Sókn á Suðurnesjum
24.2.2009 | 13:02
Neðangreind grein birt í Víkurfréttum 24. feb.
Á erfiðleikatímum stöndum við frammi fyrir vali. Annars vegar að einblína á vandamálin og hins vegar að leita að nýjum tækifærum til sóknar og nýsköpunar. Auðvitað er nauðsynlegt að greina vandann og skilgreina verkefnin en jafnframt er mikilvægt að leita nýrra sóknarfæra og horfa keikur fram á við.
Atvinnuleysi er eitt það versta böl sem getur hent vinnufúsar hendur. Við Íslendingar verðum að setja okkur það markmið að atvinnuleysi nái aldrei varanlegri fótfestu eins og þekkist t.d í Bretlandi og flestum Evrópulöndum. Það er einfaldlega ekki til í þjóðarsál okkar að líða það. Við erum komin af fólki sem vann hörðum höndum í ,,gömlu" atvinnuvegunum, landbúnaði og sjávarútvegi. Þeim sömu, ásamt iðnaðinum sem verða okkur á ný til bjargar.
Hver er ég?
Greinaskrifari er sveitamaður að uppruna, fæddur og uppalinn í uppsveitum Árnessýslu. Sveit, þar sem Flúðir er helsti þéttbýlisstaðurinn. Þar hef ég einnig búið lengst af ævi minnar en bjó í nokkur ár í Kaupmannahöfn þar sem ég lærði dýralækningar.
Starfsferillinn spannar nú 20 ár þar sem ég hef þjónustað dýr og dýraeigendur á öllu Suðurlandi. Einnig hef ég setið í sveitarstjórn í um 15 ár lengst af sem oddviti eða varaoddviti sveitarstjórnar.
Á þessum vettvangi hef ég öðlast þekkingu og reynslu sem ég býð fram til þjónustu fyrir land og þjóð.
Undirstaða velferðar - atvinnan
Suðurkjördæmi er víðfeðmt og atvinnuástand misjafnt. Á Suðurnesjum er grafalvarlegt ástand í atvinnumálum. Hvergi er meira atvinnuleysi eða tæplega 15% meðan atvinnuleysið á landinu öllu er um 8.5%. Við þetta ástand má ekki una. Hér verða allir að leggjast á eitt, leita að tækifærum og örva nýsköpun. Atvinnuleysi er ekki einkamál heldur þjóðfélagslegt mein sem stefnir velferð fjölskyldna í landinu í voða.
Tækifærin eru víða og er háskólinn Keilir gott dæmi. Nýting orkunnar, með Hitaveitu Suðurnesja sem flaggskip er annað. Halda verður ótrautt áfram við uppbyggingu í Helguvík. Ferðaþjónusta með alþjóðaflugvöll, vöruhótel, Bláa Lónið og varnarliðssvæðið með óendanlega möguleika. Ekki má gleyma sjávarútveginum sem verður okkur dýrmætari og mikilvægari en nokkru sinni fyrr við atvinnusköpun og gjaldeyrisöflun.
Tækifærin
Til þess að tækifærin geti orðið að veruleika þurfa góðar hugmyndir að eiga brautargengi. Ein leið af mörgum er gerð vaxtarsamnings við sveitarfélögin á Suðurnesjum. Með slíkum samningi fæst gott verkfæri til nýsköpunar og fleiri atvinnutækifæra. Nú er enn nauðsynlegra en áður að ráðamenn þjóðarinnar tryggi framkvæmd byggðaáætlunar og gefa íbúum og fyrirtækjum kost á að njóta sín þar sem þeir búa. Nú er tíminn til að meta að verðleikum hina raunverulegu verðmætasköpun landsbyggðarinnar umfram hið hrunda útrásarhagkerfi. Með raunverulegum verðmætum, fólkinu sjálfu, er hægt að skapa betra Ísland. Til þess verður að nýta öll tækifæri til að efla atvinnu og þannig velferð íbúanna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.