Fjölmiðlaumfjöllun
3.8.2010 | 11:08
Allir þekkja það þegar eitthvað sem maður þekkir vel kemst í aðalfréttir hversu oft er rangt farið með einstaka staðreyndir - staðarheiti osfr. Þetta veldur því að maður -réttilega - er aðeins á varðbergi gagnvart fréttaflutningi. Skýringin sem maður hefur fengið á þessari ónákvæmni hjá frétta- og blaðamönnum er sú að þeir þurfi að skaffa svo og svo marga dálksentímetra eða mínútur og hafa því ekki tíma til að "dobbelttjékka" staðreyndir.
Eftir að hafa sest á þing kemst maður jafnframt að því að það eru alltaf einhverjir sem eru að búa til fréttir. Það sem er helst í fréttum er eitthvað sem hentar - oftast ráðamönnum (sbr. "stráklingana" hans SJS og Magma) og einhverjir setja af stað oft til að fela/breiða yfir það sem raunverulega er fréttnæmt en er óþægilegt að hafa í umræðunni - smjörklípur .
Nú síðustu daga hefur ein helsta "frétt" RÚV verið 2 mánaða gömul. Þ.e. umfjöllun um eitt af síðustu frumvörpum fyrir þinghlé - frumvarp um sektarákvæði vegna búvörulaga og lagaumhverfi um heimasölu í mjólkurframleiðslu.
Í gær hafði samband við mið ein að fréttakonum RÚV (Anna Kristín Pálsdóttir) og átti við mig ágætt samtal sem skilaði sér í skriflegri frétt á RÚV-netmiðli sem var alveg í samræmi við samtalið. Frétta viðtalið sem birt var í sex-fréttatíma útvarps og sjöfréttum sjónvarps var auðvitað klippt og skorið og sumt mikilvægt skilið eftir - eins og gengur með svo knappt fréttaform. En ég var bara sáttur við fréttakonuna og það sem hún hafði eftir mér.
Það sama er ekki hægt að segja um fréttalesarann og margfaldan reynslubolta í fréttastjórnun Boga Ágústsson. Í svokölluðu "helsti" var rangtúlkun orða minna alger - leikrænir tilburðir lesarans og áherslur með þeim hætti - að maður spyr sig hvar er hlutleysi RÚV? - hvar er óháður fréttaflutningur RÚV? en ekki fréttatilbúningur!!
"Enga samkeppni á búvörumarkaði - eitt stórt bú" var sagt að ég hefði haft fram að færa!!"
Sannleikurinn er að samkeppnislög gilda ekki um búvörulögin. Staðreyndin er að það er opinber verðlagning á mörgum helstu nauðsynjum mjólkurvörum fjölskyldna í landinu. Í máli mínu við fréttamann RÚV kom fram að besta er að hafa blandað hagkerfi þar sem kostir samkeppni fá að njóta sín, en komið í veg fyrir gallana-græðgina sem fylgir óheftri markaðsvæðingu.
Það er í gildi samningur milli kúabænda og ríkisvaldsins um mjólkurframleiðsluna þar sem bæði koma fram réttindi og skyldur. Þau sjónarmið sem fréttalesari RÚV virðist telja rétthærri eru sjónarmið þeirra sem ætla sér réttindi en ætla ekki að standa við neinar skyldur. Sömu sjónarmið hafa nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar haft og þar komið í veg fyrir að frumvarp þetta yrði að lögum á síðastliðnum þremur árum. Síðast þegar ég taldi voru 63 þingmenn á Alþingi - lýðræði er ekki þegar 3-4 þingmenn sinna sérhagsmunum og stöðva almannahagsmuni. - Það er fréttnæmt.
Frumvarpið inniheldur jafnframt ákvæði þar sem heimilað er að vinna og selja 10-15þúsund lítra í heimasölu. - Það er fréttnæmt og nýjung.
Ef vinnslan verður stærri er ekki ósanngjarnt að slík fyrirtæki starfi með sama hætti og önnur í mjólkuriðnaði og noti til þess mjólk innan greiðslumarks. - Annað væri ójafnræði og fréttnæmt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.