Stöðugleiki, sátt og framsækin atvinnustefna

Á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarmanna voru atvinnumál fyrirferðar mikil.Í aðdraganda þingsins hafði vinnuhópur undir stjórn varaformanns Birkis Jóns unnið að sérstakri skýrslu um atvinnumál. Einskonar bráðaaðgerðar verkefnum til að koma hjólum atvinnulífs í gang. Skapa störf og hagvöxt. 

Jafnframt var kynnt til sögunnar niðurstaða vinnuhóps um sjávarútvegsmál sem undirritaður hafði stýrt síðastliðið ár. Miklar umræður spunnust um sjávarútveginn og fiskveiðistjórnina enda mikilvægasta atvinnugrein okkar Íslendinga. Ályktunin sem var samþykkt byggðist á vinnu sjávarútvegshópsins en einnig voru samþykktar nokkrar ágætar breytingatillögur m.a frá SUF. samtökum ungra framsóknarmanna um útfærslu strandveiða eða nýliðunarpottur eins og við kjósum að kalla strandveiðarnar. 

Það sem hefur verið einkennandi fyrir umræðu um sjávarútvegsmál á síðustu árum eru upphrópanir um sægreifa og kvótasölur og að taka þurfi kvótann af sumum og selja öðrum. Raunveruleg og skynsöm umræða um mikilvægustu atvinnugrein landsins má ekki vera föst í slíkum farvegi. 

Það sem við Framsóknarmenn m.a samþykktum var að tryggja beri sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni m.a. með að setja ákvæði um slíkt í stjórnarskrá. En einnig með því að sá aðili – ríkið sem fer með eignarhaldið- geri tímabundna nýtingarsamninga við útgerðir um heimildir til fiskveiða. Inn í þá nýtingarsamninga verði m.a sett ákvæði um veiðiskyldu og takmarkanir framsals. Einnig að forsendur fyrir slíkum samningum verði ákvæði um búsetu hérlendis síðustu 5 ár og jafnvel krafa um íslenskan ríkisborgararétt. Þar með væri búið að tryggja í raun eignarhald og fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar yfir auðlindinni. Lagt er til að nýtingarsamningarnir verði til ca. 20 ára. Það er sami tími og er á Nýfundnalandi.  

Varðandi stjórnun fiskveiðanna er lagt til að fara svokallaða blandaða leið, annars vegar á grunniaflahlutdeildar á skip og hinsvegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningar til nýsköpunar og til þess að auðvelda aðgengi nýrra aðila að útgerð. Þannig er komið til móts við suma þá ágalla sem eru á núverandi kerfi þ.e. erfiðleika við nýliðun takmarkaðan hvata að nýsköpun og áhugaverð hugmynd um að úthluta byggðakvóta til fiskvinnsla í stað útgerða.

 Áfram er lagt til að greinin greiði auðlindagjald eða veiðigjald. Lagt er til að hluti þess fari til markaðs-, rannsókna, og nýsköpunar innan greinarinnar. Hluti fari til þess landsvæðis sem auðlindarentan verður til á ( samanber lög um þjóðlendur) og verði þar nýtt til atvinnusköpunar t.a.m gegnum staðbundin atvinnuþróunarfélög. Loks renni hluti í ríkissjóð. Á næstu árum og áratugum er þess vænst að umtalsverðar tekjur komi sem auðlindarenta vegna nýtingar sjávarauðlindarinnar og því mikilvægt að útfærsla hennar sé skýr og skili sér þangað sem ætlast er til. 

Það er því áfram byggt á þeirri frábæru staðreynd að íslenskur sjávarútvegur skilar gríðarlegum verðmætum í þjóðarbúið ólíkt sjávarútvegi flestra Evrópulanda (og fleiri landa heims). Sjávarútvegur er ekki bara veiðar – heldur er hann hátæknivæddur matvælaiðnaður sem byggir á öflugri og þróaðri markaðssetningu . Staðreyndin er að hringinn í kringum allt Ísland eru öflug fyrirtæki sem tryggja fjölda manns vinnu bæði beint og óbeint. Sum þeirra standa afar vel önnur ver. Um það bil 25% fyrirtækja í sjávarútvegi skuld meira en þau geta greitt – Hvernig er það í öðrum rekstri t.d verslun og þjónustu?. Það eru fyrst og fremst einyrkjar og smærri fyrirtæki sem standa á bak við þessi 25%. Flest öll stóru sjávarútvegsfyrirtæki landsins standa vel og greiða nú milli 20-30 milljarða til bankanna. Hver fjármagnaði bankanna ef þau gætu ekki greitt af skuldum sínum??

 Áfram byggjum við fiskveiðistjórnunarkerfið á vísindalegum grunni til að tryggja sjálfbærni hverrar tegundar. Við leggjum hinsvegar til að efla þurfi rannsóknir og þekkingu á auðlindinni og setja átak í nýsköpun bæði nýtingu nýrra tegunda, annarskonar nýtingu auðlindarinnar eins og ferðaþjónustu, fiskeldi og rækt t.a.m kræklingarækt. 

Mikilvægast er að ná sem víðtækastri sátt meðal þjóðarinnar. Það er hægt á grundvelli stefnu Framsóknarflokksins. Annars vegar stöðugleiki og hins vegar framsækin þróun fiskveiðistjórnunar og nýsköpunar. – Hættum karpi um fortíðina – horfum bjartsýn til framtíðar – þar er öflugur sjávarútvegur einn af grunn þáttunum í endurreisn Íslands.


mbl.is Enginn veit hvaða tekjur verða til að greiða niður lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Nafni, mér þykir þú ansi borubrattur að tala um víðtæka sátt meðal þjóðarinnar um stefnu sem samin var svotil að öllu leiti af fulltrúum LÍÚ.  Þess var vandlega gætt að þeir aðilar sem ekki gegnu í "takt" kæmust ekki í nefndina.  Stefnan í sjávarútvegsmálum er hrein móðgun við kjósendur og Framsóknarflokknum til skammar.

Ef við lærum ekki af mistökum fortíðar, þá eigum við okkur enga framtíð.  Sjávarútvegur á Íslandi er fastur í skotgrafaumræðu sem einkennist af því að verja sértæka hagsmuni á kostnað almennings.  Öflugur sjávarútvegur styrkist af samkeppni en hnignar í umhverfi einokunar, eins og við búum við í dag.

Sóknarfærin liggja í nýrri nálgun og að viðurkenna mistök.  Þar á meðal að viðurkenna ógöngur nýtingarstefnu Hafró.

Sigurður Jón Hreinsson, 3.5.2011 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband