3. grein um sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins


Sigurður Ingi Jóhannsson
Nýlega fjallaði undirritaður um nýja sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins í tveimur greinum í Morgunblaðinu. Þær fjölluðu annars vegar um meginatriði ályktunar 31. flokksþings framsóknarmanna og hins vegar um nýtingarsamninga - svokallaða samningaleið í úthlutun aflaheimilda á grunni aflahlutdeildar á skip. Í þessari grein verður hinsvegar farið nánar ofan í svokallaðan Pott 2 þar sem við leggjum til að veiðiheimildum verði úthlutað með öðrum hætti en í aflahlutdeildarkerfinu.

 

Úthlutun til fiskvinnsla

 

Þar er fyrst til að taka byggðaívilnun sem byggist á að úthluta til fiskvinnsla, fyrst og fremst þar sem það á við, ákveðnu magni aflaheimilda til að tryggja atvinnu og m.t.t. byggðasjónarmiða.

 

Fiskvinnslan fengi þannig úthlutaðar aflaheimildir eftir ákveðnum reglum sem m.a. tæku mið af vinnslu ársins á undan auk atvinnuástands byggðarinnar og semdi síðan við einstakar útgerðir um veiðarnar. Með þessum hætti má tryggja með öruggari hætti en nú er að svokallaður byggðakvóti gangi allur til að tryggja vinnu í landi í því byggðarlagi sem viðkomandi fiskvinnsla er.

 

Ferðaþjónustuveiðar

 

Í öðru lagi er lagt til að í Potti 2 séu þeim aðilum tryggðar aflaheimildir sem stunda svokallaðar frístundaveiðar, sjóstangveiði og slíkt. Við framsóknarmenn leggjum til að þessi hluti Potts 2 verði kallaður ferðaþjónustuveiðar og að þeim aðilum sem þær stunda verði tryggð aflahlutdeild með því að landa aflanum sem AVS-afla. Með þessari ráðstöfun getur þessi unga atvinnugrein dafnað á eigin forsendum en er ekki takmörkuð af því að eiga eða leigja kvóta. Ferðaþjónustuveiðar eru mikilvægur vaxtarbroddur í einstökum sjávarbyggðum í dag og hafa mikla möguleika til að dafna enn frekar og stækka.

 

Nýsköpun

 

Í þriðja lagi leggur Framsókn mikla áherslu á að efla nýsköpun í sjávarútvegi. Ein leið til þess er að úthluta veiðileyfum til aðila sem vilja nýta van- eða ónýttar tegundir. Hugsunin er að úthlutunin verði að einhverju leyti í formi meðaflareglna en einnig að úthlutað verði aflaheimildum til slíkra aðila til að tryggja rekstrargrundvöll, t.a.m. á ársgrundvelli, á meðan verið er að byggja upp þekkingu á veiðum og vinnslu. Nýsköpunarpottinum er einnig ætlað að stuðla að vexti fiskeldis, (t.d. þorsks, lúðu, lax, o.fl.) sem er mikilvægur vaxtarbroddur, sem og ræktun, t.d. kræklingarækt. Nýsköpun yrði einnig styrkt beint með fjárframlögum úr sjóðum sem verða til með veiðigjaldi eða svokölluðu auðlindagjaldi. Miklir möguleikar felast í nýsköpun hvort sem um er að ræða betri nýtingu van- eða ónýttra tegunda eða fiskeldi og rækt. Nefna má sem dæmi að fiskeldi Norðmanna skilar um einni milljón tonna í dag og stefna þeirra er að auka það um 50-100% á næstu 10-15 árum. Aðstæður hérlendis eru síst lakari.

 

Nýliðun - strandveiðar

 

Síðast en ekki síst er tillaga okkar að hluti af Potti 2 verði nýttur til úthlutunar aflaheimilda til svokallaðra strandveiða sem við viljum nefna nýliðunar-strandveiðar. Megintilgangur strandveiða er að auðvelda nýliðun og tryggja rétt einstaklingsins til veiða. Þannig má hver aðili einungis halda á einu strandveiðileyfi. Úthlutun til svæða verður miðuð við fjölda báta. Landinu verður skipt upp í fjögur svæði eftir landshlutum. Heimildunum verður dreift á báta í stað daga og reglum um sóknardaga aflétt. Bátar með kvóta umfram 50 þorskígildistonn fái ekki strandveiðileyfi en bátar án kvóta fái 100% rétt. Rétturinn rýrni í hlutfalli við keyptan nýtingarrétt. Þegar bátur hefur eignast 50 tonna rétt skilar hann inn leyfinu til ríkisins. Leyfinu verður þá endurúthlutað. Þannig verður um að ræða hvata fyrir strandveiðibáta til að kaupa sig inn í Pott 1 og þar með hleypa nýjum aðilum inn í strandveiðikerfið.

 

Stærð á Potti 2

 

Tillögur okkar framsóknarmanna ganga út á að koma með kröftugri hætti til móts við byggðasjónarmið, nýliðun, nýsköpun og aðra vaxtarbrodda í greininni. Núverandi tilfærslur eru 3,5% af heildarþorskígildum og mjög mismunandi eftir tegundum allt frá 0-10%. Framsóknarflokkurinn leggur til að samhliða stofnstærðaraukningu einstakra tegunda vaxi Pottur 2 á allra næstu árum þannig að af tegundum sem engin tilfærsla er á í dag verði hann 3-5% og af öðrum stofnum allt að 10%. Stefnt verði að því að Pottur 2 vaxi enn frekar, í allt að 15% í einstökum tegundum, samhliða stofnstærðaraukningu og að því gefnu að reynslan af úthlutun veiðiheimilda úr Potti 2 sé jákvæð. Með þessum tillögum leggur Framsóknarflokkurinn sitt lóð á vogarskálar sáttar um eina mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Innan þessa ramma getur atvinnugreinin dafnað, nýsköpun blómstrað, auðlindarentan vaxið og nýliðun er gerð auðveldari.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband