Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Hvað er málið?

Í skýrslu forsætisráðherra um efnahagsmál kom fátt nýtt fram. Það er hinsvegar alltaf fróðlegt að skoða stöðuna á hverjum tíma og sérstaklega sjónarhól yfirvalda. Hvað ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-Grænna telja að sé að og hvað ekki.

Það sem kom fram fyrir utan áætlaðan fund um stöðugleikasáttmála sbr. fréttina,  er að áfram skuli fylgst grannt með ýmsum hópum (eins og heimilum) og brugðist við með viðeigandi aðgerðum!!! Hinsvegar kom fram margoft hjá forsætisráðherra að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-Grænna séu búin að grípa til margvíslegra aðgerða sem komi atvinnulausum til góða!! sem og skuldsettum fyrirtækjum og heimilum!!. Jafnframt margítrekaði forsætisráðherra að íslensk stjórnvöld og Seðlabanki Íslands ráði ferðinni í peningastefnunni og þar með vaxtastefnunni  en ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn!

Í raun þýðir þetta á mannamáli að staðan sem þjóðin sér,  okur-stýrivextirnir og aðgerðaleysið gagnvart skuldugum heimilum og fyrirtækjum eru á ábyrgð og í boði ríkisstjórnarinnar.

Þrátt fyrir að Samfylking og Vinstri-Grænir séu meistarar áætlana um margvíslegar stefnur og fyrirætlanir eru litlar sem engar áætlanir um efnahagsmál og/eða peningastefnu. Það er málið.  

Tveggja tíma umræða á Alþingi skilaði því þó.  En það er lítil hjálp í því fyrir heimilin og fyrirtækin. Því miður.

Stjórnarandstaðan bauð fram aðstoð sína á ýmsan hátt. Við Framsóknarmenn ásamt Borgarahreyfingunni bentum á nauðsyn þess að fara í lækkun höfuðstóls lána.

Í ræðu Birkis Jóns varaformanns kom fram að allt að 28.500 heimili verði komin í þrot í árslok ef ríkisstjórnin heldur áfram á sömu braut. Það snertir um 100 þúsund manns miðað við vísitölufjölskylduna. Það gengur auðvitað ekki. Hversu lengi þurfum við að bíða eftir að ríkistjórn Samfylkingar og Vinstri-Grænna opni augun fyrir vanda fólksins í landinu. 

Vandamálið er þekkt. það þarf ekki að fylgjast með því vaxa. Það þarf að leysa vanda-málið.


mbl.is Fundað um stöðugleikasáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er vandinn. Hvar er klemman?

Bæði vandinn og klemman virðast augljóslega vera hjá ríkisstjórninni. Vandinn er fólginn í því að það eru engar efnahagsráðstafanir á döfinni. Engin peningamálastefna. Einungis misvísandi stefna um aðildarviðræður að ESB. Og þar er klemman.

Samfylking og VG gátu ekki komið sér saman um ríkisstjórnarsáttmála. Samstarfsyfirlýsing heitir plaggið. - Það getur hljómað lýðræðislega að leita til Alþingis með mál - vera sammála um að vera ósammála.  Ef það á að vera lýðræðislegt á þá ekki að leita með öll mál til þingsins?

Við Framsóknarmenn erum meir en tilbúin til slíkra lýðræðislegra vinnubragða. Við vildum gjarnan sjá að efnahagstillögur okkar í 18 liðum sem voru lagðar fyrir síðasta þing fengu lýðræðislega eðlilega umfjöllun í þinginu.  Það eru þó mál sem brenna á þjóðinni núna,  gætu leyst vanda og klemmu ríkistjórnar og seðlabanka.

- Við erum meir en tilbúin til að þingið verði umræðugrundvöllur og löggjafi en framkvæmdavaldið framkvæmi ákvarðanir Alþingis eftir þinglega meðferð mála. En það verður þá að gilda um öll mál. Ekki bara einhver sérvalin mál sem Samfylking og VG eru með í klemmu. Ráða ekki við að leysa vandann. Lýðræði er ekki bara uppá punt. 


mbl.is Seðlabankinn í klemmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðarstjórn??

Um leið og sjálfsagt er að óska tilvonandi nýrri stjórn velfarnaðar,  fer um mann ónotahrollur yfir skilningsleysi, aðgerðarleysi og máttleysi ríkisstjórnarinnar síðustu vikur og mánuði. Það boðar ekki gott í framhaldinu. Það er ekki traustvekjandi að þurfa taka rúmlega þrjár vikur í að mynda stjórn. Stjórn tveggja flokka sem höfðu starfað saman í 3 mánuði. Flokkar sem gengu nánast bundnir til kosninga.

Það virðist að annað hvort sé svona langt á milli flokkanna í mörgum málum eða hitt að verklagið sé hægagangur. Yfirlýsingar um að ekkert liggi á og að ráðherrar taki sér frí um helgar benda annað hvort til skilningsleysis á vanda þjóðarinnar eða máttleysi Samfylkingar og Vinstri Grænna þegar þeir standa andspænis verkefninu. Niðurstaðan er sú sama - aðgerðarleysi.

Fréttaflutningur síðustu daga ætti að hafa hvatt flokkanna til dáða. Vaxandi atvinnuleysi, gjaldþrot fyrirtækja, alvarlegar fréttir af vaxandi fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda ættu að sýna að þolinmæði þjóðarinnar er brostin. Nú þarf að bretta upp ermar og hefja raunverulegar aðgerðir-strax.

Ekki þýðir að velta vandanum yfir á aðra. Lenging lána, frysting afborgana eru góðra gjalda verðar en hafa þann vanda í för með sér að heildargreiðslan vex. Efnahagskerfið stöðvast. Ekki þýðir að seinka endalaust raunverulegum aðgerðum.

Velferðarvakt ríkistjórnarinnar hefur áhyggjur af að skerða eigi þjónustu er snúa að börnum hjá ríki og ekki síst sveitarfélögunum. Undir þær áhyggjur má taka. En hvar á að fá peninga ef efnahagslífið stöðvast. Hvar eiga sveitarfélögin að fá stuðning til að standa undir grunnþjónustunni ef sífellt færri borga útsvar. Ekki þýðir að velta vandanum yfir á aðra.

Staðreyndin er sú að allir verða að taka sameiginlega á vanda þjóðarinnar. Ekki gengur að hafa einungis varið þá sem áttu peninga á innlánsreikningum bankanna eða peningamarkaðssjóðum. Ekki gengur að við, þjóðin,  höfum greitt milli 700-900 milljarða til fjármagnseigenda. Það þarf einnig að koma til sanngjarnar lausnar á vanda skuldara. Þjóðarinnar sem er við það að missa þakið yfir hús fjölskyldunnar.

Það er velferðarstjórn sem lætur alla þegna þessa lands sitja við sama borð hvort sem þeir ákváðu að setja sparifé sitt í banka eða í heimili fyrir fjölskylduna. Nú mun reyna á hvort slík stjórn sé í burðarliðnum.    

 


mbl.is Ríkisstjórn í burðarliðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhættunarvirði - virðingarvert hjá bændum

Það er virðingarvert af sauðfjár- og kúabændum að vera tilbúnir að leggja sitt að mörkum til að þjóðarskútan komist sem fyrst á rétt ról. Það sýnir svo ekki verður umvillst að forystumenn bænda eru skynsemis menn sem gera sér grein fyrir að aðeins með samstilltu átaki - samvinnu allrar þjóðarinnar náum við því markmiði.

Áhættan er fólgin í að það mistakist að koma á stöðugleika. Ávinningurinn felst annarsvegar í lengingu búvörusamninga um rúmlega tvö ár og þar með stöðugleika í rekstrarumhverfi bænda. Hinsvegar í að ef vel tekst til með samstilltu átaki þjóðarinnar allrar þá mun verðbólga verða lág, vextir snarlækka og þar með eðlilegra rekstrarumhverfi og stöðugleiki.

Hætta er að núverandi ríkistjórn geri sér ekki nægilega vel grein fyrir vandanum. Neiti að horfast í augu við verkefnin og kunni ekki annað en hækka skatta og skera niður. Verkefnið er auðvitað að koma efnahagslífinu í gang og það strax.

Sporin síðustu vikna hræða. Ég skrifaði grein um flutningskostnað raforku í gróðurhúsum og birti hér 19. apríl. Greinin fjallar m.a um aðgerðaleysi, máttleysi og viljaleysi núverandi stjórnvalda. Ekkert hefur enn verið aðgert.  Það er ástæða þess að garðyrkjubændur skrifuðu ekki undir sambærilegan samning þrátt fyrir að þeir séu tilbúnir til þess. Þeir vilja freista þess að ná fram leiðréttingu áður á flutningskostnaðinum. Birti hér greinina aftur í trausti þess að það hafi áhrif á ríkistjórnina.

Ljósin slökkt. Steingrímur Joð máttlaus. 

Það eru graf alvarleg tíðindi að ríkistjórn Vinstri-Grænna og Samfylkingar hyggist ekkert gera til að koma í veg fyrir fimmföldun á flutningsverði raforku.

Hvar eru nú yfirlýsingar Steingríms Joð og stefna VG um grænu stóriðjuna? Hvar eru yfirlýsingar Samfylkingar og Össurar iðnarráðherra um nýsköpun og 6000 störf?

Hér í Hrunamannahreppi eru yfir 100 ársverk í garðyrkju. Garðyrkjan er hin græna stóriðja. Lýsing í gróðurhúsum er nýsköpun sem garðyrkjubændur fóru út í. Afraksturinn er að við neytendur fáum íslenskar garðyrkjuafurða allt árið. Góðar og heilnæmar vörur á góðu verði. Augljóst er að garðyrkjan getur ekki og vill ekki velta þessari hækkun út í verðlagið með þar af með fylgjandi hækkun vísitölu.

Hvar eru nú yfirlýsingar ríkistjórnar um velferðarbrú, stefnan að byggja upp - fjölga störfum- verja landbúnaðinn?

Það eru máttlaus rök að halda því fram að ekkert sé hægt að gera. Ein garðyrkjustöð á Flúðum notar meira rafmagn en  öll heimili á Eyrarbakka og Stokkseyri til saman!!Rafmagnið er afhent í einum kapli á einn stað. En í hinu tilvikinu er rafmagnið afhent í 300-400 hús. Það er skrýtið kerfi sem verðleggur flutningskostnaðinn hærri til þessa eina stórnotenda. Það eru máttlaus rök að ekkert sé hægt að gera. 

Aðgerðir strax - fyrir okkur öll

 


mbl.is Milljarður skorinn af bændum næstu ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er kreppa hjá ríkisstjórninni? Eða ,,bara" hjá þjóðinni?

Rúmlega 3 mánuðir eru liðnir frá því að minnihlutastjórn Samfylkingar og VG tók við ríkisstjórnarvaldinu. Fljótlega var lýst yfir nauðsyn þess að slá skjaldborg um heimili fólks. Fljótlega lýstu báðir aðilar yfir að ef flokkarnir næðu meirihluta eftir kosningar myndu þeir vinna saman áfram. Í dag eru 9 dagar frá kosningum. Ekki er enn komin yfirlýsing um að stjórnarsamstarf sé komið á. Ekki er enn komin nein skjaldborg sbr fréttina.

Yfirlýsingarnar eru hins vegar um að ekkert liggi á!! (formenn beggja flokka). Um að það hafi ekki verið svo margir starfsdagar! frá kosningum (félagsmálaráðherra í morgun) eða ekki hafi unnist tími til viðræðna. Hálfgerðar hótanir viðskiptaráðherra og forsætisráðherra um helgina í garð þeirra sem geta ekki greitt og eru að gefast upp. Vinstri stjórn sem tekur sér frí 1. maí  frá viðræðum. Ég hefði haldið að það yrði dagurinn sem ríkisstjórnin yrði kynnt. Áætlanir um endurreisn atvinnulífs og skjaldborgin margumrædda um heimilin afhjúpuð.

Auðvitað er verkefnið erfitt framundan. Það á þó ekki að koma ríkisstjórninni á óvart. Það er fleirum og fleirum að verða ljóst að eina færa leiðin er að koma fram með lausnir sem felast í lækkunum á höfuðstól lána. Þak á hve há prósenta af launum fólks fari til greiðslu húsnæðisskulda. Það þýðir ekki að segja eins og nær allur ráðherraskarinn; það er of dýrt (og það án þess að hafa kynnt sér það). Hvað kostar það samfélagið ef hluti fólks flýr land. Of stór hluti fólks verður atvinnulaus. Stærri hluti hættir að greiða af lánum sínum af því fólk sér enga glætu framundan. Hvað kostar að stöðva efnahagslífið og framkalla kerfishrun?

Það er nákvæmlega það sem hefur verið að gerast  allt frá því í október.  Hvort sem um er að ræða ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eða Samfylkingar og Vinstri-Grænna. Engar raunverulegar aðgerðir. Herða sultarólina, lengja í lánum, fresta vandanum, dýpka kreppuna. Fara ,,Finnsku Leiðina"!! Skref fyrir skref.

Hvað þarf til að ríkisstjórnin vakni? Vonandi ekki alltof margar svona fréttir um að fólk sé að kikna undan skuldunum. Við þurfum að fara að sjá raunverulegar aðgerðir til bjargar heimilum og fyrirtækjum. Raunverulegar efnahagsaðgerðir sem hafi í för með sér lækkun vaxta og styrkingu krónunnar. Það má engan tíma missa.


mbl.is Kikna undan skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband