Fjárlagafrumvarp VG og Samfylkingar- Vill enginn kannast við stefnuna?
2.11.2010 | 10:46
Í grein sem ég skrifaði í Fréttablaðið og birtist um helgina fjallaði ég um aðför ríkisstjórnar VG og Samfylkingar að landsbyggðinni. Tók þar dæmi um Heilbrigðisstofnun Suðurlands en greinin á við um allar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.
Hér er slóðin á greinina;
http://visir.is/raunhaefur-nidurskurdur--eda-storfelldir-folksflutningar/article/2010192438457
og hér á eftir fer greinin óstytt;
Raunhæfur niðurskurður eða stórfelldir fólksflutningarÞær hugmyndir sem fram koma í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna sem kenna sig við vinstri velferð mælast vægast sagt illa fyrir. Fjölmörg mótmæli um land allt eru skýr skilaboð um að fólki sé misboðið það óréttlæti sem fram kemur í frumvarpinu. Allir mótmæla og senda frá sér ályktanir. Sveitarstjórnir, starfsmenn heilbrigðisstofnana, ljósmæður, læknaráð, sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar og síðast en ekki síst fólkið sem býr á landsbyggðinni. Meira að segja eru þingmenn stjórnarflokkanna á hröðu handahlaupi frá tillögum eigin ríkisstjórnar.
Það sem fram kemur í öllum ályktunum er gagnrýni á samráðleysi, þekkingarleysi á aðstæðum á hverjum stað, ótti við alvarlegar samfélagslegar breytingar og óskýr markmið um raunverulegan sparnað. Jafnframt fullyrða flestir að margar aðgerðir sem boðaðar eru muni leiða til lakari heilbrigðisþjónustu og enn ójafnari aðgangs landsmanna að sjúkrahús - og sérfræðiþjónustu.
Í heilbrigðisþjónustunni þarf að skera niður um 4,7 milljarða kr.Heilbrigðisráðuneytið forgangsraðar niðurskurðinum þannig, að hlífa skuli heilsugæslu og stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og Akureyri, ásamt Akranesi en þessi hluti heilbrigðiskerfisins tekur til sín rúmlega 90% af fjármagni til heilbrigðismála niðurskurður 1,7 milljarðar. Hinsvegar er áætlað samkvæmt frumvarpinu að skera allharkalega niður sjúkrasvið annarra heilbrigðisstofnana víðst vegar um landið eða um 3 milljarða króna. Þær stofnanir eru með innan við 10 % af heildarfjárveitingu til sjúkrahús- og sérfræðiþjónustu. Maður spyr sig hvar er jafnræðið um að allir njóti grunnþjónustu óháð efnahag og búsetu?
Hvaða þjónustu á að skera niður um 3 milljarða - eða 31-75% af starfsemi einstakra sjúkrasviða litlu sjúkrahúsana á landsbyggðinni
Tillögur heilbrigðisráðuneytis um samdrátt á sjúkrasviðum eru byggðar á því, að í hverju heilbrigðisumdæmi verði mætt þörf fyrir legurými á lyflækningadeildum. Stefna ráðuneytisins er að í hverju umdæmi verði almenn sjúkrahúsþjónusta með almennum lyflækningum og grunnheilbrigðisþjónustu, eins og lög um heilbrigðisþjónustu kveða á um. Í þeim þ.e. lögum nr. 40 frá 27.mars 2007 og reglugerð um heilbrigðisumdæmi, sem sett var í kjölfarið, er talið upp hvar á landinu skulu vera heilbrigðisstofnanir og hvaða þjónustu þær eiga að veita. Í reglugerðinni stendur að þær veiti almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu. Með almennri heilbrigðisþjónustu er átt við heilsugæslu, þjónustu og hjúkrun á hjúkrunarheimilum og hjúkrunarrýmum stofnana og almenna sjúkrahúsþjónustu.
Almenn sjúkrahúsþjónusta á litlu sjúkrahúsunum er fyrst og fremst almennar lyflækningar og hjúkrun við ýmsum bráðum sjúkdómum og nauðsynlegustu rannsóknir í því sambandi. Umönnun og endurhæfing sjúklinga eftir aðgerðir á sérhæfðu sjúkrahúsunum, hjúkrun og þjónusta við langlegu sjúklinga. Það mætti kalla þessi sjúkrahús nærþjónustu/grunnþjónustu - eða fyrsta stigs sjúkrahús (primery care hospitals- eins og Gísli G Auðunsson læknir kýs að nefna þau í mjög góðri grein sem birtist á dögunum)
Niðurskurðar hugmyndir ráðuneytisins ganga út á að lækka greiðslur fyrir legudaga. Ekki er hægt að segja að það sé gegnsætt eða að sérstakt jafnræði ríki milli heilbrigðisstofnana. Þannig er áætlaður mismunur á rúm per dag frá 38 þús til 68 þús á landsbyggð en á sérhæfðari sjúkrahúsum er kostnaðurinn ca. 150 þús. á rúm per dag á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi (LSH) t.d. eða ca.þrisvar sinnum hærri. Hvernig ná á fram sparnaði með því að flytja þessa lögboðnu grunnþjónustu til Reykjavíkur eða Akureyrar þar sem eru sérhæfð sjúkrahús (secondary care hospitals) og jafnvel háskólasjúkrahús (tertiary care hospitals) er mér hulin ráðgáta. Líklegri niðurstaða er að hún verði margfalt dýrari á hátæknisjúkrahúsunum en á litlu grunnþjónustu sjúkrahúsunum.
Glórulaus niðurskurður.Ef við tökum dæmi um hvernig niðurskurðurinn bitnar á einstaka svæðum má nefna Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu). Þar á að skera niður sjúkrasviðið um 56.5%. Afleiðingin verður i stórum dráttum sú, að mati framkvæmdastjóra HSu, að núverandi þjónusta sjúkrahússins sem almenns sjúkrahúss leggst af. LSH verður því umdæmissjúkrahús Sunnlendinga og tekur við eftirgreindri almennri sjúkrahúsþjónustu: - öllum deyjandi sjúklingum, - krabbameinssjúklingum, - öllum almennum lyflæknissjúklingum, - öllum einstaklingum sem eru vistunarmetnir og geta ekki verið heima lengur, - bæklunarsjúklingar frá LSH verða alla leguna á LSH, - öllum sjúklingum með sýkingar sem þurfa innlögn, - öllum fæðingum, -öllum heimsóknum í aðdraganda fæðingar.
Annað sem gerist er að göngu- og dagdeildarþjónusta sérfræðilækna flyst á læknastofur á höfuðborgarsvæðinu. Þjónusta sjúkrahússins sem bakhjarl fyrir heimahjúkrun og slysa- og bráðaþjónustu hverfur.
Þessi lýsing gæti átt við um hvaða heilbrigðisstofnun sem er á landsbyggðinni.
Spyrja má hvernig hyggst ráðuneytið uppfylla lög um grunnþjónustu í heimabyggð og eigin stefnu um almennar lyflækningar og grunnheilbrigðisþjónustu.
Augljóst er að sparnaður verður enginn en mikill aukakostnaður og óþægindi leggst á sjúklinga og aðstandendur þeirra. Um er að ræða stórkostlega tilfærslu á verkefnum, fólki jafnt sjúklingum og aðstandendum þeirra sem og starfsfólki í heilbrigðisgeiranum frá landsbyggð og til Reykjavíkur og evt. Akureyrar.
Samfélagslegur sparnaður enginn stóraukin útgjöld.
Ein afleiðingin verður að stórhækka þarf fjárveitingar til LSH og Sjúkratrygginga Íslands til að geta staðið undir aukinni þjónustu í Reykjavík. Þessir aðilar fá nú um 85 % af fjárveitingum til sjúkrahús- og sérfræðiþjónustu. Enn verður því aukið á misréttið milli landshluta! Hvar er jafnræði þegnanna um aðgang að grunnþjónustu óháð efnahag og búsetu? Engin sparnaðarrök mæla með því að flytja umrædda nærþjónustu til höfuðborgarsvæðisins -nú þegar hefur verið sýnt fram á, að þessir þættir eru hagkvæmar reknir af grunnþjónustu sjúkrahúsunum en LSH. Íbúar svæðanna munu þurfa að ferðast um langan veg með tilheyrandi kostnaði. Tillögurnar eru atlaga að búsetuskilyrðum landsbyggðarfólks. Ekki síst munu aðgerðirnar koma niður á langveikum, öldruðum, öryrkjum og fötluðum. Ljóst er, að ekki verður hætt að veita skjólstæðingum þessa þjónustu, hún mun einfaldlega flytjast annað og íbúar í dreifbýli þurfa að sækja þjónustu annað en í heimahérað. Raunveruleika firringin er svo mikil að ekkert tillit virðist vera tekið til vegalengda, vetrar-veðra og færðar.
Samfélagsleg áhrif.Sjúkrahúsin eru með stærstu vinnustöðum í viðkomandi byggðarlögum. Við blasir að segja þurfi 60 70 starfsmönnum á HSU með tilheyrandi kostnaði ríkisins vegna biðlauna og atvinnuleysisbóta í kjölfarið. Á öllu landinu erum við að tala um hundruði starfa oft störf fagfólks sem erfitt er að fá út á land. Í þessari aðför ríkisstjórnar VG og Samfylkingar að grunnþjónustu íbúa landsbyggðar á að færa störf til höfuðborgarsvæðisins í ríkara mæli en nokkurn tíma hefur sést fyrr. Stórfelldir fólksflutningar sem gætu endað með að við misstum ungt menntað fólk erlendis í stórum stíl. Fyrir utan óþægindi og kostnaðarauka íbúanna mun aðförin einnig hafa þau áhrif að fólki finnst það óöruggara í sinni heimabyggð.
Stefnumótun er þörf.Gömul stefna um að færa allt til Reykjavíkur er ekki boðleg sem forsenda á krepputíma. Ekki hefur verið sýnt fram á hagræðinguna en hinsvegar er ljóst að legudagar eru bæði færri per sjúkling og mun ódýrari á landsbyggðinni. Hvernig hægt er að færa þúsundir legudaga, hundruði sjúklinga til Reykjavíkur þar sem þjónustan er mun dýrari án þess að fjölga fólki og byggja upp þar er mér hulin ráðgáta.
Í veðri hefur verið látið vaka að unnið sé samkvæmt langtíma stefnumótun stefnumótun um verulegar breytingar á heilbrigðisþjónustu við landsmenn. Stefnu um að á landinu verði tvö sjúkrahús í Reykjavík og á Akureyri. Þessi umræða hefur hvorki verið við fagfólk á landsbyggðinni né heimaaðila. Ekki hefur verið sýnt fram á heildarsparnað eða hagræðingu hvað þá að verið sé að bæta þjónustuna. Lágmark er að slík stefnumótun hefjist á að greina lágmarks grunn þarfir íbúa á hverju svæði. Slík vinna getur aldrei haft upphaf og endi á skrifborði í Reykjavík.
Ef af verður mun mikil fjárfesting í húsnæði, tækjabúnaði og þjálfun fagfólks glatast. Ekki er ljóst hvort til stendur að byggja upp þessa þjónustu aftur þegar betur árar en eðlilegt væri að hluti af svo stórfelldum niðurskurði væri að hyggja að framtíðarskipulagningu heilbrigðiskerfisins.
Á niðurskurðar og krepputímum er eðlilegt að grunnstoðir og lágmarksþarfir samfélagsins séu settar í forgang, svo sem réttur fólks til heilbrigðisþjónustu sem næst búsetu. Á krepputímum verður að forgangsraða þannig að þessar grunnstoðir séu varðar og frekar dregið úr fjármagni til ýmissa sérverkefna þar sem þau eru ekki lífsnauðsynleg fyrir þegna landsins.
Samstaða í stað sundrungarRíkisstjórnin verður að átta sig á því að leiðin að kerfisbreytingum er samráð við fagfólk og heimaaðila. Fyrir þarf að liggja raunverulegt mat á ólíkum leiðum, þær kostnaðargreindar sem og önnur áhrif á samfélag á hverjum stað.
Ef við setjumst öll yfir verkefnið og vinnum saman að lausn þess náum við árangri. Leið ríkisstjórnarinnar er ekki fær. Niðurskurður er óhjákvæmilegur en forsenda niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu er að verja grunnþjónustuna - nærþjónustuna. Lágmarksþjónusta fyrir alla óháð efnahag og búsetu. Ríkisstjórnin er ekki á þeirri leið.
Við getum aukið tekjurnar ekki með því að hækka skatta heldur koma atvinnulífinu í gang. Til dæmis mætti auka tekjur þjóðarbúsins með því að auka þorskkvóta en líka með því að hefja framkvæmdir strax við orkukrefjandi iðnað og virkjanir. Þar hefur ríkisstjórnin þvælst fyrir og seinkað framkvæmdum. Einnig ættum við að horfa til þess að skattleggja strax séreignasparnaðinn.
Minni skynsamari niðurskurður meiri tekjur það er leið sátta og samstöðu. Ef ríkisstjórnin treystir sér ekki í verkefnið á hún að fara frá og við taki einskonar þjóðstjórn sem kæmi sér saman um þau grundvallarverkefni sem bíða úrlausnar. Annað má bíða.
Sigurður Ingi Jóhannsson
alþingismaður
VG mótmælir niðurskurði ríkisstjórnarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.