Ekki ef farin er leið Framsóknarflokksins

Mikill ágreiningur hefur risið um frumvörp ríkisstjórnarinnar. Svo virðist sem enginn sé sáttur og það sem verra er allflestir mjög ósáttir. Það virðist því vera þannig að ríkisstjórninni hafi mistekist að nýta það gullna tækifæri að ná sögulegri sátt um atvinnugreinina. Sátt sem virtist - ótrúlegt en satt - hægt að ná á grundvelli samráðsnefndar ráðherra sem lauk störfum í september í fyrra.

Birti hér grein mína um stefnu Framsóknarflokksins hvað varðar nýtingarsamninganna. En hún birtist í mbl í vikunni.

Grein II - Nýtingarsamningar 
Fyrir skömmu fjallaði ég, í grein hér í Morgunblaðinu, um meginatriði í nýrri sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins, en þar er lagt til að farin verði blönduð leið í stjórnun fiskveiða. Annars vegar byggist sú leið á grunni núverandi kerfis um aflahlutdeild á skip með samningum um nýtingu auðlindarinnar. Það er samdóma álit langflestra fræði- og fagmanna að kerfið hafi reynst vel, bæði m.t.t. hagstjórnar sem og verndunar fiskistofna. Framsókn leggur því til að það verði áfram grundvöllur fiskveiðistjórnunar og grunnur að sívaxandi arðsemi greinarinnar.

Hinsvegar er lagt til nýtt fyrirkomulag úthlutana þar sem sérstaklega skal gætt byggðasjónarmiða m.a. með úthlutun aflaheimilda til fiskvinnsla, strandveiða og annarra aðgerða sem einnig auka möguleika á nýliðun í greininni. Í tillögum Framsóknar er sérstaklega ýtt undir nýsköpun bæði með tilliti til veiða m.a. á van- eða ónýttum tegundum en einnig með frekari fullnýtingu hráefnis, fiskeldi og rækt, t.d. kræklingarækt.

 

Úthlutun á grunni samninga

Tillaga Framsóknar um úthlutun veiðiheimilda á grunni aflahlutdeildar sem byggist á því að gera nýtingarsamninga við útgerðina, er útfærsla á samningaleiðinni sem sögulegt samkomulag náðist um í samráðsnefnd ráðherra um sáttaleið í sjávarútvegi. Tillagan byggist á að samningar verði gerðir á milli ríkisins og íslenskra aðila með búsetu á Íslandi, hið minnsta síðustu fimm ár. Slíkt ákvæði gæti tryggt raunverulegt eignarhald Íslendinga á auðlindinni. Við leggjum til að samningstíminn verði u.þ.b. 20 ár og verði endurskoðanlegur á fimm ára fresti með framlengingarákvæði til fimm ára í senn. Það þýðir að atvinnugreinin mun búa við stöðugleika í starfsumhverfi til lengri tíma eða minnst 20 ár. Sambærilegir samningar tíðkast m.a. við Nýfundnaland. Vilji menn framlengja samninginn á fimm ára fresti skapast einnig aðstæður fyrir ríkisvaldið til að bregðast við breyttum aðstæðum.

 

Innihald nýtingarsamninga

Framsóknarmenn leggja til að nýtingarsamningurinn innihaldi m.a. ákvæði um aukna veiðiskyldu og takmarkað framsal. Um veiðiskylduna er víðtæk sátt. Þegar rætt er um takmarkað framsal er átt við að tryggja skuli ákveðinn sveigjanleika, t.a.m. flutning aflaheimilda milli skipa sömu útgerðar, milli ára og svo framvegis. Þegar horft er til framtíðar þarf að tryggja hreyfingu á aflaheimildum með varanlegu fyrirkomulagi. Þar með skapast bæði svigrúm til nýliðunar en einnig aðstæður til að þau fyrirtæki sem standa sig vel geti vaxið og dafnað. Einnig er lagt til að settar verði enn frekari takmarkanir við óbeinni veðsetningu aflaheimilda og þannig leitað leiða til að draga úr veðsetningu greinarinnar. Við núverandi efnahagsástand og skuldaaðstæður einstakra útgerða teljum við rétt að setja ákvæði í samninginn sem tryggi að ef útgerð verður gjaldþrota falli aflahlutdeildin aftur til ríkisins. Það sama á auðvitað við sé samningurinn brotinn.

 

Sameign þjóðarinnar

Nauðsynlegt er að skýra og skilgreina hvað hugtakið „sameign þjóðarinnar“ þýðir. Málið er ekki einfalt. Lögskilgreining á hugtakinu „sameign þjóðarinnar“ er ekki til og því þarf að skilgreina hugtakið eða koma fram með annað betra.

Í tillögum Framsóknar er lagt til að úthlutun aflaheimilda og nýtingarsamningar um þær byggist á að stjórnvöld fari með eignarréttinn á auðlindinni (fullveldisréttur) og geti með samningum falið öðrum nýtingarréttinn til ákveðins tíma og magns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Einnig tryggir það eignarrétt þjóðarinnar að fyrir nýtingarsamningana skal greitt gjald, veiðigjald eða auðlindagjald til ríkisins.

Með því að taka á þeim göllum sem hvað mest gagnrýni á núverandi kerfi hefur snúist um, en byggja jafnframt á kostum þess er varðar hagstjórn og stofnvernd, viljum við tryggja að sjávarútvegur verði áfram ein mikilvægasta atvinnugrein landsins. Þannig verður tryggt, með nýtingarsamningum og auðlindagjaldi, að eðlilegt gjald renni til eiganda auðlindarinnar – þjóðarinnar. Og forsenda þess er stöðuleiki í starfsumhverfi greinarinnar.

Höfundur er alþingismaður


mbl.is „Ávísun á áralangar deilur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband