Sagan endurskrifuð

Það er ekki oft sem ég verð svo undrandi af því að hlusta á fréttir að ég nánast detti úr stólnum. Þetta gerðist hinsvegar í dag þegar ég var á akstri og hlustaði á hádegisfréttirnar á RÚV. Þar var sagt frá myrkvum bloggheimi þingmannsins Björns Vals. Hann er nú ekki alltaf málefnalegur blessaður- né finnst honum nauðsynlegt að segja satt og rétt frá. En nú tók steininn úr.

Ef ég væri ekki á þingi og sæti þess utan með viðkomandi í sjávarútvegsnefnd þingsins þá gæti vel verið - svona eitt augnablik - að ég hefði trúað "fréttinni". Það var jú verið að endur segja áróðurinn um hver hefði sett kvótann á, LÍÚ osfr. Hverjir væru vondu kallarnir og hverjir þeir góðu.

En staðreyndin er nú sú að síðasta hálfa mánuðinn hef ég verið virkur þátttakandi í atburðunum á þingi og sú saga sem Björn Valur segir af þeim tíma er hvergi lík raunveruleikanum.

Staðreyndin er sú að Björn Valur er sennilega mesti sérfræðingur VG í sjávarútvegsmálum - með áratuga reynslu af sjómennsku. Hann sá strax að frumvörpin sem komu inn í þingið á elleftu og hálfri stundu - voru vonlaus. Þau myndu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir greinina - afkomu sjávarbyggða og þjóðina alla. Þess vegna barðist hann gegn þeim með kjafti og klóm. Þess vegna gat hann ekki staðið að málinu þegar það fór út úr nefndinni - hann sat hjá. Samfylkingar þingmennirnir settu allir fyrirvara við sinn stuðning. Það fannst Birni Val ekki nóg - hann sat hjá. Ég ásamt sjálfstæðismönnunum greiddum atkvæði gegn frumvarpinu. - Eini þingmaðurinn sem studdi frumvarpið óbreytt og án fyrirvara var formaðurinn Lilja Rafney að vestan.

Eftir að málið var aftur komið inn í þingsal til afgreiðslu - eftir samkomulag formanna flokkanna  um hvaða mál mætti ljúka fyrir þinghlé - hefði mátt búast við að frumvarp um stjórn fiskveiða flygi í gegn - enda stjórnin á bak við það - ríkisstjórnarflokkarnir báru ábyrgð á því - eitt af forgangsmálum stjórnarinnar hefur verið sagt.

Okkar fyrirstaða var búinn ( við vorum bærilega sátt við að hafa náð að draga verstu áhrifin úr frumvarpinu en vorum engu að síður á móti því).

En þá hófst einhver sú sérkennilegasta atburðarrás og sérhagsmunagæsla sem ég hef allaveganna séð á minni skömmu þingmennsku. Þar léku stjórnarþingmenn stærstu hlutverkin. Aðalhlutverkin voru á höndum þeirra sem mest vit höfðu á sjávarútvegsmálum eða höfðu mestra hagsmuna að gæta. - Þar voru engir Framsóknarþingmenn. Nú þurftu formenn stjórnarflokkanna að semja við sína eigin liðsmenn og þétta raðirnar. Árangurinn var að lokum náðu stjórnarþingmennirnir innan VG og Samfylkingar saman um að þynna en frekar frumvarp sjávarútvegsráðherra og formannsins að vestan. Sérfræðingar flokkanna í sjávarútvegsmálum stýrðu þeirri för.

Í allri þessari orrahríð reyndum við Framsóknarþingmenn að koma fram með málefnalega en harða gagnrýni á frumvörpin - enda allir sammála um að þau væru arfaslök, illa unnin og stórskaðleg fyrir atvinnugreinina. Við lögðum fram tillögur til að breyta og bæta - en einnig að fella út greinar og minnka skaðleg áhrif sumra þeirra. Það tókst vel - enda tóku margir vel í okkar málflutning um hvaða breytingar þarf að gera - og þær þarf að gera. Skynsamlegar breytingar sem efla greinina og sjávarbyggðirnar - skila líka mestu til þjóðarinnar.

Það kom því ekki við hjarta okkar Framsóknarmanna þó breyta ætti fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það er hinsvegar dapurt að sjá að engin skýr markmið séu hjá stjórnarflokkunum fyrir breytingunum -  þar ráði öfgastefnur og sérhagsmunagæsla sem kom m.a. fram í þinginu síðustu sólarhringana. Þar verkjaði suma stjórnarþingmenn í einhver líffæri - sennilega einhver sem eru veraldlegri en hjartað.

 

 


mbl.is „Sagan samofin kvótakerfinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband