Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012
Afleiðingar öfgaskattheimtu
28.6.2012 | 13:17
Því miður hlustaði ríkisstjórnin ekki á aðvaranir stjórnarandstöðu og allra umsagnaraðila um frumvarp um veiðigjöld - óháðra sérfræðinga, sveitarfélaga um land allt, fyrirtækja í sjávarútvegi, launþegasamtaka né atvinnurekanda.
Því miður var ekki gefinn tími til að fara ofan í kjölinn á "gölnu frumvarpi," "afleitri aðferðafræði" og reikna út afleiðingar á einstök fyrirtæki og útgerðarflokka þrátt fyrir beiðnir stjórnarandstöðu þar um.
Því miður er við völd ríkisstjórn sem lætur pólitískan "rétttrúnað" sinn og öfgar ráða för í stað skynsemi og yfirvegun.
Það kemur því ekki á óvart að afleiðingarnar komi strax fram hjá fyrirtæjum sem eru að reyna að standa í skilum við bankakerfið - við ríkið (sem tekur stóraukna hlutdeild) - við starfsfólk sitt - ekki er hægt að greiða öllum allt því þá fer fyrirtækið á hausinn og allir tapa - starfsfólkið - byggðarlagið - ríkið - bankarnir - við þjóðinn.
Því miður kemur þetta ekki á óvart en ábyrgðin er ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms - Samfylkingar og VG - þau geta ekki látið eins og ekkert sé - þau voru vöruð við. - en hlustuðu ekki - því miður.
Vinnslustöðin segir upp 41 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um samráð og samráðsleysi
4.6.2012 | 15:01
Birti hér kafla úr nefndaráliti mínu við 2. umræðu um veiðgjöld.
Kaflinn fjallar um nauðsyn samráð til að fá skynsamlega niðurstöðu sem víðtæk sátt gæti náðst um. En kaflinn fjallar líka um það samráðsleysi sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa viðhaft - enda árangurinn eftir því.
Samráð.
Í fyrirspurnum mínum til umsagnaraðila kom fram að ekkert samráð var haft ekki neitt við neinn aðila. Ekki við Hagstofuna þrátt fyrir að aðferðarfræðin ætti uppruna sinn þaðan. Ekki við hagsmunaaðila greinarinnar þrátt fyrir að meirihlutinn haldi fram að byggt sé á niðurstöðu samráðs og sáttanefndar sjávarútvegsráðherra frá hausti 2010. Ekki við sveitarfélögin þrátt fyrir að í frumvarpinu er verið að taka 10 sinnum hærri upphæð út úr sjávarútvegssamfélögunum en áður var. Ekki við samtök á vinnumarkaði þrátt fyrir stöðugleikasáttmála og samninga við þá aðila við gerð kjarasamninga. Allir aðilar gagnrýna harðlega samráðsleysið og undir það tekur 2. minnihluti. Rétt er í þessu samhengi að benda á stefnu Framsóknarflokksins sem eins og áður sagði var lögð fram á þingi sem þingsályktunartillaga. Að henni stóðu allir þingmenn Framsóknar, en þar stendur Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa samráðshóp til að leita leiðar til að móta skýra stefnu til lengri tíma í sjávarútvegsmálum. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra þingflokka, fulltrúum atvinnulífsins, launþega, sveitarfélaga, fyrirtækja í sjávarútvegi og annarra hagsmunasamtaka. Hópurinn leggi tillögur fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi síðar en 1. janúar 2012 og ráðherra leggi fram lagafrumvörp til innleiðingar þeirra í íslensk lög. Við vinnu hópsins verði áhersla lögð á eftirfarandi:
1. Sjávarauðlindin verði tryggð sameign þjóðarinnar með ákvæði í stjórnarskrá.
2. Stjórn fiskveiða verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningu til nýsköpunar og nýliðun. Úthlutun veiðileyfa verði gerð með þeim hætti að skilgreina tvo potta, annars vegar pott með nýtingarsamningum og hins vegar pott þar sem veiðileyfum verði úthlutað til ákveðinna aðila. Frístundaveiðar verði kallaðar ferðaþjónustuveiðar til að atvinnugreinin geti dafnað á eigin forsendum ferðaþjónustunnar.
3. Veiðigjald/auðlindarentan sem sjávarútvegurinn greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðssetningar innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til landsvæða þar sem auðlindarentan verður til og hluti í ríkissjóð.
4. Hlúð verði að nýsköpun og enn frekari nýtingu hráefnis til að skapa verðmæti og auka arðsemi.
5. Tryggt verði að auðlindin verði nýtt á sem skynsamlegastan hátt og nýtingin verði byggð á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins.
6. Áhersla verði lögð á að sjávarútvegur sé ekki einungis veiðar heldur einnig hátæknivæddur matvælaiðnaður.
7. Sjónum verði í vaxandi mæli beint að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda hafsins til að tryggja áframhaldandi forustu Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins.
Enginn fundur verið boðaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |