Stefna Framsóknar í sjávarútvegsmálum

Birti hér grein mína um meginatriði stefnu Framsóknar í sjávarútvegsmálum sem birtist í mbl 11 mai 2011. 


Sigurður Ingi Jóhannsson: "Sjávarauðlindin er í senn gjöful og takmörkuð. Því er mikilvægt að hlúa að nýsköpun og nýliðun og skapa sátt um greinina með stefnu til lengri tíma."


Á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem haldið var Icesave-atkvæðagreiðsluhelgina í apríl síðastliðnum, var samþykkt ný stefna flokksins í sjávarútvegsmálum. Fyrir flokksþinginu lá skýrsla vinnuhóps, sem undirritaður stýrði, þar sem fram kom mat á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi – kostum þess og göllum. Þessa dagana er kallað eftir stefnu stjórnmálaflokkanna um sjávarútvegsmál. Með ályktun flokksþings hefur Framsókn lagt sínar tillögur fram. Þar er reynt að leggja fram stefnumótun sem taki mið af þrennu: Í fyrsta lagi að áfram verði starfræktur öflugur sjávarútvegur, um allt land, sem skili umtalsverðum arði til þjóðarbúsins. Sá arður verður til vegna útflutningstekna, skatttekna og veiðigjalds.
Í öðru lagi að fiskveiðistjórnunin verði áfram byggð á vísindalegum grunni. Veiðileyfum verði að meginstofni úthlutað sem aflamarki á skip og markmiðið sé að byggja upp langtíma hámarksnýtingu einstakra stofna á sjálfbærum grunni.

Í þriðja lagi verði sett lög og reglur sem tryggi betur nýliðun í sjávarútvegi, taki mið af atvinnulegum byggðasjónarmiðum, ýti undir nýsköpun og auki enn frekar arðsemi auðlindarinnar.


Meginatriði
Í þessari fyrstu grein af þremur hyggst undirritaður gera grein fyrir meginlínum í ályktun Framsóknarflokksins frá 31. flokksþingi 2011. Framsókn leggur mikla áherslu á að ná sem víðtækastri sátt meðal þjóðarinnar um atvinnugreinina. Til að nauðsynleg sátt og stöðugleiki náist þarf að móta skýra stefnu til lengri tíma. Sáttin byggist á að sníða af þá agnúa sem mestar deilur hafa snúist um. Opna þarf kerfið til að efla nýsköpun og auðvelda aðgengi nýrra aðila að útgerð. Stöðugleikinn næst annars vegar með samfélagssátt og hinsvegar með samningum um nýtingu auðlindarinnar til ákveðins tíma. Jafnframt ítrekum við nauðsyn þess að setja ákvæði í stjórnarskrá til að tryggja sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni sbr. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða – en þar stendur: Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Framsókn hafnar fyrningarleiðinni og leggur til að stjórnun fiskveiðanna verði blönduð leið. Annars vegar einskonar samningaleið á grunni aflaheimildar á skip og hinsvegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningu til nýsköpunar og til að gera nýliðun aðgengilegri. Við leggjum til að greinin greiði áfram veiðigjald, svokallaða auðlindarentu. Gjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar.
Á næstu árum má áætla að nýting náttúruauðlinda skili umtalsverðri arðsemi. Mikilvægt er að tryggja að auðlindagjaldið skili sér þangað sem til er ætlast. Gjaldið verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstuðnings innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til, t.d. til atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi svæðis og hluti í ríkissjóð. Sjávarauðlindin er í senn gjöful en takmörkuð. Því er mikilvægt að hlúa að nýsköpun bæði nýtingu nýrra tegunda, rækt og eldi eins og kræklingarækt og fiskeldi, en einnig enn frekari nýtingu hráefnis til að skapa verðmæti og auka arðsemi. Setja þarf fram efnahagslega hvata til að auka nýtingu á hráefni sem í dag er illa eða ekki nýtt. Mikilvægt er að nýta auðlindina sem skynsamlegast og byggja á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins. Stefnt skal að því að setja fram langtíma nýtingarstefnu um alla stofna sem miðist við að byggja þá upp til að þola hámarksnýtingu til langtíma. Bæði yrði um að ræða svokallaðar aflareglur en einnig heildarveiðikvóta á einstakar tegundir.


Sköpum sátt um grunnatvinnugrein þjóðarinnar
Sjávarútvegur er grunnatvinnugrein þjóðarinnar. Framsókn leggur áherslu á að sjávarútvegur er ekki bara veiðar heldur hátæknivæddur matvælaiðnaður sem byggist á öflugri og þróaðri vinnslu og markaðssetningu. Hluti af þeirri markaðssetningu er nauðsynleg gæða- og umhverfisvottun. Til að tryggja áframhaldandi forystu Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins verður að beina sjónum í vaxandi mæli beint að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda hafsins. Sjávarútvegsstefna Framsóknar er heildstæð stefna sem miðar að því að ná sem víðtækastri sátt um nýtingu auðlindarinnar. Slík sátt er nauðsynleg ef tryggja á grundvöll greinarinnar, eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni og fæðuöryggi Íslendinga til framtíðar.
Höfundur er alþingismaður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sæll Sigurður.Ég hlustaði á Eygló Harðardóttur í Silfri Egils í dag og Rúv fréttir vitnuðu líka í hana kl. 18.Hún segist sátt við þær breytingar sem ríkisstjórnin boðar á sjávarútvegskerfinu, og segir að þær breytingar séu í samræmi við það sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksþingi sínu.Satt að segja varð ég þrumu lostinn þegar ég heyrði þessa yfirlýsingu Eyglóar.Það sem ég hef séð af því sem samþykkt var á flokksþingi Framsóknarflokksins og er meðal annars þín skrif um samþykktirnar þá er þar ekkert sem er í líkingu við þá grundvallarbreytingu sem ríkisstjórnin er að gera, sem er að færa nýtingarrétt sjávaraulindarinnar tíl ríkisins sem hefur aldrei haft hann.Í tillögum ríkisstjórnarinnar er meðal annars að ríkið ætlar að leigja út aflaheimildir,úr svokölluðum leigupotti.Þar með er ríkið í raun að færa nýtingatréttinn frá þeim sem hafa haft hann.Líka segja ríkisstjórnarflokkarnir að veiðigjaldið sé leiga og verði samkvæmt samningum sem útgerðir verði að skrifa undir til að fá að veiða.Ég fæ ekki betur séð en að verið sé að fara svokallaða þjóðnýtingarleið, sem ég veit ekki til að Framsóknarflokkurinn hafi nokkurntíma ljáð máls á.Að auki á ráðherra að vera það í sjálfsvald sett hversu há leigan verður og hvað mikið verður sett í leigupottinn og hverjir fái úr honum,en í raun verða allir að hafa  aðgang að leigunni sem þýðir stóraukinn fjölda skipa þar til ekkert verður eftir handa neinum,og sjómenn kauplausirr.Eygló segir að LÍÚ geti sjálfu sér um kennt.Var það kannski samþykkt á flokksþingi Framsóknarflokksins.Svona til upprifjunar þá hafa öll samtök sjómanna hafnað leið ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins ef það er rétt sem Eygló segir.Líka fulltrúi sveitarfélaga í endurskoðunarnefndinni um fiskveiðistjórnunina svo og 17 sveitarfélög á Landsbyggðinni.Svo það gengur ekki upp að þingmaður Framsóknarflokksins komi svo og gefi í skyn að andstaðan við ríkisvæðingu veiðiréttarins sé eingöngu frá LÍÚ komin.Sömuleiðis hefur Landsamband smábátaeigenda hafnað ríkisvæðingu veiðiréttarins,en 75% allra skipa og báta sem hafa veiðileyfi innan íslenskrar lögsögu er í LS. Nú er það svo að bæði sjómannasamtökin og LÍÚ hafa viljað takmarka leigu á afla heimildum, samt er LÍÚ stöðugt gagnrýnt fyrir leiguna.Því er það hlálegt að það sem ríkisstjórnin hefur helst gagnrýnt sem spillingu og sjómenn séu gerðir að þrælum og jafnvel gefið í skyn að sé þjófnaður, skuli nú ríkisstjórnin vilja lögfesta, bara ef það fer til ríkisins.Undirritaður óskar eftir því að Framsóknarflokkurinn og þú sem formaður þeirrar nefndar sem hefur sjávarútvegsmálin til skoðunar segi okkur sem erum í flokknum hver stefna flokksins er.Kv.

Sigurgeir Jónsson, 15.5.2011 kl. 20:52

2 Smámynd: Sigurður Ingi Jóhannsson

Sæll Sigurgeir - stefnan er skýr - tek undir með þér að það er mjög margt ólíkt í frumvörpum ríkisstjórnar og okkar framsóknarmanna. Í tveimur greinum ( sú þriðja er óbirt) í Morgunblaðinu hef ég farið yfir stefnu flokksþingsins. Einnig munum við leggja fram þingsályktun nú á vorþingi sem byggir á okkar stefnu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, 20.5.2011 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband