Enn um Icesave - siðferðisleg rök - og gamansögur

Margt hefur verið sagt og skrifað um Icesave svo það er nú eiginlega í bakkafullan lækinn að bera. Ætla  nú samt að nefna tvennt. Þeir sem telja að við eigum að samþykkja þetta óláns frumvarp ríkistjórnarinnar með sínum göllum og hættum hafa margir hverjir (reyndar  hafa alltof fáir stjórnarþingmenn reynt að rökstyðja stuðninginn) farið út á þann hála ís að telja það siðferðilega skyldu okkar. Þeir sem reynt hafa rökfræðina hafa nefnt að ríkisstjórnin haustið 2008 hafi samþykkt þetta og þess vegna sé ekki aftur snúið. Eða að saklaust fólk hafi lagt sparifé sitt inná Icesave í góðri trú. Ekki ætla ég að andæva þessu þó svo auðvitað megi benda á að þeir sem elta hæstu vexti séu að taka áhættu. Væntanlega áhættu um að tapa peningum.

Staðreyndin er auðvitað sú, að það er lagalegur vafi hvort um ríkisábyrgð hafi verið að ræða, svo það hlýtur að vera öllum augljóst að þegar um slíkt réttlæti/óréttlæti sé að ræða geti ekki leikið lagalegur vafi á greiðsluskyldu. Varðandi þá siðfræði hvort ríkisstjórn haustið 2008 -við mjög erfiðar aðstæður - geti bundið hendur okkar þingmanna haustið 2009 þegar við erum að meta hvort Ísland verði fyrir gjaldfalli/greiðsluþroti við að samþykkja frumvarp. Þá verð ég að segja að siðferðileg skylda okkar hlýtur alltaf að vera fyrst og fremst við þjóðina og landið. En ekki við að standa við einhver minnisblöð sem fyrrum forráðamenn þjóðarinnar gerðu í ofstopa stormi þar sem hinn kapatalistíski heimur hélt að nú væri komið að Ragnarökum.

Ein rök stuðningsmanna Icesave-samningsins eru þau að sennilega komumst við í gegnum þetta þrátt fyrir að súrt sé að greiða óreiðuskuldir annarra. Upphæðin sé ekki hærri en svo - og þá gefa menn sér eitt og annað um hagstærðir næstu 5-10-20 árin bæði á Íslandi og í Bretlandi, eins og gengi krónunnar, skil á eignum Landsbankans, hagvöxt, gjaldeyrishagnað viðskipta osfr. -  Segjum nú svo að allt fari á besta veg, vaxtagreiðslan (100 milljónir á dag í allaveganna 7 ár!!! reyndar bítur í!) verði eins lágir og hægt sé og skilin eins há og hugsast getur þannig að við greiðum bara 200-250 milljarða - og getum þá verið þjóð meðal þjóða í alþjóðasamfélaginu. Eru þetta ekki rök með því að við eigum að greiða??  Nei segi ég, það getur verið að getum staðið slíkt af okkur við allra bestu skilyrði. En jafngildir það því að við eigum að greiða? - engin lagalegur vafi eða annars konar efi. Hvað ef upphæðin hefði upphaflega verið 7000 milljarðar en ekki 700 milljarðar sem Icesave skuldin virtist vera upphaflega.

Þá segja allir nei þá er það augljóst að við getum ekki greitt og eigum ekki. Er ekki rétt að geta snúið rökfræðinni við. Fyrst og fremst þarf að liggja fyrir hvort engin vafi leiki á greiðsluskyldu og síðan hver greiðslan/skuldbindingin er. Þá fyrst getum við þingmenn tekið ákvörðun um hvort þetta hörmulega Icesave klúður/frumvarp eigi að fara í gegnum þingið.

Svo aðeins sé endað á léttum nótum þá var bloggskrifari á frábærum tónleikum í gærkveldi á Selfossi - Hátíð í bæ - . Þar kom meðal annarra fram stórsnillingurinn Egill Ólafsson. Í einni kynningu sinni milli laga sagi hann frá því að 1463 hefði bresk skonnorta ráðist á skip frá Íslandi sem hefði m.a. haft umborð skatttekjur Íslendinga síðastliðin 7 ár og hirt þær. Tillaga meistara Egils var að nú myndum við innheimta þær og jafna á móti Icesave.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband