Atvinnuleysi eykst - neysla dregst saman

Ríkistjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er nú búin að vera við völd nærri fimm mánuði. Í minnihlutastjórninni fram að kosningum lofuðu flokkarnir ýmsu m.a. að vinna áfram eftir kosningar að nauðsynlegum breytingum í landinu. Í einfeldni minni hélt ég að flokkarnir hefðu hafið undirbúning að mörgum þeirra nauðsynjamála, strax í febrúar eða mars. Svo var allaveganna látið í veðri vaka. Í aðdraganda kosninganna hélt ég að þeir vildu ekki láta sjá á spilin. Því þar væri ekki allt eins og best yrði á kosið. Raunin var önnur, engin eða lítil vinna var hafin. Hún hófst eftir að flokkarnir tóku sér tvær vikur í stjórnarmyndun!! 

Augljóst var öllum, allan tímann, að verkefnið er erfitt. Ríkistjórnin þrástagast á því en sannar með ákvarðanafælni, verkkvíða að engin vinna við endurreisn efnahagsmála hafi verið hafin. Allt dregst á langinn. Bankarnir og aðrar fjármálastofnanir eru enn í þeirri stöðu að sagt er að það verði í þar næstu viku eða eftir mánuð sem eitthvað gerist. Raunverulegar tillögur sem gagnast skuldugum heimilum hafa enn ekki birst. Stjórnvöld segjast fylgjast náið með og grípi inní ef þau telja að það þurfi. Það hafa þau sagt lengi en ekkert bólar á aðgerðum. Kannski finnst þeim ekkert að?

Ekkert bólar á markvissri atvinnuuppbyggingu sem geti bæði fækkað atvinnulausum og það sem ekki er síður mikilvægt komið einhverri neyslu í gang. Frasinn, koma hjólum atvinnulífsins í gang er eitt það mikilvægasta sem ríkisstjórn í kreppu tæki sér fyrir hendur. Það virðist því miður að ekkert sé fjær ríkisstjórn Samfylkingar og VG. Hugmyndir þeirra um viðbrögð við ástandinu eru að því virðist -að hækka skatta og með þeim hætti draga enn meir úr nauðsynlegri neyslu.

Framsóknarmenn lögðu strax í febrúar fram raunhæfar tillögur í 18 liðum sem höfðu það meginstef að endurreisa banka, koma skuldum almenningi og fyrirtækjum til aðstoðar og koma þannig neyslunni í gang. Í stað þess að snarhækka skatta á fyrirtæki og almenning lögðum við til að auka umsvif, breikka skattstofna og auka þannig tekjurnar. Sumar tillögur Framsóknar eru nú fyrst til skoðunar eins og til að mynda aðkoma lífeyrissjóða að endurreisn. Frá því í október sl. hefur ekkert verið talað við forsvarsmenn þeirra um slíka aðkomu - fyrr en nú - í júní!!

Niðurstaðan af seinaganginum eru að enn er ekkert bankakerfi, enn eru stýrivextir í svimandi hæðum (þó þeir hafi lækkað) okurvextir sem engin lögleg starfsemi getur þrifist í. Enn eru gengishöft (og verða lengi enn) með tvöfalda krónu sem sígur flesta daga. Auðvitað mun atvinnu leysi vaxa við þessar aðstæður.

Ég hef sagt það áður að vandi þjóðarinnar sé slíkur að við höfum ekki efni á að gera tilraun hvort vinstri stjórn Samfylkingar og VG muni ráða bót á honum. Aðgerðaleysi þeirra og máttleysi frammi fyrir tröllvöxnum vanda. Samstöðuleysi flokkanna og rof flestra kosningaloforða (sérstaklega VG) gera það að verkum að þjóðin er ekki tilbúin til að fara þessa vegferð. Við þurfum þjóðstjórn allra flokka sem og sérfræðinga. Við þurfum samstöðu um að taka Icesave málið upp að nýju. Við þurfum samstöðu um með hvað hætti við nálgumst ESB. Við þurfum samstöðu um með hvaða hætti við högum okkar gjaldmiðli (krónu til skemmri tíma, evru, dollar eða eitthvað annað til lengri tíma). Við þurfum samstöðu um niðurskurð/skattahækkanir og atvinnuuppbyggingu. Þannig náum við árangri - saman. Þannig vinnum við bug á atvinnuleysinu.


mbl.is Spá 9,9% atvinnuleysi næsta ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband