Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stefnuræðan

Ef ég ætti og mætti ráðleggja forsætisráðherra þá myndi ég leggja til að í stefnuræðunni myndi ráðherrann fjalla um eftirfarandi punkta;

1. Viðurkenna að það hefði mistekist að taka á skuldamálum heimila og fyrirtækja. Jafnframt myndi forsætis biðjast fyrirgefningar á því að hafa hundsað tillögur Framsóknar um almenna lánaleiðréttingu sem fram kom í febrúar 2009. - Í beinu framhaldi lofa (og standa við) að gera e-ð raunverulega sem létti skuldafarginu af fólkinu í landinu.

2. Viðurkenna að það hefði mistekist að endurreisa bankakerfið. Bankakerfi sem þjónaði viðskiptavinum sínum en væri ekki handrukkari erlendra vogunarsjóða. Í beinu framhaldi að leggja fram lagabreytingar sem breyttu raunverulega ástandinu.

3. Viðurkenna að illa hefði tekist til um atvinnuuppbyggingu í landinu. Fjárfestingar væru í sögulegu lágmarki. Fólksflótti úr landi í sögulegu hámarki. Í beinu framhaldi að efna loforð um að standa ekki í vegi fyrir atvinnusköpun og fjárfestingum

4. Viðurkenna að það gengi ekki að hagvöxtur næði ekki 4-5%. Í beinu framhaldi gera það sem gera þarf til að slík skilyrði náist. M.a að lækka álögur á fólk og fyrirtæki. Standa með atvinnuuppbyggingu

5. Leggja til hliðar áform sem kollvarpa samfélögum m.a. meingallað sjávarútvegsfrumvarp, niðurskurð heilbrigðiskerfisins ekki síst á landsbyggðinni

6. Leggja til hliðar - um sinn - ESB aðlögun sem skapar gríðarleg átök í samfélaginu og kljúfa það í fylkingar og kosta alltof mikið bæði fjármagn sem og orku og tíma embættismanna - tíma þeirra og fjármunum ríkisins er betur varið í annað

7. Leggja til að allir flokkar sammælist um að skipa þverpólitískan starfshóp sem hafi það markmið að endurskipuleggja peningastefnu Seðlabankans - núverandi stefna kom okkur í hrunadansinn og er EKKI leiðin út

8. Lofa að efla innlenda framleiðslu með öllum ráðum og dáðum - það er leiðin út úr kreppunni, framleiða meira til útflutnings - þannig eykst atvinna - krónan styrkist - þjóðin eflist

9. Ef forsætis reynist þetta um megn ætti forsætis kannski að leggja til að aðrir tæku við stjórnartaumunum -STRAX


mbl.is Umræður um stefnuræðuna í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlend fjárfesting og auðlindir

Umræða um fjárfestingar ekki síst erlenda fjárfestingu hefur verið alveg "GaGa" síðustu misserin. Þar spilar vitneskja okkar um loftbólufjárfestingar innlendra "auðmanna" fyrir hrun stóran sess - en einnig tortryggni í garðs hvers og eins sem virðist eiga peninga eftir hrun.

Ríkisstjórnin og stefna hennar eiga líka stóran hlut í hversu vitleysisleg umræðan er - öfgafyllt og upphrópanagjörn. Svo talar hver ráðherrann eftir öðrum út og suður, norður og niður - engin samstaða, engin sameiginleg framtíðarsýn.

Hver skilur t.a.m, í orðum forsætisráðherra sem núna segir að við eigum að fagna erlendri fjárfestingu varðandi kaup kínverska auðmannsins á landi - varanleg kaup á auðlind um "alla eilífð". Sami forsætisráðherra sagði þegar kanadískur auðmaður keypti tímabundinn afnot  af orkuauðlind ( að vísu 65 ár en tímabundin afnot samt) að skoða þyrfti þjóðnýtingu og eignaupptöku til að koma í veg fyrir kaup Kanadamannsins á nýtingarrétti.

Umræðan um HS-orku var auðvitað enn sérkennilegri vegna þess að það virtist skipta máli hvort kaupandinn væri af EES svæðinu eður ei. Sbr. sænska skúffu fyrirtækið. - Hefði ekki verið skynsamlegra hjá okkur að setja í lög og reglur að fyrirtækið yrði að vera íslenskt þ.e.a.s. hinn erlendi aðili yrði þá að stofna fyrirtæki á Íslandi - og regluverkið þannig úr garði gert að hægt væri að skattleggja auðlindarentuna hérlendis.

Eins ætti að gilda um allar aðrar auðlindir - hvort sem það væri vatn, orka, land eða hver önnur auðlind. Við eigum að fagna fjárfestingum -ekki síst erlendum fjárfestingum - en vera búinn að tryggja áður að auðlindarentan haldist í landinu.

Tökum sem dæmi um kaup á jörðum. Er það í lagi að fjársterkir aðilar kaupi land - girði af og setji upp skilti - Einkaland-óviðkomandi bannaður aðgangur - þetta hefur því miður verið lenska alltof margra innlendra aðila sem eignast hafa jarðarskika á liðnum áratugum. Og þannig lokað hefðbundnum reiðleiðum svo dæmi sé tekið. Svissneskur auðmaður kaupir víðfeðma jörð og svo aðra við hliðina og lokar aðgengi að veiði, göngu- og reiðleiðum.

Víða um land er þetta aðalvandinn - að sá sem kaupir er ekki skikkaður til að hafa búsetu (eigin eða ráðsmann). Hann er ekki skikkaður til að viðhalda landbúnaðarlandi, eða hafa einhverja starfsemi -  í besta falli logar eitt útiljós á vetrum. Með þessum hætti tryggjum við ekki búsetu, né eflum landsbyggðina. Víða í nágrannalöndum okkar (Noregi, Danmörku og víðar) eru reglur sem reyna að tryggja/skylda búsetu þar sem það á við. Einnig eru reglur um að ekki megi taka gott landbúnaðarland úr landbúnaðarnýtingu/matvælaframleiðslu. Við höfum engar slíkar reglur né matskerfi hvar slíkar reglur eigi við og hvar ekki. Það vantar í skipulags- og jarðalög.

Ég fagna erlendri fjárfestingu - erlend fjárfesting er líklegust í auðlindum okkar - þó ýmislegt fleira hljóti að vera fýsilegir fjárfestingakostir eins og þjónusta við ferðamenn, framleiðsla ýmiskonar matvæla/iðnaðar osfr osfr - en kannski allt ein eða önnur birtingamynd auðlindanýtingar.

Við eigum ekki að hræðast slíkt og má þá einu gilda hvort um sé að ræða ESB aðila t.d Dani eða Þjóðverja, EES aðila eins og Norðmenn eða Svisslendinga - eða jafnvel Kanadamenn eða Kínverja. Aðalatriðið er að við séum búin að setja okkur reglur um auðlindarentu og hvernig hún haldist í íslenska hagkerfinu. Áætlanir um hvað við teljum vera skynsamlegt og jákvætt fyrir samfélagið og gegnsætt framkvæmdaplan hvernig við ætlum að fylgja því eftir.

Ef land í eigu erlendra aðila er innan við 1% af heildar landstærð Íslands- er það þá í lagi? hvað með 10% eða 25%. Eða nýtingarréttur í orku, vatni, fiskveiðum. Hversu langur á hann að vera 10-20-30ár eða lengri í einstaka tilfellum. Mín skoðun er að það verði að vera mismunandi eftir því um hvernig auðlind sé að ræða og hver fjárfestingin/fjárbindingin er. Einnig verðum við að flokka land eftir landgæðum og hvernig sé - fyrirfram- best að nýta það.

Tökum nú málefnalega umræðu - en forðumst öfgar og upphrópanir - þannig er líklegra að við komumst að skynsamlegri niðurstöðu.


mbl.is Á að selja Grímsstaði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er frjálslyndastur?

Birti hér grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag um Hákot og frjálslyndi:

Upp á síðkastið hefur mörgum orðið tíðrætt um frjálslyndi – hverjir séu það og hverjir ekki. Ýmsir hafa haldið því fram að þeir séu frjálslyndir en „hinir“, þ.e.a.s. þeir sem ekki aðhyllast sömu skoðun og þeir „frjálslyndu“, séu þar af leiðandi öfgafullir og afturhaldssamir, jafnvel ofstopafullir þjóðernissinnar. Það sérkennilegasta við þessa nýjustu „pissukeppni“ í frjálslyndi er að mælikvarði þeirra sem telja sig hafa einkarétt á frjálslyndinu virðist vera áhugi þeirra á að Ísland gerist aðili að tolla- og viðskiptabandalagi Evrópuþjóða – ESB.

Margt er ólíkt meðal Evrópuþjóða eftir því hvort þær liggja norðan, sunnan eða í eystrihluta álfunnar. Þetta á við um menningu, atvinnu og auðlindir svo nokkrir hlutir séu nefndir. Ísland, eyjan norður í Atlantshafi víðsfjarri landamærum annarra Evrópuþjóða, er enn frábrugðnari mörgum ef ekki flestum þessara ríkja hvað þessa sömu hluti varðar. Við erum t.a.m. ákaflega rík af auðlindum, atvinnuþátttaka önnur og meiri en víðast annarsstaðar og þær atvinnugreinar sem við byggjum afkomu okkar á gjörólíkar ESB-löndum en mun líkari löndum Vestur-Norðurlanda (Færeyjum og Grænlandi auk Íslands) og Noregs.


Frjálslynd umræða um atvinnuvegina?
En hvernig er umræðu um okkar mikilvægu atvinnugreinar háttað? Er umfjöllunin frjálslynd? Áform ríkisstjórnarflokkanna um að bylta sjávarútveginum virðast ýta allri skynsemi og frjálslyndi til hliðar. Eru það ekki öfgar, jafnvel ofstopi, þegar þingmenn og ráðherrar VG og Samfylkingar lýsa því yfir að þrátt fyrir skýrslur hagfræðinga, umsagnir lánastofnana, endurskoðenda, hagsmunaaðila greinarinnar og sveitarfélaga, sem allir gagnrýna harðlega framkomið frumvarp og benda á að verði frumvarpið að lögum stórskaði það efnahagslíf landsins, þrátt fyrir allt þetta ætli ríkisstjórnin að breyta kerfinu með þessum hætti. Rök stjórnarliða eru „okkar“ er valdið, þetta stendur í stjórnarsáttmálanum. Það sé fleira til en hagfræði og ekki verði hlustað á grátkórinn!
Umræða um virkjanir og verndun náttúrunnar hefur á liðnum árum verið með endemum. Full af ofstopa og upphrópunum. Rammaáætlunin um vernd og nýtingu átti að leysa þá umræðu úr fjötrum öfganna. En var það skynsamlegt af iðnaðarráðherra að breyta niðurstöðu faghópa um röðun virkjanakosta án upplýstrar frjálslyndrar umræðu? Umhverfisráðherra hefur verið dæmdur í Hæstarétti fyrir að brjóta landslög til að koma öfgastefnu sinni fram og skýrt afstöðu sína með þeim orðum að „hún sé í pólitík“. Stefna ríkisstjórnar VG og Samfylkingar í orkumálum mun seint teljast frjálslynd.
Í sumar hefur verið hamast á íslenskum landbúnaði og hann sakaður um margt. Meðal annars hafa þeir sem telja sig frjálslynda talið nauðsynlegt að opna öll landamæri og flytja sem mest af matvælum inn til landsins. Í mínum bókum heitir það frjálshyggja að trúa á markaðinn og hann einn eigi að ráða. Ef lægsta heimsmarkaðsverð er lægra en innlend matvælaframleiðsla á samkvæmt frjálshyggjufræðunum að flytja þau inn. En hvað með fæðuöryggi þjóðar, dýravernd, umhverfisvernd, „slow food“ stefnuna? Er það ekki málefnaleg umræða í anda frjálslyndis að taka alla þessa þætti með í dæmið – en ekki bara markaðsvæðingu frjálshyggjunnar? Að ekki sé minnst á hve skynsamlegt það er að efla innlenda matvælaframleiðslu, fjölga störfum og spara gjaldeyri. Staðreyndir tala sínu máli. Innlend matvæli hafa hækkað um 8-35% á meðan innflutt matvæli hafa hækkað um 50-150% á sama tímabili. Við framleiðum innanlands u.þ.b. 50% af þeim matvælum sem við neytum. Öll samanburðarlönd okkar telja að það sé of lítið til að tryggja fæðuöryggi þjóða.
Það virðist bæði skynsamlegt og í anda frjálslyndis að nýta auðlindir til lands og sjávar á hagkvæman og skynsamlegan hátt.
Það er stórt orð Hákot og því skynsamlegast að fara varlega með yfirlýsingar um hver sé frjálslyndastur.

Sjónarspil á þingi - sérkennileg forgangsröðun.

Birti hér grein sem birtist fyrst í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag 12.ág.  - Hún fjallar um hvernig forgangsröðun verkefna er hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum.

Sjónarspil á þingi – sérkennileg forgangsröðun

  

Á fyrsta nefndafundi Alþingis eftir sumarfrí var það val ríkisstjórnarflokkanna að kalla saman þrjár nefndir utanríkismálanefnd, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og umhverfisnefnd. Málefnið var fundur í Alþjóðahvalveiðiráðinu sem haldinn var fyrr í sumar.

Á þeim fundi urðu engar breytingar á stefnu Íslands – embættismenn þjóðarinnar unnu sína vinnu faglega og vel. Stóðu á rétti okkar til veiða og unnu að því að gera vinnu Alþjóðahvalveiðiráðsins marktæka og skynsama.

Þessum vinnubrögðum fannst - formönnum utanríkismálanefndar og umhverfisnefndar – greinilega ekki nægjusamlega vel af verki staðið og töldu forgangsmál að fara yfir málið með þessum þremur nefndum.

 

Nú er það svo að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með málefni hvalveiða. Á þeim ráðherrastóli situr einn þingmaður VG - samflokksmaður formanns utanríkismálanefndar. Þeir mega vera ósammála um þetta eins og annað. Það er einnig þannig að ekkert athugavert er að kalla saman nefndir til að fjalla um mikilvæg mál – og nauðsynlegt að upplýsa þingmenn um stöðuna.

 

Stóra spurningin er þessi; er þetta það mál sem hefur hæstan forgangskvóta hjá formanni utanríkismálanefndar og ríkisstjórn VG og Samfylkingar.

Í því sambandi vil ég minna á beiðni undirritaðs og einnig beiðni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknar frá því fyrr í sumar- að kalla saman utanríkismálanefnd ásamt sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að fjalla um viðræður við ESB.

Ekki síst í ljósi þess ástands sem er á evrunni og fjármálamörkuðum í Evrópu og vestanhafs.

En einnig vegna sérkennilegra yfirlýsinga utanríkisráðherra um að Ísland þurfi engar undanþágur í sjávarútvegsmálum og að utanríkisráðherra einn geti mótað samningsskilyrði Íslands. Jafnframt ástæður þess að samningahópar um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál funda ekki með reglulegum hætti og ástæður þess að utanríkisráðherra hefur ekki haft samráð við hagsmunasamtök, alþingismenn o.fl. eins og kveðið var á um þegar sótt var um aðild. 

Væri ekki mikilvægara að fjalla á opnum fundi um ESB viðræðurnar. Þar eru þó breyttar aðstæður sbr efnahagshrun landa Suður-Evrópu. En einnig vegna þess að þar virðist ráðherra utanríkismála fara frjálslega með samþykktir Alþingis og stefnu.

 

En – nei að mati formanns utanríkismálanefndar og þeirra sem stýra för hjá ríkisstjórn VG og Samfylkingar var það efst í forgangsröð að fjalla um fund sem haldinn var fyrir mánuði um hvalveiðar.

-          Hér liggur eitthvað undir steini! Skyldi það vera fiskur? Eða eitthvað annað – evt ESB?


Ekki meir - ekki meir

 

Í sumar hef ég hitt fjöldann allan af fólki um land allt. Suma kunningja, vini, flokksystkin en líka ókunnugt fólk sem gefur sig á tal við mann. Allir segja sömu sögu. Nú er nóg komið af úrræðaleysi ríkisstjórnar VG og Samfylkingar. Nú er nóg komið af öfgapólitík, óskynsemi og tómlæti gagnvart uppbyggingu atvinnulífs. Ríkisstjórnin hefur fengið tvö ár til að lækka skuldir ríkissjóðs, koma atvinnulífinu í gang og auka hagvöxt. Það hefur mistekist. Nú í upphafi umræðu um fjárlög næsta árs - virðast þau vera úrræðalaus. Hugmyndir þeirra virðast vera aðeins þær að boðið verður upp á meira af því sem ekki hefur virkað hingað til. – Nákvæmlega það sem fólkið í landinu segir við; ekki meir –ekki meir!!

 

Leiðin til uppbyggingar er ekki að skera endalaust niður og hækka skatta á almenning og fyrirtæki. Leiðin er að skapa raunveruleg verðmæti. Styrkja atvinnulífið og stækka kökuna. Þar eru möguleikar okkar miklir. Ég hef margoft bent á tækifæri í matvælaframleiðslu eins og aukið sjávarfang (nokkrir milljarðar) stóraukning í fiskeldi eða að auka það í 50 þús tonn ( allt að 30 milljarðar) aukinn útflutningur á sauðfjárafurðum og mjólkurafurðum ( sauðfjárafurðir skiluðu tæp 3 milljörðum á síðasta ári). Aðrir möguleikar tengdir eru loðdýrarækt (hægt að auka útflutningstekjur um 10-15 milljarða) aukinn korn- og repjurækt sem myndi skila milljarðasparnaði í gjaldeyri.

Þá eru ótalinn fjölmörg tækifæri tengd orkuöflun og orkunýtingu. Þá hefur þekkingariðnaðurinn blómstrað síðustu ár og er nú í stakk búinn að keppa á heimsvísu á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins.

 

Við Framsóknarmenn lögðum fram ítarlegar tillögur í atvinnumálum á vorþingi sem vert væri að taka til gaumgæfulegrar skoðunar og finna leiðir til að hrinda í framkvæmd. Umtalsverðir fjármunir eru til innanlands til að fjármagna mörg þessara verkefna.

Það er rétt að minna á að áður höfum við Framsóknarmenn lagt fram tillögur sem voru hundsaðar af ríkisstjórnarflokkunum (feb 2009) – en eftirá verið viðurkenndar að hafa verið þær einu réttu sbr 20 % leiðin um almenna skuldaleiðréttingu og tillögur í efnahagsmálum sem Seðlabankinn hefur nú 2-2 ½ ári síðar verið að hrinda í framkvæmd.

 

Leiðin fram á við er aukinn atvinna – aukinn hagvöxtur – auknar útflutningstekjur. Með slíkri stefnu mun fólk sjá fram á að komast út úr vítahring - öfgastefnu VG og ESB kratavæðingu Samfylkingar. Fólk þarf von og trú á framtíðina. Tækifærin eru næg á Íslandi. Það þarf hinsvegar stefnubreytingu, vilja og skynsama framtíðarsýn til að nýta þau tækifæri.

 

Því verður ekki trúað að ríkisstjórnin ætli að höggva enn í sama knérunn heimila og hækka virðisaukaskatt á matvæli. Það er einfaldlega vítahringur sem ríkisstjórnin virðist ekki skilja að þegar skattar eru hækkaðir á almenning þá fær fólk færri krónur í ráðstöfunartekjur upp úr launaumslaginu, þá getur það eytt færri krónum í verslunum og þjónustu, sem gerir fyrirtækjum erfiðara fyrir.

 

Hafa menn ekkert lært af hækkun eldsneytisskatta, áfengisgjalda – aukinna álaga sem hafa því einu skilað að það eru minni umsvif m.a í ferðaþjónustunni og starfsemin færist undir borðið. Þar fyrir utan færast hærri neysluskattar inn í verðlag og hækka verðtryggðar skuldir heimilanna, sem aftur leiðir til lægri ráðstöfunartekna o.s.frv. Ríkisstjórnin hefur læst íslenskt efnahagslíf inni í þessum vítahring. Úr þeim vítahring verður að brjótast. Ríkisstjórn VG og Samfylkingar hafa reynt sín meðul – þau ganga ekki - við þurfum plan B.

 

 

 


mbl.is „Engin áform um matarskatt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjördæmabréf sumar 2011

Ágæti framsóknarmaður í Suðurkjördæmi!


Þingi hefur nú verið frestað fram í byrjun september. Liðinn vetur hefur verið annasamur hjá okkur í þingflokki framsóknarmanna. Þó nokkur stór mál og málefni hafa verið á áherslulista okkar. Þar var lengi vel efst á blaði baráttan gegn Icesave,en sú barátta skilaði sér í þjóðaratkvæði þar sem um 73% þeirra sem kusu í Suðurkjördæmi sögðu nei við réttlátari Icesave-kröfu ríkisstjórnarinnar og Hollendinga og Breta. Við getum verið stolt af því að hafa þorað að standa í fæturna gegn áróðrinum um hve illa fyrir landi og þjóð færi ef við segðum nei. Nú hefur komið á daginn að það var allt hræðsluáróður runninn undan rifjum ráðherra ríkisstjórnar og forsvarsmanna atvinnulífsins – jafnt atvinnurekenda sem launþega. Ísland mun rísa – og sennilega hraðar – vegna þess að við vorum ekki tilbúin til að láta knésetja okkur með ólögmætri og siðlausri skuldsetningu.

Þá höfum við lagt ofuráherslu á skuldavanda heimila og fyrirtækja. Í ljós hefur komið að hugmyndir okkar um almenna leiðréttingu lána (20% leiðin) hefði verið hin eina rétta. Því miður hlustuðu ríkisstjórnarflokkarnir ekki þá á okkar skynsömu tillögur.  Áfram verður það verkefni okkar að leita að skynsömum og réttlátum leiðum til skuldaleiðréttingar þó vissulega sé gatan torsóttari en fyrr.

Við höfum í vetur lagt fram bæði víðtækar efnahagstillögur sem og þingsályktanir um atvinnuuppbyggingu. Einnig höfum við tekið virkan þátt í þeim samráðshópum sem ríkisstjórn eða aðrir aðilar hafa boðið uppá. Því miður verður að segjast að það samráð var oftast málamyndasamráð og hefur þannig hvorki skilað miklu né heldur hefur verið tekið tillit til okkar áhersla eða tillagna. Í haust verður okkar helstu baráttumál tengd atvinnuuppbyggingu. Við verðum að koma atvinnuleysinu á kné. Þar er víða vandi í kjördæminu eins og á Suðurnesjum og á Árborgarsvæðinu. Forsenda framfara er eins og við Framsóknarmenn vitum – vinna – vinna og síðan er vöxtur undirstaða velferðar.

Þá hefur farið mikill tími í að verja velferðarkerfið – ekki síst á landsbyggðinni. Niðurskurðarhugmyndir ríkisstjórnar síðastliðið haust var blaut tuska framan í landsbyggðarfólk. Seinni part vetrar höfum við barist fyrir að fá uppá borð hugmyndir um niðurskurð næsta árs – svo mögulegt verði að taka vitræna umræðu um hvað sé skynsamlegt og hvað ekki. Þar mun reyna enn á ný á samtöðu um að verja störf á landsbyggðinni. Ég vil þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum ekki síst úr heilbrigðisgeiranum en einnig sveitarstjórnarfólki og öðru áhugafólki um að verja sína heimabyggð - sem hafa lagt okkur lið með upplýsingum, stuðningi með beinum eða óbeinum hætti. Án ykkar værum við lítilsmegnug. Ég lofa öflugri vinnu þingflokks Framsóknarmanna í þessum málaflokki í haust.

Síðustu daga og vikur þingsins fór mikill tími og orka í sjávarútvegsmál. Hugmyndir ríkisstjórnarflokkanna reyndust vera meira - (eins og marga grunaði) - vera óskynsöm öfga stefna þar sem meira kapp var lagt á að breyta en hverju/og af hverju ætti að breyta. Sjávarútvegur er gríðarlega mikilvægur fyrir kjördæmið, Grindavík, Hornafjörð, Vestmannaeyjar, Þorlákshöfn sem og landið allt.

Síðastliðið ár leiddi ég vinnu hóps sem skipaður hafði verið í að fara yfir sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins. Við skiluðum af okkur fyrir flokksþingið í apríl síðastliðinn. Þar náðist viðtæk samstaða um stefnuna – einnig hafa ýmsir bæði hagsmunaaðilar sem og stjórnmálaöfl tekið vel í margar af þeim hugmyndum sem þar koma fram. Enda má segja að okkar vinna var skynsöm framlenging á vinnu svokallaðrar sáttanefndar sem ráðherra skipaði og skilaði tillögum í september 2010. Í vor lögðum við fram tillögu á þingi þess efnis að skipa ætti nýjan samráðshóp sem skila ætti tillögu að frumvarpi um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu þar sem fram færi raunverulegt samráð allra aðila og m.a. myndu tillögur okkar verða lagðar þar til grundvallar.

Þingflokkurinn hefur bæði í heild sem og einstakir þingmenn lagt fram mörg góð og brýn mál –sem fyrirspurnir, þingsályktanir eða jafnvel frumvörp. Ég hef frá kosningum 2009 setið fyrir flokkinn í sjávarútvegs og landbúnaðarnefnd auk þess Þingvallanefnd sem og VestNorræna-samstarfinu. Innan þessara málaflokka hef ég reynt að beita mér af krafti í þeim málum sem undir nefndirnar falla auk fjölmargra mála sem undir aðrar nefndir heyra.

Nefna má fyrirspurnir og umræður við umhverfisráðherra til að reyna að fá hana til að halda sér á braut skynsemi en forðast öfgar má þar nefna skipulag Flóahrepps, Dyrhólaey, önnur friðlýst svæði sem og þjóðgarða.

Fyrirspurnir og utandagskrár við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um m.a framleiðnisjóð, lífeyrissjóð bænda, síhækkandi matarverð í heiminum og tækifæri Íslendinga til að auka sína matvælaframleiðslu. Dýrasjúkdóma og sóttvarnir sem og þjónustu dýralækna í dreifbýli svo e-ð sé nefnt.

Þá hef ég reynt að fá fram upplýsingar sem skýra og undirbyggja tillögur í atvinnumálum eða afhjúpa óskynsemi í niðurskurði. Þar má nefna fyrirspurnir um tekjur af bílum og umferð. Samgöngubætur eins og útrýmingu einbreiðra brúa,Suðurlandsveg, Landeyjahöfn, Hornafjarðarfljótsbrú ofl. ofl.  Fyrirspurnir og umræðu um afleiðingar niðurskurðar á heilbrigðissviði osfr.


Með þessum tölvupósti fylgir lausleg samantekt á sumum þeim fyrirspurnum og þingsályktunum sem ég hef lagt fram. Jafnframt vil ég hvetja þig til að hafa samband hvort sem um væri að ræða ábendingar, tillögur eða athugasemdir. Auðveldast er að senda mér póst á 
sij@althingi.is

Að afloknum sumarfríum er mikilvægt að við öll – allir framsóknarmenn – brettum upp ermar og tökum höndum saman að efla starfið og samstilla fyrir baráttu næstu missera. Það er margt sem bendir til að þar bæði, getum við  framsóknarmenn og verðum að vera í forystusveit til að ná fram markmiðum um réttlát samfélag sem byggist á jöfnuði, samvinnu sem og frelsi einstaklingsins til athafna. Möguleikar okkar til að vinna okkur út úr kreppu og atvinnuleysi eru gríðarlegir. Tækifærin eru víða en það þarf bæði kjark og vilja til að nýta þau.

Ég óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegs sumars og vonast til að hitta þig á viðburðum víðs vegar um kjördæmið sem og land allt. Ég vona að þú hafir bæði gagn og gaman að þessu bréfkorni.

Með baráttukveðjum,

Sigurður Ingi Jóhannsson

Mál sem ég hef lagt fram sl. vetur: http://www.althingi.is/dba-bin/skjol.pl?radsv=0&s_lt=0&lthing=&malnr=&sklnr=&athm1=&malhg=&efnisflokkur=&malteg=&athm2=0&flutn=&kt1=2004623789&nafn=&thmsk=&embaett=&thingfl=&nefnd=&skl_1=&skl_2=&timi=dd.mm.%E1%E1%E1%E1

Heimasíða þar getur þú fylgst með vinnu minni: http://sigingi.blog.is/blog/sigingi/

 


Hugsa út fyrir kassann - vinna hraðar

Mikilvægt er að bregðast eins hratt við og hægt er vegna rofs hringvegarins. Nú eru háannir í ferðaþjónustu. Þær eru í sex-átta vikur - það gengur ekki að 3 vikur þess tíma séu hringvegurinn lokaður og sá landshluti sem síst mátti við áföllum sé sá sem verði fyrir mestu tjóni.

Það er allt þakkarvert sem gert er - ríkisstjórn og vegagerð hafa brugðist vel við en gera þarf meira.

Birti hér yfirlýsingu sem ég sendi fjölmiðlum fyrr í dag vegna málsins.

Yfirlýsing frá Sigurði Inga Jóhannssyni þingmanni Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi

 

Enn á ný koma náttúruöflin og leggja byrðar á sama landshlutann. Eftir árleg gos horfðu margir á að ferðaþjónustan myndi blómstra í sumar. En hlaupið í Múlakvísl og hvarf brúarinnar setja veruleg strik í reikninginn. Ríkisstjórn og Vegagerð virðast hafa brugðist fljótt við og margt er komið í gang og er það þakkarvert.

Hinsvegar telur undirritaður algjörlega óásættanlegt að það taki 2- 3 vikur að koma á hringveginum í lag.

Nú eru ferðalög landsmanna sem og erlendra ferðamanna í hámarki. Það gengur ekki að af þeim sex vikum sem háannatími ferðaþjónustunnar varir séu jafnvel þrjár vikur sem fari meira eða minna fyrir ofan garð.

Ég tel að skoða verði vel

1.       Að flýta gerð bráðabirgðabrúar á Múlakvísl sem allra allra mest – Í því sambandi er vert að minnast á að í Skeiðarárhlaupinu 1996 var búið að tengja hringveginn eftir 5-6 daga.

2.       Kanna þarf samhliða kosti þess að gera vað og ferja bíla yfir

3.       Setja þarf fjármuni og tæki í að laga og halda Fjallabaki-Nyrðra í sem bestu ásigkomulagi – nú þegar er ljóst að leiðin þolir ekki þann aukna umferðarþunga sem komin er.

4.       Tryggja þarf öryggi íbúa eins sjúkraflutninga og gefa út yfirlýsingu þess efnis.

Það verður að gera það sem gera þarf – íbúar og fyrirtæki á þessu svæði hafa þurft að þola nóg á liðnum misserum. Mikilvægt er að ríkisvaldið geri allt sem í þess valdi stendur til að létta baráttuna við náttúruna..

 

Eðlilegast væri að kalla saman samgöngunefnd þingsins til að fara yfir þá kosti sem í stöðunni eru og hvað flýti leiðir séu færar.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson

 


mbl.is Hugsanlegt að ferja bílana yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta nýja Ísland?

Fréttablaðið Aðsendar greinar 28. júní 2011 05:00
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks.
Nú eru nærri þrjú ár frá hruni – meira en tvö og hálft ár frá því að ríkisstjórn VG og Samfylkingar tók við stjórnartaumum og sagðist ætla að breyta öllu til hins betra. Hver er staðan í raun?

Viðskiptablaðið hefur verið að birta fréttir af Húsasmiðjunni sem ríkisbankinn – Landsbankinn – tók yfir og seldi síðan lífeyrissjóðunum. Maður skyldi ætla að í þessu tilfelli „færi allt á besta veg" hins nýja Íslands. Opinberir og hálfopinberir aðilar sjá um „skuldahreinsun" og endurreisn. En hver er raunin? Skuldir lækkaðar úr 16,8 milljörðum 2008 í 3,9 milljarða við síðustu áramót. Starfslokagreiðslur til fyrrverandi stjórnenda eru eins og úr bóluhagkerfi 2007 – 55 milljónir fyrir það eitt að hætta störfum! Laun núverandi stjórnenda og stjórna nema tugum milljóna króna og hækka um 30% milli ára! Samt tapar fyrirtækið peningum á rekstrinum og horfur eru slæmar! Hvað skýrir tugmilljóna króna starfslokasamninga og stórhækkuð laun? Hvað er breytt – ekkert? Þetta gengur auðvitað ekki.

Hvernig eiga núverandi samkeppnisaðilar sem og ný fyrirtæki að geta keppt við slíkan aðila? Aðila sem hefur fengið afskriftir til hægri og vinstri. Aðila sem býr við pilsfaldakapítalisma dauðans. Fyrst hjá ríkisbankanum og síðan lífeyrissjóðunum. Var þetta það sem VG og Samfylking lofuðu vorið 2009? Er það vegna þessa og sambærilegra dæma sem þau sitja á ráðherrastólunum og vilja ekki sleppa?

Hvenær kemur sá dagur að þeir sem stjórna bera ábyrgð? Hvenær kemur sá dagur að viðskiptasiðferðið verður eins hjá siðuðum vestrænum þjóðum, t.d. Norðurlöndunum? Hvenær munu heimilin og venjuleg fyrirtæki fá sambærilega eða kannski væri betra að segja eðlilega fyrirgreiðslu hjá bönkum og yfirvöldum? Það er ljóst að ríkisvæðing fyrirtækja er ekki leiðin. Það er hins vegar öllum jafnljóst að skýrar afmarkaðar leikreglur þar sem allir sitja við sama borð ásamt öflugum eftirlitsaðilum er rétta leiðin fram á við. Pólitísk stýring viðskiptalífs á að heyra fortíðinni til.

Staðreyndirnar tala sínu máli, því miður er Húsasmiðjan ekki eina dæmið. Það er hins vegar staðreynd að langflestir Íslendingar telja þetta ekki vera hina réttu leið að nýju og réttlátara Íslandi. Þær hugmyndir snúast um að allir sitji við sama borð. Ákvarðanir stjórnvalda og opinberra sem hálfopinberra aðila séu gegnsæar og á grundvelli almenns jafnræðis fólks og fyrirtækja.
Almenn niðurfærsla skulda – svokölluð 20% leið – sem Framsóknarflokkurinn kynnti í febrúar 2009 var slík jafnræðis- og gegnsæisleið. Hefðu ríkisstjórnarflokkarnir borið gæfu til að hlusta – þá væri staðan önnur og betri hjá samfélaginu. Þá biðu ekki 2.000 fjölskyldur eftir úrlausnum umboðsmanns skuldara né heldur þúsundir fyrirtækja hjá bönkunum í svokallaðri „beinu braut".

Almenn niðurfærsla er engin töfralausn – eftir sem áður þyrftu ýmsir á sértækum lausnum að halda og einnig yrðu sumir gjaldþrota. En aðalatriðið er að allir sætu við sama borð þar sem markmiðið um réttlæti og sanngirni réði ríkjum. Það var og er hugmyndin um nýtt og réttlátara Ísland.

Ábyrgð ráðherra

Fréttir af Dyrhólaey hafa verið tíðar nú í vor - og flestar heldur neikvæðar. Oft á tíðum hefur fréttaflutningur verið - vægast sagt - ónákvæmur ef ekki hreint rangur eða einum sjónarmiðum haldið á lofti en öðrum sleppt. Sjaldan veldur einn er tveir deila.

Fyrstu fréttir í mars/apríl voru reyndar mjög jákvæðar. Þær voru um að sveitarfélagið Mýrdalshreppur og Umhverfisstofnun væru að gera samstarfssamning um landvörslu og uppbyggingu í Dyrhólaey. Í lok apríl höfðu forstjóri Umhverfisstofnunar og sveitarstjóri Mýrdalshrepps undirritað samninginn og búið var að ráða í embætti landvarðar. Fyrir lá skýrsla fuglafræðings og tillögur um lokanir og opnanir og endurskoðun.

- Það eina sem vantaði var staðfesting Umhverfisráðherra - nú leið og beið - eins og menn muna er Umhverfis í pólitík og þarf því ekki ( að eigin mati) að fara að leikreglum - stjórnsýslureglum sbr. skipulag í Flóahreppi.

Þegar beðið hafði verið eftir undirskrift Umhverfis- í 2 vikur spurði undirritaður, ráðherra á þingi í óundirbúnum fyrirspurnum - hverju töfin sætti? - Lítið varð um svör - en þó mátti skilja að ekki þyrfti samningurinn að liggja marga daga til viðbótar á borði Umhverfis- án þess að mínúta gæfist til að staðfesta samninginn -  . . .  en ekkert gerðist.

Þá fóru ýmsir að ókyrrast - og fréttir af ýmsum uppákomum urðu tíðar. Umhverfisráðherra bar á þessum uppákomum alla sök og ábyrgð. Eftir að margra áratuga deilumáli hafði verið leyst af frumkvæði sveitarstjórnar og umhverfisstofnunar - uppbygging göngustíga - upplýsingaskilta og landvarsla var hafinn - þá dró Umhverfis- lappirnar - afhverju? jú af því að hún er í pólitík!

Nú berast fréttir af því að ráðherra umhverfis- sé loks búinn að finna tíma til að skrifa uppá samninginn - meir en sjö vikum eftir en skynsamlegast hefði verið að ganga frá málinu. Allar leiðinda uppákomur tímabilsins eru á ábyrgð ráðherra Umhverfis-.

Vonandi verður þetta stjórnsýsluklúður Umhverfis- ráðherra víti til varnaðar - næst verði minni öfga pólitík og meiri skynsemi.

Vonandi verður frumkvæði sveitarstjórnar Mýrdalshrepps og Umhverfisstofnunar að uppbyggingar samningi um friðlýsta svæðið við Dyrhólaey aðeins fyrsti samningur af mörgum - það eru 102 friðlýst svæði á landinu - öll skortir fjármuni og/eða uppbyggingarsamninga.

Forsenda friðlýsinga í framtíðinni er samráð - samvinna - samstarf við heimaaðila og síðan fjármagn til uppbyggingar.  


mbl.is Harma að lokun sé ekki virt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan endurskrifuð

Það er ekki oft sem ég verð svo undrandi af því að hlusta á fréttir að ég nánast detti úr stólnum. Þetta gerðist hinsvegar í dag þegar ég var á akstri og hlustaði á hádegisfréttirnar á RÚV. Þar var sagt frá myrkvum bloggheimi þingmannsins Björns Vals. Hann er nú ekki alltaf málefnalegur blessaður- né finnst honum nauðsynlegt að segja satt og rétt frá. En nú tók steininn úr.

Ef ég væri ekki á þingi og sæti þess utan með viðkomandi í sjávarútvegsnefnd þingsins þá gæti vel verið - svona eitt augnablik - að ég hefði trúað "fréttinni". Það var jú verið að endur segja áróðurinn um hver hefði sett kvótann á, LÍÚ osfr. Hverjir væru vondu kallarnir og hverjir þeir góðu.

En staðreyndin er nú sú að síðasta hálfa mánuðinn hef ég verið virkur þátttakandi í atburðunum á þingi og sú saga sem Björn Valur segir af þeim tíma er hvergi lík raunveruleikanum.

Staðreyndin er sú að Björn Valur er sennilega mesti sérfræðingur VG í sjávarútvegsmálum - með áratuga reynslu af sjómennsku. Hann sá strax að frumvörpin sem komu inn í þingið á elleftu og hálfri stundu - voru vonlaus. Þau myndu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir greinina - afkomu sjávarbyggða og þjóðina alla. Þess vegna barðist hann gegn þeim með kjafti og klóm. Þess vegna gat hann ekki staðið að málinu þegar það fór út úr nefndinni - hann sat hjá. Samfylkingar þingmennirnir settu allir fyrirvara við sinn stuðning. Það fannst Birni Val ekki nóg - hann sat hjá. Ég ásamt sjálfstæðismönnunum greiddum atkvæði gegn frumvarpinu. - Eini þingmaðurinn sem studdi frumvarpið óbreytt og án fyrirvara var formaðurinn Lilja Rafney að vestan.

Eftir að málið var aftur komið inn í þingsal til afgreiðslu - eftir samkomulag formanna flokkanna  um hvaða mál mætti ljúka fyrir þinghlé - hefði mátt búast við að frumvarp um stjórn fiskveiða flygi í gegn - enda stjórnin á bak við það - ríkisstjórnarflokkarnir báru ábyrgð á því - eitt af forgangsmálum stjórnarinnar hefur verið sagt.

Okkar fyrirstaða var búinn ( við vorum bærilega sátt við að hafa náð að draga verstu áhrifin úr frumvarpinu en vorum engu að síður á móti því).

En þá hófst einhver sú sérkennilegasta atburðarrás og sérhagsmunagæsla sem ég hef allaveganna séð á minni skömmu þingmennsku. Þar léku stjórnarþingmenn stærstu hlutverkin. Aðalhlutverkin voru á höndum þeirra sem mest vit höfðu á sjávarútvegsmálum eða höfðu mestra hagsmuna að gæta. - Þar voru engir Framsóknarþingmenn. Nú þurftu formenn stjórnarflokkanna að semja við sína eigin liðsmenn og þétta raðirnar. Árangurinn var að lokum náðu stjórnarþingmennirnir innan VG og Samfylkingar saman um að þynna en frekar frumvarp sjávarútvegsráðherra og formannsins að vestan. Sérfræðingar flokkanna í sjávarútvegsmálum stýrðu þeirri för.

Í allri þessari orrahríð reyndum við Framsóknarþingmenn að koma fram með málefnalega en harða gagnrýni á frumvörpin - enda allir sammála um að þau væru arfaslök, illa unnin og stórskaðleg fyrir atvinnugreinina. Við lögðum fram tillögur til að breyta og bæta - en einnig að fella út greinar og minnka skaðleg áhrif sumra þeirra. Það tókst vel - enda tóku margir vel í okkar málflutning um hvaða breytingar þarf að gera - og þær þarf að gera. Skynsamlegar breytingar sem efla greinina og sjávarbyggðirnar - skila líka mestu til þjóðarinnar.

Það kom því ekki við hjarta okkar Framsóknarmanna þó breyta ætti fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það er hinsvegar dapurt að sjá að engin skýr markmið séu hjá stjórnarflokkunum fyrir breytingunum -  þar ráði öfgastefnur og sérhagsmunagæsla sem kom m.a. fram í þinginu síðustu sólarhringana. Þar verkjaði suma stjórnarþingmenn í einhver líffæri - sennilega einhver sem eru veraldlegri en hjartað.

 

 


mbl.is „Sagan samofin kvótakerfinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband