Ekki meir - ekki meir

 

Í sumar hef ég hitt fjöldann allan af fólki um land allt. Suma kunningja, vini, flokksystkin en líka ókunnugt fólk sem gefur sig á tal við mann. Allir segja sömu sögu. Nú er nóg komið af úrræðaleysi ríkisstjórnar VG og Samfylkingar. Nú er nóg komið af öfgapólitík, óskynsemi og tómlæti gagnvart uppbyggingu atvinnulífs. Ríkisstjórnin hefur fengið tvö ár til að lækka skuldir ríkissjóðs, koma atvinnulífinu í gang og auka hagvöxt. Það hefur mistekist. Nú í upphafi umræðu um fjárlög næsta árs - virðast þau vera úrræðalaus. Hugmyndir þeirra virðast vera aðeins þær að boðið verður upp á meira af því sem ekki hefur virkað hingað til. – Nákvæmlega það sem fólkið í landinu segir við; ekki meir –ekki meir!!

 

Leiðin til uppbyggingar er ekki að skera endalaust niður og hækka skatta á almenning og fyrirtæki. Leiðin er að skapa raunveruleg verðmæti. Styrkja atvinnulífið og stækka kökuna. Þar eru möguleikar okkar miklir. Ég hef margoft bent á tækifæri í matvælaframleiðslu eins og aukið sjávarfang (nokkrir milljarðar) stóraukning í fiskeldi eða að auka það í 50 þús tonn ( allt að 30 milljarðar) aukinn útflutningur á sauðfjárafurðum og mjólkurafurðum ( sauðfjárafurðir skiluðu tæp 3 milljörðum á síðasta ári). Aðrir möguleikar tengdir eru loðdýrarækt (hægt að auka útflutningstekjur um 10-15 milljarða) aukinn korn- og repjurækt sem myndi skila milljarðasparnaði í gjaldeyri.

Þá eru ótalinn fjölmörg tækifæri tengd orkuöflun og orkunýtingu. Þá hefur þekkingariðnaðurinn blómstrað síðustu ár og er nú í stakk búinn að keppa á heimsvísu á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins.

 

Við Framsóknarmenn lögðum fram ítarlegar tillögur í atvinnumálum á vorþingi sem vert væri að taka til gaumgæfulegrar skoðunar og finna leiðir til að hrinda í framkvæmd. Umtalsverðir fjármunir eru til innanlands til að fjármagna mörg þessara verkefna.

Það er rétt að minna á að áður höfum við Framsóknarmenn lagt fram tillögur sem voru hundsaðar af ríkisstjórnarflokkunum (feb 2009) – en eftirá verið viðurkenndar að hafa verið þær einu réttu sbr 20 % leiðin um almenna skuldaleiðréttingu og tillögur í efnahagsmálum sem Seðlabankinn hefur nú 2-2 ½ ári síðar verið að hrinda í framkvæmd.

 

Leiðin fram á við er aukinn atvinna – aukinn hagvöxtur – auknar útflutningstekjur. Með slíkri stefnu mun fólk sjá fram á að komast út úr vítahring - öfgastefnu VG og ESB kratavæðingu Samfylkingar. Fólk þarf von og trú á framtíðina. Tækifærin eru næg á Íslandi. Það þarf hinsvegar stefnubreytingu, vilja og skynsama framtíðarsýn til að nýta þau tækifæri.

 

Því verður ekki trúað að ríkisstjórnin ætli að höggva enn í sama knérunn heimila og hækka virðisaukaskatt á matvæli. Það er einfaldlega vítahringur sem ríkisstjórnin virðist ekki skilja að þegar skattar eru hækkaðir á almenning þá fær fólk færri krónur í ráðstöfunartekjur upp úr launaumslaginu, þá getur það eytt færri krónum í verslunum og þjónustu, sem gerir fyrirtækjum erfiðara fyrir.

 

Hafa menn ekkert lært af hækkun eldsneytisskatta, áfengisgjalda – aukinna álaga sem hafa því einu skilað að það eru minni umsvif m.a í ferðaþjónustunni og starfsemin færist undir borðið. Þar fyrir utan færast hærri neysluskattar inn í verðlag og hækka verðtryggðar skuldir heimilanna, sem aftur leiðir til lægri ráðstöfunartekna o.s.frv. Ríkisstjórnin hefur læst íslenskt efnahagslíf inni í þessum vítahring. Úr þeim vítahring verður að brjótast. Ríkisstjórn VG og Samfylkingar hafa reynt sín meðul – þau ganga ekki - við þurfum plan B.

 

 

 


mbl.is „Engin áform um matarskatt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru ótrúlegir snillingar, þegar þau halda því fram að væntanlegar hækkanir muni ekki lenda á almenningi og fyrirtækjum í landinu. Nú á hverjum mun hækkanirnar lenda þá ef ekki fyrrgreindum aðilum? Ég hef alltaf staðið í þeim skilning að það væri almenningur og fyrirtækin í landinu sem að héldu samfélaginu gangandi? Ef að það er misskilningur þá vinsamlega leiðréttið mig vegna þess að þá er ég farinn að leita að uppsprettulind auðsins sem heldur uppi samfélaginu okkar

kv.

Atlinn

atlinn (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 13:17

2 Smámynd: Kristbjörn Árnason

skrítið, ég hef líka farið allt land í sumar og heyri aldrei svona raddir. En þeir sem vilja spjalla segja mér gjarnan að þeir vilji aldrei aftur öfgastjórn aftur með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Fólkið segir mér að þetta séu flokkarnir sem settu þjóðina á hliðina. 

Kristbjörn Árnason, 9.8.2011 kl. 13:19

3 identicon

Sæll Sigurður Ingi - líka sem og; aðrir gestir, þínir !

Sigurður Ingi !

Vafalaust; kannt þú að hafa bein í nefi, sem þið fleirri, Sóleyjarbakka menn, en lítið er nú hald ykkar, í Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Ítrekað; reyndi ég að ná samfundum við hann, Sumarið 2010 - en; því miður, reynist hann vera sama Mél- ráfan, sem þau flest, samþingmanna þinna, Sigurður minn.

Aldrei; símaði S.D. Gunnlaugsson til mín - til baka.

Með beztu kveðjum þó; úr Hveragerðis og Kotstrandar skírum /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband