Landbúnaður og Samfylking fara ekki saman

Grein birt 10. apríl á www.sunnlendingur.is  

Eftir lestur greinar eins af forystumönnum Samfylkingarinnar, Árna Páls Árnasonar í Morgunblaðinu 27. mars sl. varð ég hugsi. Það var eins og eitthvað hefði farið fram hjá mér síðastliðin misseri. Ekki vissi ég að Ísland hefði nú þegar gert alþjóðasamninga þar sem núverandi styrkjakerfi íslensks landbúnaðar stæðist ekki þær skuldbindingar sem við höfum gert. Samkvæmt Árna Páli verður að draga saman stuðning við íslenskan landbúnað um meira en helming við gildistöku þessa nýja samnings um milliríkjaviðskipti. Ekki var mér það heldur ljóst. Auðvitað get ég afsakað vanþekkingu mína á slíkum samningum með því að vera nýr í framboði. En það er einmitt út af svona hlutum sem ég er í pólitík. Til að hafa áhrif.Mig grunar að þetta sé óskhyggja Samfylkingarmannsins. Ég vona að það standi enn yfir samningaviðræður. Samningaviðræður sem ekki sjái enn í land með. Viðræður sem segja má um ,,að veldur hver á heldur”. Hér þarf örugglega að upplýsa fleiri en mig – eða kannski Samfylkingin geti upplýst bændur um það hvernig samningum hún vilji ná. Samningum sem munu kollvarpa núverandi fyrirkomulagi í íslenskum landbúnaði á næstunni?  Er það liður í uppbyggingu byggða og fjölgun starfa?

Ríkisstjórn VG og Samfylkingar á leið í ESB. Á síðustu dögum hafa Vinstri-Grænir og Samfylking opinberað ásetning um áframhaldandi samstarf. Samstarf, þar sem ESB-málið verður leyst að þeirra sögn. Á að taka upp landbúnaðarstefnu ESB? Er það eitt af leynisamkomulögum vinstri flokkanna sem munu opinberast eftir kosningar?Ekki þarf að eyða mörgum orðum á þá blindu ást sem Samfylkingin hefur á Evrópusambandsaðild. Jafnvel sjá þeir rök fyrir því að innganga í ESB myndi, strax á morgun, styrkja sveitir landsins og íslenskan landbúnað. Ég er í raun ánægður með að Samfylkingin setji fram rök. Hún ætti því ekki að skella skollaeyrum við mótrökum. Mótrökum sem byggja á staðreyndum og reynslu. Staðreyndin er sú að það er ekki hægt að skapa sterkari landbúnað með því að endurheimta votlendi þó að Árni Páll haldi því fram. Endurheimt votlendis mun ekki styrkja byggðir og fjölga störfum eins og Árni Páll vill meina. Stór hluti túnræktar og kornræktar er í dag á landi sem hefur verið framræst. Endurheimt votlendis á ákveðnum svæðum getur hinsvegar endurskapað fuglalíf og búsvæði votlendisgróðurs. Og á þannig fyllilega rétt á sér. Endurheimt votlendis fjölgar því fuglum -ekki fólki, styrkir votlendisvistkerfi- en ekki landbúnað.

Fæðuöryggi og markmið þjóða heimsins. Ég hef óbilandi trú á íslenskum landbúnaði og landbúnaðarafurðum. Með því að vinna að framgangi hans er einnig verið að vinna að velferð þjóðarinnar. Að geta haft tryggilegt framboð af fæðu á hverjum tíma og matvælaöryggi í fyrirrúmi eru rök sem jafnvel Samfylkingin notar. En hvernig nálgumst við það? Samkvæmt FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) verður sjálfbært fæðuöryggi þjóðar að byggja á varanlegum birgðum að nægjanlegri fæðu, markaðsvirkni og því að öllum heimilum sé kleift að nýta heimafengin mat og/eða hafa nægjanlegar tekjur til að fæða fjölskylduna. Í þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna kemur fram að fæðuöryggi þjóðanna verði ekki náð nema til komi traust efnahagslíf. Það er sorglegt, en staðreynd, að þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem sett voru vegna þróunarlandanna skuli einnig eiga við á Íslandi.

Fagurgali Samfylkingar mót staðreyndum. Í þessu ljósi er óskiljanlegt hvernig hægt er að nota útflutning landbúnaðarafurða sem rök fyrir inngöngu í ESB. Hér þarf að forgangsraða og byrja á því að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og styrkja íslenskt atvinnulíf áður en sóknin er sett í útflutning. Þegar því er náð þá er ég sammála forystumanni Samfylkingarinnar um að tækifæri íslensks landbúnaðar séu miklir. Og með heilnæmi og hreinleika afurðanna í huga eru sóknarfærin mikil og liggja m.a. í útflutningi. - En bara þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband