Fyrrverandi velferðarstjórn
8.12.2011 | 15:16
Að aflokinni atkvæðagreiðslu um fjárlög 2012 má fullyrða að ríkisstjórnin sem kennt hefur sig við norræna velferð hafi yfirgefið velferðina endanlega. Tillögur okkar Framsóknarmanna sem og tillögur Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur sem á margan hátt voru áþekkar ekki síst gagnvart heilbrigðisstofnunum og almannabótum voru allar felldar af stjórnarliðum í VG og Samfylkingu. Það sama var uppá teningnum varðandi tillögur okkar og sjálfstæðismanna t.a.m í löggæslu og sýslumanns embættum - allt fellt með 31 atkvæði eða allra stjórnarliða. Grunnnetinu var hafnað af ríkisstjórnarflokkunum.
Í ítarlegu áliti fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganenfnd Alþingis,Höskuldar Þórhallssonar kom m.a. fram að engin úttekt hefur verið gerð á byggðaáhrifum fjárlagafrumvarpsins. Haldið er áfram með sömu stefnu og lagt var upp með í skerðingu framlaga til heilbrigðisstofnana landsins á þar síðasta ári þó að niðurskurðurinn hafi verið mildaður lítillega í meðförum fjárlaganefndar.Framsóknarflokkurinn leggur til að snúið verði frá þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með í heilbrigðismálum. Er um að ræða röskun á búsetuskilyrðum og búsetuöryggi þjóðarinnar sem getur haft mikil áhrif til langs tíma. Nauðsynlegt er því að hætta við boðaðan niðurskurð og taka til umræðu framtíð heilbrigðiskerfis Íslendinga
Í skýrslu OECD frá 28. febrúar 2008 kemur fram að í alþjóðlegum samanburði er heilbrigðiskerfi Íslendinga talið lofsvert þrátt fyrir að vera óvenju kostnaðarsamt. Nauðsynlegt sé því að auka hagkvæmni og nýtingu fjármuna sem lagðir eru í heilbrigðiskerfið. Ljóst er að Ísland hefur tekið þessar athugasemdir til sín og brugðist við þeim þar sem í skýrslu frá OECD, sem út kom í nóvember 2010, kemur fram að Ísland sé í hópi þeirra ríkja sem hvað best komu út í samanburði á skilvirkni og stefnumörkun í heilbrigðisþjónustu og nýtingu þess fjármagns sem lagt er í þjónustuna. Þykir því ljóst að sú stefna sem Íslendingar hafa markað sér og nýting þeirra fjármuna sem lagðir eru í heilbrigðiskerfið, hafa verið til fyrirmyndar að mati stofnunarinnar þrátt fyrir mikinn kostnað sem því óneitanlega fylgir. Það er því óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa tekið meira mark á þessu áliti og staðið við loforð frá 2010 um að gera úttekt á þeim áhrifum sem niðurskurður síðustu ára hefur ollið. Þó er viðurkennt m.a. að niðurskurðurinn hafi haft þau áhrif að færa verkefni frá opinberum heilbrigðisstofnunum yfir til sérfræðinga á stofum í Reykjavík- þar hafi kostnaður vaxið.
Í september sl. skipaði velferðarráðherra ráðgjafarhóp til að skoða hvort þörf væri á grundvallarbreytingum á heilbrigðiskerfinu og í hverju slíkar breytingar gætu falist þannig að unnt væri að uppfylla markmið um öryggi og jöfnuð á sama tíma og aðhaldskröfum fjárlaga væri mætt. Ráðgjafarhópurinn skilað í október sl. tillögum um skipulag heilbrigðisþjónustu og ráðstöfun fjármuna. Þær fólu m.a. í sér að tekin yrði upp þjónustustýring (tilvísunarkerfi eins og við Framsóknarmenn höfum lagt til ) endurskoðað yrði greiðslufyrirkomulag fyrir heilbrigðisþjónustu, sameiningu heilbrigðisstofnana yrði lokið og heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu yrði endurskipulögð. Ljóst er að þessar tillögur geta leitt til hagræðis og útgjaldalækkunar fyrir ríkissjóðs og því gagnrýnivert að þessi vinna skyldi ekki fara fram fyrr á þessu ári svo unnt hefði verið að byggja á þeim við vinnu að fjárlagafrumvarpi.
Þetta er þeim mun sérkennilegra í ljósi þess að í áliti meiri hluta velferðarnefndar (VG og Samfylking) um fjárlagafrumvarpið kemur fram að hann telji jákvætt að vinna ráðgjafarhópsins liggi fyrir en jafnframt mjög miður að tillögur hópsins hafi ekki verið lagðar til grundvallar við fjárlagavinnuna. Að áliti meiri hluta velferðarnefndar er mikilvægi þessa áréttað en þar segir Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að hagræðing í ríkisrekstri sé grundvölluð á góðum upplýsingum og skýrri stefnumörkun. Ná þarf fram hagkvæmni og réttlátri stýringu almannafjár án þess að þjónusta við sjúklinga eða öryggi þeirra sé skert. - svo mörg er þau orð en athafnir fylgja ekki máli sbr atkvæðagreiðsluna við 3. umræðu fjárlaga.
Margt fleira væri hægt að telja fram t.a.m. að enn byggjast fjárlög á auknum niðurskurði og skattahækkunum sem fullyrða má að fyrir löngu hafa gengið alltof langt og of djúpt seilst í vasa landsmanna.
þá hafa komið fram rökstuddar ábendingar um vantalin gjöld og ofáætlaðar tekjur þannig að hallinn á árinu 2012 gæti orðið meiri þegar upp er staðið. Ýmsir hafa bent á að fjárlögin einkennast af þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að leggja á nýja skatta og hækka álögur á fyrirtæki og heimili í stað þess að stuðla að stækkun skattstofna sem skapa myndu auknar tekjur fyrir ríkissjóð.
Í því liggur hinsvegar stefna okkar Framsóknarmanna sem við höfum ítarlega kynnt undir nafninu planb.is. Það er að finna sókn í atvinnumálum sem og skynsamleg efnahagsstefna. En eftir því þurfum við landsmenn enn að bíða - því ríkisstjórnin ætlar ekki að breyta um stefnu - það sýndi atkvæðagreiðslan um fjárlögin 2012 glögglega.
.
Tekjuspá fjárlaga á ótraustum grunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.