Hver er ég?

Ég er 46 ára gamall Árnesingur en foreldar mínir voru Jóhann Pálsson (f. 7.mars 1939, d. 28. nóvember 1987) og Hróðný Sigurðardóttir (f. 17. maí 1942 d. 28. nóvember 1987) bændur í Dalbæ, Hrunamannahreppi. Ég á þrjú systkini, Arnfríður og Páll búa bæði kúabúi með mökum og fjölskyldu, Arnfríður að Dalbæ og Páll í Núpstúni. Margrét, litla systir býr í Reykjavík með manni sínum og barni.

Ég bý að Syðra-Langholti með Elsu Ingjaldsdóttur (f. 9. maí 1966) framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Foreldrar hennar eru Ingjaldur Ásvaldsson (f. 27. ágúst 1940) og Guðbjörg Elíasdóttir (f. 4. október 1946). Samtals eigum við fimm börn, það yngsta 12 ára.

Börn mín og fyrri konu minnar, Önnu Kr. Ásmundsdóttur, eru Nanna Rún (1983), Jóhann Halldór (1990) og Bergþór Ingi (1992). Börn Elsu eru Sölvi Már (1990) og Hildur Guðbjörg (1996). Ég á einnig tengdason, Eyþór Sigurðsson og eitt barnabarn, gullmolann Óskar Inga (2007)

Ég  er dýralæknir að mennt og hef aðallega starfað sem sjálfstætt starfandi dýralæknir á Suðurlandi.

Ég ólst upp í Dalbæ í Hrunamannahreppi þar sem foreldrar mínir voru bændur. Örlögin höguðu því þannig til að þau féllu frá í hörmulegu bílslysi þegar ég átti um eitt ár eftir af námi mínu. Verandi elstur fjögurra systkina tók ég mér námsleyfi og rak búið með fjölskyldunni í tæpt ár og svo aftur í fimm ár að námi loknu.

Í störfum mínum sem dýralæknir á árunum 1992-1994 var ég settur héraðsdýralæknir bæði í Hreppa- og Laugarásumdæmi í afleysingum svo og eitt haust í V-Barðastrandarumdæmi.

Ég var kjörinn í hreppsnefnd Hrunamannahrepps árið 1994 og hef setið  í sveitarstjórn síðan, frá 2002 sem oddviti í hlutastarfi.

Ég hef alla tíð haft brennandi áhuga á þjóðmálum og þekki því vel til stjórnsýslu og stjórnkerfis Íslands,  ekki síst landbúnaðarins og landsbyggðarinnar.

Í tómstundum mínum er það hestamennskan sem tekur mestan tíma. Þar eru bestu samverustundirnar með fjölskyldunni allri. Hestaferðir að sumri til eru fastur liður í tilverunni þar sem fer saman góður félagsskapur manna og hrossa. Í Syðra-Langholti samanstendur bústofninn af þó nokkrum reiðhestum, einum hundi og þremur köttum. Ég hef einnig mjög gaman af söng og hef verið í Karlakór Hreppamanna frá því 1999. Á árum áður stundaði ég fjölmargar íþróttir t.d.  fótbolta, körfubolta, blak, frjálsar og bridge. Bæði sem keppni en líka til heilsubótar. Í dag er ég áhugamaður um allar íþróttir en stunda þær full lítið sjálfur.

Tómstundir mínar hafa síðustu árin samt sem áður  helgast af einlægum áhuga að efla nærsamfélagið og landsbyggðina. Þannig hef ég verið svo heppinn að geta sameinað vinnu og áhugamál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ingi

Til lukku með nýja bloggið.  Þetta er góð síða.  Nú er ég sannfærður um að við Íslendingar þurfum engu að kvíða lengur.  Traustur og skynsamur maður á leið á þing og í landsstjórnina.

Gangi þér sem allra best.

Gylfi

Gylfi Gísla (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband