Vegaframkvæmdir og veggjöld

Birti hér á blogginu grein mína um vegamál sem birtist í síðustu viku í Sunnlenska fréttablaðinu. 

Undirritaður setti fram fyrirspurnir í lok janúar til ráðherra vegamála og fjármála um tekjur af ökutækjum og akstri á einstökum leiðum m.a. af Suðurlandsvegi. Venjan er að svara slíkum beiðnum á tveimur vikum en enn er beðið svara. Hinsvegar má áætla tekjur ríkisins, af umferð um Suðurlandsveg  miðað við núverandi umferðarþunga og áætlaða eldsneytisnotkun, séu í það minnsta 1500 milljónir á ári.

Innanríkisráðherra hefur átt nokkra fundi með þingmönnum Suðurkjördæmis og forsvarsmönnum samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á liðnum mánuðum um vegabætur á suðurlandsvegi. Í máli Vegagerðarinnar og ráðherrans hefur komið fram að breikkun vegarins og ný brú á Ölfusá kosti á bilinu 16.5 til 20 milljarða eftir því hvaða útfærslur verða farnar.  Hugmyndir um veggjöld er ekki ný  - fyrrverandi samgönguráðherra Kristján Möller var með slíkar tillögur samhliða því að lífeyrissjóðirnir færu með framkvæmdina sem einkaframkvæmd. Þá tókum við sunnlendingar slaginn um forgangs röðun verkefna en eins og kunnugt er hafði fyrrverandi samgönguráðherra mestan áhuga á jarðgöngum í sínu kjördæmi.

Arðsemi og forgangsröðun

Það er rétt að rifja það upp hér að í svari samgönguráðherra sem fékkst við fyrirspurn minni um Suðurlandsveg og jarðgöng sumarið 2009 kom í ljós að arðsemi framkvæmda á Suðurlandsvegi var milli 16-28% eftir útfærslum.

 Í skýrslunni breikkun Suðurlandsvegar milli Reykjavíkur og Selfoss, arðsemismat, Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf., ágúst 2007, er reiknuð arðsemi breikkunar vegarins fyrir þrenns konar tilvik:
    A.      Vegur með 2 + 2 akreinar og breiða miðeyju. Gatnamót mislæg – 16% arðsemi.
    B.      Vegur með 2 + 2 akreinar, mjóa miðeyju og vegrið. Gatnamót mislæg – 21% arðsemi.
    C.      Vegur með 2 + 1 akrein, mjó miðeyja og vegrið. Plangatnamót – 28% arðsemi.
Í sama svari kom í ljós að arðsemi var áætluð 6.7% í Héðinsfjarðargöngum og 7.9% á Vaðlaheiðargöngum. Einnig kom fram í svarinu að tíðni alvarlegra slysa og banaslysa var langmest á Suðurlandsvegi.

Það var og ætti því enn að vera öllum ljóst að í forgangsröðun verkefna hlýtur breikkun Suðurlandsvegar með aðskilnaði akreina að koma fremst. Í skoðanakönnun sem gerð var meðal landsmanna allra taldi 55% aðspurðra að vegbætur á Suðurlandsvegi kæmu nr 1.

 

Nú er enn lagt til að lögð séu veggjöld á framkvæmdina og núverandi ráðherra vegagerðar Ögmundur Jónasson segir að um flýtiframkvæmdir sé að ræða. Þess vegna þurfi notendur  að greiða sérstakan skatt. Að mínu mati er fyrst og fremst um flýtigreiðslur að ræða því núverandi tekjur af umferðinni eru a.m.k. 1.500 milljónir á ári. Það þýðir að bensín- og olíugjöldin sem koma af notkuninni standa fyllilega undir framkvæmdinni. Ný veggjöld sem leggjast ofan á  núverandi skattgreiðslur gera það að verkum að notendur vegarins greiða framkvæmdina upp á 8-10 árum. Nýjasta útspil ráðherrans er að leggja 200 kr. á hverja ferð það þýðir 100þúsund króna árlegur aukaskattur á þá sem fara til vinnu eða skóla á hverjum degi Það er óásættanlegt að leggja sérstakan "flýti skatt" á sunnlendinga og gesti þeirra.

Frumkvæði SASS og samstaða

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hafa haft frumkvæði að umræðu og grundvelli ákvarðanatöku um vegbætur á suðurlandsvegi allt frá árinu 2003 þegar fyrstu hugmyndir um 2+1 veg komu fram. Enn er það SASS sem hefur frumkvæði að reyna að koma hreyfingu á verkefnið. Það virðist sem ráðherra hafi takmarkaðan áhuga. SASS hefur lagt fram hugmyndir sem m.a. felast í ódýrari útfærslum sem og að tekjur verði fengnar með t.d. að stofna sérstakan stórframkvæmdasjóð. Í hann greiddu allir sem nytu „enn betri“ vega t.d. allir vegir sem væru meir en 1+1 sem og tveggja akreina jarðgöng. Þannig mætti byggja upp tekjustofn á jafnræðisgrundvelli.

Hugsa mætti að allar stofnbrautir landsins með slíku vegsniði greiddu veggjald en einnig mætti eyrnamerkja ákveðna fjárhæð af bensín- og olíugjaldi í stórverkefnasjóð. Þannig mætti fjármagna breikkun Suðurlandsvegar, Reykjanesbrautar, Vesturlandsvegar, Vaðlaheiðarganga, Norðfjarðarganga, nýjan veg og brú yfir Hornafjarðarfljót og göng um Reynisfjall svo einhver verkefni séu nefnd.

SASS á lof skilið fyrir frumkvæðið. Samstaða sunnlendinga hefur skipt miklu og er grundvöllur þess að farið verði í framkvæmdina sem fyrst og á skynsamlegum jafnræðis grunni.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband