Umræða á villigötum

 Ég er sammála Brynjari Níelssyni og reyndar mjög mörgum öðrum að aðalatriðið í Hæstaréttarmálinu sé að ráðherrar fari að lögum. Til að rugla umræðuna blanda menn umhverfisvernd, and-atvinnustefnu VG og jafnvel femínisma saman við til að réttlæta lögbrotið. - Um það snýst málið ekki.

Birti hér fyrir neðan grein sem birtist í Sunnlenska fréttablaðinu í vikunni - um þetta mál.

Umræða á villigötum

  

Enginn efast um skoðanir umhverfisráðherra á virkjunum og áhuga á að vernda umhverfið. Trúlega hefur vaskleg framganga hennar á þeim vettvangi valdið því að þingflokkur og formaður VG kusu hana sem ráðherra umhverfismála.

En í máli Flóahrepps gegn umhverfisráðherra var ekki verið að fjalla um þau störf eða skoðanir ráðherra. Dómur héraðsdóms og Hæstaréttar snerist um að ráðherra hefði ekki farið að lögum. Þar var ekki verið að fjalla um umhverfismál. Ráðherra braut á stjórnskipunarlegum rétti sveitarfélaga varðandi skipulagsmál. Sama málaflokk og ráðherrann ber ábyrgð á. Samt kom í ljós að lítill sveitahreppur og hans lýðræðislegu kosnu fulltrúar og embættismenn túlkuðu lögin rétt en ráðherrann rangt. Það hlýtur að hafa einhverjar afleiðingar þegar ráðherrar misbeita valdi sínu. Höfum við ekkert lært frá hruni? Lærðum við ekkert af Rannsóknarskýrslu Alþingis? Ætlum við ekki að fara eftir þingsályktun 63-0 um að formgera stjórnsýsluna, bæta verklag og auka ábyrgð?

Nýtt siðferði?

Það er svo með ólíkindum með hvaða hætti þingmenn stjórnarliðsins og ráðherrar brigsla lýðræðislega kosnum fulltrúum sveitarfélaga um mútuþægni og annarleg sjónarmið. Hæstiréttur hreinsaði þá af öllum slíkum ávirðingum. Ráðherrar og þingmenn skulda þessu fólki afsökunarbeiðni og ættu að líta í eiginbarm áður en þeir tala niður til fólks sem sýnt hefur af sér meiri og betri þekkingu á lögum og stjórnsýslu.

Nýtt Ísland?

Það er líka einnar umræðu virði að fjalla um fréttaumfjöllun ríkisfjölmiðilsins RÚV. Formaður og varaformaður VG fara með eignarhald ríkisins og eftirlit á miðlinum. Það var eftirtektarvert að á fyrsta sólarhring eftir dóm Hæstaréttar tókst RÚV að forðast fréttina eins og köttur heitan graut. Það virtist ekki vera mikið mál á þeim bæ að ráðherra hefði verið dæmdur í Hæstarétti fyrir að fara ekki að lögum.

Aðalatriðið  í þessu máli er hinsvegar að umhverfisráðherra braut lög. Eftir ráðherranum hefur verið haft – bæði í fjölmiðlum og á þingi – að hún sé í pólitík og allar ákvarðanir hennar séu pólitískar. Engin afsögn. Engin iðrun. Engin afsökunarbeiðni.

Og hvað mun nú gerast? Mun ráðherrann staðfesta skipulag Flóahrepps? Mun ráðherrann staðfesta skipulag vegna Hvamms- og Holtavirkjana í Skeiða- og Gnúpverjahreppi – en það skipulag hefur beðið staðfestingar ráðherra á 3. ár.

Atvinnuleysið og landflóttinn mun ekki minnka og réttlætiskennd landsmanna vaxa fyrr en ráðherrar fara að lögum og við förum að fylgja uppbyggjandi atvinnustefnu.


mbl.is Umhverfisráðherra á að fara að lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband