Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

3. grein um sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins


Sigurður Ingi Jóhannsson
Nýlega fjallaði undirritaður um nýja sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins í tveimur greinum í Morgunblaðinu. Þær fjölluðu annars vegar um meginatriði ályktunar 31. flokksþings framsóknarmanna og hins vegar um nýtingarsamninga - svokallaða samningaleið í úthlutun aflaheimilda á grunni aflahlutdeildar á skip. Í þessari grein verður hinsvegar farið nánar ofan í svokallaðan Pott 2 þar sem við leggjum til að veiðiheimildum verði úthlutað með öðrum hætti en í aflahlutdeildarkerfinu.

 

Úthlutun til fiskvinnsla

 

Þar er fyrst til að taka byggðaívilnun sem byggist á að úthluta til fiskvinnsla, fyrst og fremst þar sem það á við, ákveðnu magni aflaheimilda til að tryggja atvinnu og m.t.t. byggðasjónarmiða.

 

Fiskvinnslan fengi þannig úthlutaðar aflaheimildir eftir ákveðnum reglum sem m.a. tæku mið af vinnslu ársins á undan auk atvinnuástands byggðarinnar og semdi síðan við einstakar útgerðir um veiðarnar. Með þessum hætti má tryggja með öruggari hætti en nú er að svokallaður byggðakvóti gangi allur til að tryggja vinnu í landi í því byggðarlagi sem viðkomandi fiskvinnsla er.

 

Ferðaþjónustuveiðar

 

Í öðru lagi er lagt til að í Potti 2 séu þeim aðilum tryggðar aflaheimildir sem stunda svokallaðar frístundaveiðar, sjóstangveiði og slíkt. Við framsóknarmenn leggjum til að þessi hluti Potts 2 verði kallaður ferðaþjónustuveiðar og að þeim aðilum sem þær stunda verði tryggð aflahlutdeild með því að landa aflanum sem AVS-afla. Með þessari ráðstöfun getur þessi unga atvinnugrein dafnað á eigin forsendum en er ekki takmörkuð af því að eiga eða leigja kvóta. Ferðaþjónustuveiðar eru mikilvægur vaxtarbroddur í einstökum sjávarbyggðum í dag og hafa mikla möguleika til að dafna enn frekar og stækka.

 

Nýsköpun

 

Í þriðja lagi leggur Framsókn mikla áherslu á að efla nýsköpun í sjávarútvegi. Ein leið til þess er að úthluta veiðileyfum til aðila sem vilja nýta van- eða ónýttar tegundir. Hugsunin er að úthlutunin verði að einhverju leyti í formi meðaflareglna en einnig að úthlutað verði aflaheimildum til slíkra aðila til að tryggja rekstrargrundvöll, t.a.m. á ársgrundvelli, á meðan verið er að byggja upp þekkingu á veiðum og vinnslu. Nýsköpunarpottinum er einnig ætlað að stuðla að vexti fiskeldis, (t.d. þorsks, lúðu, lax, o.fl.) sem er mikilvægur vaxtarbroddur, sem og ræktun, t.d. kræklingarækt. Nýsköpun yrði einnig styrkt beint með fjárframlögum úr sjóðum sem verða til með veiðigjaldi eða svokölluðu auðlindagjaldi. Miklir möguleikar felast í nýsköpun hvort sem um er að ræða betri nýtingu van- eða ónýttra tegunda eða fiskeldi og rækt. Nefna má sem dæmi að fiskeldi Norðmanna skilar um einni milljón tonna í dag og stefna þeirra er að auka það um 50-100% á næstu 10-15 árum. Aðstæður hérlendis eru síst lakari.

 

Nýliðun - strandveiðar

 

Síðast en ekki síst er tillaga okkar að hluti af Potti 2 verði nýttur til úthlutunar aflaheimilda til svokallaðra strandveiða sem við viljum nefna nýliðunar-strandveiðar. Megintilgangur strandveiða er að auðvelda nýliðun og tryggja rétt einstaklingsins til veiða. Þannig má hver aðili einungis halda á einu strandveiðileyfi. Úthlutun til svæða verður miðuð við fjölda báta. Landinu verður skipt upp í fjögur svæði eftir landshlutum. Heimildunum verður dreift á báta í stað daga og reglum um sóknardaga aflétt. Bátar með kvóta umfram 50 þorskígildistonn fái ekki strandveiðileyfi en bátar án kvóta fái 100% rétt. Rétturinn rýrni í hlutfalli við keyptan nýtingarrétt. Þegar bátur hefur eignast 50 tonna rétt skilar hann inn leyfinu til ríkisins. Leyfinu verður þá endurúthlutað. Þannig verður um að ræða hvata fyrir strandveiðibáta til að kaupa sig inn í Pott 1 og þar með hleypa nýjum aðilum inn í strandveiðikerfið.

 

Stærð á Potti 2

 

Tillögur okkar framsóknarmanna ganga út á að koma með kröftugri hætti til móts við byggðasjónarmið, nýliðun, nýsköpun og aðra vaxtarbrodda í greininni. Núverandi tilfærslur eru 3,5% af heildarþorskígildum og mjög mismunandi eftir tegundum allt frá 0-10%. Framsóknarflokkurinn leggur til að samhliða stofnstærðaraukningu einstakra tegunda vaxi Pottur 2 á allra næstu árum þannig að af tegundum sem engin tilfærsla er á í dag verði hann 3-5% og af öðrum stofnum allt að 10%. Stefnt verði að því að Pottur 2 vaxi enn frekar, í allt að 15% í einstökum tegundum, samhliða stofnstærðaraukningu og að því gefnu að reynslan af úthlutun veiðiheimilda úr Potti 2 sé jákvæð. Með þessum tillögum leggur Framsóknarflokkurinn sitt lóð á vogarskálar sáttar um eina mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Innan þessa ramma getur atvinnugreinin dafnað, nýsköpun blómstrað, auðlindarentan vaxið og nýliðun er gerð auðveldari.




Ekki ef farin er leið Framsóknarflokksins

Mikill ágreiningur hefur risið um frumvörp ríkisstjórnarinnar. Svo virðist sem enginn sé sáttur og það sem verra er allflestir mjög ósáttir. Það virðist því vera þannig að ríkisstjórninni hafi mistekist að nýta það gullna tækifæri að ná sögulegri sátt um atvinnugreinina. Sátt sem virtist - ótrúlegt en satt - hægt að ná á grundvelli samráðsnefndar ráðherra sem lauk störfum í september í fyrra.

Birti hér grein mína um stefnu Framsóknarflokksins hvað varðar nýtingarsamninganna. En hún birtist í mbl í vikunni.

Grein II - Nýtingarsamningar 
Fyrir skömmu fjallaði ég, í grein hér í Morgunblaðinu, um meginatriði í nýrri sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins, en þar er lagt til að farin verði blönduð leið í stjórnun fiskveiða. Annars vegar byggist sú leið á grunni núverandi kerfis um aflahlutdeild á skip með samningum um nýtingu auðlindarinnar. Það er samdóma álit langflestra fræði- og fagmanna að kerfið hafi reynst vel, bæði m.t.t. hagstjórnar sem og verndunar fiskistofna. Framsókn leggur því til að það verði áfram grundvöllur fiskveiðistjórnunar og grunnur að sívaxandi arðsemi greinarinnar.

Hinsvegar er lagt til nýtt fyrirkomulag úthlutana þar sem sérstaklega skal gætt byggðasjónarmiða m.a. með úthlutun aflaheimilda til fiskvinnsla, strandveiða og annarra aðgerða sem einnig auka möguleika á nýliðun í greininni. Í tillögum Framsóknar er sérstaklega ýtt undir nýsköpun bæði með tilliti til veiða m.a. á van- eða ónýttum tegundum en einnig með frekari fullnýtingu hráefnis, fiskeldi og rækt, t.d. kræklingarækt.

 

Úthlutun á grunni samninga

Tillaga Framsóknar um úthlutun veiðiheimilda á grunni aflahlutdeildar sem byggist á því að gera nýtingarsamninga við útgerðina, er útfærsla á samningaleiðinni sem sögulegt samkomulag náðist um í samráðsnefnd ráðherra um sáttaleið í sjávarútvegi. Tillagan byggist á að samningar verði gerðir á milli ríkisins og íslenskra aðila með búsetu á Íslandi, hið minnsta síðustu fimm ár. Slíkt ákvæði gæti tryggt raunverulegt eignarhald Íslendinga á auðlindinni. Við leggjum til að samningstíminn verði u.þ.b. 20 ár og verði endurskoðanlegur á fimm ára fresti með framlengingarákvæði til fimm ára í senn. Það þýðir að atvinnugreinin mun búa við stöðugleika í starfsumhverfi til lengri tíma eða minnst 20 ár. Sambærilegir samningar tíðkast m.a. við Nýfundnaland. Vilji menn framlengja samninginn á fimm ára fresti skapast einnig aðstæður fyrir ríkisvaldið til að bregðast við breyttum aðstæðum.

 

Innihald nýtingarsamninga

Framsóknarmenn leggja til að nýtingarsamningurinn innihaldi m.a. ákvæði um aukna veiðiskyldu og takmarkað framsal. Um veiðiskylduna er víðtæk sátt. Þegar rætt er um takmarkað framsal er átt við að tryggja skuli ákveðinn sveigjanleika, t.a.m. flutning aflaheimilda milli skipa sömu útgerðar, milli ára og svo framvegis. Þegar horft er til framtíðar þarf að tryggja hreyfingu á aflaheimildum með varanlegu fyrirkomulagi. Þar með skapast bæði svigrúm til nýliðunar en einnig aðstæður til að þau fyrirtæki sem standa sig vel geti vaxið og dafnað. Einnig er lagt til að settar verði enn frekari takmarkanir við óbeinni veðsetningu aflaheimilda og þannig leitað leiða til að draga úr veðsetningu greinarinnar. Við núverandi efnahagsástand og skuldaaðstæður einstakra útgerða teljum við rétt að setja ákvæði í samninginn sem tryggi að ef útgerð verður gjaldþrota falli aflahlutdeildin aftur til ríkisins. Það sama á auðvitað við sé samningurinn brotinn.

 

Sameign þjóðarinnar

Nauðsynlegt er að skýra og skilgreina hvað hugtakið „sameign þjóðarinnar“ þýðir. Málið er ekki einfalt. Lögskilgreining á hugtakinu „sameign þjóðarinnar“ er ekki til og því þarf að skilgreina hugtakið eða koma fram með annað betra.

Í tillögum Framsóknar er lagt til að úthlutun aflaheimilda og nýtingarsamningar um þær byggist á að stjórnvöld fari með eignarréttinn á auðlindinni (fullveldisréttur) og geti með samningum falið öðrum nýtingarréttinn til ákveðins tíma og magns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Einnig tryggir það eignarrétt þjóðarinnar að fyrir nýtingarsamningana skal greitt gjald, veiðigjald eða auðlindagjald til ríkisins.

Með því að taka á þeim göllum sem hvað mest gagnrýni á núverandi kerfi hefur snúist um, en byggja jafnframt á kostum þess er varðar hagstjórn og stofnvernd, viljum við tryggja að sjávarútvegur verði áfram ein mikilvægasta atvinnugrein landsins. Þannig verður tryggt, með nýtingarsamningum og auðlindagjaldi, að eðlilegt gjald renni til eiganda auðlindarinnar – þjóðarinnar. Og forsenda þess er stöðuleiki í starfsumhverfi greinarinnar.

Höfundur er alþingismaður


mbl.is „Ávísun á áralangar deilur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandinn og þreytan

Tek undir með ráðherra velferðarmála að ekki á ota börnum fremst á vígvelli - hvort sem um er að ræða stríð, pólitík eða kjarabaráttu.

Vandinn er hinsvegar að úrræðaleysi ráðherrans bitnar á börnum. Ekki síst börnum sem búa fjarri Reykjavík. Því hvort sem það er þreyta ráðherra eða eitthvað annað sem veldur þá virðist honum og ríkisstjórninni algerlega fyrirmunað að tryggja jafnræði í þjónustu ríkisins. Það að bjóða upp á ókeypis tannlækningar handa þeim sem fátækastir eru - er prýðilegt. En það gleymist alltaf hjá þessari ríkisstjórn að það býr fólk út um allt land. Því miður hafa sumir það slæmt að hafa ekki efni á tannlækningum barna sinna. - En það hefur enn síður efni á að koma sér til Reykjavíkur - taka heilan dag úr vinnu - skilja aðra fjölskyldu meðlimi eftir osfr osfr.

Alveg eins og þegar rætt var um ( og að hluta snúið ofan af) niðurskurð á grunnheilbrigðisþjónustu um land allt - þá virtist ríkisstjórn VG og Samfylkingar ekki átta sig á þeim viðbótarkostnaði sem fylgir að búa í stóru og dreifbýlu landi.

Skattastefna ríkisstjórnarinnar í álögum á eldsneyti styður enn frekar þá skoðun. En talað erum almennings samgöngur sem töfraorð - þó allir sem út á landi búa vita að ekkert kemur í staðinn fyrir einkabílinn - allaveganna ekki enn. -

Við viljum að landið sé allt í byggð. Við viljum að allir landsmenn búi við jafnræði ekki síst hvað varðar aðgangi að grunn heilbrigðisþjónustu og menntun.

Í fyrirspurn minni til velferðarráherra um kostnað við tannlækningar kom fram að til að allar grunntannlækningar væru innifaldar í sköttunum eins og aðrir sambærilegir hlutir heilbrigðiskerfisins þá þyrfti að hækka skattprósentuna um 0.85% eða um 5.9 milljarða. 

sjá svarið hér http://www.althingi.is/altext/139/s/1154.html

Erum við tilbúinn til þess?

En ríkisstjórnin og ráðherrarnir eru orðnir þreyttir og lúnir - rúnir trausti. Slík ríkisstjórn á að fara frá og hleypa ferskum hugmyndum og óþreyttu fólki að.


mbl.is Ekki á að nota börn í kjarabaráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefna Framsóknar í sjávarútvegsmálum

Birti hér grein mína um meginatriði stefnu Framsóknar í sjávarútvegsmálum sem birtist í mbl 11 mai 2011. 


Sigurður Ingi Jóhannsson: "Sjávarauðlindin er í senn gjöful og takmörkuð. Því er mikilvægt að hlúa að nýsköpun og nýliðun og skapa sátt um greinina með stefnu til lengri tíma."


Á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem haldið var Icesave-atkvæðagreiðsluhelgina í apríl síðastliðnum, var samþykkt ný stefna flokksins í sjávarútvegsmálum. Fyrir flokksþinginu lá skýrsla vinnuhóps, sem undirritaður stýrði, þar sem fram kom mat á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi – kostum þess og göllum. Þessa dagana er kallað eftir stefnu stjórnmálaflokkanna um sjávarútvegsmál. Með ályktun flokksþings hefur Framsókn lagt sínar tillögur fram. Þar er reynt að leggja fram stefnumótun sem taki mið af þrennu: Í fyrsta lagi að áfram verði starfræktur öflugur sjávarútvegur, um allt land, sem skili umtalsverðum arði til þjóðarbúsins. Sá arður verður til vegna útflutningstekna, skatttekna og veiðigjalds.
Í öðru lagi að fiskveiðistjórnunin verði áfram byggð á vísindalegum grunni. Veiðileyfum verði að meginstofni úthlutað sem aflamarki á skip og markmiðið sé að byggja upp langtíma hámarksnýtingu einstakra stofna á sjálfbærum grunni.

Í þriðja lagi verði sett lög og reglur sem tryggi betur nýliðun í sjávarútvegi, taki mið af atvinnulegum byggðasjónarmiðum, ýti undir nýsköpun og auki enn frekar arðsemi auðlindarinnar.


Meginatriði
Í þessari fyrstu grein af þremur hyggst undirritaður gera grein fyrir meginlínum í ályktun Framsóknarflokksins frá 31. flokksþingi 2011. Framsókn leggur mikla áherslu á að ná sem víðtækastri sátt meðal þjóðarinnar um atvinnugreinina. Til að nauðsynleg sátt og stöðugleiki náist þarf að móta skýra stefnu til lengri tíma. Sáttin byggist á að sníða af þá agnúa sem mestar deilur hafa snúist um. Opna þarf kerfið til að efla nýsköpun og auðvelda aðgengi nýrra aðila að útgerð. Stöðugleikinn næst annars vegar með samfélagssátt og hinsvegar með samningum um nýtingu auðlindarinnar til ákveðins tíma. Jafnframt ítrekum við nauðsyn þess að setja ákvæði í stjórnarskrá til að tryggja sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni sbr. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða – en þar stendur: Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Framsókn hafnar fyrningarleiðinni og leggur til að stjórnun fiskveiðanna verði blönduð leið. Annars vegar einskonar samningaleið á grunni aflaheimildar á skip og hinsvegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningu til nýsköpunar og til að gera nýliðun aðgengilegri. Við leggjum til að greinin greiði áfram veiðigjald, svokallaða auðlindarentu. Gjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar.
Á næstu árum má áætla að nýting náttúruauðlinda skili umtalsverðri arðsemi. Mikilvægt er að tryggja að auðlindagjaldið skili sér þangað sem til er ætlast. Gjaldið verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstuðnings innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til, t.d. til atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi svæðis og hluti í ríkissjóð. Sjávarauðlindin er í senn gjöful en takmörkuð. Því er mikilvægt að hlúa að nýsköpun bæði nýtingu nýrra tegunda, rækt og eldi eins og kræklingarækt og fiskeldi, en einnig enn frekari nýtingu hráefnis til að skapa verðmæti og auka arðsemi. Setja þarf fram efnahagslega hvata til að auka nýtingu á hráefni sem í dag er illa eða ekki nýtt. Mikilvægt er að nýta auðlindina sem skynsamlegast og byggja á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins. Stefnt skal að því að setja fram langtíma nýtingarstefnu um alla stofna sem miðist við að byggja þá upp til að þola hámarksnýtingu til langtíma. Bæði yrði um að ræða svokallaðar aflareglur en einnig heildarveiðikvóta á einstakar tegundir.


Sköpum sátt um grunnatvinnugrein þjóðarinnar
Sjávarútvegur er grunnatvinnugrein þjóðarinnar. Framsókn leggur áherslu á að sjávarútvegur er ekki bara veiðar heldur hátæknivæddur matvælaiðnaður sem byggist á öflugri og þróaðri vinnslu og markaðssetningu. Hluti af þeirri markaðssetningu er nauðsynleg gæða- og umhverfisvottun. Til að tryggja áframhaldandi forystu Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins verður að beina sjónum í vaxandi mæli beint að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda hafsins. Sjávarútvegsstefna Framsóknar er heildstæð stefna sem miðar að því að ná sem víðtækastri sátt um nýtingu auðlindarinnar. Slík sátt er nauðsynleg ef tryggja á grundvöll greinarinnar, eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni og fæðuöryggi Íslendinga til framtíðar.
Höfundur er alþingismaður.

 


Geysilega góð ráðstöfun - vegamál

Geysilega góð ráðstöfun

Síðastliðinn mánudag lét fjármálaráðherra þau orð falla „að gerð Vaðlaheiðarganga nú sé bæði þjóðhagslega, umhverfislega og byggðarlega geysilega góð ráðstöfun“. Sá sem hér skrifar vill taka undir það.

Það er þó rétt að minna ráðherrann á að samkvæmt svari þáverandi samgönguráðherra sumarið 2009 við fyrirspurn undirritaðs um arðsemi framkvæmda kom í ljós að arðsemi við gerð Vaðlaheiðarganga var talið tæp 8%. Í sama svari kom fram að arðsemi Suðurlandsvegar væri 16-21-28% eftir útfærslum.

Samkvæmt því er sú framkvæmd u.þ.b.þrisvar sinnum betri ráðstöfun  ekki síst ef tekið er t.t. tíðni alvarlegra slysa og banaslysa.

Seinna í sömu umræðu sendi ráðherra norðanmönnum góðar kveðjur en sunnlendingum tónninn. „Heimamenn (norðanmenn) hafa komið mjög myndarlega að þessu verki með söfnun hlutafjár og sýnt þannig hug sinn og þeir kvarta ekki undan því að vegtollur verði látinn borga niður verkið, enda munu þeir fá sín Vaðlaheiðargöng en kannski er álitamál um sumar aðrar framkvæmdir sem menn (sunnanmenn) vilja fá án þess að borga fyrir þær. (innansviga og leturbreyting undirritaðs)

Sama dag fékk undirritaður í hendur svar frá sama fjármálaráðherra um tekjur af Vesturlandsvegi,Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi þar sem fram kemur að markaðar tekjur til vegagerðar þar eru 1-1.5 milljarðar á ári.

Það þýðir að án veggjalda muni markaðartekjur duga til að greiða niður framkvæmdina á 15 árum. Viðbótar veggjöld muni flýta uppgreiðslu framkvæmdanna um ca. 7 ár.

Sem sagt að notendur Suðurlandsvegar greiði allan kostnað á 8 árum af framkvæmd sem á að standa í 30-40 ár !

– Geysilega sanngjarnt eða hvað fjármálaráðherra?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband