Velferðarstjórn??

Um leið og sjálfsagt er að óska tilvonandi nýrri stjórn velfarnaðar,  fer um mann ónotahrollur yfir skilningsleysi, aðgerðarleysi og máttleysi ríkisstjórnarinnar síðustu vikur og mánuði. Það boðar ekki gott í framhaldinu. Það er ekki traustvekjandi að þurfa taka rúmlega þrjár vikur í að mynda stjórn. Stjórn tveggja flokka sem höfðu starfað saman í 3 mánuði. Flokkar sem gengu nánast bundnir til kosninga.

Það virðist að annað hvort sé svona langt á milli flokkanna í mörgum málum eða hitt að verklagið sé hægagangur. Yfirlýsingar um að ekkert liggi á og að ráðherrar taki sér frí um helgar benda annað hvort til skilningsleysis á vanda þjóðarinnar eða máttleysi Samfylkingar og Vinstri Grænna þegar þeir standa andspænis verkefninu. Niðurstaðan er sú sama - aðgerðarleysi.

Fréttaflutningur síðustu daga ætti að hafa hvatt flokkanna til dáða. Vaxandi atvinnuleysi, gjaldþrot fyrirtækja, alvarlegar fréttir af vaxandi fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda ættu að sýna að þolinmæði þjóðarinnar er brostin. Nú þarf að bretta upp ermar og hefja raunverulegar aðgerðir-strax.

Ekki þýðir að velta vandanum yfir á aðra. Lenging lána, frysting afborgana eru góðra gjalda verðar en hafa þann vanda í för með sér að heildargreiðslan vex. Efnahagskerfið stöðvast. Ekki þýðir að seinka endalaust raunverulegum aðgerðum.

Velferðarvakt ríkistjórnarinnar hefur áhyggjur af að skerða eigi þjónustu er snúa að börnum hjá ríki og ekki síst sveitarfélögunum. Undir þær áhyggjur má taka. En hvar á að fá peninga ef efnahagslífið stöðvast. Hvar eiga sveitarfélögin að fá stuðning til að standa undir grunnþjónustunni ef sífellt færri borga útsvar. Ekki þýðir að velta vandanum yfir á aðra.

Staðreyndin er sú að allir verða að taka sameiginlega á vanda þjóðarinnar. Ekki gengur að hafa einungis varið þá sem áttu peninga á innlánsreikningum bankanna eða peningamarkaðssjóðum. Ekki gengur að við, þjóðin,  höfum greitt milli 700-900 milljarða til fjármagnseigenda. Það þarf einnig að koma til sanngjarnar lausnar á vanda skuldara. Þjóðarinnar sem er við það að missa þakið yfir hús fjölskyldunnar.

Það er velferðarstjórn sem lætur alla þegna þessa lands sitja við sama borð hvort sem þeir ákváðu að setja sparifé sitt í banka eða í heimili fyrir fjölskylduna. Nú mun reyna á hvort slík stjórn sé í burðarliðnum.    

 


mbl.is Ríkisstjórn í burðarliðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband