Helstu málefnin mín

Í störfum mínum á vettvangi sveitarstjórnarmála hefur áherslan orðið á atvinnumál og samgöngumál. Hins vegar hafa sveitarstjórnarmálin gefið mér góða innsýn inn í velferðarmál enda málaflokkar er snerta nærþjónustu við íbúana mjög mikilvægir. Við rekstur jafnt opinberra fyrirtækja sem og eigin rekstur er nauðsynlegt að hafa þekkingu og innsýn í alla þætti í rekstri fyrirtækja. Þar með hefur áhersla á efnahagsmál og fjármál orðið drjúgur hluti af daglegum störfum. En hér ætla ég að nefna helstu málefni mín.
  • Atvinnuleysið, sem óðfluga stefnir í að meira en 16 þúsund landsmenn séu án atvinnu hlýtur að setja atvinnumál í fyrsta sæti málefna. Ég vil leggja mikla áherslu á að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik. Þar eru undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar í öndvegi þ.e. landbúnaður, sjávarútvegur og iðnaður. Við þurfum að nýta náttúruauðlindir okkar til sjávar og sveita, orkuna og ekki síður mannauðinn til að skapa ný störf.
  • Efnahagsmál eru þó þau mál sem eru nú efst á verkefnaskránni. Engin vafi leikur lengur á því að við verðum að endurskoða peningamálastefnu ríkisins. Til framtíðar getum við ekki búið við tveggja stafa stýrivexti eða verðbólgu. Ef það er kostnaðurinn við að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil (krónuna) verðum við til lengri tíma litið að skipta henni út. Engar leiðir þar eru patent skyndilausnir. Alla kosti verður að skoða til hlítar og hafa upplýsta umræðu meðal þjóðarinnar. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils og eða innganga í Evrópusambandið eru engar töfralausnir. Aðildarumsókn með þeim skilyrðum sem Framsóknarflokkurinn setti fram getur verið ein leið til að ná fram stöðugleika í samskiptum við aðrar þjóðir. Í nálægum tíma verðum við hinsvegar að framleiða okkur út úr vandanum. Það er, að nota undirstöðuatvinnuvegina til að framleiða allan þann mat og varning sem við þurfum innanlands og flytja út fisk og iðnaðarvörur eins og ál, til að skapa gjaldeyri og að styrkja krónuna með því að hafa langtíma hagnað á viðskiptum við útlönd. Einnig eigum við að beita mannauðnum, hugvitinu til nýsköpunar á vöru og þjónustu sem skapar útflutningstekjur.
  • Stjórnlagaþing, sem Framsóknarflokkurinn setti á dagskrá á flokksþinginu í janúar og eitt að skilyrðum fyrir að verja ríkisstjórnina falli, er eitt það áhugaverðasta sem komið hefur fram í umræðu um stjórnmál. Það er mjög brýnt til að endurreisa stjórnsýsluna, traust almennings á stjórnmálamönnum og þannig skapa stöðugleika.
  • Menntamál hafa verið mér hugleikin allt frá því að ég kom heim frá námi 27 ára gamall. Í samanburði við önnur svæði hefur kjördæmi okkar verið á eftir í flestum mælingum sem gerðar eru á menntun. Þessu þurfum við að breyta og erum að því víða í kjördæminu með mælanlegum árangri. Að auka menntunarstig svæðisins og metnað fyrir menntun á öllum skólastigum skilar okkur fleiri atvinnutækifærum og meiri velmegun. Á þessum erfiðleikatímum er nauðsynlegt að efla alla þætti menntunarinnar.
  • Í krafti menntunnar minnar og starfa hafa bæði umhverfismál í víðasta skilningi sem og heilbrigðismál verið mér ofarlega í huga. Staðardagskrárvinna (sjálfbær þróun samfélags) var eitt af fyrstu verkefnum mínum sem sveitarstjórnarmaður. Sem sannur framsóknarmaður er það skoðun mín að allir eiga að hafa jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Menntamál tengjast þessu. Með jafnræði til náms verður velferðarkerfi okkar sterkara og styrkir hinar dreifðari byggðir.
  • Í skipulagsmálum hef ég lagt mikla áherslu á að vernda náttúruna og einnig landnýtingu sem stýritæki til að nýta þá auðlind sem best í þágu almennings, sjálfbærni og undirstöðuatvinnuveganna.
  • Samgöngumál hafa verið, og munu verða, eitt af baráttumálum mínum og draga úr umferðarslysum. Margt hefur verið gert (og er unnið að) í kjördæminu á undanförnum árum en margt er einnig ógert. Má þar helst nefna að uppbyggingu Suðurlandsvegar frá Reykjavík að Selfossi má ekki draga að hefja. Reynslan af uppbyggingu Reykjanesbrautar sýnir okkur hve miklum árangri er hægt að ná í fækkun slysa, sérstaklega alvarlegra slysa. Mörg önnur verkefni má nefna í vegamálum, hafnamálum og fjarskiptum sem kalla má nauðsynlegar samgönguæðar.
  • Að lokum má nefna félagsmál og öldrunarmál, en í störfum mínum sem oddviti hef ég komið að uppbyggingu félagsþjónustunnar og undirbúningi að þjónustubyggð fyrir aldraða og einnig baráttu fyrir fjölgun á hjúkrunarheimilisrúmum. Á erfiðleikatímum er mikilvægt að standa vaktina í þessum málum og geta gripið inn í með úrlausnir með skjótum hætti.

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband