Nýir tímar Í Framsókn
19.2.2009 | 12:10
Á sögulegu flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar síðastliðinn var kosin ný forysta, nýr formaður sem hefur á stuttum tíma orðið boðberi nýrrar hugsunar og framgöngu í stjórnmálum. Á flokksþinginu var það andi siðbótar og breytinga sem réð ríkjum en einnig andi samkenndar og samstöðu.
Staðreyndin er nefnilega sú að við stöndum öll saman, Íslendingar frammi fyrir því risavaxna verkefni að endurreisa efnahag lands og þjóðar sem og orðspor okkar.
Heiðarleiki og siðvendni jafnt í viðskiptum sem stjórnmálum virðast hafa hopað fyrir græðgi og flokkspoti á liðnum árum. Árangur þeirrar stefnu er okkur öllum ljós. Traust stjórnmálamanna er rúið og með því, geta þeirra til að leiða okkur fram úr þrengingunum fram til betri tíma. Tíma þar sem gildismat jöfnuðar, heiðarleika og samvinnu verði hampað á kostnað siðblindu, græðgisvæðingar frjálshyggjunnar, óheiðarleikans og ójöfnuðar.
Traust á ráðamönnum er öllum samfélögum nauðsyn til að skapa stöðugleika sem og mannlífi öllu og ekki síst atvinnulífi til að vaxa og dafna.
Á þessu glæsilega flokksþingi voru samþykktar ályktanir sem Framsóknarflokkurinn mun hafa að leiðarljósi næstu árin. Ein sú mikilvægasta er um að efnt verði til stjórnlagaþings þar sem stjórnarskrá Íslands og eftir ástæðum viðeigandi lög um stjórnsýslu verði endurskoðuð.
Stjórnlagaþing og róttæk endurnýjun fólks á framboðslistum er forsenda þess að við, almenningur, fáum traust á stjórnmálum og stjórnmálamönnum.
Það er í ljósi þessa, sem sá, sem þetta ritar hefur ákveðið að bjóða fram krafta sína til að vinna landi og þjóð gagn.
Á undanförnum 15 árum hef ég setið í sveitarstjórn Hrunamannahrepps lengst af sem oddviti eða varaoddviti. Í störfum mínum þar hef ég leitast við að byggja upp öflugt samfélag þar sem undirstöðuatvinnuvegir samfélagsins fái notið sín. Landbúnaður er sú atvinnugrein sem ég þekki best enda bæði sú grein sem ég ólst upp í, hef starfað við og er öflugust á Suðurlandsundirlendinu. Í starfi mínu sem sveitarstjórnarmanns er uppbygging menntunar annar þáttur sem ég hef haft mikinn áhuga og metnað fyrir. Hef ég komið að öllum skólastigum, frá leikskólauppbyggingu, grunnskólastjórnun, skólanefndarformaður framhaldsskóla og ekki síst mikill áhugamaður og stuðningsmaður um uppbyggingu háskólanáms á Suðurlandi. Mörg önnur fjölbreytt samfélagsverkefni verða óhjákvæmilega að áhugamáli hjá þeim sem leggja fyrir sig trúnaðstörf í þágu almennings.
Samtímis opinberum trúnaðarstörfum hef ég starfað við landbúnað og dýralækningar í ríflega 20 ár. Þar hef ég kynnst bæði fólki og atvinnugreininni sjálfri á Suðurlandi öllu. Jafnframt rekstri slíkra fyrirtækja, vanda þeirra og framtíðarmöguleikum.
Með reynsluna í fararteskinu og óeigingjarna löngun til að verða landi og þjóð að gagni býð ég fram krafta mína í forystusveit Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Ég tel mig hafa kjark og þor og heiðarleika til að geta orðið að liði en einnig skynsemi og auðmýkt til að viðurkenna að án fulls samráðs við þjóðina og samvinnu allra verður verkefnið óyfirstíganlegt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.