Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011
Kjördæmabréf sumar 2011
27.7.2011 | 10:18
Ágæti framsóknarmaður í Suðurkjördæmi!
Þingi hefur nú verið frestað fram í byrjun september. Liðinn vetur hefur verið annasamur hjá okkur í þingflokki framsóknarmanna. Þó nokkur stór mál og málefni hafa verið á áherslulista okkar. Þar var lengi vel efst á blaði baráttan gegn Icesave,en sú barátta skilaði sér í þjóðaratkvæði þar sem um 73% þeirra sem kusu í Suðurkjördæmi sögðu nei við réttlátari Icesave-kröfu ríkisstjórnarinnar og Hollendinga og Breta. Við getum verið stolt af því að hafa þorað að standa í fæturna gegn áróðrinum um hve illa fyrir landi og þjóð færi ef við segðum nei. Nú hefur komið á daginn að það var allt hræðsluáróður runninn undan rifjum ráðherra ríkisstjórnar og forsvarsmanna atvinnulífsins jafnt atvinnurekenda sem launþega. Ísland mun rísa og sennilega hraðar vegna þess að við vorum ekki tilbúin til að láta knésetja okkur með ólögmætri og siðlausri skuldsetningu.
Þá höfum við lagt ofuráherslu á skuldavanda heimila og fyrirtækja. Í ljós hefur komið að hugmyndir okkar um almenna leiðréttingu lána (20% leiðin) hefði verið hin eina rétta. Því miður hlustuðu ríkisstjórnarflokkarnir ekki þá á okkar skynsömu tillögur. Áfram verður það verkefni okkar að leita að skynsömum og réttlátum leiðum til skuldaleiðréttingar þó vissulega sé gatan torsóttari en fyrr.
Við höfum í vetur lagt fram bæði víðtækar efnahagstillögur sem og þingsályktanir um atvinnuuppbyggingu. Einnig höfum við tekið virkan þátt í þeim samráðshópum sem ríkisstjórn eða aðrir aðilar hafa boðið uppá. Því miður verður að segjast að það samráð var oftast málamyndasamráð og hefur þannig hvorki skilað miklu né heldur hefur verið tekið tillit til okkar áhersla eða tillagna. Í haust verður okkar helstu baráttumál tengd atvinnuuppbyggingu. Við verðum að koma atvinnuleysinu á kné. Þar er víða vandi í kjördæminu eins og á Suðurnesjum og á Árborgarsvæðinu. Forsenda framfara er eins og við Framsóknarmenn vitum vinna vinna og síðan er vöxtur undirstaða velferðar.
Þá hefur farið mikill tími í að verja velferðarkerfið ekki síst á landsbyggðinni. Niðurskurðarhugmyndir ríkisstjórnar síðastliðið haust var blaut tuska framan í landsbyggðarfólk. Seinni part vetrar höfum við barist fyrir að fá uppá borð hugmyndir um niðurskurð næsta árs svo mögulegt verði að taka vitræna umræðu um hvað sé skynsamlegt og hvað ekki. Þar mun reyna enn á ný á samtöðu um að verja störf á landsbyggðinni. Ég vil þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum ekki síst úr heilbrigðisgeiranum en einnig sveitarstjórnarfólki og öðru áhugafólki um að verja sína heimabyggð - sem hafa lagt okkur lið með upplýsingum, stuðningi með beinum eða óbeinum hætti. Án ykkar værum við lítilsmegnug. Ég lofa öflugri vinnu þingflokks Framsóknarmanna í þessum málaflokki í haust.
Síðustu daga og vikur þingsins fór mikill tími og orka í sjávarútvegsmál. Hugmyndir ríkisstjórnarflokkanna reyndust vera meira - (eins og marga grunaði) - vera óskynsöm öfga stefna þar sem meira kapp var lagt á að breyta en hverju/og af hverju ætti að breyta. Sjávarútvegur er gríðarlega mikilvægur fyrir kjördæmið, Grindavík, Hornafjörð, Vestmannaeyjar, Þorlákshöfn sem og landið allt.
Síðastliðið ár leiddi ég vinnu hóps sem skipaður hafði verið í að fara yfir sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins. Við skiluðum af okkur fyrir flokksþingið í apríl síðastliðinn. Þar náðist viðtæk samstaða um stefnuna einnig hafa ýmsir bæði hagsmunaaðilar sem og stjórnmálaöfl tekið vel í margar af þeim hugmyndum sem þar koma fram. Enda má segja að okkar vinna var skynsöm framlenging á vinnu svokallaðrar sáttanefndar sem ráðherra skipaði og skilaði tillögum í september 2010. Í vor lögðum við fram tillögu á þingi þess efnis að skipa ætti nýjan samráðshóp sem skila ætti tillögu að frumvarpi um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu þar sem fram færi raunverulegt samráð allra aðila og m.a. myndu tillögur okkar verða lagðar þar til grundvallar.
Þingflokkurinn hefur bæði í heild sem og einstakir þingmenn lagt fram mörg góð og brýn mál sem fyrirspurnir, þingsályktanir eða jafnvel frumvörp. Ég hef frá kosningum 2009 setið fyrir flokkinn í sjávarútvegs og landbúnaðarnefnd auk þess Þingvallanefnd sem og VestNorræna-samstarfinu. Innan þessara málaflokka hef ég reynt að beita mér af krafti í þeim málum sem undir nefndirnar falla auk fjölmargra mála sem undir aðrar nefndir heyra.
Nefna má fyrirspurnir og umræður við umhverfisráðherra til að reyna að fá hana til að halda sér á braut skynsemi en forðast öfgar má þar nefna skipulag Flóahrepps, Dyrhólaey, önnur friðlýst svæði sem og þjóðgarða.
Fyrirspurnir og utandagskrár við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um m.a framleiðnisjóð, lífeyrissjóð bænda, síhækkandi matarverð í heiminum og tækifæri Íslendinga til að auka sína matvælaframleiðslu. Dýrasjúkdóma og sóttvarnir sem og þjónustu dýralækna í dreifbýli svo e-ð sé nefnt.
Þá hef ég reynt að fá fram upplýsingar sem skýra og undirbyggja tillögur í atvinnumálum eða afhjúpa óskynsemi í niðurskurði. Þar má nefna fyrirspurnir um tekjur af bílum og umferð. Samgöngubætur eins og útrýmingu einbreiðra brúa,Suðurlandsveg, Landeyjahöfn, Hornafjarðarfljótsbrú ofl. ofl. Fyrirspurnir og umræðu um afleiðingar niðurskurðar á heilbrigðissviði osfr.
Með þessum tölvupósti fylgir lausleg samantekt á sumum þeim fyrirspurnum og þingsályktunum sem ég hef lagt fram. Jafnframt vil ég hvetja þig til að hafa samband hvort sem um væri að ræða ábendingar, tillögur eða athugasemdir. Auðveldast er að senda mér póst á sij@althingi.is
Að afloknum sumarfríum er mikilvægt að við öll allir framsóknarmenn brettum upp ermar og tökum höndum saman að efla starfið og samstilla fyrir baráttu næstu missera. Það er margt sem bendir til að þar bæði, getum við framsóknarmenn og verðum að vera í forystusveit til að ná fram markmiðum um réttlát samfélag sem byggist á jöfnuði, samvinnu sem og frelsi einstaklingsins til athafna. Möguleikar okkar til að vinna okkur út úr kreppu og atvinnuleysi eru gríðarlegir. Tækifærin eru víða en það þarf bæði kjark og vilja til að nýta þau.
Ég óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegs sumars og vonast til að hitta þig á viðburðum víðs vegar um kjördæmið sem og land allt. Ég vona að þú hafir bæði gagn og gaman að þessu bréfkorni.
Með baráttukveðjum,
Sigurður Ingi Jóhannsson
Mál sem ég hef lagt fram sl. vetur: http://www.althingi.is/dba-bin/skjol.pl?radsv=0&s_lt=0<hing=&malnr=&sklnr=&athm1=&malhg=&efnisflokkur=&malteg=&athm2=0&flutn=&kt1=2004623789&nafn=&thmsk=&embaett=&thingfl=&nefnd=&skl_1=&skl_2=&timi=dd.mm.%E1%E1%E1%E1
Heimasíða þar getur þú fylgst með vinnu minni: http://sigingi.blog.is/blog/sigingi/
Hugsa út fyrir kassann - vinna hraðar
10.7.2011 | 18:02
Mikilvægt er að bregðast eins hratt við og hægt er vegna rofs hringvegarins. Nú eru háannir í ferðaþjónustu. Þær eru í sex-átta vikur - það gengur ekki að 3 vikur þess tíma séu hringvegurinn lokaður og sá landshluti sem síst mátti við áföllum sé sá sem verði fyrir mestu tjóni.
Það er allt þakkarvert sem gert er - ríkisstjórn og vegagerð hafa brugðist vel við en gera þarf meira.
Birti hér yfirlýsingu sem ég sendi fjölmiðlum fyrr í dag vegna málsins.
Yfirlýsing frá Sigurði Inga Jóhannssyni þingmanni Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi
Enn á ný koma náttúruöflin og leggja byrðar á sama landshlutann. Eftir árleg gos horfðu margir á að ferðaþjónustan myndi blómstra í sumar. En hlaupið í Múlakvísl og hvarf brúarinnar setja veruleg strik í reikninginn. Ríkisstjórn og Vegagerð virðast hafa brugðist fljótt við og margt er komið í gang og er það þakkarvert.
Hinsvegar telur undirritaður algjörlega óásættanlegt að það taki 2- 3 vikur að koma á hringveginum í lag.
Nú eru ferðalög landsmanna sem og erlendra ferðamanna í hámarki. Það gengur ekki að af þeim sex vikum sem háannatími ferðaþjónustunnar varir séu jafnvel þrjár vikur sem fari meira eða minna fyrir ofan garð.
Ég tel að skoða verði vel
1. Að flýta gerð bráðabirgðabrúar á Múlakvísl sem allra allra mest Í því sambandi er vert að minnast á að í Skeiðarárhlaupinu 1996 var búið að tengja hringveginn eftir 5-6 daga.
2. Kanna þarf samhliða kosti þess að gera vað og ferja bíla yfir
3. Setja þarf fjármuni og tæki í að laga og halda Fjallabaki-Nyrðra í sem bestu ásigkomulagi nú þegar er ljóst að leiðin þolir ekki þann aukna umferðarþunga sem komin er.
4. Tryggja þarf öryggi íbúa eins sjúkraflutninga og gefa út yfirlýsingu þess efnis.
Það verður að gera það sem gera þarf íbúar og fyrirtæki á þessu svæði hafa þurft að þola nóg á liðnum misserum. Mikilvægt er að ríkisvaldið geri allt sem í þess valdi stendur til að létta baráttuna við náttúruna..
Eðlilegast væri að kalla saman samgöngunefnd þingsins til að fara yfir þá kosti sem í stöðunni eru og hvað flýti leiðir séu færar.
Sigurður Ingi Jóhannsson
Hugsanlegt að ferja bílana yfir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |