Atvinnuleysi hærra en tölur sýna

Á það hefur verið bent að nú hafi þó nokkur hópur dottið út af skrá vegna langtímaatvinnuleysis ( meir en 3 ár). Jafnframt að milli 6000-7000 þúsund manns hafi flutt erlendis. Þá er ótalin sá hópur sem vinnur erlendis í skorpum en býr hér enn.

Bendi einnig á grein sem birtist í MBL . í gær um hættuna tengda langtímaatvinnuleysi og skorti á raunverulegum úrræðum fyrir skuldsett heimili. - greinin fer hér á eftir -

Að læra af reynslu annarra 

Á fyrstu mánuðum 2009 voru skrifaðar margar lærðar greinar og haldnar ráðstefnur um afleiðingar hrunsins á ýmsa þætti samfélagsins.  Þar kom m.a. fram að við gætum lært af Finnum hvernig þeir tóku á bankahruninu hjá sér í upphafi 10. áratugs síðustu aldar. Einnig var fjallað um reynslu Færeyinga af þeirra kreppu á miðjum tíunda áratugnum. 

En hvernig hefur okkur gengið nú 24 mánuðum eftir bankahrunið. Lærðum við af reynslu nágranna okkar og vina?

Reynsla Finna

 Bent hefur verið á að Finnar tóku seint á afleiðingum hrunsins. Harður niðurskurður m.a. á  heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu fyrstu árin varð til þess að stór hópur ungs fólks datt út úr skólakerfinu, varð atvinnulaus og lenti á glapstigum. Velferðarkerfið laskaðist, atvinnuleysi jókst sífellt og niðurskurðar þörfin varð æ meiri – sem sagt vítahringur. Þegar Finnar uppgötvuðu að leiðin út úr kreppunni væri fjárfesting í atvinnulífinu m.a. í þekkingariðnaði til að auka hagvöxt og stækka hagkerfið höfðu þeir tapað dýrmætum tíma sem hafði þau áhrif að stór hluti heillar kynslóðar datt út úr menntakerfinu og varð langtíma atvinnulaus með tilheyrandi félagslegum vandamálum.

Höfum við lært að reynslu Finna?  Því miður verður svarið nei. Nú tveimur árum eftir hrun erum við í mesta niðurskurði á velferðarkerfinu samkvæmt efnahagsáætlun áætlun ríkisstjórnarinnar og  Alþjóðagjaldeyrirsjóðsins.  Atvinnu uppbyggingin bíður vegna stefnuleysis ríkisstjórnar og hagvextinum seinkar. Með öðrum orðum sami vítahringurinn og Finnar lentu í.

Reynsla Færeyinga

Alvarlegasta afleiðingin af bankakreppunni  í Færeyjum var stórfelldur fólksflótti ungs fólks. Talið var að um einn þriðji kynslóðarinnar 25-40 ára hafi flutt úr landi og lítill hluti þeirra hefur snúið aftur nú fimmtán árum eftir hrun. Þó tókst Færeyingum ótrúlega vel að snúa mjög djúpri kreppu við á undraskjótum tíma  m.a með stóraukinni nýtingu sjávarauðlindarinnar.  Hér á landi hefur komið í ljós að  kynslóðin 25-40 ára er sú skuldsettasta  og á í mestum erfiðleikum með að ná endum saman. Jafnframt er þetta sú kynslóð sem hefur mesta möguleika á að starfa erlendis m.a. vegna góðrar menntunar. Nauðsynleg skuldaleiðrétting á lánunum þeirra er hundsuð af ríkisvaldinu, bönkum og lífeyrissjóðum.  Talið er að milli sex og sjö þúsund manns séu flutt úr landi en þar fyrir utan er þó nokkur hópur sem sækir vinnu erlendis en býr hér enn.  Þó nokkrir úr þessum hópi hafa tjáð sig að undanförnu um að þeir sjái ekki hvernig þeir eigi að klífa skuldavegginn og eru að gefast upp á Íslandi. Spurningin er því hrópandi, erum við á sömu leið og Færeyingar?

Tilraunaglasið

Á það hefur verið bent m.a í bíómynd sem sýnd hefur verið vestanhafs að undanförnu að Ísland sé eins og tilraunastofa í hagfræði vegna smæðar sinnar. Jafnframt að okkar bankahrun sé örmynd af því Bandaríska og því áhugavert  fyrir þá hvernig okkur gangi í endurreisninni.  Obama stjórnin dældi fjármagni út í samfélagið á síðasta ári - u.m.þ. 3% af landsframleiðslu – margir hagfræðingar hrósuðu framkvæmdinni  en töldu ekki nógu langt gengið, meira þyrfti til að koma atvinnulífinu og neyslunni í gang. Nokkrir mikilsvirtir hagfræðingar eins og J. Stieglitz og N. Rubini hafa haldið því fram að afskrifa þyrfti skuldir heimila og ganga rösklegar til verks. Ellegar væri hætta á að vítahringur samdráttar – minni neyslu – meira atvinnuleysis myndi dýpka.

 Hvað er til ráða

Við þurfum að snúa spíralnum við - leysa upp vítahringinn.  Í stað þess að stefna á samdrátt, niðurskurð og skattahækkanir- eins og ríkisstjórn VG og Samfylkingar stefnir á -  ættum við að gera allt sem við getum til að auka atvinnu og þar með neysluna. Við eigum að nýta auðlindir okkar jafnt orku, lands- og sjávargæði en ekki síst mannauðinn, þekkinguna. Við eigum að stefna á að á Íslandi sé fjölbreytt atvinnulíf sem byggi á sérstöðu landsins, menningu og krafti fólksins. Verkefni ríkisvaldsins er að skapa aðstæður til að örva atvinnulífið, efla  nýsköpun og stuðla að erlendri fjárfestingu.

Við eigum að hafa kjark til að fara erfiðar en réttlátar og skynsamar leiðir í skuldaleiðréttingu. Þar getur vilji bankamanna ekki ráðið stefnunni.

Við höfum enn tíma – en hann fer minnkandi . Tökum af skarið nú þegar og sýnum að við getum lært af reynslu annara.  Tækifærin eru til staðar.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson

alþingismaður Framsóknarflokks


mbl.is Þúsund manns hafa misst réttindi til bóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað gerir maður sem er sviptur öllum bótum.. Ég get ekki séð að það sé neitt ístöðunni nema það að skella sér í innbrot og svoleiðis, svona ef menn vilja ekki flýja land

doctore (IP-tala skráð) 17.11.2010 kl. 10:39

2 identicon

Menn sem eru sviptir bótum og eru heilir heilsu geta flestir fengið vinnu ef þeir kæra sig um. Því þrátt fyrir háar atvinnuleysistölur þá segjast vinnuveitendur ekki fá fólk í láglaunastörf.

Stóra vandamálið er að fjárhagsleg afkoma breytist sáralítið við að vinna þessi störf miðað við að vera á bótum og þess vegna reyna margir að hanga sem lengst á bótunum á meðan þeir fá ekki hærra launað starf.

Magnús Ó. (IP-tala skráð) 17.11.2010 kl. 11:33

3 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Sæll Sigurður Ingi og takk fyrir þessa grein hún er góð og sínir stöðuna eins og hún er, ég er sammála þér í því að það verður að gera breytingu og það strax...

Varðandi þessar tölur þá er ég sammála því að þær sína ekki rétta mynd, og væri gott ef einhver gæti kannað hver rétt tala er hjá þeim sem eru atvinnulausir í heildina en ekki bara þá sem eru skráðir í hvert og eitt skipti sem könnun er gerð...

Það er ósköp skiljanlegt að það fáist ekki fólk í þessi láglaunastörf Magnús Ó. einfaldlega vegna þess að bæturnar eru ekki að duga til mánaðar framfærslu hjá fólk sem er ekki að vinna, það sína biðraðirnar hjá matarúthlutunar hjálparsofnunum okkur, og hafi þær þökk fyrir starf sitt sitt, það veit það hver heilhugsa maður að það eru alskonar útgjöld sem fylgja því að vinna úti, og þegar svo er komið hjá fólki að það standi frammi fyrir því hvort það eigi að setja það í fyrirrúm og forgang að komast til vinnu kannski hálfan mánuðinn eða svo og þá er allur peningur búinn þá er verið að setja fólk í afar erfiða siðferðislega stöðu finnst mér....

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 17.11.2010 kl. 12:47

4 identicon

"Jógríma" gegn fólkinu. Svo bæta má bæta við að Finnar eru ennþá ekki búnir að bíta úr nálinni, út af þessum hagfræðilegu mistökum.

Hrúturinn (IP-tala skráð) 17.11.2010 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband