Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Þingvellir

Í fyrirspurn minni á Alþingi, í kjölfar brunans, til forsætisráðherra um framtíðaruppbyggingaráform fengust fá svör. Staðreyndin er sú að aðeins í stuttri forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar var leitað til heimamanna, fagaðila ferðaþjónustunnar og annarra hagsmunaaðila um hugmyndir að uppbyggingu. Í annan tíma virðast forsætisráðherrar og Þingvallanefndir hvers tíma lítinn áhuga hafa haft á samstarfi við þessa aðila.
Þingvallanefnd og stjórnsýslan
Ég hef lengi haft þá skoðun að það þurfi að breyta stjórnsýslu þjóðgarðsins. Það væri miklu eðlilegra að Þingvallanefnd væri skipuð í bland heimafólki, sveitarstjórn svæðisins, hagsmunaaðilum ásamt fulltrúum frá Alþingi. Í heimsókn sem við oddvitar og sveitarstjórar uppsveita Árnessýslu fórum til Skotlands fyrir nokkrum árum heimsóttum við þjóðgarð Skota, Loch Lomond and the Trossachs National Park, einmitt í þeim tilgangi að kynnast stjórnsýslu þjóðgarðsins og því hvernig er að hafa þjóðgarð innanborðs í sveitarfélagi eða sveitarfélögum. Starfsemi og stjórnskipan þar var verulega frábrugðin þeirri sem við þekkjum frá Þingvöllum. Og gætum við lært þar margt af Skotum.
Í starfi mínu sem oddviti samráðsvettvangs sveitarstjórna uppsveita á Suðurlandi og einnig sem formaður skipulags- og byggingarnefndar sama svæðis, og þar með Þingvalla, hef ég kynnst náið hvernig stjórnsýslan og uppbyggingin hefur verið um langt skeið. Við þá kynningu hefur mér orðið ljóst að Þingvellir eigi að vera opnari íslenskum almenningi án þess að skerða þurfi kröfur um náttúru- eða menningarverðmætavernd. Einnig megi önnur starfsemi í og í kringum þjóðgarðinn vera meiri án þess að sess Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO sé ógnað.

Uppbygging samkvæmt vilja þjóðarinnar

Það væri áhugavert að fá fram vilja þjóðarinnar um hvaða uppbyggingu menn vilja sjá. Til þess þarf opinbera umræðu. Sú skoðun er algeng að þar sem við séum svo illa stödd fjárhagslega um þessar mundir þýði ekkert að huga að enduruppbyggingu. Að mínu viti ættum við einmitt nú að hugsa fram í tímann. Það er akkúrat núna sem við sem þjóð eigum að horfa fram á við. Hvað er meira viðeigandi en hefja hugann upp yfir núverandi efnahagsmótlæti, kúganir stórþjóða, Icesave-samninga og ESB-aðildarumsóknir. Eru ekki Þingvellir staðurinn til að sameina hugi þjóðarinnar? ,,Tengdu oss að einu verki" eins og stórskáldið Einar Ben. orti í kvæði sínu, Til fánans. Við þurfum á því að halda að vera bjartsýn á framtíð þjóðarinnar, þrátt fyrir allt. Við þurfum á ný, á að halda eldmóði gömlu aldamótakynslóðarinnar til að blása baráttuvilja og þrótti í brjóst okkar.

Setjum nú hugmyndasmíðina af stað. Hefjum orðræðu, því orð eru til alls fyrst. Það kostar ekkert.


Styrking krónunar og Icesave

Allt frá myndun minnihlutastjórnar VG og Samfylkingar hefur því verið haldið fram að á næstunni sé tímabil styrkingar krónunnar.

Fyrst var talið nauðsynlegt að skipta um seðlabankastjóra og yfir stjórn peningastefnu bankans. Mikið gekk á en MARKMIÐIÐ var göfugt að koma á styrkingarferli krónunnar. Allt gekk eftir nema þetta með styrkinguna - (krónan hefur reyndar fallið um 20% síðan skipt var um yfirstjórn!!)-

Næst var okkur talið trú um að nauðsynlegt væri að sækja um aðild að ESB og ekki einasta að sækja um heldur yrði að gera það strax. Senda hin mikilvægu skilaboð út í heim svo að krónan styrktist. Mikið gekk á, þingmenn VG voru sumir múlbundnir aðrir þvingaðir til að leggja þessu mikilvæga máli Samfylkingarinnar lið. Valtað var yfir önnur sjónarmið - gjá var búin til milli þeirra sem vildu fara í aðildarviðræður og hinna sem vildu fara sér hægar og óttast að aðildarviðræður leiði til aðildar með þeim hörmulegu afleiðingum sem ganga munu yfir einstakar atvinnugreinar að þeirra mati. Trúnaðarbrestur varð í ríkisstjórninni. En það átti að vera í lagi þar sem MARKMIÐIÐ er göfugt þ.e. að styrkja krónuna. Nú er liðin mánuður frá samþykkt aðildarviðræðna á Alþingi. Hvað gerðist með krónuna? Hún hefur veikst áfram??!!

Nú er okkur talið trú um, af Samfylkingunni og einstaka þingmanni VG með fjármálaráðherra í broddi fylkingar, að nauðsynlegt sé að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave samninginn. Versta samning sem alþjóðlegir sérfræðingar í samningagerð milli þjóða hafa séð. Samningurinn er þess eðlis að þjóðin getur ekki staðið undir skuldbindingum hans. Samningurinn er nauðungasamningur þar sem Bretland og Holland (ESB - lönd) hafa þvingað fram með stuðningi annarra ESB- landa (og Noregs).  Við skulum kyssa á vönd kvalara okkar( Hvað sagði utanríkisráðherra Össur fyrr í vetur?!) Allt vegna þess að MARKMIÐIÐ er göfugt - að styrkja krónuna.

Hver trúir því að gengi krónunnar styrkist við að taka á sig skuldbindingar sem við getum ekki staðið við. Hver trúir því að lánshæfismat landsins hækki við að taka lán á lán ofan og bæta síðan við ríkisábyrgð með opnum tékka. Hver er trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar í að styrkja krónuna þegar fortíðin er rifjuð upp?

Því fyrr sem við erum tilbúin að horfast í augu við raunveruleikann, því betra. Við megum ekki né getum samþykkt ríkisábyrgð á Icesave samninginn óbreyttan. ESB - umsókn mun ekki færa okkur neinar töfralausnir. Evran er ekki á leið til landsins (og mundum við vilja hana með núverandi gengi?) Við þurfum nýja peningastefnu. Við þurfum framtíðarsýn og leiðsögn sem byggist á því sem við eigum. Mannauð og auðlindir til lands og sjávar. Við vinnum okkur út úr vandanum og þá mun krónan styrkjast.

 


mbl.is Gengi krónunnar skýrir vaxtaákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband