Vinnubrögðin eru forkastanleg

Allt frá því að frumvörp ríkisstjórnar Samfylkingar og VG um sjávarútvegsmál litu loks ljós hefur enginn talað fyrir þeim. Enginn stjórnarliði hefur talað af sannfæringarkrafti um að "þetta sé akkúrat málið". Hinsvegar hafa margir sett ýmislega fyrirvara við hugsanlegan stuðning - talið að ýmsum greinum þurfi að breyta eða jafnvel fella út úr frumvarpinu.

Þá hefur það verið sérstakt að sjá þó nokkra þingmenn og jafnvel ráðherra talað fyrir að sjávarútvegsstefna Framsóknarflokksins gæti verið grunnur að sátt - almennri sátt á þingi og vonandi meðal þjóðar um þessa mikilvægu atvinnugrein. Sérstakt vegna þess að það væri þeim þá í lófa lagið að leita eftir því að breyta núverandi frumvarpi í þá átt. En einnig vegna þess að í mörgum grundvallar atriðum er himin og haf á milli hugmyndum okkar Framsóknarmanna og tillögum ríkisstjórnarflokkanna.

Það er hinsvegar rétt hjá þeim stjórnarþingmönnum að tillögur okkar Framsóknarmanna sem voru samþykktar á síðasta flokksþingi eru mjög góðar og gætu verið grunnur að víðtækri sátt um stjórn fiskveiða. Slík sjónarmið hafa jafnframt komið fram hjá þó nokkrum umsagnaraðilum sem hafa komið fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Við Framsóknarmenn erum að sjálfsögðu tilbúnir til slíkra viðræðna. Við munum leggja fram í dag þingsályktun um að efna eigi til víðtækrar samvinnu og samráðs um að móta nýja stefnu á grundvelli tillagna okkar.

Það gengur hinsvegar ekki að ana  áfram eins og ríkisstjórnin hefur gert í þessu máli. Á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar alþingis í morgun kom fram hjá Hafrannsóknastofnum að þeir hefðu haft einn dag til að gera umsögn sína. Landhelgisgæslan sagði að of stuttur tími hefði gefist til að gefa nefndinni tölulegar upplýsingar. ASÍ sagði að grundvöllur málefnalegrar umræðu og samráðs væri eðlilegur tími og forsenda sáttar.

Enginn umsagnaraðili er jákvæður en flestir mjög neikvæðir og benda á hugsanleg stjórnarskrár brot m.a..

Lausnin er auðvitað sú að setjast yfir hvað breytingar sé hægt að gera - sem séu skynsamlegar og hafi víðtækan stuðning í þinginu. Öðrum hugmyndum verði vísað til samráðs og samvinnu seinna í sumar/haust og vetur vegna vinnu við hið "stærra" frumvarp.


mbl.is „Þetta er ekki hægt"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

3. grein um sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins


Sigurður Ingi Jóhannsson
Nýlega fjallaði undirritaður um nýja sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins í tveimur greinum í Morgunblaðinu. Þær fjölluðu annars vegar um meginatriði ályktunar 31. flokksþings framsóknarmanna og hins vegar um nýtingarsamninga - svokallaða samningaleið í úthlutun aflaheimilda á grunni aflahlutdeildar á skip. Í þessari grein verður hinsvegar farið nánar ofan í svokallaðan Pott 2 þar sem við leggjum til að veiðiheimildum verði úthlutað með öðrum hætti en í aflahlutdeildarkerfinu.

 

Úthlutun til fiskvinnsla

 

Þar er fyrst til að taka byggðaívilnun sem byggist á að úthluta til fiskvinnsla, fyrst og fremst þar sem það á við, ákveðnu magni aflaheimilda til að tryggja atvinnu og m.t.t. byggðasjónarmiða.

 

Fiskvinnslan fengi þannig úthlutaðar aflaheimildir eftir ákveðnum reglum sem m.a. tæku mið af vinnslu ársins á undan auk atvinnuástands byggðarinnar og semdi síðan við einstakar útgerðir um veiðarnar. Með þessum hætti má tryggja með öruggari hætti en nú er að svokallaður byggðakvóti gangi allur til að tryggja vinnu í landi í því byggðarlagi sem viðkomandi fiskvinnsla er.

 

Ferðaþjónustuveiðar

 

Í öðru lagi er lagt til að í Potti 2 séu þeim aðilum tryggðar aflaheimildir sem stunda svokallaðar frístundaveiðar, sjóstangveiði og slíkt. Við framsóknarmenn leggjum til að þessi hluti Potts 2 verði kallaður ferðaþjónustuveiðar og að þeim aðilum sem þær stunda verði tryggð aflahlutdeild með því að landa aflanum sem AVS-afla. Með þessari ráðstöfun getur þessi unga atvinnugrein dafnað á eigin forsendum en er ekki takmörkuð af því að eiga eða leigja kvóta. Ferðaþjónustuveiðar eru mikilvægur vaxtarbroddur í einstökum sjávarbyggðum í dag og hafa mikla möguleika til að dafna enn frekar og stækka.

 

Nýsköpun

 

Í þriðja lagi leggur Framsókn mikla áherslu á að efla nýsköpun í sjávarútvegi. Ein leið til þess er að úthluta veiðileyfum til aðila sem vilja nýta van- eða ónýttar tegundir. Hugsunin er að úthlutunin verði að einhverju leyti í formi meðaflareglna en einnig að úthlutað verði aflaheimildum til slíkra aðila til að tryggja rekstrargrundvöll, t.a.m. á ársgrundvelli, á meðan verið er að byggja upp þekkingu á veiðum og vinnslu. Nýsköpunarpottinum er einnig ætlað að stuðla að vexti fiskeldis, (t.d. þorsks, lúðu, lax, o.fl.) sem er mikilvægur vaxtarbroddur, sem og ræktun, t.d. kræklingarækt. Nýsköpun yrði einnig styrkt beint með fjárframlögum úr sjóðum sem verða til með veiðigjaldi eða svokölluðu auðlindagjaldi. Miklir möguleikar felast í nýsköpun hvort sem um er að ræða betri nýtingu van- eða ónýttra tegunda eða fiskeldi og rækt. Nefna má sem dæmi að fiskeldi Norðmanna skilar um einni milljón tonna í dag og stefna þeirra er að auka það um 50-100% á næstu 10-15 árum. Aðstæður hérlendis eru síst lakari.

 

Nýliðun - strandveiðar

 

Síðast en ekki síst er tillaga okkar að hluti af Potti 2 verði nýttur til úthlutunar aflaheimilda til svokallaðra strandveiða sem við viljum nefna nýliðunar-strandveiðar. Megintilgangur strandveiða er að auðvelda nýliðun og tryggja rétt einstaklingsins til veiða. Þannig má hver aðili einungis halda á einu strandveiðileyfi. Úthlutun til svæða verður miðuð við fjölda báta. Landinu verður skipt upp í fjögur svæði eftir landshlutum. Heimildunum verður dreift á báta í stað daga og reglum um sóknardaga aflétt. Bátar með kvóta umfram 50 þorskígildistonn fái ekki strandveiðileyfi en bátar án kvóta fái 100% rétt. Rétturinn rýrni í hlutfalli við keyptan nýtingarrétt. Þegar bátur hefur eignast 50 tonna rétt skilar hann inn leyfinu til ríkisins. Leyfinu verður þá endurúthlutað. Þannig verður um að ræða hvata fyrir strandveiðibáta til að kaupa sig inn í Pott 1 og þar með hleypa nýjum aðilum inn í strandveiðikerfið.

 

Stærð á Potti 2

 

Tillögur okkar framsóknarmanna ganga út á að koma með kröftugri hætti til móts við byggðasjónarmið, nýliðun, nýsköpun og aðra vaxtarbrodda í greininni. Núverandi tilfærslur eru 3,5% af heildarþorskígildum og mjög mismunandi eftir tegundum allt frá 0-10%. Framsóknarflokkurinn leggur til að samhliða stofnstærðaraukningu einstakra tegunda vaxi Pottur 2 á allra næstu árum þannig að af tegundum sem engin tilfærsla er á í dag verði hann 3-5% og af öðrum stofnum allt að 10%. Stefnt verði að því að Pottur 2 vaxi enn frekar, í allt að 15% í einstökum tegundum, samhliða stofnstærðaraukningu og að því gefnu að reynslan af úthlutun veiðiheimilda úr Potti 2 sé jákvæð. Með þessum tillögum leggur Framsóknarflokkurinn sitt lóð á vogarskálar sáttar um eina mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Innan þessa ramma getur atvinnugreinin dafnað, nýsköpun blómstrað, auðlindarentan vaxið og nýliðun er gerð auðveldari.




Ekki ef farin er leið Framsóknarflokksins

Mikill ágreiningur hefur risið um frumvörp ríkisstjórnarinnar. Svo virðist sem enginn sé sáttur og það sem verra er allflestir mjög ósáttir. Það virðist því vera þannig að ríkisstjórninni hafi mistekist að nýta það gullna tækifæri að ná sögulegri sátt um atvinnugreinina. Sátt sem virtist - ótrúlegt en satt - hægt að ná á grundvelli samráðsnefndar ráðherra sem lauk störfum í september í fyrra.

Birti hér grein mína um stefnu Framsóknarflokksins hvað varðar nýtingarsamninganna. En hún birtist í mbl í vikunni.

Grein II - Nýtingarsamningar 
Fyrir skömmu fjallaði ég, í grein hér í Morgunblaðinu, um meginatriði í nýrri sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins, en þar er lagt til að farin verði blönduð leið í stjórnun fiskveiða. Annars vegar byggist sú leið á grunni núverandi kerfis um aflahlutdeild á skip með samningum um nýtingu auðlindarinnar. Það er samdóma álit langflestra fræði- og fagmanna að kerfið hafi reynst vel, bæði m.t.t. hagstjórnar sem og verndunar fiskistofna. Framsókn leggur því til að það verði áfram grundvöllur fiskveiðistjórnunar og grunnur að sívaxandi arðsemi greinarinnar.

Hinsvegar er lagt til nýtt fyrirkomulag úthlutana þar sem sérstaklega skal gætt byggðasjónarmiða m.a. með úthlutun aflaheimilda til fiskvinnsla, strandveiða og annarra aðgerða sem einnig auka möguleika á nýliðun í greininni. Í tillögum Framsóknar er sérstaklega ýtt undir nýsköpun bæði með tilliti til veiða m.a. á van- eða ónýttum tegundum en einnig með frekari fullnýtingu hráefnis, fiskeldi og rækt, t.d. kræklingarækt.

 

Úthlutun á grunni samninga

Tillaga Framsóknar um úthlutun veiðiheimilda á grunni aflahlutdeildar sem byggist á því að gera nýtingarsamninga við útgerðina, er útfærsla á samningaleiðinni sem sögulegt samkomulag náðist um í samráðsnefnd ráðherra um sáttaleið í sjávarútvegi. Tillagan byggist á að samningar verði gerðir á milli ríkisins og íslenskra aðila með búsetu á Íslandi, hið minnsta síðustu fimm ár. Slíkt ákvæði gæti tryggt raunverulegt eignarhald Íslendinga á auðlindinni. Við leggjum til að samningstíminn verði u.þ.b. 20 ár og verði endurskoðanlegur á fimm ára fresti með framlengingarákvæði til fimm ára í senn. Það þýðir að atvinnugreinin mun búa við stöðugleika í starfsumhverfi til lengri tíma eða minnst 20 ár. Sambærilegir samningar tíðkast m.a. við Nýfundnaland. Vilji menn framlengja samninginn á fimm ára fresti skapast einnig aðstæður fyrir ríkisvaldið til að bregðast við breyttum aðstæðum.

 

Innihald nýtingarsamninga

Framsóknarmenn leggja til að nýtingarsamningurinn innihaldi m.a. ákvæði um aukna veiðiskyldu og takmarkað framsal. Um veiðiskylduna er víðtæk sátt. Þegar rætt er um takmarkað framsal er átt við að tryggja skuli ákveðinn sveigjanleika, t.a.m. flutning aflaheimilda milli skipa sömu útgerðar, milli ára og svo framvegis. Þegar horft er til framtíðar þarf að tryggja hreyfingu á aflaheimildum með varanlegu fyrirkomulagi. Þar með skapast bæði svigrúm til nýliðunar en einnig aðstæður til að þau fyrirtæki sem standa sig vel geti vaxið og dafnað. Einnig er lagt til að settar verði enn frekari takmarkanir við óbeinni veðsetningu aflaheimilda og þannig leitað leiða til að draga úr veðsetningu greinarinnar. Við núverandi efnahagsástand og skuldaaðstæður einstakra útgerða teljum við rétt að setja ákvæði í samninginn sem tryggi að ef útgerð verður gjaldþrota falli aflahlutdeildin aftur til ríkisins. Það sama á auðvitað við sé samningurinn brotinn.

 

Sameign þjóðarinnar

Nauðsynlegt er að skýra og skilgreina hvað hugtakið „sameign þjóðarinnar“ þýðir. Málið er ekki einfalt. Lögskilgreining á hugtakinu „sameign þjóðarinnar“ er ekki til og því þarf að skilgreina hugtakið eða koma fram með annað betra.

Í tillögum Framsóknar er lagt til að úthlutun aflaheimilda og nýtingarsamningar um þær byggist á að stjórnvöld fari með eignarréttinn á auðlindinni (fullveldisréttur) og geti með samningum falið öðrum nýtingarréttinn til ákveðins tíma og magns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Einnig tryggir það eignarrétt þjóðarinnar að fyrir nýtingarsamningana skal greitt gjald, veiðigjald eða auðlindagjald til ríkisins.

Með því að taka á þeim göllum sem hvað mest gagnrýni á núverandi kerfi hefur snúist um, en byggja jafnframt á kostum þess er varðar hagstjórn og stofnvernd, viljum við tryggja að sjávarútvegur verði áfram ein mikilvægasta atvinnugrein landsins. Þannig verður tryggt, með nýtingarsamningum og auðlindagjaldi, að eðlilegt gjald renni til eiganda auðlindarinnar – þjóðarinnar. Og forsenda þess er stöðuleiki í starfsumhverfi greinarinnar.

Höfundur er alþingismaður


mbl.is „Ávísun á áralangar deilur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandinn og þreytan

Tek undir með ráðherra velferðarmála að ekki á ota börnum fremst á vígvelli - hvort sem um er að ræða stríð, pólitík eða kjarabaráttu.

Vandinn er hinsvegar að úrræðaleysi ráðherrans bitnar á börnum. Ekki síst börnum sem búa fjarri Reykjavík. Því hvort sem það er þreyta ráðherra eða eitthvað annað sem veldur þá virðist honum og ríkisstjórninni algerlega fyrirmunað að tryggja jafnræði í þjónustu ríkisins. Það að bjóða upp á ókeypis tannlækningar handa þeim sem fátækastir eru - er prýðilegt. En það gleymist alltaf hjá þessari ríkisstjórn að það býr fólk út um allt land. Því miður hafa sumir það slæmt að hafa ekki efni á tannlækningum barna sinna. - En það hefur enn síður efni á að koma sér til Reykjavíkur - taka heilan dag úr vinnu - skilja aðra fjölskyldu meðlimi eftir osfr osfr.

Alveg eins og þegar rætt var um ( og að hluta snúið ofan af) niðurskurð á grunnheilbrigðisþjónustu um land allt - þá virtist ríkisstjórn VG og Samfylkingar ekki átta sig á þeim viðbótarkostnaði sem fylgir að búa í stóru og dreifbýlu landi.

Skattastefna ríkisstjórnarinnar í álögum á eldsneyti styður enn frekar þá skoðun. En talað erum almennings samgöngur sem töfraorð - þó allir sem út á landi búa vita að ekkert kemur í staðinn fyrir einkabílinn - allaveganna ekki enn. -

Við viljum að landið sé allt í byggð. Við viljum að allir landsmenn búi við jafnræði ekki síst hvað varðar aðgangi að grunn heilbrigðisþjónustu og menntun.

Í fyrirspurn minni til velferðarráherra um kostnað við tannlækningar kom fram að til að allar grunntannlækningar væru innifaldar í sköttunum eins og aðrir sambærilegir hlutir heilbrigðiskerfisins þá þyrfti að hækka skattprósentuna um 0.85% eða um 5.9 milljarða. 

sjá svarið hér http://www.althingi.is/altext/139/s/1154.html

Erum við tilbúinn til þess?

En ríkisstjórnin og ráðherrarnir eru orðnir þreyttir og lúnir - rúnir trausti. Slík ríkisstjórn á að fara frá og hleypa ferskum hugmyndum og óþreyttu fólki að.


mbl.is Ekki á að nota börn í kjarabaráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefna Framsóknar í sjávarútvegsmálum

Birti hér grein mína um meginatriði stefnu Framsóknar í sjávarútvegsmálum sem birtist í mbl 11 mai 2011. 


Sigurður Ingi Jóhannsson: "Sjávarauðlindin er í senn gjöful og takmörkuð. Því er mikilvægt að hlúa að nýsköpun og nýliðun og skapa sátt um greinina með stefnu til lengri tíma."


Á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem haldið var Icesave-atkvæðagreiðsluhelgina í apríl síðastliðnum, var samþykkt ný stefna flokksins í sjávarútvegsmálum. Fyrir flokksþinginu lá skýrsla vinnuhóps, sem undirritaður stýrði, þar sem fram kom mat á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi – kostum þess og göllum. Þessa dagana er kallað eftir stefnu stjórnmálaflokkanna um sjávarútvegsmál. Með ályktun flokksþings hefur Framsókn lagt sínar tillögur fram. Þar er reynt að leggja fram stefnumótun sem taki mið af þrennu: Í fyrsta lagi að áfram verði starfræktur öflugur sjávarútvegur, um allt land, sem skili umtalsverðum arði til þjóðarbúsins. Sá arður verður til vegna útflutningstekna, skatttekna og veiðigjalds.
Í öðru lagi að fiskveiðistjórnunin verði áfram byggð á vísindalegum grunni. Veiðileyfum verði að meginstofni úthlutað sem aflamarki á skip og markmiðið sé að byggja upp langtíma hámarksnýtingu einstakra stofna á sjálfbærum grunni.

Í þriðja lagi verði sett lög og reglur sem tryggi betur nýliðun í sjávarútvegi, taki mið af atvinnulegum byggðasjónarmiðum, ýti undir nýsköpun og auki enn frekar arðsemi auðlindarinnar.


Meginatriði
Í þessari fyrstu grein af þremur hyggst undirritaður gera grein fyrir meginlínum í ályktun Framsóknarflokksins frá 31. flokksþingi 2011. Framsókn leggur mikla áherslu á að ná sem víðtækastri sátt meðal þjóðarinnar um atvinnugreinina. Til að nauðsynleg sátt og stöðugleiki náist þarf að móta skýra stefnu til lengri tíma. Sáttin byggist á að sníða af þá agnúa sem mestar deilur hafa snúist um. Opna þarf kerfið til að efla nýsköpun og auðvelda aðgengi nýrra aðila að útgerð. Stöðugleikinn næst annars vegar með samfélagssátt og hinsvegar með samningum um nýtingu auðlindarinnar til ákveðins tíma. Jafnframt ítrekum við nauðsyn þess að setja ákvæði í stjórnarskrá til að tryggja sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni sbr. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða – en þar stendur: Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Framsókn hafnar fyrningarleiðinni og leggur til að stjórnun fiskveiðanna verði blönduð leið. Annars vegar einskonar samningaleið á grunni aflaheimildar á skip og hinsvegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningu til nýsköpunar og til að gera nýliðun aðgengilegri. Við leggjum til að greinin greiði áfram veiðigjald, svokallaða auðlindarentu. Gjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar.
Á næstu árum má áætla að nýting náttúruauðlinda skili umtalsverðri arðsemi. Mikilvægt er að tryggja að auðlindagjaldið skili sér þangað sem til er ætlast. Gjaldið verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstuðnings innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til, t.d. til atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi svæðis og hluti í ríkissjóð. Sjávarauðlindin er í senn gjöful en takmörkuð. Því er mikilvægt að hlúa að nýsköpun bæði nýtingu nýrra tegunda, rækt og eldi eins og kræklingarækt og fiskeldi, en einnig enn frekari nýtingu hráefnis til að skapa verðmæti og auka arðsemi. Setja þarf fram efnahagslega hvata til að auka nýtingu á hráefni sem í dag er illa eða ekki nýtt. Mikilvægt er að nýta auðlindina sem skynsamlegast og byggja á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins. Stefnt skal að því að setja fram langtíma nýtingarstefnu um alla stofna sem miðist við að byggja þá upp til að þola hámarksnýtingu til langtíma. Bæði yrði um að ræða svokallaðar aflareglur en einnig heildarveiðikvóta á einstakar tegundir.


Sköpum sátt um grunnatvinnugrein þjóðarinnar
Sjávarútvegur er grunnatvinnugrein þjóðarinnar. Framsókn leggur áherslu á að sjávarútvegur er ekki bara veiðar heldur hátæknivæddur matvælaiðnaður sem byggist á öflugri og þróaðri vinnslu og markaðssetningu. Hluti af þeirri markaðssetningu er nauðsynleg gæða- og umhverfisvottun. Til að tryggja áframhaldandi forystu Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins verður að beina sjónum í vaxandi mæli beint að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda hafsins. Sjávarútvegsstefna Framsóknar er heildstæð stefna sem miðar að því að ná sem víðtækastri sátt um nýtingu auðlindarinnar. Slík sátt er nauðsynleg ef tryggja á grundvöll greinarinnar, eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni og fæðuöryggi Íslendinga til framtíðar.
Höfundur er alþingismaður.

 


Geysilega góð ráðstöfun - vegamál

Geysilega góð ráðstöfun

Síðastliðinn mánudag lét fjármálaráðherra þau orð falla „að gerð Vaðlaheiðarganga nú sé bæði þjóðhagslega, umhverfislega og byggðarlega geysilega góð ráðstöfun“. Sá sem hér skrifar vill taka undir það.

Það er þó rétt að minna ráðherrann á að samkvæmt svari þáverandi samgönguráðherra sumarið 2009 við fyrirspurn undirritaðs um arðsemi framkvæmda kom í ljós að arðsemi við gerð Vaðlaheiðarganga var talið tæp 8%. Í sama svari kom fram að arðsemi Suðurlandsvegar væri 16-21-28% eftir útfærslum.

Samkvæmt því er sú framkvæmd u.þ.b.þrisvar sinnum betri ráðstöfun  ekki síst ef tekið er t.t. tíðni alvarlegra slysa og banaslysa.

Seinna í sömu umræðu sendi ráðherra norðanmönnum góðar kveðjur en sunnlendingum tónninn. „Heimamenn (norðanmenn) hafa komið mjög myndarlega að þessu verki með söfnun hlutafjár og sýnt þannig hug sinn og þeir kvarta ekki undan því að vegtollur verði látinn borga niður verkið, enda munu þeir fá sín Vaðlaheiðargöng en kannski er álitamál um sumar aðrar framkvæmdir sem menn (sunnanmenn) vilja fá án þess að borga fyrir þær. (innansviga og leturbreyting undirritaðs)

Sama dag fékk undirritaður í hendur svar frá sama fjármálaráðherra um tekjur af Vesturlandsvegi,Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi þar sem fram kemur að markaðar tekjur til vegagerðar þar eru 1-1.5 milljarðar á ári.

Það þýðir að án veggjalda muni markaðartekjur duga til að greiða niður framkvæmdina á 15 árum. Viðbótar veggjöld muni flýta uppgreiðslu framkvæmdanna um ca. 7 ár.

Sem sagt að notendur Suðurlandsvegar greiði allan kostnað á 8 árum af framkvæmd sem á að standa í 30-40 ár !

– Geysilega sanngjarnt eða hvað fjármálaráðherra?

Stöðugleiki, sátt og framsækin atvinnustefna

Á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarmanna voru atvinnumál fyrirferðar mikil.Í aðdraganda þingsins hafði vinnuhópur undir stjórn varaformanns Birkis Jóns unnið að sérstakri skýrslu um atvinnumál. Einskonar bráðaaðgerðar verkefnum til að koma hjólum atvinnulífs í gang. Skapa störf og hagvöxt. 

Jafnframt var kynnt til sögunnar niðurstaða vinnuhóps um sjávarútvegsmál sem undirritaður hafði stýrt síðastliðið ár. Miklar umræður spunnust um sjávarútveginn og fiskveiðistjórnina enda mikilvægasta atvinnugrein okkar Íslendinga. Ályktunin sem var samþykkt byggðist á vinnu sjávarútvegshópsins en einnig voru samþykktar nokkrar ágætar breytingatillögur m.a frá SUF. samtökum ungra framsóknarmanna um útfærslu strandveiða eða nýliðunarpottur eins og við kjósum að kalla strandveiðarnar. 

Það sem hefur verið einkennandi fyrir umræðu um sjávarútvegsmál á síðustu árum eru upphrópanir um sægreifa og kvótasölur og að taka þurfi kvótann af sumum og selja öðrum. Raunveruleg og skynsöm umræða um mikilvægustu atvinnugrein landsins má ekki vera föst í slíkum farvegi. 

Það sem við Framsóknarmenn m.a samþykktum var að tryggja beri sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni m.a. með að setja ákvæði um slíkt í stjórnarskrá. En einnig með því að sá aðili – ríkið sem fer með eignarhaldið- geri tímabundna nýtingarsamninga við útgerðir um heimildir til fiskveiða. Inn í þá nýtingarsamninga verði m.a sett ákvæði um veiðiskyldu og takmarkanir framsals. Einnig að forsendur fyrir slíkum samningum verði ákvæði um búsetu hérlendis síðustu 5 ár og jafnvel krafa um íslenskan ríkisborgararétt. Þar með væri búið að tryggja í raun eignarhald og fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar yfir auðlindinni. Lagt er til að nýtingarsamningarnir verði til ca. 20 ára. Það er sami tími og er á Nýfundnalandi.  

Varðandi stjórnun fiskveiðanna er lagt til að fara svokallaða blandaða leið, annars vegar á grunniaflahlutdeildar á skip og hinsvegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningar til nýsköpunar og til þess að auðvelda aðgengi nýrra aðila að útgerð. Þannig er komið til móts við suma þá ágalla sem eru á núverandi kerfi þ.e. erfiðleika við nýliðun takmarkaðan hvata að nýsköpun og áhugaverð hugmynd um að úthluta byggðakvóta til fiskvinnsla í stað útgerða.

 Áfram er lagt til að greinin greiði auðlindagjald eða veiðigjald. Lagt er til að hluti þess fari til markaðs-, rannsókna, og nýsköpunar innan greinarinnar. Hluti fari til þess landsvæðis sem auðlindarentan verður til á ( samanber lög um þjóðlendur) og verði þar nýtt til atvinnusköpunar t.a.m gegnum staðbundin atvinnuþróunarfélög. Loks renni hluti í ríkissjóð. Á næstu árum og áratugum er þess vænst að umtalsverðar tekjur komi sem auðlindarenta vegna nýtingar sjávarauðlindarinnar og því mikilvægt að útfærsla hennar sé skýr og skili sér þangað sem ætlast er til. 

Það er því áfram byggt á þeirri frábæru staðreynd að íslenskur sjávarútvegur skilar gríðarlegum verðmætum í þjóðarbúið ólíkt sjávarútvegi flestra Evrópulanda (og fleiri landa heims). Sjávarútvegur er ekki bara veiðar – heldur er hann hátæknivæddur matvælaiðnaður sem byggir á öflugri og þróaðri markaðssetningu . Staðreyndin er að hringinn í kringum allt Ísland eru öflug fyrirtæki sem tryggja fjölda manns vinnu bæði beint og óbeint. Sum þeirra standa afar vel önnur ver. Um það bil 25% fyrirtækja í sjávarútvegi skuld meira en þau geta greitt – Hvernig er það í öðrum rekstri t.d verslun og þjónustu?. Það eru fyrst og fremst einyrkjar og smærri fyrirtæki sem standa á bak við þessi 25%. Flest öll stóru sjávarútvegsfyrirtæki landsins standa vel og greiða nú milli 20-30 milljarða til bankanna. Hver fjármagnaði bankanna ef þau gætu ekki greitt af skuldum sínum??

 Áfram byggjum við fiskveiðistjórnunarkerfið á vísindalegum grunni til að tryggja sjálfbærni hverrar tegundar. Við leggjum hinsvegar til að efla þurfi rannsóknir og þekkingu á auðlindinni og setja átak í nýsköpun bæði nýtingu nýrra tegunda, annarskonar nýtingu auðlindarinnar eins og ferðaþjónustu, fiskeldi og rækt t.a.m kræklingarækt. 

Mikilvægast er að ná sem víðtækastri sátt meðal þjóðarinnar. Það er hægt á grundvelli stefnu Framsóknarflokksins. Annars vegar stöðugleiki og hins vegar framsækin þróun fiskveiðistjórnunar og nýsköpunar. – Hættum karpi um fortíðina – horfum bjartsýn til framtíðar – þar er öflugur sjávarútvegur einn af grunn þáttunum í endurreisn Íslands.


mbl.is Enginn veit hvaða tekjur verða til að greiða niður lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegaframkvæmdir og veggjöld

Birti hér á blogginu grein mína um vegamál sem birtist í síðustu viku í Sunnlenska fréttablaðinu. 

Undirritaður setti fram fyrirspurnir í lok janúar til ráðherra vegamála og fjármála um tekjur af ökutækjum og akstri á einstökum leiðum m.a. af Suðurlandsvegi. Venjan er að svara slíkum beiðnum á tveimur vikum en enn er beðið svara. Hinsvegar má áætla tekjur ríkisins, af umferð um Suðurlandsveg  miðað við núverandi umferðarþunga og áætlaða eldsneytisnotkun, séu í það minnsta 1500 milljónir á ári.

Innanríkisráðherra hefur átt nokkra fundi með þingmönnum Suðurkjördæmis og forsvarsmönnum samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á liðnum mánuðum um vegabætur á suðurlandsvegi. Í máli Vegagerðarinnar og ráðherrans hefur komið fram að breikkun vegarins og ný brú á Ölfusá kosti á bilinu 16.5 til 20 milljarða eftir því hvaða útfærslur verða farnar.  Hugmyndir um veggjöld er ekki ný  - fyrrverandi samgönguráðherra Kristján Möller var með slíkar tillögur samhliða því að lífeyrissjóðirnir færu með framkvæmdina sem einkaframkvæmd. Þá tókum við sunnlendingar slaginn um forgangs röðun verkefna en eins og kunnugt er hafði fyrrverandi samgönguráðherra mestan áhuga á jarðgöngum í sínu kjördæmi.

Arðsemi og forgangsröðun

Það er rétt að rifja það upp hér að í svari samgönguráðherra sem fékkst við fyrirspurn minni um Suðurlandsveg og jarðgöng sumarið 2009 kom í ljós að arðsemi framkvæmda á Suðurlandsvegi var milli 16-28% eftir útfærslum.

 Í skýrslunni breikkun Suðurlandsvegar milli Reykjavíkur og Selfoss, arðsemismat, Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf., ágúst 2007, er reiknuð arðsemi breikkunar vegarins fyrir þrenns konar tilvik:
    A.      Vegur með 2 + 2 akreinar og breiða miðeyju. Gatnamót mislæg – 16% arðsemi.
    B.      Vegur með 2 + 2 akreinar, mjóa miðeyju og vegrið. Gatnamót mislæg – 21% arðsemi.
    C.      Vegur með 2 + 1 akrein, mjó miðeyja og vegrið. Plangatnamót – 28% arðsemi.
Í sama svari kom í ljós að arðsemi var áætluð 6.7% í Héðinsfjarðargöngum og 7.9% á Vaðlaheiðargöngum. Einnig kom fram í svarinu að tíðni alvarlegra slysa og banaslysa var langmest á Suðurlandsvegi.

Það var og ætti því enn að vera öllum ljóst að í forgangsröðun verkefna hlýtur breikkun Suðurlandsvegar með aðskilnaði akreina að koma fremst. Í skoðanakönnun sem gerð var meðal landsmanna allra taldi 55% aðspurðra að vegbætur á Suðurlandsvegi kæmu nr 1.

 

Nú er enn lagt til að lögð séu veggjöld á framkvæmdina og núverandi ráðherra vegagerðar Ögmundur Jónasson segir að um flýtiframkvæmdir sé að ræða. Þess vegna þurfi notendur  að greiða sérstakan skatt. Að mínu mati er fyrst og fremst um flýtigreiðslur að ræða því núverandi tekjur af umferðinni eru a.m.k. 1.500 milljónir á ári. Það þýðir að bensín- og olíugjöldin sem koma af notkuninni standa fyllilega undir framkvæmdinni. Ný veggjöld sem leggjast ofan á  núverandi skattgreiðslur gera það að verkum að notendur vegarins greiða framkvæmdina upp á 8-10 árum. Nýjasta útspil ráðherrans er að leggja 200 kr. á hverja ferð það þýðir 100þúsund króna árlegur aukaskattur á þá sem fara til vinnu eða skóla á hverjum degi Það er óásættanlegt að leggja sérstakan "flýti skatt" á sunnlendinga og gesti þeirra.

Frumkvæði SASS og samstaða

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hafa haft frumkvæði að umræðu og grundvelli ákvarðanatöku um vegbætur á suðurlandsvegi allt frá árinu 2003 þegar fyrstu hugmyndir um 2+1 veg komu fram. Enn er það SASS sem hefur frumkvæði að reyna að koma hreyfingu á verkefnið. Það virðist sem ráðherra hafi takmarkaðan áhuga. SASS hefur lagt fram hugmyndir sem m.a. felast í ódýrari útfærslum sem og að tekjur verði fengnar með t.d. að stofna sérstakan stórframkvæmdasjóð. Í hann greiddu allir sem nytu „enn betri“ vega t.d. allir vegir sem væru meir en 1+1 sem og tveggja akreina jarðgöng. Þannig mætti byggja upp tekjustofn á jafnræðisgrundvelli.

Hugsa mætti að allar stofnbrautir landsins með slíku vegsniði greiddu veggjald en einnig mætti eyrnamerkja ákveðna fjárhæð af bensín- og olíugjaldi í stórverkefnasjóð. Þannig mætti fjármagna breikkun Suðurlandsvegar, Reykjanesbrautar, Vesturlandsvegar, Vaðlaheiðarganga, Norðfjarðarganga, nýjan veg og brú yfir Hornafjarðarfljót og göng um Reynisfjall svo einhver verkefni séu nefnd.

SASS á lof skilið fyrir frumkvæðið. Samstaða sunnlendinga hefur skipt miklu og er grundvöllur þess að farið verði í framkvæmdina sem fyrst og á skynsamlegum jafnræðis grunni.

 

Skynsamleg byggðastefna

Það er áhugaverður punktur sem bæjarstjórinn á Akureyri hreyfir við varðandi eftirlit og þjónustu í sambandi við verksmiðju Becromel í Krossanesi.

Í langan tíma hefur það verið yfirlýst stefna stjórnvalda að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga - frá höfuðborgarsvæðinu og til landsbyggðar. - Í orði - !!

Í raun hefur tilhneigingin verið öll á hinn veginn. Ríkisstofnanir - eins og Umhverfisstofnun, Matvælastofnun ofl. hafa verið að sölsa undir sig verkefni - bæði stór og smá. Frá sveitarfélögunum/landsbyggðinni og til ríkisins/höfuðborgarsvæðisins.

Þetta hefur verið gert með rökum um að nauðsynlegt sé að hafa miðlæga fagþekkingu á einum stað, umfangið sé svo mikið að ríkið verði að koma að því og oftar en ekki að einhver EES- tilskipun eða ESB segi að svo verði að vera.

En er það svo? Er ekki líklegra að nærumhverfið og þar með eftirlitið sé betur með puttann á púlsinum - geti fyrr tekið í taumana - séð betur um venjubundið eftirlit / þjónustu en hin miðlæga stofnun.?

Er kannski skynsamlegast að allt eftirlit sé hjá sveitarfélögunum en ríkisstofnanirnar séu eingöngu stjórnsýslu stofnanir? - Eða er skynsamlegast að allt eftirlit og stjórnsýsla sé hjá ríkisvaldinu ? við erum jú bara 320 þús. hræður! - En í hlutfallslega stóru og dreifbýlu landi.

Skynsamlegasta byggðastefnan er að þjónustan sé sem víðast (innan skynsamlegra hagrænna marka) hvort sem um yrði að ræða þjónustueiningar ríkisins sem væri dreift um landið - eða þjónustueiningar á vegum sveitarfélaga.

Núverandi ástand er allavegana hvorki það rétta - né skynsamlegasta. Svo væri náttúrulega hægt að flytja höfuðstöðvar stofnanna ríkisins út um land allt.

Niðurstaðan er - að mínu mati að skynsamlegra sé að hafa þjónustueiningar um allt land -frekar en að senda eftir sérfræðingum - að sunnan. Það virkar einfaldlega betur og er þar með skynsamlegra.

Mottó: Hafa skal það sem skynsamara er.

 


mbl.is Vill eftirlitið heim í hérað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnustefnu vantar

Enn á ný standa öll spjót á ríkisstjórninni. Nú eru það kjaraviðræður á almenna markaðnum. Talað er um að fara svokallaða atvinnuleið.

Hvaða leið skyldi það nú vera.? Jú mikið rétt það er sú leið sem við Framsóknarmenn höfum talað fyrir allt frá hruni og margbent á fordæmi þar að lútandi. Ísland um 1930 - ríkisstjórn Framsóknar. Finnland á tíunda áratug síðustu aldar- eftir að hafa haft aðgerðalausa ríkisstjórn í 4-5 ár með tilheyrandi niðurskurði á velferðarkerfinu og atvinnuleysi - settu þeir í atvinnugírinn og fóru að byggja upp.

Við þurfum sem sagt að snúa frá umræðustjórnmálum Samfylkingar og stopp stopp stefnu VG. Við þurfum raunverulega, skynsama og skýra atvinnustefnu. Í stað ótal nefnda, starfshópa og ráða þurfum við athafnastjórnmál. - Og  fólk sem þorir að taka ákvarðanir.

Aðgerðalistinn gæti litið svona út vegna bráðavanda - kjaraviðræðna;

- 1. Lækka tryggingargjald og endurskoða skattpíningarstefnuna. 1%stigs  lækkun tryggingargjalds skilar 7.5 milljörðum - sem fyrirtækin gætu þá frekar greitt launafólki sínu í stað þess að ofgreiða í ríkissjóð í atvinnuleysistryggingasjóð.

-2. Hefja mannaflsfrekar framkvæmdir á vegum hins opinbera, vegagerð, virkjanir. - Ef við að sögn SJS og JS höfum efni á að greiða 26 milljarða í Icesave vexti á árinu og hátt á annan tug milljarða í atvinnuleysisbætur - þá hlýtur að vera skynsamlegra að koma einstaka framkvæm af stað og minnka atvinnuleysið.

-3. Hætta ógnarstjórn, hótunum og óvissu í garð grunnatvinnuveganna. Hér á ég fyrst og fremst við sjávarútveginn, en einnig orkuvinnslu og erlenda fjárfestingu. Ekki gengur að tala í kross og hóta eignaupptöku, ríkisvæðinu og stöðugum skattahækkunum ef á að hvetja til fjárfestingar í atvinnurekstri.

-4. Endurskoða niðurskurð á öryggisstörfum í heilbrigðisþjónustu og löggæslu m.a.. - Það eru takmörk fyrir öllu sbr Finnland. Skynsemin segir okkur að of langt sé gengið.

Auðvitað mætti nefna fleiri hluti og það er verkefni til lengri tíma áætlunar- aðgerða. En mikilvægast er að byrja og senda með því út þau skýru skilaboð að við ætlum að vinna okkur út úr kreppunni og við getum það.

Til þess þarf stefnubreytingu - trúlega nýja ríkisstjórn - Og það sem fyrst.


mbl.is Vill ljúka viðræðum á næstu vikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsluáróðurinn virkar ekki

Um daginn velti ég því fyrir mér að umhugsunarvert væri hverjir væru að selja Icesave-samninginn fyrir stjórnvöld.  Bankarnir - sem eru að stærstu leiti í eigu erlendra kröfuhafa (sem enginn fær að vita hverjir eru?!?!) og samninganefndin sjálf. Því til viðbótar nokkrir - "usual suspects" úr liði háskólakennara sem vildu Icesave I og II og nú III. 

T.d. bauð Arion-banki upp á mjög villandi kynningu frá annars vegar manni úr samninganefndinni og hins vegar manni sem kynntur var sem fjármálasérfræðingur en hefur verið lengi í vinnu fyrir fjármálaráðuneytið og vann að gerð Icesave-samninganna.

Afkoma bankanna og himin há laun bankastjóra setja síðan "kynninguna" í sérstakt ljós.

 

Bankarnir hugsa um að hámarka ávinning sinn í skjóli ríkisábyrgðar og háskólamennirnir ætla örugglega ekki að fallast á að skorið verði niður í deildum þeirra til að standa straum af kostnaðinum. Í báðum tilvikum eiga einhverjir aðrir, almenningur, að bera kostnaðinn.

 

En almenningur á Íslandi lætur ekki hræða sig frá að velta hlutunum fyrir sér og draga sínar eigin ályktanir.

 

Það er hinsvegar dæmi um enn eitt klúðrið hjá ríkisstjórninni að fyrst nú 3 vikum fyrir kjördag og um það leiti sem utankjörstaðakosning er hafinn - að þá - JÁ ÞÁ FYRST - ætlar ríkisstjórnin að sjá sóma sinn að kynna málið fyrir þeim sem eiga að taka ákvörðun um hvort almenningur á Íslandi eigi að greiða skuldir einkabanka.

 

Í langan tíma hefur verið ljóst að þjóðinni er treystandi -forsetanum er treystandi - en ríkisstjórninni er ekki treystandi fyrir verkinu. Ekki þessu frekar en flestu öðru.


mbl.is Mjótt á mununum um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En fjölmiðlum?

Áhugavert væri að sjá tölur yfir traust á fjölmiðlum - ekki síst í ljósi síðustu útspila þeirra á blaðamannafundi Forseta Íslands og í viðtölum á eftir við stjórnmálamenn og svokallaða álitsgjafa.

Þetta er mikilvægt því á næstu vikum munu fjölmiðlar þurfa að fjalla um Icesave III á málefnalegan hátt - þar sem þeir verða að forðast hræðsluáróður. Ef þeir vilja fylgja einni stefnu frekar en annarri eiga þeir að lýsa því yfir en ekki fela stefnumörkun sýna inn í fréttum eða í umfjöllun. M.a með því að velja sér viðmælendur sem eru á sömu skoðun og fjölmiðillinn.

En nú vandast vandi RÚV - þar sem það á að fjalla með hlutlausum hætti um málin.!!! Hefur þeim tekist það upp á síðkastið? Icesave I?? Icesave II ??!! Synjun Forseta á Icesave II??!! ICesave III? Umfjöllun eða réttara sagt umfjöllunarleysi um brot umhverfisráðherra á landslögum?? ESB umfjöllun Spegilsins ofl??? - og svo mætti lengi upptelja. Var botninum náð í gær á blaðamannafundinum og í umfjölluninni í kjölfarið?

 Annað sem áhugavert væri að skoða en það er traust á sveitarstjórnarstiginu - öðru en Borgarstjórn R-Vík sem hefur litlu meira traust en Alþingi. - Mig grunar að víða á Landsbyggðinni -allaveganna  -muni það skora nokkuð hátt.

En það er glæsilegt að sumar stofnanir samfélagsins eins og lögregla, Landhelgisgæsla og Háskóli Íslands skuli skora svona hátt í mati á trausti. Það er traustvekjandi.


mbl.is Treysta Landhelgisgæslu, lögreglu og HÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flaggað fyrir forseta vorum - hann treystir þjóðinni


Umræða á villigötum

 Ég er sammála Brynjari Níelssyni og reyndar mjög mörgum öðrum að aðalatriðið í Hæstaréttarmálinu sé að ráðherrar fari að lögum. Til að rugla umræðuna blanda menn umhverfisvernd, and-atvinnustefnu VG og jafnvel femínisma saman við til að réttlæta lögbrotið. - Um það snýst málið ekki.

Birti hér fyrir neðan grein sem birtist í Sunnlenska fréttablaðinu í vikunni - um þetta mál.

Umræða á villigötum

  

Enginn efast um skoðanir umhverfisráðherra á virkjunum og áhuga á að vernda umhverfið. Trúlega hefur vaskleg framganga hennar á þeim vettvangi valdið því að þingflokkur og formaður VG kusu hana sem ráðherra umhverfismála.

En í máli Flóahrepps gegn umhverfisráðherra var ekki verið að fjalla um þau störf eða skoðanir ráðherra. Dómur héraðsdóms og Hæstaréttar snerist um að ráðherra hefði ekki farið að lögum. Þar var ekki verið að fjalla um umhverfismál. Ráðherra braut á stjórnskipunarlegum rétti sveitarfélaga varðandi skipulagsmál. Sama málaflokk og ráðherrann ber ábyrgð á. Samt kom í ljós að lítill sveitahreppur og hans lýðræðislegu kosnu fulltrúar og embættismenn túlkuðu lögin rétt en ráðherrann rangt. Það hlýtur að hafa einhverjar afleiðingar þegar ráðherrar misbeita valdi sínu. Höfum við ekkert lært frá hruni? Lærðum við ekkert af Rannsóknarskýrslu Alþingis? Ætlum við ekki að fara eftir þingsályktun 63-0 um að formgera stjórnsýsluna, bæta verklag og auka ábyrgð?

Nýtt siðferði?

Það er svo með ólíkindum með hvaða hætti þingmenn stjórnarliðsins og ráðherrar brigsla lýðræðislega kosnum fulltrúum sveitarfélaga um mútuþægni og annarleg sjónarmið. Hæstiréttur hreinsaði þá af öllum slíkum ávirðingum. Ráðherrar og þingmenn skulda þessu fólki afsökunarbeiðni og ættu að líta í eiginbarm áður en þeir tala niður til fólks sem sýnt hefur af sér meiri og betri þekkingu á lögum og stjórnsýslu.

Nýtt Ísland?

Það er líka einnar umræðu virði að fjalla um fréttaumfjöllun ríkisfjölmiðilsins RÚV. Formaður og varaformaður VG fara með eignarhald ríkisins og eftirlit á miðlinum. Það var eftirtektarvert að á fyrsta sólarhring eftir dóm Hæstaréttar tókst RÚV að forðast fréttina eins og köttur heitan graut. Það virtist ekki vera mikið mál á þeim bæ að ráðherra hefði verið dæmdur í Hæstarétti fyrir að fara ekki að lögum.

Aðalatriðið  í þessu máli er hinsvegar að umhverfisráðherra braut lög. Eftir ráðherranum hefur verið haft – bæði í fjölmiðlum og á þingi – að hún sé í pólitík og allar ákvarðanir hennar séu pólitískar. Engin afsögn. Engin iðrun. Engin afsökunarbeiðni.

Og hvað mun nú gerast? Mun ráðherrann staðfesta skipulag Flóahrepps? Mun ráðherrann staðfesta skipulag vegna Hvamms- og Holtavirkjana í Skeiða- og Gnúpverjahreppi – en það skipulag hefur beðið staðfestingar ráðherra á 3. ár.

Atvinnuleysið og landflóttinn mun ekki minnka og réttlætiskennd landsmanna vaxa fyrr en ráðherrar fara að lögum og við förum að fylgja uppbyggjandi atvinnustefnu.


mbl.is Umhverfisráðherra á að fara að lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hoggið í sama knérunn

Þrátt fyrir margar umræður í þinginu um öfgapólitík umhverfisráðherra - þrátt fyrir niðurstöðu Héraðsdóms, þar sem umhverfisráðherra var dæmd fyrir lögbrot - og þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi staðfest dóm í undirrétti - já þrátt fyrir allt lemur umhverfisráðherra höfði við stein.

Staðreyndin er sú að engin er lagastoðin fyrir gjörningum umhverfisráðherra. Staðreynd er líka sú að umhverfisráðherra reyndi að láta breyta skipulagslögunum þannig að það væri bannað að láta framkvæmdaraðila greiða fyrir sannanlegan skipulagskostnað sveitarfélags. Alþingi hafnaði hugmyndum umhverfisráðherra vegna þess að það er ekki skynsamlegt að sveitarfélög séu skyldug að greiða kostnað 3.aðila. Lögin voru samþykkt í september 2010.

 Samt ætlar ráðherra að reyna að láta umræðuna snúast um það að lögin séu ekki skýr. Þau eru skýr ráðherranum og öfga skoðunum hennar var hafnað. Það sama gerðist í dag í Hæstarétti - öfgaskoðunum ráðherrans var hafnað og á hana sönnuð lögbrot.

Það eina rétt sem ráðherrann gerði í stöðunni -væri að segja af sér. 


Við hljótum að krefjast afsagnar ráðherrans

Þrátt fyrir að umhverfisráðherra fengi hverja ráðlegginguna á fætur annarri þá hlustaði ráðherra ekki á eitt né neitt. Margir urðu til að benda ráðherranum á að hún hefði ekki lagastoð í að hafna aðalskipulagi Flóahrepps.

 Og þegar niðurstaða Héraðsdóms lá fyrir var það mér og fleirum óskiljanlegt af hverju ráðherrann hlustaði ekki á þau góðu ráð. Þess í stað setti ráðherrann undir sig hausinn og má segja ítrekaði lögbrot sitt með því að áfrýja til Hæstaréttar.

 Nú hefur æðsti dómstóll landsins talað - ráðherrann braut landslög. Afleiðing af slíkum embættisafglöpum (sem margir reyndu að benda ráðherranum á í tíma ) - afleiðingin hlýtur að verða afsögn ráðherrans. Annað væri staðfesting á því að við höfum ekkert lært af Rannsóknarskýrslu Alþingis. Því vil ég ekki trúa.


mbl.is Sömu lög fyrir Flóahrepp og aðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það vantar alla skynsemi

Í gær var á Alþingi umræða um stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum HS-Orku. Birti hér uppkastið af ræðu minni þar. Inntakið er að ríkið hafi enga stefnu en valsi um milli ofstækis þjóðnýtingarhugmynda ala Hugo Chaves og frjálshyggju hægri-krata. Það vantar alla skynsemi. 

Virðulegi ForsetiTil að byggja upp atvinnulíf er eitt það mikilvægasta að ríkisvaldið hafi skýra stefnu.Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum HS-orku og Magma Energy?Hver er stefnan varðandi orkuauðlindirnar? sjávarauðlindina? vatnsauðlindina? Eina stundina tala Samfylkingar-ráðherrar og -þingmenn eins og hæstvirtur iðnaðarráðherra og/eða háttvirtur varaformaður viðskiptanefndar um að núverandi eignarhald Magma á HS-orku - sé stefna Ríkisstjórnarinnar. - Í annan tíma heyrist frá öðrum þingmönnum Samfylkingar það sama og flestir ráðherrar og þingmenn VG virðast vilja þ.e. eignarnám og opinbera eign á nýtingarfyrirtækinu. Sem sagt – Annarsvegar þjóðnýting í anda Hugo Chaves og Venesúla og hinsvegar hægrikratismi sem þekkist víða um hinn vestræna heim. Svo eru nokkrir einhverstaðar mitt á milli.  Eigum við að taka upp bæjarútgerðir aftur? Eignarnám á hita- og vatnsveitur í landinu? Ja- hver er nú stefna Ríkisstjórnarinnar? – veit það einhver! Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hæstvirtir höfuð - ríkisstjórnarinnar virðast ekki vita það. Þau hafa bæði talað og staðið fyrir öllum útgáfum að stefnuleysinu. Þegar Orkuveita Reykjavíkur var að selja sinn hluta í HS-orku til Magma síðla sumars 2009  bað hæstvirtur fjármálaráðherra um extra 2 vikur til að fara yfir málið og hugsanlega ganga inn í söluna. Hvað gerðist? – ekki neitt!!- þá sá hann og ríkisstjórnin enga ástæðu til aðgerða – lágu þó allar upplýsingar á borðinu um alltof langan samningstíma – erlent eignarhald osfr..  Hver er stefna ríkisstjórnar sem kennir sig við norrænt velferðarríki?Virðulegur forseti á Norðurlöndunum þekkist bæði að auðlindir séu í almannaeigu eða einka – þannig eru 2/3 vatnsauðlinda í Danmörku í einka-eigu – þar setja menn hinsvegar almenn lög um nýtingu, auðlindarentu, arð ofl.   – það þykir skynsamlegt þar.Á öllum Norðurlöndum eru stóru orkufyrirtækin í blandaðri eign opinberra og einkaaðila - fyrirtæki eins og Norsk Hydro , Dansk NaturGas (DONG) ofl ofl. Þar þykir það skynsamlegt að láta einkaaðila um áhættusama nýtingarhlutann en setja almennar reglur um hámarksgjaldskrá, hæfilegan samningstíma (20-30ár),  arð og rentu almennings.Hérlendis vantar alla skynsemi enda er hér  ýmist uppi á borði öfga-vinstristefna VG eða hentistefna Samfylkingar. Það er ekki leiðin framá við – það er ekki leið skynseminnar.

Auðlindir - orka

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um auðlindir landsins ekki síst orku auðlindina. Hinsvegar hefur umræðan ekki öll verið upplýsandi né hófstillt. Fullyrða má að mjög mikils misskilnings eða ætti maður heldur að segja mismunandi skilnings gæti í yfirlýsingum fólks. Til að mynda má spyrja sig eftir árangursríka herferð í að safna undirskriftum á orkuauðlindir.is hvort allir þar hafi sama skilning á um hvað eigi að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á að kjósa um að allar orkuauðlindir - og jafnvel allar auðlindir- eigi að vera í almannaeigu og rekstur, nýting í höndum almennings. Eru allir sem skrifuðu undir sammála um að gera alla nýtingu auðlinda að opinberum rekstri?

Hér í fréttinni um Orkustöð Húsavíkur kemur fram að Orkuveitan á Húsavík hafi verið í áhættu- og nýsköpunarrekstri til að hámarka arðsemi almennings á orkuauðlindinni með því að framleiða rafmagn með svokallaðri Kalinatækni. Er ekki skynsamlegt að áhættan sé tekin af einkaaðila eða telja einhverjir að fjárfestar hvorki innlendir né erlendir megi koma nálægt orku Íslands?

Í því sambandi er rétt að benda á að á margnefndum Norðurlöndum eru flest stóru orkufyrirtækin bæði í opinberri eigu sem og með einkafjármagn. t.a.m. Norsk Hydro, Statoil, DONG (Dansk-natur-gas) osfr osfr.

Mín skoðun er að koma eigi auðlindaákvæði í stjórnarskrána sem tryggi eignarhald almennings. Ég tel að leiga á nýtingarrétt komi vel til greina en þá að hámarki til 25-30 ára og að setja verði ákvæði um hámarks gjaldskrá og auðlindagjald eins og er t.d. um kaldavatnsveitur í Danmörku til  að tryggja rétt almennings og tekjur af auðlindinni.

Vörumst öfga stefnur hægri og vinstri. Tökum upp skynsama miðjustefnu, lærum af nágrönnum okkar á Norðurlöndum og ræðum af yfirvegun um nýtingu auðlinda þjóðarinnar.

 Orka, vatn og matur það eru okkar náttúru-auðlindir - þær verðum við að nýta - það skapar atvinnu og hagsæld fyrir alla Íslendinga.

 

 


mbl.is Tekur aftur við Orkustöðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Man einhver . . .

Er ekki rétt að rifja upp kór fjármálaráðherra Steingríms J og fylgisveina hans í VG og Samfylkingarinnar allrar þess efnis að allt væri stopp á Íslandi vegna Icesave - þess vegna ætti að samþykkja sakamanna-samning Svavars og Indriða.

Fyrirtæki áttu ekki að geta endurfjármagnað sig erlendis. Marel, Iclandic Group, Landsvirkjun osfr gátu það öll og í tilviki Marels allaveganna fleiri um boðið og kjör mjög ásættanleg.

Skuldtryggingarálag Íslands átti að fara í hæstu hæðir - staðreyndin er að það hefur lækkað æ síðan þjóðin hafnaði skuldaklafa samningi VG og Samfylkingar.

Sigmundur Davíð formaður Framsóknar  fór algjörlega með rétt mál og stóð fremstur á þingi í að berjast fyrir réttum málstað. Málstað þjóðarinnar og þar með fyrirtækjanna líka.


mbl.is Icesave hefur ekki áhrif á erlenda fjármögnun fyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak

Það var fjölmennt á opnunarhátíð heimamanna þegar umferð var hleypt á nýju Hvítárbrúna. Frábært framtak sex kvenna sem ættaðar eru úr Tungunum en búa í Hrunamannahreppi í samstarfi við JÁ-verktaka. Ekkert mál að steikja kleinur í hundraði, kaffi, gos og annað meðlæti. Hugmyndin kviknaði um helgina - framkvæmdin var komin á fullt á mánudegi.

Svona jákvæðni, kraft og samheldni vantar víða í íslenskt samfélag. En í samfélagi uppsveita Árnessýslu er nægt framboð slíkra krafta og er veltekið af samborgurum. Enda mættu hundruðir Hreppamanna, Tungnamanna og nágranna úr samliggjandi sveitum.

Svona á að halda veislu. Þetta var virkilega skemmtilegt.Nýja Hvítárbrúin 003


mbl.is Fagna opnun Hvítárbrúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband