Í störfum mínum þar hef ég leitast við að byggja upp öflugt samfélag þar sem undirstöðuatvinnuvegir samfélagsins fái notið sín. Landbúnaður er sú atvinnugrein sem ég þekki best enda bæði sú grein sem ég ólst upp í, hef starfað við og er öflugust á Suðurlandsundirlendinu. Í starfi mínu sem sveitarstjórnarmanns er uppbygging menntunar annar þáttur sem ég hef haft mikinn áhuga og metnað fyrir. Hef ég komið að öllum skólastigum, frá leikskólauppbyggingu, grunnskólastjórnun, skólanefndarformaður framhaldsskóla og ekki síst mikill áhugamaður og stuðningsmaður um uppbyggingu háskólanáms á Suðurlandi. Mörg önnur fjölbreytt samfélagsverkefni verða óhjákvæmilega að áhugamáli hjá þeim sem leggja fyrir sig trúnaðstörf í þágu almennings.

Samtímis opinberum trúnaðarstörfum hef ég starfað við landbúnað og dýralækningar í ríflega 20 ár. Þar hef ég kynnst bæði fólki og atvinnugreininni sjálfri á Suðurlandi öllu. Jafnframt rekstri slíkra fyrirtækja, vanda þeirra og framtíðarmöguleikum.

Með reynsluna í fararteskinu og óeigingjarna löngun til að verða landi og þjóð að gagni býð ég fram krafta mína í forystusveit Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Ég tel mig hafa kjark og þor og heiðarleika til að geta orðið að liði  en einnig skynsemi og auðmýkt til að viðurkenna að án fulls samráðs við þjóðina og samvinnu allra verður verkefnið óyfirstíganlegt.


Ræða flutt á kjördæmisþingi 14. febrúar 2009

Fundarstjóri - góðir kjördæmisfulltrúar

Við lifum mikla óvissu tíma. Tíma efnahagslegrar niðursveiflu -þeirrar mestu í áratugi. Tíma mikilla breytinga og umbrota - . Það á við um stjórnmálinn öll , stjórnmálamenn og flokka. En ekki síst eru þetta miklir gjörninga tímar í lífi þjóðar og fólksins í landinu.

Eftir að hafa horft upp á aðgerðalausa ríkisstjórn. Ráðalausa forystumenn þjóðarinnar - stöndum við nú frammi fyrir að kjósa til Alþingis með skömmum fyrirvara. 

- Vandinn framundan er risavaxinn og svo virðist sem núverandi ráðamenn nái ekki yfirsýn yfir hann né heldur að leggja til raunverulegar aðgerðir til að við öll getum saman leyst úr honum - unnið þjóð okkar og einstaklinga út úr vandanum.

Á glæsilegu , nýafstöðnu flokksþingi okkar framsóknarmanna gerðum við upp við fortíðina - og við tókum djörf skref til að leggja okkar að mörkum við endurreisn Íslands

Stjórnlagaþing og endurnýjun í röðum þeirra sem bjóða sig fram til að vinna fyrir land og þjóð og flokk er krafan svo endrvinna megi traust almenning á stjórnmálum,  mönnum og flokkum.

Það er í kjölfar þessarra breytinga, að sem sá sem hér stendur ákvað að bjóða fram krafta sína til að vinna landi, þjóð og flokki gagn.

Margt fellur mér betur en að standa hér og eiga að mæra sjálfan mig. Miklu heldur vil ég vera dæmdur að verkum mínum og mati samferðamanna.

En ég heiti Sigurður Ingi Jóhannsson er 46 ára (verð 47 í vor)  fæddur og uppalinn í Dalbæ í Hrunamannahreppi hjá foreldrum mínum sem þar ráku myndarlegt blandað bú. Að loknu stútendsprófi frá ML bjó ég og starfaði eitt ár í Reykjavík en þar á eftir bjó ég í sex ár í Kaupmannahöfn þar sem ég lærði dýralækningar.

Að námi loknu kom ég heim og tók við, ásamt yngri systkynum mínum, búi foreldra okkar og rak það samhliða dýralækningum um 5 ára skeið. Síðan hef ég starfað sem dýralæknir á öllu Suðurlandi m.a. sem einn af stofnendum Dýralæknaþjónustu Suðurlands. Í upphafi vorum við þrír dýralæknar en nú 13 árum síðar starfa 11 starfsmenn þar af 8 dýralæknar hjá fyrirtækinu.

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á félags- og þjóðmálum. Á uppvaxtarheimili mínu voru opnar umræður um þjóðmál. Móðir mín starfaði mikið að félagsmálum og sat m.a. í sveitarstjórn Hrunammannahrepps og móðurafi minn og nafni var lengi oddviti gamla Selfosshrepps og kauptúns.

Ég valdist til setu í hreppsnefnd hrunamannahrepps 1994 og hef því í vor setið í 15 ár í sveitarstjórn þar af 7 ár sem oddviti, og 4 sem varaoddviti. Á vettvangi samstarfssveitarfélaga hef ég kynnst öllu þeim vandamálum og verkefnum sem blasa við fólkinu í kjördæminu. Á þessum vettvangi hef ég m.a. setið í stjórn Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands í 5 ár , Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, stjórn Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi þar sem ég er varaformaður stjórnar. Auk þess að vera í forsvari á þessu sveitstjórnarkjörtímabili fyrir samstarfi sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu og Flóahrepps m.a. í  félagsmálum, ferðaþjónustu og bygginga- og  skipulagsmálum.

Eins og þessi upptalning ber með sér tel ég mig hafa yfirgripsmikla þekkingu á rekstri og umhverfi landbúnaðar og sveitarfélaga og einnig á rekstri fyrirtækja jafnt einkafyritækja sem og í opinbera geiranum.

Ég bý í S-Langholti Hrunamannahreppi með sambýliskonu minni Elsu Ingjaldsdóttur og saman eigum við 5 börn.  Þar búum við á litlu býli með nokkra hesta, hund og ketti.

Góðir Framsóknarmenn - eins og eg nefndi í innganginum lifum við óvenjulega tíma. Almenningur í landinu er orðinn leiður á að horfa uppá aðgerðaleysi, óheiðarleika,  flokkspot og siðferðisbrest.

Nú er runninn upp nýr tími, -  tím nýs siðferðis og heiðarleika jafnt í stjórnmálum sem og viðskiptum.

Þessu verður ekki komið á átakalaust - það krefst áræðis að ráðast gegn ríkjandi öflum. Hugrekkis og heiðarleika til að taka erfiðar ákvarðanir fyrir land og þjóð.

Ég treysti mér til að ráðast í þetta verkefni. Þessvegna býð ég mig fram til að leiða lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

Verkefnið er að efla traust almennings þannig að Alþingi og ríkistjórn með fólkinu í landinu geti byggt upp öflugt Ísland, endurreist traust á alþjóðavettvangi og skapa atvinnu til handa öllum.

Enginn einn nær slíkum árangri - við þurfum að setja saman sterkan lista af dugmiklu og heiðarlegu fólki sem sem með samvinnu og félagsþroska nái að ganga saman í takt. Landi voru, þjóð og flokki til heilla.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband