Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ólöglegt verðsamráð eða lögboðið hlutverk BÍ?

Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 19. mars 

Þann 6. mars sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Bændasamtök Íslands hefðu brotið gegn samkeppnislögum ,,með aðgerðum sem miðuðu að því að hækka verð á búvörum." Búvörurnar sem um ræðir eru möo. kjúklingakjöt, egg, grænmeti og svínakjöt - vörur sem ekki eru undir búvörusamningum og því á frjálsum markaði.  

Í niðurstöðu Samkeppnisstofnunar kemur fram að upphaf rannsóknarinnar hafi verið frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Sátt um hækkanir nauðsyn". Síðan fjallar fréttin um Búnaðarþing 2008 og ályktun þess er varðar nauðsyn þess að hækka búvöruverð.

Hver má segja hvað?

Nú er samkeppni af hinu góða og hlutverk Samkeppniseftirlitsins mikilvægt til þess að hér megi ríkja eðlileg og sanngjörn samkeppni á öllum sviðum. Það er hins vegar mjög óeðlilegt að yfirskrift í fréttablaði verði ein og sér kveikjan að rannsókn en enn alvarlegra er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins í þessu sambandi. Bændasamtök Íslands eru og verða hagsmunasamtök bænda. Slíkum hagsmunasamtökum er ætlað að standa vörð um félagsmenn sína. Eftir úrskurð Samkeppniseftirlitsins er óljóst hvernig BÍ á að vera kleift að uppfylla þær skyldur sínar. Í mínum huga er fyrirsögnin ,,Sátt um hækkanir nauðsyn", í sama anda og formaður ASÍ segi að nauðsynlegt sé að sátt náist um að hækka laun. Ekki hefði nokkrum manni dottið í hug að slík ummæli væru ólögleg. Í niðurstöðu Samkeppnisstofnunar eru ummæli formanns BÍ notuð sem rök. Í Fréttablaðinu 2. mars 2008 var haft eftir honum að nauðsynlegt væri að hækka verð. Sama dag var samþykkt ályktun um nauðsyn þess að afurðaverð til bænda verði að hækka í samræmi við aukin tilkostnað. Samkeppnisstofnun kemst að þeirri niðurstöðu að sú ályktun feli í sér beinar yfirlýsingar og tilmæli um verðhækkun.

Reginmunur á skyldu og lögbroti

Bændasamtök Íslands eru, og verða málsvari bænda og það er eðlilegt að slík samtök fjalli um kjaramál félagsmanna sína.  Á sama hátt setur ASÍ fram ályktanir um hækkun launa og Samtök atvinnulífsins álykta um nauðsyn þess að sátt náist um að hækka ekki laun. Ummæli forsvarsmanna slíkra samtaka og ályktanir eru til þess fallnar að verja hagsmuni félagsmanna sinna á sama hátt og BÍ ber að verja hagsmuni bænda. Það er skylda en ekki ólögleg aðgerð.

Ítarlegur úrskurður Samkeppnisstofnunar er um margt fróðlegur. Í honum koma fram ýmis rök, með eða á móti, meintu samkeppnisbroti BÍ. Eftir lestur hans sannfærðist ég hins vegar um að BÍ hafi uppfyllt skyldur sínar í garð félagsmanna og sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Fyrir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu verða að vera til öflug samtök sem bera hag þess fyrir brjósti. Það er nauðsynlegt að Bændasamtök Íslands geti nú sem hingað til, sinnt hlutverki sínu og fengið til þess sama svigrúm og önnur hagsmunasamtök.


Gömul gildi - nýtt fólk

Grein birt í dagskránni 19. mars

Að baki eru prófkjör flokka, samkeppni frambjóðenda um að fá umboð  frá almenningi til að vinna landi og þjóð gagn.

Framundan er stutt og snörp kosningabarátta. Barátta þar sem gömul og góð gildi verða í öndvegi allra flokka og allra frambjóðenda. Í þeirri baráttu verða gildi Framsóknarflokksins í hávegum höfð og meðbyr að berjast fyrir þeim. Gildum þar sem manngildi ofar auðgildi er megin inntakið. Þar sem vinna og hagvöxtur atvinnulífsins, vöxtur fyrirtækja og velferð heimila er undirstaða íslensks samfélags.

Krafa um endurnýjun

Endurnýjun í röðum framsóknarmanna er engin tilviljun. Grasrót flokksins, fólkið í landinu vill sjá afturhvarf til betri gildistíma. Brotthvarf frá græðgisvæðingu og siðleysis síðustu ára. Við viðurkennum að mistök hafi verð gerð. Við erum líka stolt af ýmsu sem flokkurinn hefur unnið að eins og lengingu fæðingarorlofs, jafnréttismálum og við höfum staðið vörð um Íbúðalánasjóð. Nýtt fólk, ný forysta er tilbúin til að vinna fyrir fólkið í landinu og með fólkinu í landinu. Ekki má bíða stundinni lengur með aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs. Vextir verða að lækka, gengið að styrkjast, hjól atvinnulífsins verða að komast í gang á ný. Þannig og aðeins þannig munum við ná að vinna okkur út úr efnahagshruninu.  

Við viljum hitta ykkur

Um leið og ég þakka kærlega fyrir stuðning við mig, vil ég jafnframt þakka öllum þeim sem tóku þátt, frambjóðendum, skipuleggjendum og almennum flokksmönnum fyrir að láta  póstkosninguna takast jafnvel eins og raun bar vitni. Nýr listi Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi er gott dæmi um þann mikla mannauð sem er tilbúin til að leggja sitt af mörkum fyrir betri framtíð.

Laugardaginn 21. mars kl. 10.30 verður opið hús að Eyrarvegi 15, Selfossi. Þar munum við frambjóðendur Framsóknarflokksins mæta. Vonumst við til að sjá sem flesta, heyra hvað á ykkur brennur og eiga gagnlegar umræður um landsmálin. Með því móti verðum við sterkir framgöngumenn ykkar mála á landsvísu.  


Atvinnuleysi eykst enn - lýst eftir aðgerðum

 

Minnihluta ríkisstjórnin er enn við sama heygarðshornið. Ræðst á niðurfærslu hugmyndir okkar framsóknarmanna á skuldum heimilanna. Leið sem hagfræðingurinn Tryggvi Þ.Herbertsson sjálfstæðisflokki, hefur líka lagt til en einnig hefur Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og frambjóðandi VG talað á sömu nótum. Ásamt mörgum öðrum ekki síst erlendum þekktum ,,nýhugsandi" hagfræðingum. Fræðimönnum sem gera sér ljóst að við yfirvofandi kerfishruni verður að bregðast við með nýrri, frjórri hugsun og lausnum.

Á meðan minnihluta ríkisstjórnin er að reyna troða óskafrumvörpum (les kosningaáróðri) sínum í gegnum þingið blæðir heimilum og atvinnulífi út. Atvinnuleysi er komið yfir 10.5%, meir en 17 þúsund Íslendingar eru atvinnulausir.

Nú er komið að endalokum þessa pólitíska hráskinnaleiks. Skoða þarf allar leiðir - ekki síst niðurfærsluleið skulda. Lækka þarf  vexti strax, koma í gang gengisstyrkjandi aðgerðum. Vernda heimilin og koma hjólum atvinnulífs í gang með raunhæfum aðgerðum sem gera gagn - núna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband