Færsluflokkur: Bloggar

Fyrirkomulag póstkosningar

Á aukakjördæmisþingi framsóknarmanna í Suðurkjördæmi sem haldið var í 14. febrúar í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli var samþykkt tillaga þess efnis að val í sex efstu sætin á framboðslista framsóknarmanna í kjördæminu vegna kosninga til Alþingis þann 25. apríl nk. skyldi fara fram með póstkostningu allra félagsmanna í kjördæminu.

Frestur til að tilkynna framboð rann út á hádegi í gær. Ennfremur var lokað fyrir nýskráningar í flokkinn  í gær. 

Munu atkvæðaseðlar að öllum líkindum vera sendir út til félagsmanna eftir helgi og verður hægt að póstleggja atkvæði sitt til og með 4. mars næstkomandi. Úrslit verða svo kynnt á kjördæmisþingi sem haldið verður á Selfossi, helgina 7-8. mars.

Framundan er fólkið...

Nú verður ekki aftur snúið. Ég var að skila inn tilkynningu til kjörstjórnar í Suðurkjördæmi um að ég gefi kost á mér í 1. sæti á lista Framsóknarflokksins fyrir komandi Alþingiskosningar. Kjörseðlar verða síðan sendir til félagsmanna eftir helgi. Síðustu forvöð til að póstleggja atkvæði sitt er svo 4. mars næstkomandi.

Einn og óstuddur hefði ég ekki gefið mig í þetta ábyrgðarfulla verkefni. Traust og stuðningur er hverjum nauðsynlegur í slíkt. Fyrir þá hvatningu er ég þakklátur.

Ég ætla því að taka mér frí frá dýralækningum og nota þennan dýrmæta tíma til að kynnast enn fleiri Framsóknarmönnum og efla tengslin.

Á næstu dögum munu vonandi fleiri en doðakýr og veikar skepnur verða varar við mínar verkefnabreytingar. Ég hef engar áhyggjur af skepnunum, veit að þeim verður sinnt af færum kollegum. Mig langar hins vegar til að Framsóknarmenn á Suðurlandi verði vel upplýstir um það val sem þeir standa frammi fyrir og mér takist að sinna þeim sem skyldi.

Til að það takist á sem bestan hátt eru allar ábendingar frá ykkar hálfu vel þegnar. Því vil ég hvetja ykkur til að hafa samband við mig, bæði símleiðis og eins í gegnum netið.

Saman getum við blásið byr í seglin.


Hver er ég?

Ég er 46 ára gamall Árnesingur en foreldar mínir voru Jóhann Pálsson (f. 7.mars 1939, d. 28. nóvember 1987) og Hróðný Sigurðardóttir (f. 17. maí 1942 d. 28. nóvember 1987) bændur í Dalbæ, Hrunamannahreppi. Ég á þrjú systkini, Arnfríður og Páll búa bæði kúabúi með mökum og fjölskyldu, Arnfríður að Dalbæ og Páll í Núpstúni. Margrét, litla systir býr í Reykjavík með manni sínum og barni.

Ég bý að Syðra-Langholti með Elsu Ingjaldsdóttur (f. 9. maí 1966) framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Foreldrar hennar eru Ingjaldur Ásvaldsson (f. 27. ágúst 1940) og Guðbjörg Elíasdóttir (f. 4. október 1946). Samtals eigum við fimm börn, það yngsta 12 ára.

Börn mín og fyrri konu minnar, Önnu Kr. Ásmundsdóttur, eru Nanna Rún (1983), Jóhann Halldór (1990) og Bergþór Ingi (1992). Börn Elsu eru Sölvi Már (1990) og Hildur Guðbjörg (1996). Ég á einnig tengdason, Eyþór Sigurðsson og eitt barnabarn, gullmolann Óskar Inga (2007)

Ég  er dýralæknir að mennt og hef aðallega starfað sem sjálfstætt starfandi dýralæknir á Suðurlandi.

Ég ólst upp í Dalbæ í Hrunamannahreppi þar sem foreldrar mínir voru bændur. Örlögin höguðu því þannig til að þau féllu frá í hörmulegu bílslysi þegar ég átti um eitt ár eftir af námi mínu. Verandi elstur fjögurra systkina tók ég mér námsleyfi og rak búið með fjölskyldunni í tæpt ár og svo aftur í fimm ár að námi loknu.

Í störfum mínum sem dýralæknir á árunum 1992-1994 var ég settur héraðsdýralæknir bæði í Hreppa- og Laugarásumdæmi í afleysingum svo og eitt haust í V-Barðastrandarumdæmi.

Ég var kjörinn í hreppsnefnd Hrunamannahrepps árið 1994 og hef setið  í sveitarstjórn síðan, frá 2002 sem oddviti í hlutastarfi.

Ég hef alla tíð haft brennandi áhuga á þjóðmálum og þekki því vel til stjórnsýslu og stjórnkerfis Íslands,  ekki síst landbúnaðarins og landsbyggðarinnar.

Í tómstundum mínum er það hestamennskan sem tekur mestan tíma. Þar eru bestu samverustundirnar með fjölskyldunni allri. Hestaferðir að sumri til eru fastur liður í tilverunni þar sem fer saman góður félagsskapur manna og hrossa. Í Syðra-Langholti samanstendur bústofninn af þó nokkrum reiðhestum, einum hundi og þremur köttum. Ég hef einnig mjög gaman af söng og hef verið í Karlakór Hreppamanna frá því 1999. Á árum áður stundaði ég fjölmargar íþróttir t.d.  fótbolta, körfubolta, blak, frjálsar og bridge. Bæði sem keppni en líka til heilsubótar. Í dag er ég áhugamaður um allar íþróttir en stunda þær full lítið sjálfur.

Tómstundir mínar hafa síðustu árin samt sem áður  helgast af einlægum áhuga að efla nærsamfélagið og landsbyggðina. Þannig hef ég verið svo heppinn að geta sameinað vinnu og áhugamál.


Nýir tímar Í Framsókn

 

Á sögulegu flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar síðastliðinn var kosin ný forysta, nýr formaður sem hefur á stuttum tíma orðið boðberi nýrrar hugsunar og framgöngu í stjórnmálum. Á flokksþinginu var það andi siðbótar og breytinga sem réð ríkjum en einnig andi samkenndar og samstöðu.

Staðreyndin er nefnilega sú að við stöndum öll saman, Íslendingar frammi fyrir því risavaxna verkefni að endurreisa efnahag lands og þjóðar sem og orðspor okkar.

Heiðarleiki og siðvendni jafnt í viðskiptum sem stjórnmálum virðast hafa hopað fyrir græðgi og flokkspoti á liðnum árum. Árangur þeirrar stefnu er okkur öllum ljós. Traust stjórnmálamanna  er rúið og með því, geta þeirra til að leiða okkur fram úr þrengingunum fram til betri tíma. Tíma þar sem gildismat jöfnuðar, heiðarleika og samvinnu verði hampað á kostnað siðblindu, græðgisvæðingar frjálshyggjunnar, óheiðarleikans og ójöfnuðar.

Traust á ráðamönnum er öllum samfélögum nauðsyn til að skapa stöðugleika sem og mannlífi öllu og ekki síst atvinnulífi  til að vaxa og dafna.

Á þessu glæsilega flokksþingi voru samþykktar ályktanir sem Framsóknarflokkurinn mun hafa að leiðarljósi næstu árin. Ein sú mikilvægasta er um að efnt verði til stjórnlagaþings þar sem stjórnarskrá Íslands og eftir ástæðum viðeigandi lög um stjórnsýslu verði endurskoðuð.

Stjórnlagaþing og róttæk endurnýjun fólks á framboðslistum er forsenda þess að við, almenningur, fáum traust á stjórnmálum og stjórnmálamönnum.

Það er í ljósi þessa, sem sá,  sem þetta ritar hefur ákveðið að bjóða fram krafta sína til að vinna landi og þjóð gagn.

Á undanförnum 15 árum hef ég setið í sveitarstjórn Hrunamannahrepps lengst af sem oddviti eða varaoddviti. Í störfum mínum þar hef ég leitast við að byggja upp öflugt samfélag þar sem undirstöðuatvinnuvegir samfélagsins fái notið sín. Landbúnaður er sú atvinnugrein sem ég þekki best enda bæði sú grein sem ég ólst upp í, hef starfað við og er öflugust á Suðurlandsundirlendinu. Í starfi mínu sem sveitarstjórnarmanns er uppbygging menntunar annar þáttur sem ég hef haft mikinn áhuga og metnað fyrir. Hef ég komið að öllum skólastigum, frá leikskólauppbyggingu, grunnskólastjórnun, skólanefndarformaður framhaldsskóla og ekki síst mikill áhugamaður og stuðningsmaður um uppbyggingu háskólanáms á Suðurlandi. Mörg önnur fjölbreytt samfélagsverkefni verða óhjákvæmilega að áhugamáli hjá þeim sem leggja fyrir sig trúnaðstörf í þágu almennings.

Samtímis opinberum trúnaðarstörfum hef ég starfað við landbúnað og dýralækningar í ríflega 20 ár. Þar hef ég kynnst bæði fólki og atvinnugreininni sjálfri á Suðurlandi öllu. Jafnframt rekstri slíkra fyrirtækja, vanda þeirra og framtíðarmöguleikum.

Með reynsluna í fararteskinu og óeigingjarna löngun til að verða landi og þjóð að gagni býð ég fram krafta mína í forystusveit Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Ég tel mig hafa kjark og þor og heiðarleika til að geta orðið að liði  en einnig skynsemi og auðmýkt til að viðurkenna að án fulls samráðs við þjóðina og samvinnu allra verður verkefnið óyfirstíganlegt.


Ræða flutt á kjördæmisþingi 14. febrúar 2009

Fundarstjóri - góðir kjördæmisfulltrúar

Við lifum mikla óvissu tíma. Tíma efnahagslegrar niðursveiflu -þeirrar mestu í áratugi. Tíma mikilla breytinga og umbrota - . Það á við um stjórnmálinn öll , stjórnmálamenn og flokka. En ekki síst eru þetta miklir gjörninga tímar í lífi þjóðar og fólksins í landinu.

Eftir að hafa horft upp á aðgerðalausa ríkisstjórn. Ráðalausa forystumenn þjóðarinnar - stöndum við nú frammi fyrir að kjósa til Alþingis með skömmum fyrirvara. 

- Vandinn framundan er risavaxinn og svo virðist sem núverandi ráðamenn nái ekki yfirsýn yfir hann né heldur að leggja til raunverulegar aðgerðir til að við öll getum saman leyst úr honum - unnið þjóð okkar og einstaklinga út úr vandanum.

Á glæsilegu , nýafstöðnu flokksþingi okkar framsóknarmanna gerðum við upp við fortíðina - og við tókum djörf skref til að leggja okkar að mörkum við endurreisn Íslands

Stjórnlagaþing og endurnýjun í röðum þeirra sem bjóða sig fram til að vinna fyrir land og þjóð og flokk er krafan svo endrvinna megi traust almenning á stjórnmálum,  mönnum og flokkum.

Það er í kjölfar þessarra breytinga, að sem sá sem hér stendur ákvað að bjóða fram krafta sína til að vinna landi, þjóð og flokki gagn.

Margt fellur mér betur en að standa hér og eiga að mæra sjálfan mig. Miklu heldur vil ég vera dæmdur að verkum mínum og mati samferðamanna.

En ég heiti Sigurður Ingi Jóhannsson er 46 ára (verð 47 í vor)  fæddur og uppalinn í Dalbæ í Hrunamannahreppi hjá foreldrum mínum sem þar ráku myndarlegt blandað bú. Að loknu stútendsprófi frá ML bjó ég og starfaði eitt ár í Reykjavík en þar á eftir bjó ég í sex ár í Kaupmannahöfn þar sem ég lærði dýralækningar.

Að námi loknu kom ég heim og tók við, ásamt yngri systkynum mínum, búi foreldra okkar og rak það samhliða dýralækningum um 5 ára skeið. Síðan hef ég starfað sem dýralæknir á öllu Suðurlandi m.a. sem einn af stofnendum Dýralæknaþjónustu Suðurlands. Í upphafi vorum við þrír dýralæknar en nú 13 árum síðar starfa 11 starfsmenn þar af 8 dýralæknar hjá fyrirtækinu.

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á félags- og þjóðmálum. Á uppvaxtarheimili mínu voru opnar umræður um þjóðmál. Móðir mín starfaði mikið að félagsmálum og sat m.a. í sveitarstjórn Hrunammannahrepps og móðurafi minn og nafni var lengi oddviti gamla Selfosshrepps og kauptúns.

Ég valdist til setu í hreppsnefnd hrunamannahrepps 1994 og hef því í vor setið í 15 ár í sveitarstjórn þar af 7 ár sem oddviti, og 4 sem varaoddviti. Á vettvangi samstarfssveitarfélaga hef ég kynnst öllu þeim vandamálum og verkefnum sem blasa við fólkinu í kjördæminu. Á þessum vettvangi hef ég m.a. setið í stjórn Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands í 5 ár , Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, stjórn Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi þar sem ég er varaformaður stjórnar. Auk þess að vera í forsvari á þessu sveitstjórnarkjörtímabili fyrir samstarfi sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu og Flóahrepps m.a. í  félagsmálum, ferðaþjónustu og bygginga- og  skipulagsmálum.

Eins og þessi upptalning ber með sér tel ég mig hafa yfirgripsmikla þekkingu á rekstri og umhverfi landbúnaðar og sveitarfélaga og einnig á rekstri fyrirtækja jafnt einkafyritækja sem og í opinbera geiranum.

Ég bý í S-Langholti Hrunamannahreppi með sambýliskonu minni Elsu Ingjaldsdóttur og saman eigum við 5 börn.  Þar búum við á litlu býli með nokkra hesta, hund og ketti.

Góðir Framsóknarmenn - eins og eg nefndi í innganginum lifum við óvenjulega tíma. Almenningur í landinu er orðinn leiður á að horfa uppá aðgerðaleysi, óheiðarleika,  flokkspot og siðferðisbrest.

Nú er runninn upp nýr tími, -  tím nýs siðferðis og heiðarleika jafnt í stjórnmálum sem og viðskiptum.

Þessu verður ekki komið á átakalaust - það krefst áræðis að ráðast gegn ríkjandi öflum. Hugrekkis og heiðarleika til að taka erfiðar ákvarðanir fyrir land og þjóð.

Ég treysti mér til að ráðast í þetta verkefni. Þessvegna býð ég mig fram til að leiða lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

Verkefnið er að efla traust almennings þannig að Alþingi og ríkistjórn með fólkinu í landinu geti byggt upp öflugt Ísland, endurreist traust á alþjóðavettvangi og skapa atvinnu til handa öllum.

Enginn einn nær slíkum árangri - við þurfum að setja saman sterkan lista af dugmiklu og heiðarlegu fólki sem sem með samvinnu og félagsþroska nái að ganga saman í takt. Landi voru, þjóð og flokki til heilla.


Yfirlýsing til framboðs í Suðurkjördæmi

Að vel athuguðu máli hef ég, Sigurður Ingi Jóhannsson, ákveðið að gefa kost á mér til forystu á lista Framsóknarflokksins Í Suðurkjördæmi.

Ég hef lengi tekið virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins. Jafnframt hef ég setið í sveitarstjórn Hrunamannahrepps í 15 ár í vor, þar af sjö ár sem oddviti og 4 ár sem varaoddviti.

Með reynslu mína af sveitarstjórnarmálum og óbilandi trú á gildum Framsóknarflokksins, vil ég taka þátt í því mikla uppbyggingarstarfi sem framundan er á Íslandi. Það starf krefst óeigingirni, heiðarleika, dugnaðar og skynsemi og tel ég mig búa yfir þeim kostum sem þarf til.

Ég bý að Syðra - Langholti, Hrunamannahreppi, fæddur og uppalinn Árnesingur. Sambýliskona mín er Elsa Ingjaldsdóttir og eigum við samtal 5 börn. Ég er dýralæknir að mennt og starfa sem slíkur hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands. Auk þess gegni ég starfi oddvita Hrunamannahrepps og tek virkan þátt pólitísku starfi sveitarfélaga á Suðurlandi með setu í ýmsum stjórnum og nefndum.

Með hugsjónir Framsóknarflokksins í brjósti eru okkur allir vegir færir - saman.


Náms- og starfsferill

 

Námsferill

1983 - 1989 Háskólapróf í dýralækningum frá Konunglega Dýralækna- og Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn (KVL.).  Almennt dýrlæknaleyfi í Danmörku vor 1989 og á Íslandi vor 1990.

1978 - 1982 Stúdentspróf af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum að Laugarvatni.

Starfsferill

2002 -           Oddviti Hrunamannahrepps (hlutastarf).         

1996 -           Dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. Er einn af þremur stofnendum félagsins og hef starfað í fullu starfi ( 80% starf frá 2002).

1990 - 1995 Sjálfstætt starfandi dýralæknir í uppsveitum Árnessýslu. Settur héraðsdýralæknir í afleysingun í Hreppa- og Laugarásumdæmi ásamt vaktasamstarfi (1992-1994) einnig settur héraðsdýralæknir í V-Barðastrandaumdæmi tímabundið.

1987 - 1994  Bóndi í Dalbæ í Hrunamannahreppi des 1987-ágúst 1988 og aftur frá júní 1989 - vors 1994. Dalbær var rekið sem félagsbú okkar systkina, blandað bú aðallega með kýr (30-35) ásamt u.þ.b. 100 kindur.

1984 - 1989  Ýmiss tímabundin vinna í jólafríum og sumarfríum í Danmörku og á Íslandi (m.a. Límtré hf. Á Flúðum).        

1982 - 1983  Frá september 1982 - maí 1983 afgreiðslu- og verkamannavinna í Mjólkursamsölunni í Reykjavík.

1970 - 1984 Landbúnaðarstörf á búi foreldra minna samhliða námi. Þar með talinn byggingarvinna við uppbyggingu búsins 1972-1981 samfellt. Vélavinna, umhirða dýra og önnur þau störf sem tilfalla á stóru búi.

Félags- og trúnaðarstörf

2007 - Varaformaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga

2006 - Formaður skipulags- og bygginganefndar uppsveita Árnessýslu

2006 - Oddviti oddvitanefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps

2006 - Í Heilbrigðisnefnd Suðurlands

2003 - 2006 Í samgöngunefnd sambands sunnlenskra sveitarfélaga.

2002 - 2007 Í stjórn Atvinnuþróunarfélags Suðurlands. Varaform. frá 2006.

2002 - Héraðsnefnd Árnesinga í fulltrúastjórn, skoðunarmaður reikninga stofnanna héraðsnefndar. (Tónlistarskóla, Héraðskjalasafns, Byggðasafns, Listasafns ásamt Héraðsnefndar Árnesinga) 2002-2006.

1994 - Kosinn til setu í sveitarstjórn Hrunamannahrepps og hef setið þar síðan. Varaoddviti 1994-1998 og oddviti frá 2002. Hef setið í fjölmörgum nefndum og verkefnisstjórnum í sveitarfélaginu og  einnig fyrir hönd Hrunamannahrepps á samvinnuvettvangi sveitarfélaga.

1996 - Formaður stjórnar Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. frá stofnun.

2002 -2003 Í stjórn Kaupfélags Árnesinga.

2001 - Formaður stjórnar skólanefndar Menntaskólans að Laugarvatni, varamaður 1997-2001.

1996 -2002 og aftur 2003 - 2005  Formaður stjórnar Hótels Flúða hf. frá stofnun 1996 félagsins og formaður byggingarnefndar hótelsins 1998-2000.

1996 -1998 Í ráðherraskipaðri nefnd sem vann að breytingum á dýralæknalögum.

1994 -1996 Meðstjórnandi í stjórn Dýralæknafélags Íslands

1993 -1997 Í sóknarnefnd Hrepphólakirkju, gjaldkeri.

1990 -1996 UMFH, varastjórn og gjaldkeri knattspyrnudeildar. 

1976 -1982 Ungmennafélag Hrunamanna (UMFH) ýmsar nefndir


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband