Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011
Er þetta nýja Ísland?
30.6.2011 | 13:33
Viðskiptablaðið hefur verið að birta fréttir af Húsasmiðjunni sem ríkisbankinn Landsbankinn tók yfir og seldi síðan lífeyrissjóðunum. Maður skyldi ætla að í þessu tilfelli færi allt á besta veg" hins nýja Íslands. Opinberir og hálfopinberir aðilar sjá um skuldahreinsun" og endurreisn. En hver er raunin? Skuldir lækkaðar úr 16,8 milljörðum 2008 í 3,9 milljarða við síðustu áramót. Starfslokagreiðslur til fyrrverandi stjórnenda eru eins og úr bóluhagkerfi 2007 55 milljónir fyrir það eitt að hætta störfum! Laun núverandi stjórnenda og stjórna nema tugum milljóna króna og hækka um 30% milli ára! Samt tapar fyrirtækið peningum á rekstrinum og horfur eru slæmar! Hvað skýrir tugmilljóna króna starfslokasamninga og stórhækkuð laun? Hvað er breytt ekkert? Þetta gengur auðvitað ekki.
Hvernig eiga núverandi samkeppnisaðilar sem og ný fyrirtæki að geta keppt við slíkan aðila? Aðila sem hefur fengið afskriftir til hægri og vinstri. Aðila sem býr við pilsfaldakapítalisma dauðans. Fyrst hjá ríkisbankanum og síðan lífeyrissjóðunum. Var þetta það sem VG og Samfylking lofuðu vorið 2009? Er það vegna þessa og sambærilegra dæma sem þau sitja á ráðherrastólunum og vilja ekki sleppa?
Hvenær kemur sá dagur að þeir sem stjórna bera ábyrgð? Hvenær kemur sá dagur að viðskiptasiðferðið verður eins hjá siðuðum vestrænum þjóðum, t.d. Norðurlöndunum? Hvenær munu heimilin og venjuleg fyrirtæki fá sambærilega eða kannski væri betra að segja eðlilega fyrirgreiðslu hjá bönkum og yfirvöldum? Það er ljóst að ríkisvæðing fyrirtækja er ekki leiðin. Það er hins vegar öllum jafnljóst að skýrar afmarkaðar leikreglur þar sem allir sitja við sama borð ásamt öflugum eftirlitsaðilum er rétta leiðin fram á við. Pólitísk stýring viðskiptalífs á að heyra fortíðinni til.
Staðreyndirnar tala sínu máli, því miður er Húsasmiðjan ekki eina dæmið. Það er hins vegar staðreynd að langflestir Íslendingar telja þetta ekki vera hina réttu leið að nýju og réttlátara Íslandi. Þær hugmyndir snúast um að allir sitji við sama borð. Ákvarðanir stjórnvalda og opinberra sem hálfopinberra aðila séu gegnsæar og á grundvelli almenns jafnræðis fólks og fyrirtækja.
Almenn niðurfærsla skulda svokölluð 20% leið sem Framsóknarflokkurinn kynnti í febrúar 2009 var slík jafnræðis- og gegnsæisleið. Hefðu ríkisstjórnarflokkarnir borið gæfu til að hlusta þá væri staðan önnur og betri hjá samfélaginu. Þá biðu ekki 2.000 fjölskyldur eftir úrlausnum umboðsmanns skuldara né heldur þúsundir fyrirtækja hjá bönkunum í svokallaðri beinu braut".
Almenn niðurfærsla er engin töfralausn eftir sem áður þyrftu ýmsir á sértækum lausnum að halda og einnig yrðu sumir gjaldþrota. En aðalatriðið er að allir sætu við sama borð þar sem markmiðið um réttlæti og sanngirni réði ríkjum. Það var og er hugmyndin um nýtt og réttlátara Ísland.
Ábyrgð ráðherra
27.6.2011 | 16:36
Fréttir af Dyrhólaey hafa verið tíðar nú í vor - og flestar heldur neikvæðar. Oft á tíðum hefur fréttaflutningur verið - vægast sagt - ónákvæmur ef ekki hreint rangur eða einum sjónarmiðum haldið á lofti en öðrum sleppt. Sjaldan veldur einn er tveir deila.
Fyrstu fréttir í mars/apríl voru reyndar mjög jákvæðar. Þær voru um að sveitarfélagið Mýrdalshreppur og Umhverfisstofnun væru að gera samstarfssamning um landvörslu og uppbyggingu í Dyrhólaey. Í lok apríl höfðu forstjóri Umhverfisstofnunar og sveitarstjóri Mýrdalshrepps undirritað samninginn og búið var að ráða í embætti landvarðar. Fyrir lá skýrsla fuglafræðings og tillögur um lokanir og opnanir og endurskoðun.
- Það eina sem vantaði var staðfesting Umhverfisráðherra - nú leið og beið - eins og menn muna er Umhverfis í pólitík og þarf því ekki ( að eigin mati) að fara að leikreglum - stjórnsýslureglum sbr. skipulag í Flóahreppi.
Þegar beðið hafði verið eftir undirskrift Umhverfis- í 2 vikur spurði undirritaður, ráðherra á þingi í óundirbúnum fyrirspurnum - hverju töfin sætti? - Lítið varð um svör - en þó mátti skilja að ekki þyrfti samningurinn að liggja marga daga til viðbótar á borði Umhverfis- án þess að mínúta gæfist til að staðfesta samninginn - . . . en ekkert gerðist.
Þá fóru ýmsir að ókyrrast - og fréttir af ýmsum uppákomum urðu tíðar. Umhverfisráðherra bar á þessum uppákomum alla sök og ábyrgð. Eftir að margra áratuga deilumáli hafði verið leyst af frumkvæði sveitarstjórnar og umhverfisstofnunar - uppbygging göngustíga - upplýsingaskilta og landvarsla var hafinn - þá dró Umhverfis- lappirnar - afhverju? jú af því að hún er í pólitík!
Nú berast fréttir af því að ráðherra umhverfis- sé loks búinn að finna tíma til að skrifa uppá samninginn - meir en sjö vikum eftir en skynsamlegast hefði verið að ganga frá málinu. Allar leiðinda uppákomur tímabilsins eru á ábyrgð ráðherra Umhverfis-.
Vonandi verður þetta stjórnsýsluklúður Umhverfis- ráðherra víti til varnaðar - næst verði minni öfga pólitík og meiri skynsemi.
Vonandi verður frumkvæði sveitarstjórnar Mýrdalshrepps og Umhverfisstofnunar að uppbyggingar samningi um friðlýsta svæðið við Dyrhólaey aðeins fyrsti samningur af mörgum - það eru 102 friðlýst svæði á landinu - öll skortir fjármuni og/eða uppbyggingarsamninga.
Forsenda friðlýsinga í framtíðinni er samráð - samvinna - samstarf við heimaaðila og síðan fjármagn til uppbyggingar.
Harma að lokun sé ekki virt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sagan endurskrifuð
13.6.2011 | 22:17
Það er ekki oft sem ég verð svo undrandi af því að hlusta á fréttir að ég nánast detti úr stólnum. Þetta gerðist hinsvegar í dag þegar ég var á akstri og hlustaði á hádegisfréttirnar á RÚV. Þar var sagt frá myrkvum bloggheimi þingmannsins Björns Vals. Hann er nú ekki alltaf málefnalegur blessaður- né finnst honum nauðsynlegt að segja satt og rétt frá. En nú tók steininn úr.
Ef ég væri ekki á þingi og sæti þess utan með viðkomandi í sjávarútvegsnefnd þingsins þá gæti vel verið - svona eitt augnablik - að ég hefði trúað "fréttinni". Það var jú verið að endur segja áróðurinn um hver hefði sett kvótann á, LÍÚ osfr. Hverjir væru vondu kallarnir og hverjir þeir góðu.
En staðreyndin er nú sú að síðasta hálfa mánuðinn hef ég verið virkur þátttakandi í atburðunum á þingi og sú saga sem Björn Valur segir af þeim tíma er hvergi lík raunveruleikanum.
Staðreyndin er sú að Björn Valur er sennilega mesti sérfræðingur VG í sjávarútvegsmálum - með áratuga reynslu af sjómennsku. Hann sá strax að frumvörpin sem komu inn í þingið á elleftu og hálfri stundu - voru vonlaus. Þau myndu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir greinina - afkomu sjávarbyggða og þjóðina alla. Þess vegna barðist hann gegn þeim með kjafti og klóm. Þess vegna gat hann ekki staðið að málinu þegar það fór út úr nefndinni - hann sat hjá. Samfylkingar þingmennirnir settu allir fyrirvara við sinn stuðning. Það fannst Birni Val ekki nóg - hann sat hjá. Ég ásamt sjálfstæðismönnunum greiddum atkvæði gegn frumvarpinu. - Eini þingmaðurinn sem studdi frumvarpið óbreytt og án fyrirvara var formaðurinn Lilja Rafney að vestan.
Eftir að málið var aftur komið inn í þingsal til afgreiðslu - eftir samkomulag formanna flokkanna um hvaða mál mætti ljúka fyrir þinghlé - hefði mátt búast við að frumvarp um stjórn fiskveiða flygi í gegn - enda stjórnin á bak við það - ríkisstjórnarflokkarnir báru ábyrgð á því - eitt af forgangsmálum stjórnarinnar hefur verið sagt.
Okkar fyrirstaða var búinn ( við vorum bærilega sátt við að hafa náð að draga verstu áhrifin úr frumvarpinu en vorum engu að síður á móti því).
En þá hófst einhver sú sérkennilegasta atburðarrás og sérhagsmunagæsla sem ég hef allaveganna séð á minni skömmu þingmennsku. Þar léku stjórnarþingmenn stærstu hlutverkin. Aðalhlutverkin voru á höndum þeirra sem mest vit höfðu á sjávarútvegsmálum eða höfðu mestra hagsmuna að gæta. - Þar voru engir Framsóknarþingmenn. Nú þurftu formenn stjórnarflokkanna að semja við sína eigin liðsmenn og þétta raðirnar. Árangurinn var að lokum náðu stjórnarþingmennirnir innan VG og Samfylkingar saman um að þynna en frekar frumvarp sjávarútvegsráðherra og formannsins að vestan. Sérfræðingar flokkanna í sjávarútvegsmálum stýrðu þeirri för.
Í allri þessari orrahríð reyndum við Framsóknarþingmenn að koma fram með málefnalega en harða gagnrýni á frumvörpin - enda allir sammála um að þau væru arfaslök, illa unnin og stórskaðleg fyrir atvinnugreinina. Við lögðum fram tillögur til að breyta og bæta - en einnig að fella út greinar og minnka skaðleg áhrif sumra þeirra. Það tókst vel - enda tóku margir vel í okkar málflutning um hvaða breytingar þarf að gera - og þær þarf að gera. Skynsamlegar breytingar sem efla greinina og sjávarbyggðirnar - skila líka mestu til þjóðarinnar.
Það kom því ekki við hjarta okkar Framsóknarmanna þó breyta ætti fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það er hinsvegar dapurt að sjá að engin skýr markmið séu hjá stjórnarflokkunum fyrir breytingunum - þar ráði öfgastefnur og sérhagsmunagæsla sem kom m.a. fram í þinginu síðustu sólarhringana. Þar verkjaði suma stjórnarþingmenn í einhver líffæri - sennilega einhver sem eru veraldlegri en hjartað.
Sagan samofin kvótakerfinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinnubrögðin eru forkastanleg
7.6.2011 | 17:57
Allt frá því að frumvörp ríkisstjórnar Samfylkingar og VG um sjávarútvegsmál litu loks ljós hefur enginn talað fyrir þeim. Enginn stjórnarliði hefur talað af sannfæringarkrafti um að "þetta sé akkúrat málið". Hinsvegar hafa margir sett ýmislega fyrirvara við hugsanlegan stuðning - talið að ýmsum greinum þurfi að breyta eða jafnvel fella út úr frumvarpinu.
Þá hefur það verið sérstakt að sjá þó nokkra þingmenn og jafnvel ráðherra talað fyrir að sjávarútvegsstefna Framsóknarflokksins gæti verið grunnur að sátt - almennri sátt á þingi og vonandi meðal þjóðar um þessa mikilvægu atvinnugrein. Sérstakt vegna þess að það væri þeim þá í lófa lagið að leita eftir því að breyta núverandi frumvarpi í þá átt. En einnig vegna þess að í mörgum grundvallar atriðum er himin og haf á milli hugmyndum okkar Framsóknarmanna og tillögum ríkisstjórnarflokkanna.
Það er hinsvegar rétt hjá þeim stjórnarþingmönnum að tillögur okkar Framsóknarmanna sem voru samþykktar á síðasta flokksþingi eru mjög góðar og gætu verið grunnur að víðtækri sátt um stjórn fiskveiða. Slík sjónarmið hafa jafnframt komið fram hjá þó nokkrum umsagnaraðilum sem hafa komið fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Við Framsóknarmenn erum að sjálfsögðu tilbúnir til slíkra viðræðna. Við munum leggja fram í dag þingsályktun um að efna eigi til víðtækrar samvinnu og samráðs um að móta nýja stefnu á grundvelli tillagna okkar.
Það gengur hinsvegar ekki að ana áfram eins og ríkisstjórnin hefur gert í þessu máli. Á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar alþingis í morgun kom fram hjá Hafrannsóknastofnum að þeir hefðu haft einn dag til að gera umsögn sína. Landhelgisgæslan sagði að of stuttur tími hefði gefist til að gefa nefndinni tölulegar upplýsingar. ASÍ sagði að grundvöllur málefnalegrar umræðu og samráðs væri eðlilegur tími og forsenda sáttar.
Enginn umsagnaraðili er jákvæður en flestir mjög neikvæðir og benda á hugsanleg stjórnarskrár brot m.a..
Lausnin er auðvitað sú að setjast yfir hvað breytingar sé hægt að gera - sem séu skynsamlegar og hafi víðtækan stuðning í þinginu. Öðrum hugmyndum verði vísað til samráðs og samvinnu seinna í sumar/haust og vetur vegna vinnu við hið "stærra" frumvarp.
Þetta er ekki hægt" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |