Færsluflokkur: Bloggar

Aðgerðir - strax

Vextir verði lækkaðir í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn - strax. Lífeyrissjóðum verði veitt heimild til að eiga gjaldeyrisviðskipti - strax. Samið verði við erlenda eigendur krónueigna - á næstu tveimur mánuðum. Settur verði á fót uppboðsmarkaður með krónur - eftir tvo mánuði. Lokið verði við stofnun nýju bankanna - fyrir 1. apríl. Kröfuhafar fái hlut í nýju bönkunum - fyrir lok maí. Sameining og endurskipulagning banka og fjármálastofnanna - á næstu 12 mánuðum. Ríkið ábyrgist lán til skamms tíma milli banka - strax. 20% niðurfærsla skulda heimila og fyrirtækja - innan eins mánaðar.  Stimpilgjöld afnumin - innan 2 vikna. Stuðningur við rannsókna- og þróunarstarf og aðgerðir til að örva fasteignamarkaðinn - innan 3ja mánaða. Drög að fjárlögum næstu þriggja ára - fyrir lok ágúst.

Þetta er ekki aðgerðalisti tveggja síðustu ríkisstjórna - því miður. Það virðist enginn heildrænn aðgerðalisti til. Þetta er hluti af tillögum sem Framsóknarflokkurinn kynnti í febrúar. Tillögur sem ríkistjórn og Alþingi hefðu átt að taka til alvarlegrar skoðunar, umræðu og afgreiðslu. Það er óskiljanlegt af hverju það hefur ekki verið gert. Þess í stað hafa stjórnarliðar tekið eina tillögu og hamast á henni án þess að koma með nokkuð haldbært í staðinn.

Aðgerðir strax - lækka vexti - styrkja gengi - koma atvinnulífinu í gang. Fólkið og heimilin í landinu krefjast þess.   


Þakkir

 Ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu sem gerðu póstkosningu okkar Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi eins glæsilega og raun bar vitni.  Kosningu sem lauk í dag með aukakjördæmisþingi á Selfossi þar sem við Framsóknarmenn lögðum fram og samþykktum öflugan framboðslista.

Kjörstjórn, stjórn kjördæmissambandsins, stjórnir félaga en ekki síst almennir félagsmenn eiga hrós skilið fyrir að geta framkvæmt póstkosningu, kynningu á frambjóðendum með þessum glæsilega árangri á svona stuttum tíma.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að þakka meðframbjóðendum mínum bæði drengilega og skemmtilega samkeppni. Einnig stuðningsmönnum mínum fyrir traustið, hvatningu og stuðning.

Það er mér heiður að fá að leiða þennan sterka hóp í kosningabaráttu næstu vikna.

Kosningabaráttu sem mun snúast fyrst og fremst um raunverulegar aðgerðir til varnar heimilum í landinu, endurreisn atvinnulífs, endurreisn samfélags jöfnuðar og samvinnu.   


Landbúnaður í frjálsu flæði ESB

Í haust þegar bankarnir hrundu, krónan féll og erlendir gjaldmiðlar voru illfáanlegir sannfærðust þeir síðustu um mikilvægi íslensks landbúnaðar. Eitt að því mikilvægasta við sjálfstæði þjóðar er að geta brauðfætt sig.

Við, Íslendingar erum heppinn að því leiti að eiga öflugan sjávarútveg og öflugan landbúnað. Matvælaiðnað og framleiðendur með vöru í fyrsta gæðaflokki heilbrigðis og hollustu.

Þessa stöðu verðum við að verja með öllum tiltækum ráðum. Matvælafrumvarp sem hefur legið fyrir Alþingi síðastliðin þing er gallað og ver ekki hagsmuni þjóðarinnar, hagsmuni landbúnaðarins sem skyldi. Í gær rann út frestur til að skila inn athugasemdum við matvælafrumvarpið og veit ég að þær verða töluverðar. Ég tel mjög nauðsynlegt að þingið gefi sér góðan tíma til að fara yfir þessar athugasemdir og taka mið af þeim rökum sem þar eru sett fram og eiga að verja íslenskan landbúnað. Þrýstingur frá aðildarríkjum Evrópusambandsins á ekki að hafa þau áhrif að við köstum til hendinni og samþykkjum frumvarp sem betur má fara með frekari yfirlegu.

Evrópusambandsumræða og hugsanleg aðildarumsókn verður að hafa í öndvegi hagsmuni landbúnaðarins, matvælaframleiðslu og matvælaöryggi í víðari skilningi en við  höfum áður hugsað. Þar liggja okkar hagsmunir sem þjóðar. Við megum ekki ógna því öryggi sem felst í að vera sjálfbjarga.

Rekstrarumhverfi bænda er eins og annarra fyrirtækja í landinu ógnað af galinni peningamarkaðsstefnu sem hefur leitt af sér okurvexti og óðaverðbólgu. Það er mikilvægast fyrir bændur eins og önnur fyrirtæki landsins að stuðla með almennum aðgerðum að því að rekstrarumhverfið verði eðlilegt.

Lækkum vexti, styrkjum gengið og komum hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik.  


Á morgun er síðasti dagur til að póstleggja atkvæði sitt

Til að lýðræðislegt val verði við röðun okkar framsóknarmanna á listann hér í Suðurkjördæmi er nauðsynlegt að góð þátttaka náist í póstkosningunni. Póstkosning er spennandi leið en jafnframt mjög lýðræðisleg þar sem hver félagsmaður fær atkvæðaseðilinn sendan heim og getur gefið sér tíma og ráðrúm til að kjósa. Sá böggull fylgir þó skammrifi að það þarf að muna eftir að póstleggja atkvæðið.

Á morgun, 4. mars er síðasti dagur til að fara með atkvæðið í póst. Atkvæði verða svo talin á laugardag en úrslit ekki kunngerð fyrr en á kjördæmisþinginu á sunnudaginn 8. mars.

Ég vona að allir sem fengu atkvæði í hendurnar nýti vel kosningarétt sinn og muni eftir að póstleggja atkvæðið - eigi síðar en á morgun. 


Kynningarfundir

 

Í undirbúningi póstkosningarinnar fór ég yfirferð um kjördæmið,  hitti fólk og kynnti mér staði og aðstæður sem ég þekkti minna en nánasta umhverfi. Suðurkjördæmi er víðáttumikið, frá Reykjanesi austur fyrir Höfn.

Það er gaman að ferðast um landið og hitta nýtt fólk, eignast nýja vini og hlusta á hugmyndir fólks, áhyggjur og framtíðarvonir.

Á sex dögum hef ég farið  tvisvar sinnum á Suðurnesin, tvisvar ekið austur um allar sveitir, austur á Höfn og farið til Vestmannaeyja. Auk þess að fara um sveitir og þéttbýlisstaði Árnes- og Rangárvallasýslna.

Á þessum ferðum hef ég hitt fjölda fólks og hlustað á það og kynnt mig.

Það er í senn áhugavert og nauðsynlegt fyrir nýja frambjóðendur að fara um hitta fólk og hlusta.

Skipulagðir framboðsfundir hafa nú þegar farið fram í Reykjanesbæ, Borg í Grímsnesi, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjabæ. Í dag eru fundir í Vík í Mýrdal kl 16.00 og á Hvolsvelli í kvöld kl 20.30. Annað kvöld er svo síðasti fundurinn í Grindavík. 


Nýir tímar - ný vinnubrögð

Grein birt í Dagskránni og Eyjafréttum 26. febrúar 2009

Í dag eru Framsóknarmenn að fá með póstinum atkvæðaseðil sinn vegna vals á lista til alþingiskosninga. Sú aðferð að senda hverjum framsóknarmanni atkvæðaseðil er lýðræðislegri en fulltrúaval kjördæmisþinga en um leið aðferð til að halda niðri kostnaði við opin prófkjör. Þessi aðferð er einnig í takt við þá tíma sem við lifum þ.e. aukið lýðræði til fólksins en um leið aðhaldssöm. Með þessu móti geta allir lagt sitt á vogarskálarnar með jöfnum þunga, þ.e. einn maður - eitt atkvæði.

Atvinnumálin, velferðarmálin og stefna Framsóknarflokksins er eitt af því sem gerir mig að framsóknarmanni.  Velferð fjölskyldna í landinu byggist á atvinnu. Einungis með atvinnumál á traustum grunni er hægt að halda uppi velferðarkerfi  byggt á öflugu menntakerfi  og heilbrigðisþjónustu öllum til handa óháð búsetu og efnahag.

Hin gömlu gildi Framsóknarflokksins eiga aldrei betur við en einmitt núna. Manngildi ofar auðgildi er grundvöllur þess að Íslendingar geti horft fram á bjartari tíma. Miðjuflokkur, með rætur í þjóðarsálinni er best til þess fallinn að finna jafnvægið fyrir íslensku þjóðina og þannig leiða hana fram til sóknar.

Ég vil hvetja alla framsóknarmenn til að nota atkvæðið sem þeir fá í hendurnar og þannig taka virkan þátt í þeirri lýðræðisvakningu sem hafin er. Þar hefur einvalalið einstaklinga gefið kost á sér til að fylgja eftir hugsjónum og stefnu Framsóknarflokksins. Ykkar er valið kæru framsóknarmenn.


Fundir frambjóðenda á næstu dögum

Framsóknarfélögin í Suðurkjördæmi standa fyrir fundum þar sem frambjóðendum á lista til alþingiskosninganna gefst tækifæri á að kynna sig.

Fyrsti fundurinn er í kvöld í Reykjanesbæ, sá síðasti í Grindavík 2. mars næstkomandi.

25. febrúar - Reykjanesbær - Framsóknarhúsið kl. 20.00
26. febrúar - Árnessýsla - Félagsheimilinu Borg, Grímsnesi kl. 20:00
27. febrúar - Höfn, Hornafirði - Nýheimum kl. 20:00
28. febrúar - Vestmannaeyjar - Kaffi Kró kl. 14.00

1. mars - Vík - Ströndin, Víkurskála kl. 16.00
1.mars - Rangárvallasýslur - Hvolnum, Hvolsvelli kl 20.30
2. mars - Grindavík - Framsóknarhúsið kl 20.

Ég vil hvetja alla sem áhuga hafa til að mæta. Með góðri þátttöku ykkar verða fundirnir marvissari og betri, bæði fyrir frambjóðendur og fundargesti.


Helstu málefnin mín

Í störfum mínum á vettvangi sveitarstjórnarmála hefur áherslan orðið á atvinnumál og samgöngumál. Hins vegar hafa sveitarstjórnarmálin gefið mér góða innsýn inn í velferðarmál enda málaflokkar er snerta nærþjónustu við íbúana mjög mikilvægir. Við rekstur jafnt opinberra fyrirtækja sem og eigin rekstur er nauðsynlegt að hafa þekkingu og innsýn í alla þætti í rekstri fyrirtækja. Þar með hefur áhersla á efnahagsmál og fjármál orðið drjúgur hluti af daglegum störfum. En hér ætla ég að nefna helstu málefni mín.
  • Atvinnuleysið, sem óðfluga stefnir í að meira en 16 þúsund landsmenn séu án atvinnu hlýtur að setja atvinnumál í fyrsta sæti málefna. Ég vil leggja mikla áherslu á að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik. Þar eru undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar í öndvegi þ.e. landbúnaður, sjávarútvegur og iðnaður. Við þurfum að nýta náttúruauðlindir okkar til sjávar og sveita, orkuna og ekki síður mannauðinn til að skapa ný störf.
  • Efnahagsmál eru þó þau mál sem eru nú efst á verkefnaskránni. Engin vafi leikur lengur á því að við verðum að endurskoða peningamálastefnu ríkisins. Til framtíðar getum við ekki búið við tveggja stafa stýrivexti eða verðbólgu. Ef það er kostnaðurinn við að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil (krónuna) verðum við til lengri tíma litið að skipta henni út. Engar leiðir þar eru patent skyndilausnir. Alla kosti verður að skoða til hlítar og hafa upplýsta umræðu meðal þjóðarinnar. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils og eða innganga í Evrópusambandið eru engar töfralausnir. Aðildarumsókn með þeim skilyrðum sem Framsóknarflokkurinn setti fram getur verið ein leið til að ná fram stöðugleika í samskiptum við aðrar þjóðir. Í nálægum tíma verðum við hinsvegar að framleiða okkur út úr vandanum. Það er, að nota undirstöðuatvinnuvegina til að framleiða allan þann mat og varning sem við þurfum innanlands og flytja út fisk og iðnaðarvörur eins og ál, til að skapa gjaldeyri og að styrkja krónuna með því að hafa langtíma hagnað á viðskiptum við útlönd. Einnig eigum við að beita mannauðnum, hugvitinu til nýsköpunar á vöru og þjónustu sem skapar útflutningstekjur.
  • Stjórnlagaþing, sem Framsóknarflokkurinn setti á dagskrá á flokksþinginu í janúar og eitt að skilyrðum fyrir að verja ríkisstjórnina falli, er eitt það áhugaverðasta sem komið hefur fram í umræðu um stjórnmál. Það er mjög brýnt til að endurreisa stjórnsýsluna, traust almennings á stjórnmálamönnum og þannig skapa stöðugleika.
  • Menntamál hafa verið mér hugleikin allt frá því að ég kom heim frá námi 27 ára gamall. Í samanburði við önnur svæði hefur kjördæmi okkar verið á eftir í flestum mælingum sem gerðar eru á menntun. Þessu þurfum við að breyta og erum að því víða í kjördæminu með mælanlegum árangri. Að auka menntunarstig svæðisins og metnað fyrir menntun á öllum skólastigum skilar okkur fleiri atvinnutækifærum og meiri velmegun. Á þessum erfiðleikatímum er nauðsynlegt að efla alla þætti menntunarinnar.
  • Í krafti menntunnar minnar og starfa hafa bæði umhverfismál í víðasta skilningi sem og heilbrigðismál verið mér ofarlega í huga. Staðardagskrárvinna (sjálfbær þróun samfélags) var eitt af fyrstu verkefnum mínum sem sveitarstjórnarmaður. Sem sannur framsóknarmaður er það skoðun mín að allir eiga að hafa jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Menntamál tengjast þessu. Með jafnræði til náms verður velferðarkerfi okkar sterkara og styrkir hinar dreifðari byggðir.
  • Í skipulagsmálum hef ég lagt mikla áherslu á að vernda náttúruna og einnig landnýtingu sem stýritæki til að nýta þá auðlind sem best í þágu almennings, sjálfbærni og undirstöðuatvinnuveganna.
  • Samgöngumál hafa verið, og munu verða, eitt af baráttumálum mínum og draga úr umferðarslysum. Margt hefur verið gert (og er unnið að) í kjördæminu á undanförnum árum en margt er einnig ógert. Má þar helst nefna að uppbyggingu Suðurlandsvegar frá Reykjavík að Selfossi má ekki draga að hefja. Reynslan af uppbyggingu Reykjanesbrautar sýnir okkur hve miklum árangri er hægt að ná í fækkun slysa, sérstaklega alvarlegra slysa. Mörg önnur verkefni má nefna í vegamálum, hafnamálum og fjarskiptum sem kalla má nauðsynlegar samgönguæðar.
  • Að lokum má nefna félagsmál og öldrunarmál, en í störfum mínum sem oddviti hef ég komið að uppbyggingu félagsþjónustunnar og undirbúningi að þjónustubyggð fyrir aldraða og einnig baráttu fyrir fjölgun á hjúkrunarheimilisrúmum. Á erfiðleikatímum er mikilvægt að standa vaktina í þessum málum og geta gripið inn í með úrlausnir með skjótum hætti.

     


Sókn á Suðurnesjum

 Neðangreind grein birt í Víkurfréttum 24. feb.

Á erfiðleikatímum stöndum við frammi fyrir vali. Annars vegar að einblína á vandamálin og hins vegar að  leita að nýjum tækifærum til sóknar og nýsköpunar. Auðvitað er nauðsynlegt að greina vandann og skilgreina verkefnin en jafnframt er  mikilvægt að leita nýrra sóknarfæra og horfa keikur fram á við.  

Atvinnuleysi er eitt það versta böl sem getur hent vinnufúsar hendur. Við  Íslendingar verðum að setja okkur það markmið að atvinnuleysi nái aldrei varanlegri fótfestu eins og þekkist t.d í Bretlandi og flestum Evrópulöndum. Það er einfaldlega ekki til í þjóðarsál okkar að líða það. Við erum komin af  fólki sem vann hörðum höndum í ,,gömlu" atvinnuvegunum, landbúnaði og sjávarútvegi. Þeim sömu,  ásamt iðnaðinum sem verða okkur á ný til bjargar.

Hver er ég?

Greinaskrifari er sveitamaður að uppruna, fæddur og uppalinn í uppsveitum Árnessýslu. Sveit, þar sem Flúðir er helsti þéttbýlisstaðurinn. Þar hef ég einnig búið lengst af ævi minnar en bjó í nokkur  ár í Kaupmannahöfn þar sem ég lærði dýralækningar.

Starfsferillinn spannar nú 20 ár þar sem ég hef þjónustað dýr og dýraeigendur á öllu Suðurlandi. Einnig hef ég setið í sveitarstjórn í um 15 ár lengst af sem oddviti eða varaoddviti sveitarstjórnar.

Á þessum vettvangi hef ég öðlast þekkingu og reynslu sem ég býð fram til þjónustu fyrir land og þjóð.  

Undirstaða velferðar - atvinnan

Suðurkjördæmi er víðfeðmt og atvinnuástand misjafnt. Á Suðurnesjum er grafalvarlegt ástand í atvinnumálum. Hvergi er meira atvinnuleysi eða tæplega 15% meðan atvinnuleysið á landinu öllu er um 8.5%. Við þetta ástand má ekki una. Hér verða allir að leggjast á eitt,  leita að tækifærum og örva nýsköpun. Atvinnuleysi er ekki einkamál heldur þjóðfélagslegt mein sem stefnir velferð fjölskyldna í landinu í voða.

Tækifærin eru víða og er háskólinn Keilir gott dæmi. Nýting orkunnar, með Hitaveitu Suðurnesja sem flaggskip er annað. Halda verður ótrautt áfram við uppbyggingu í Helguvík. Ferðaþjónusta með alþjóðaflugvöll, vöruhótel, Bláa Lónið og varnarliðssvæðið með óendanlega möguleika. Ekki má gleyma sjávarútveginum sem verður okkur dýrmætari og mikilvægari en nokkru sinni fyrr við atvinnusköpun og gjaldeyrisöflun.

Tækifærin

Til þess að tækifærin geti orðið að veruleika þurfa góðar hugmyndir að eiga brautargengi. Ein leið af mörgum er gerð vaxtarsamnings við sveitarfélögin á Suðurnesjum. Með slíkum samningi fæst gott verkfæri til nýsköpunar og fleiri atvinnutækifæra. Nú er enn nauðsynlegra en áður að ráðamenn þjóðarinnar tryggi framkvæmd byggðaáætlunar og gefa íbúum og fyrirtækjum kost á að njóta sín þar sem þeir búa. Nú er tíminn til að meta að verðleikum hina raunverulegu verðmætasköpun landsbyggðarinnar umfram hið hrunda útrásarhagkerfi. Með raunverulegum verðmætum, fólkinu sjálfu, er hægt að skapa betra Ísland. Til þess verður að nýta öll tækifæri til að efla atvinnu og þannig velferð íbúanna. 

 


13 gefa kost á sér

1. sæti: Sigurður Ingi Jóhannsson, dýralæknir

Eygló Þóra Harðardóttir, alþingismaður

1. – 2. sæti: Birgir Þórarinsson, sérfr. í alþj.samskiptum

Kristinn Rúnar Hartmannsson, myndlistamaður

1. – 3. sæti: Eysteinn Jónsson, bæjarfulltrúi

2. sæti: Bryndís Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur og form. SUF

3. – 6. sæti: Inga Þyri Kjartansdóttir, verkefnastjóri

4. sæti: Guðni Ragnarsson, bóndi

5. – 6. sæti: Einar Freyr Elínarson, nemi

Ásthildur Ýr Gísladóttir, nemi og vaktstjóri

Bergrún Björnsdóttir, nemi

6. sæti: Hansína Ásta Björgvinsdóttir, kennari

Ingibjörg Júlía Þorbergsdóttir, viðskiptafræðingur

http://framsokn.is/?i=36&expand=13-25-36&b=1,3815,news.html


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband